Úr Ótal kraftaverk:
38.
Iðnaðarsamfélagið er fullt af veggjum, fullt af leynihólfum, fullt af fangelsum og völundarhúsum. Svona eru sálirnar líka sem þar hrærast. Ótal veggir og allir eru einir. Það hafa aldrei verið fleiri saman í einum heimi og þó aldrei fleiri einir í eigin heimi. Að ég gæti gert þá andlegu kjarnorkusprengju að hún þurrkaði út þessa múra innaní fólki. Múra sem fólk kallar skoðanir, eða karakter, eða týpu. Allt köld nútímalistaverk og fólk gengur eitt um salina. Ég hélt þetta væri persónuleiki minn sem hefði rysið svona af sjálfsdáðum, fullkomlega náttúrlega, hin eina leið til að holdgera óendanleikann. En nú sé ég að allt er þetta aðeins virki, kastali með síkjum og krókódílum. Ég er kastali í tölvuspili, og ég er skrímslið í kastalanum. Ég er fangi í byggingu sem hvorki ég né tilveran kannast við að hafa byggt. Það er ekki til persónuleiki lengur, hreinn og flæðandi, heldur persónuþraut, allt þrautir. Fólk er ekki að leita að sjálfu sér heldur að leið útúr sjálfu sér, leið til að verða heilt. Nú er allt fólk í molum, í múrum, óheilt að leika, og þó, það heldur það sé hin eina rétta, hin eina eðlilega útgáfa af andlegri lífveru við þessar aðstæður. Kannski er það rétt meðan það trúir því, og vissulega trúir það því sjálft. Og þó, ein fruma af fleiri milljörðum, sú sem glampar á í auganu, hún veit betur. Bara hún renni ekki burt. Allt lifandi í borginni, alla íbúa borgarinnar gæti ég borið í lófa mínum. Ef ég gerði það, þá mætti borgin og öll hennar hylki fara til andskotans.
(s. 46)