Beint í efni

Ör_

Ör_
Höfundur
Auður Ava Ólafsdóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur

Um Ör

Jónas Ebeneser er 49 ára fráskilinn, valdalaus og gagnkynhneigður karlmaður sem hefur ekki haldið utan um bert kvenmannshold – alla vega ekki viljandi – í átta ár og fimm mánuði. En hann er handlaginn. Hann hefur flísalagt sjö baðherbergi og þegar hann leggur af stað í ferðalag sem hann hefur ekki hugsað sér að snúa aftur úr, tekur hann með sér borvél.

Úr Ör

Ég nefni það ríki, þar sem hið seinvirka sjálfsmorð
allra manna gengur undir nafninu „líf“

Stysta leiðin á elliheimilið er í gegnum kirkjugarðinn.

Ég hef alltaf séð fyrir mér að fimmti mánuðurinn yrði síðasti mánuðurinn í lífi mínu og að það yrðu jafnvel fleiri en ein fimma í síðustu dagsetningunni, ef ekki fimmti fimmti, þá fimmtándi fimmti eða tuttugasti og fimmti fimmti. Það yrði afmælismánuðinn minn. Endurnar hafa lokið pörun en það verða ekki bara endur á Tjörninni heldur líka tjaldur og sendlingur, því það verður fuglasöngur og nóttlaus, voraldar veröld þegar ég hætti að vera til.

Mun heimurinn sjá eftir mér? Nei. Mun heimurinn verða fátækari án mín? Nei. Mun heimurinn komast af án mín? Já. Er heimurinn betri nú en þegar ég kom í hann? Nei. Hvað hef ég gert til að bæta hann? Ekkert.

Á leiðinni niður Skothúsveginn velti ég fyrir mér hvernig maður beri sig að við að fá lánaðan veiðiriffil hjá nágranna sínum. Fær maður lánuð skotvopn eins og maður fær lánaða framlengingarsnúru? Hvaða dýr veiðir maður í byrjun maí? Ekki skýtur maður vorboðann ljúfa, fuglinn trúa sem fer, nýkominn til eyjunnar eða önd sem liggur á eggi. Get ég sagst ætla að skjóta varg sem haldi fyrir mér vöku í íbúð undir súð í fjölbýlishúsi í miðbænum? Fyndist Svani ekki grunsamlegt að ég væri allt í einu orðinn málsvari andarunga? Þess utan veit Svanur að ég er enginn veiðimaður. Þótt ég hafi prófað að standa úti í ískaldri á í klofháum stígvélunum, einn uppi á heiði, og fundið kuldann eins og þéttan vegg um líkamann og smásteinana á gljúpum botninum undir vöðlunum og síðan hvernig áin gróf hratt undan mér, hvernig botninn dýpkaði og hvarf á meðan ég horfði í glampandi soghvilftina, þá hef ég aldrei skotið úr byssu. Í síðustu veiðiferð kom ég heim með tvo silunga sem ég flakaði og steikti með graslauk sem ég klippti úr potti á svölunum. Hann veit líka að ég þoli ekki ofbeldi eftir að hann reyndi að fá mig með sér á Die Hard 4. Hvað skýtur maður í maí annað en sjálfan sig? Eða annan homo sapiens? Svanur mun leggja saman tvo og tvo.

Svanur er þó ekki maður sem spyr spurninga. Eða veltir yfirleitt fyrir sér sálarlífi manna. Hann er ekki maður sem myndi minnast á að það væri fullt tungl eða tjá sig um norðurljós. Hann myndi ekki segja, ó, lítið á bræður mínirl Sjáið þið hann ekki, regnbogann ...? Hann myndi heldur ekki benda Áróru konunni sinni á litinn á himninum, á rósbleika dagsbrúnina, hann myndi ekki segja, þarna er hún nafna þín. Ekki frekar en Aróra myndi minnast á himininn við eiginmann sinn. Það er skýr verkaskipting á heimilinu og hún er ein um að draga unglinginn fram úr á morgnana. Á móti sér hann um að viðra fjórtán ára gamla border collie-tík sem er komin að fótum fram. Nei, Svanur myndi ekki blanda tilfinningum í málið heldur rétta mér riffilinn og segja, þetta er Remington XB 40, beddaður en upprunalegur lás og hlaup, enda þótt hann grunaði að ég ætlaði að skjóta mig.

(17-9)

Fleira eftir sama höfund

Afleggjarinn

Lesa meira

Rosa candida

Lesa meira

Svartur hundur prestsins

Lesa meira

Undantekningin – de arte poetica

Lesa meira

Weiß ich, wann es Liebe ist

Lesa meira
eden

Eden

Málvísindakona, sérfræðingur í fámennistungumálum, ákveður að breyta landi þar sem ekkert grær í Edenslund. 
Lesa meira

Dýralíf

Lesa meira

Stiklingen

Lesa meira

Výhonek osmilisté růže

Lesa meira