Linda Ólafsdóttir myndlýsir.
Um bókina
Í Reykjavík barnanna er stiklað á stóru um sögu höfuðborgarinnar okkar, frá því áður en fyrstu íbúarnir tóku sér þar bólfestu og þar til hún varð sú fjölbreytta og líflega borg sem við þekkjum. Í máli og myndum er sagt frá mannlífi og menningu, blokkum og bröggum, gatnakerfi og götulýsingu, skautasvellum og skolpræsum, útsýni og útivist, og öllu mögulegu öðru sem finna má í Reykjavík.
Úr bókinni
Sveitalegt þorp
Á meðan Reykjavík var ennþá smábær héldu margir húsdýr. Fáir voru eiginlegir bændur en margir áttu hænur og endur, mjólkurkú og kannski nokkrar kindur eða svín. Svo átti fólk hunda og ketti sem gengu lausir um göturnar. Hestar voru ennþá aðalsamgöngutækið og því margir í bænum. Þeir sem gátu voru líka með sína eigin matjurtagarða og ræktuðu þar kartöflur, rabarbara, rófur, næpur og grænkál.
Eftir því sem fólki fjölgaði gekk sambúðin með dýrunum verr. Gagg í hænum og hanagal eldsnemma á morgnana var ekki vinsælt, hestar og kýr gerðu reglulega usla og svín gátu verið skaðræðisgripir. Svín sem átti heima hjá lyfsalanum í Kirkjustræti árið 1858 rústaði ekki bara kálgarði heldur réðst á vinnukonu og skemmdi sjalið hennar.
(bls. 56)