Æviágrip
Margrét Tryggvadóttir fæddist í Kópavogi 20. maí 1972. Hún er rithöfundur og myndritstjóri, auk þess að starfa við almenna textagerð og þýðingar sem sjálfstætt starfandi fræðimaður á sviði barnabókmennta og barnamenningar. Margrét lauk B.A. próf í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1997 og M.A. gráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst árið 2016. Hún sat á Alþingi 2009-2013 sem þingmaður Borgarahreyfingarinnar. Hún hefur setið í stjórn Rithöfundasambandsins síðan 2017 og hefur gegnt öðrum félagsstörfum á sviði menningar.
Fyrsta bók Margrétar var Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar, með myndum eftir Halldór Baldursson, sem kom út 2006. Bókin hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin.
Fyrsta bók Margrétar fyrir ungmenni var Sterk (2021), en fyrir hana hlaut hún ýmsar viðurkenningar, meðal annars Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur.
Margrét hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir aðrar bækur sínar, eins og Íslandsbók barnanna (2016) og Reykjavík barnanna (2021), og Kjarval – Málarinn sem fór sínar eigin leiðir (2020).
Verðlaun
Verðlaun
2021 - Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur: Sterk
2016 - Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, ásamt Lindu Ólafsdóttur: Íslandsbók barnanna
2007 - Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, ásamt Önnu Cynthiu Leplar: Skoðum myndlist
2006 - Íslensku barnabókaverðlaunin, ásamt Halldóri Baldurssyni: Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar
2004 - Félag starfsfólks bókaverslana – önnur besta þýdda barnabókin: Kóralína eftir Neil Gaiman
Tilnefningar
2024 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar: Stolt
2023 - Fjöruverðlaunin: Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina
2021 - Fjöruverðlaunin, ásamt Lindu Ólafsdóttur: Reykjavík barnanna
2017 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkur, ásamt Lindu Ólafsdóttur: Íslandsbók barnanna
2016 - Íslensku bókmenntaverðlaunin, ásamt Lindu Ólafsdóttur: Íslandsbók barnanna
Greinar
Um einstök verk
Kjarval, málarinn sem fór sínar eigin leiðir
Helga Birgisdóttir: "Verk sem lifir"
Börn og menning, 2019; 34 (2): bls. 28-30
Íslandsbók barnanna
Haukur Ingvarsson: "Ísland til umræðu"
Börn og menning, 2017; 32 (1): bls. 25-27
Um höfund
Snúið upp á klassíkina – Um verk Margrétar Tryggvadóttur
Margrét Tryggvadóttir hefur komið víða við í íslensku menningar- og stjórnmálalífi. Hún hefur setið á þingi, rekið gallerí og starfað við bókaútgáfu og myndritstjórn ýmissa bóka. Auk þess hefur Margrét sjálf sent frá sér fjölda bóka, bæði fræðirit, þýðingar og eigin skáldverk.
Í upphafi aldarinnar var Margrét afkastamikill þýðandi og þýddi meðal annars fyrstu sex bækurnar í Taynikma-bókaflokknum eftir Jan Kjær og Merling P. Mann, fantasíu myndasögur sem notið hafa vinsælda. Strax með vali á þessum fyrstu þýðingum er augljóst að myndlýstar bækur skipta Margréti máli og undirstrikar hún það með sínum fyrstu bókum árið 2006. Það ár sendi Margrét frá sér tvær bækur, önnur þeirra er Skoðum myndlist – heimsókn í Listasafn Reykjavíkur í samstarfi við safnið og Önnu C. Leplar sem myndlýsti bókina sem er fræðirit fyrir börn. Skoðum myndlist setur tóninn fyrir seinni bækur Margrétar þar sem börn geta fræðst um myndlist og sögu lands og þjóðar á aðgengilegan og skemmtilegan máta. Þessar bækur eru Íslandsbók barnanna (2016) og Reykjavík barnanna (2021), sem Margrét vinnur með Lindu Ólafsdóttur myndhöfundi, og svo Kjarval: málarinn sem fór sínar eigin leiðir (2019).
Í fræðibókum sínum fyrir börn eru það myndlýsingar ekki síður en textinn sem fræða börnin. Í Skoðum myndlist velur Margrét listaverk úr safnkosti Listasafns Reykjavíkur og sögupersónurnar ferðast í gegnum safnið og velta þeim fyrir sér. Sögupersónurnar lifna við í teikningum Önnu sem eru svarthvítar en listaverkin eru í lit og stinga því í stúf þannig að athygli barnanna dregst að þeim. Bækurnar sem Margrét vinnur með Lindu eru fullar af litríkum myndum sem spanna heila opnu hver. Myndirnar eru fullar af smáatriðum og lítil augu geta staldrað lengi við hverja opnu og uppgötvað nýja og nýja hluti í myndheiminum í hvert sinn sem þau opna bækurnar. Í bókinni um Kjarval eru það að sjálfsögðu myndir Kjarvals sjálfs sem prýða bókina, ásamt ljósmyndum úr lífi hans, og þar skína hæfileikar Margrétar sem myndritstjóri í gegn.
Árið 2014 sendi Margrét frá sér bókina Útistöður þar sem hún fjallar um tíma sinn í íslensku stjórnmálalífi á eftirhrunsárunum. Sú bók er sú eina í höfundarverki Margrétar sem er ekki ætluð börnum eða ungmennum. Í þessari yfirlitsgrein verður athyglinni beint að skáldverkum Margrétar sem komið hafa út á árunum 2006 – 2022.
Skopmyndaævintýri
Í fyrstu tveimur skáldverkum Margrétar, myndabókunum Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar (2006) og Drekinn sem varð báldreiður (2007) vinnur hún með skopmyndateiknaranum Halldóri Baldurssyni. Í báðum sögunum leikur Margrét sér með þekkt ævintýraminni, furðurverur og tungumálið. Samspil texta og mynda er einstaklega gott og í tilfelli undurfögru prinsessurnar spila myndir Halldórs svo viðamikið hlutverk að án þeirra væri um allt aðra sögu að ræða.
Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2006, er í grunnin saga sem flestir kannast við. Undurfögur prinsessa fæðist konungshjónum, hún er læst í turni sem er gætt af ógurlegum dreka þar til hugrakkur prins bjargar henni og þau eignast börn og buru. Köttur úti í mýri eða hvað?
Myndir Halldórs segja allt aðra sögu; prinsessan sem í textanum er svo undurfögur birtist lesendum sem algjört skass á myndunum. Storkurinn sem flytur hana til foreldra hennar er uppgefinn eftir það púl og hirðfíflið fær að finna fyrir því þegar prinsessan bítur af honum handlegginn. Á myndunum sjáum við að það er drottningin sjálf sem læsir prinsessuna í turninum til að geta fengið frið frá henni og notið sín á sólarströnd með kónginum. Drekinn ógurlegi sem gætir hennar situr í raun aðgerðalaus því allir vonbiðlarnir snúa við þegar þeir sjá hvernig prinsessan er í raun og veru. Þegar texti Margrétar lýsir honum á þessa vegu: „drekinn ógurlegi var ekkert lamb að leika sér við“ sýnir mynd Halldórs drekann sitja og spila á spil við lamb. Þarna er snúið upp á þekkt orðatiltæki á skemmtilegan hátt og niðurstaðan verður sprenghlægileg.
Þegar prinsinn hugrakki kemur til sögunnar sjá lesendur að hann er blindur og veit því ekki hversu mikið skass prinsessan er. Hann hefur líka bara heyrt hálfa söguna líkt og lesandi sem ekki myndi sjá myndirnar í bókinni. Á næstsíðustu opnunni er örlítið samræmi milli myndanna og textans þar sem prinsessan og prinsinn ýta barnavagni og á eftir þeim er strolla af litlum prinsum og prinsessum og Margrét lýsir börnunum á þessa vegu:
Litlu prinsarnir og prinsessurnar voru fögur, stillt og kurteis, siðfáguð, hæglát og hógvær, glæsileg og iðin, göfuglynd og blíð, siðprúð, hárprúð, prúðklædd, prúðhuga, prúðlát, prúðlunduð, prúðmannleg og að öllu leyti fyrirmynd annarra barna.
Í smá stund gætu lesendur trúað þessum yfirlýsingum en svo fletta þeir á næstu síðu þar sem börnin elta hirðfílfið og reyna að bíta af honum handlegginn sem búið var að sauma aftur á hann.
Niðurstaða þessa þversagnakennda samspils mynda og texta er skemmtilegt ævintýri sem blæs ferskum blæ á klassíkina. Án myndanna væri sagan dálítið þurr og í raun ekkert frábrugðið með henni og öðrum ævintýrum af sama meiði. Myndir Halldórs eru nauðsynlegar til þess að verkið sé fullmótað og írónían skíni í gegn.
Næsta samstarfsverkefni Margrétar og Halldórs er sjálfsætt framhald af Sögunni af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar. Í Drekanum sem varð bálreiður kynnumst við drekanum sem gætti prinsessunar í turninum betur. Í upphafi sögunnar sjá lesendur að prinsessan rekur drekann á dyr og kastar á eftir honum öllu lauslegu. Drekinn vill komast að því hvað hann vill verða þegar hann verður stór svo hann heldur af stað út í hinn stóra heim. Fljótlega rekst hann á monthana og fjórar hænur sem stríða honum og stinga upp á alls konar tegundum af drekum sem hann gæti verið. Þarna leikur Margrét sér stórskemmtilega með margræðni tungumálsins og myndir Halldórs blása lífi í spaugilegar útgáfur af bryndreka í brynju með lensu á baki hests, sporðdreka í líki hafmeyju, flugdreka sem starfar sem flugþjónn í flugvél sem er ekki hönnuð með dreka í huga, skriðdreka skríðandi á jörðinni og svifdreka í líki pappírsskutlu. Svona gengur þetta þangað til drekanum er nóg boðið og bálreiðist, í orðsins fyllstu merkingu, yfir stríðni hanans. Þá kemur í ljós að drekinn er í raun og veru eldspúandi dreki! Hann ákveður að gerast grilldreki, opnar veitingahús og monthaninn neyðist til að sinna starfi brunahana.
Í þessu síðara samstarfi þeirra Margrétar og Halldórs má segja að textinn sé frumlegri og beri verkið meira uppi en í fyrri bókinni þar sem myndirnar voru veigameiri. Sagan um Drekann sem varð bálreiður gæti í raun staðið án myndanna og virkað prýðisvel þó myndir Halldórs glæði hana vissulega lífi og hjálpi til við að kveikja ímyndunarneista í litlum kollum. Skopmyndastíll Halldórs er litríkur og skemmtilegur en að auki eiga myndirnar í báðum bókunum það sameiginlegt að vera uppfullar af smáatriðum sem sum hver eru sérstaklega miðuð að eldri lesendum sem lesa bækurnar upphátt fyrir þá sem yngri eru. Það er alltaf kostur þegar barnabækur höfða til bæði barnanna og þeirra eldri sem óhjákvæmilega þurfa að lesa þær fyrir þau. Bækur Margrétar og Halldórs tikka svo sannarlega í það box.
Óvenjuleg vinátta
Í nýjustu bókinni Leitinni að Lúru (2022) leiða Margrét og myndhöfundurinn Anna C. Leplar aftur saman hesta sína. Þær vísa skemmtilega til fyrra samstarfs síns Skoðum myndlist þar sem hundur var á meðal aðalsögupersónanna. Leitin að Lúru gerist á sveitabæ þar sem hundurinn Kaffon leitar logandi ljósum að vinkonu sinni henni Lúru. Lesendur vita ekki hvers konar dýr Lúra er. Kaffon fer um allt og spyr hin dýrin hvort þau hafi nokkuð séð hana Lúru og í hvert sinn lýsir hann Lúru á nýjan hátt og smátt og smátt bætast við vísbendingar um hver Lúra sé. Það er dásamlegt að fylgjast með ljósunum kvikna hjá börnunum á meðan sögunni vindur áfram og sjá hvaða lýsingar Kaffons kveikja á perunni hjá þeim.
Að lokum setur Kaffon allar vísbendingarnar saman og þá fer ekkert á milli mála hver Lúra er.
„Lúra er týnd,“ kallar Kaffon eins hátt og hann getur. „Vinkona mín með rófuna löngu, grænu augun, veiðihárin stinn, beittu klærnar, mjúku eyrun, bröndótta feldinn og tunguna hrjúfu. Hún Lúra sem bæði malar og mjálmar!“
„Já, þú ert að tala um köttinn! Afhverju sagðirðu það ekki strax?“ spyr Lotta.
Á endanum finnur finnur Kaffon Lúru og þau fara að leika sér. Sagan er skemmtileg og styður við örvun tungumálsins hjá litlum lesendum. Þau velta því fyrir sér hvernig lýsingar Kaffons á Lúru koma saman í eina heild og læra að skilja áferðir eins og stinnt, hrjúft, mjúkt og beitt. Heimilisköttur undirritaðrar hefur ekki fengið mikinn frið frá því að bókin var lesin því börnin vilja fá að vita hvernig veiðihár eru stinn og hvernig tunga getur verið hrjúf.
Myndir Önnu eru litríkar og skemmtilegar og leiða lesendur í gegnum sveitabæinn eftir því sem leit Kaffons miðar áfram. Dýrin eru lifandi og dýnamísk og ferðalag Kaffons verður spennandi og ljóslifandi fyrir augum lesenda. Mörg dýranna hafa ungviðið sitt með sér sem litlir lesendur geta speglað sig í. Þó sagan sé einföld er augljóst að börn tengja við hana og hún verður fljótt að sögu sem er lesin endurtekið. Leit Kaffons að þessum dularfulla leikfélaga er spennandi og það að Lúra reynist vera köttur leggur áherslu á að vinir þurfa ekki allir að vera eins. Það er gott að eiga leikfélaga sem eru frábrugðnir og jafnvel einhverjir sem samfélagið segir að eigi ekki að eiga samleið.
Að fara yfir línuna
Árið 2021 sendi Margrét frá sér ungmennabókina Sterk sem fjallar um hina sautján ára gömlu Birtu sem flytur ein síns liðs til Reykjavíkur eftir að hún kemur út sem trans og hún upplifir sig utanveltu í samfélaginu á Vestfjörðum. Í bókinni kveður við nýjan tón hjá Margréti. Bókin er ómyndlýst og í fullri lengd, ætluð eldri lesendum og viðfangsefnið er þyngra í vöfum en í fyrri bókum hennar. Þar að auki er bókin frábær viðbót við íslenska bókmenntaflóru, þar sem raddir transpersóna hafa ekki fengið að hljóma hátt. Fyrir bókina hlaut Margrét Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur.
Margréti tekst vel að tileinka sér form ungmennabókarinnar og persónurnar sem hún skapar eru trúverðugar og marglaga. Aðalpersónan, hin sautján ára Birta, leigir sér herbergi á svörtum markaði í Reykjavík vegna þess að henni finnst óþægilegt að þurfa að nota gamla nafnið sitt sem ennþá er skráð í Þjóðskrá í samskiptum við leigusala. Í íbúðinni býr hún ásamt erlendu fólki sem hún skiptir sér ekki af því hún er óörugg og vill vera ósýnileg. Hana grunar samt að ekki sé allt með feldu hjá nágrönnum sínum en vill ekki skipta sér að þeirra högum. Innra samtal Birtu við sjálfa sig lýsir því hvernig hún vill ekki draga athyglina að sér því henni finnst hún ekki eiga sama rétt og aðrir í samfélaginu. „Henni átti ekki að líða svona. Hún hafði ekki gert neitt af sér en samt fannst henni svo oft eins og hún þyrfti að læðast meðfram veggjum. Eins og hún ætti sér vart tilverurétt“ (208).
Birta er alin upp á afviknum sveitabæ í Ísafjarðardjúpi og gengur í skóla á Ísafirði áður en hún kemur út úr skápnum, eða réttara sagt henni er ýtt út úr skápnum. Hún treystir bestu vinum sínum fyrir sannleikanum og í kjölfarið hvisast sagan út og hún hefur ekki tækifæri til þess að koma út á sínum eigin forsendum. Foreldrar Birtu taka fréttunum ekki vel, neita að nota nafnið sem hún velur sér og á endanum ákveður Birta að finna sér nám sem ekki er hægt að stunda á Vestfjörðum svo hún geti flutt ein til Reykjavíkur og verið hún sjálf.
Eins og Margrét hefur sýnt í sínum fyrri verkum staðsetur hún sögurnar sínar oft í sígildum minnum ævintýra og goðsagna og í Íslandsbók barnanna skýrir hún m.a. þjóðarvitund Íslendinga fyrir börnum í stuttum kafla um íslenska tungu, handritin og Íslendingasögurnar. Þó Sterk sé nútímaskáldsaga sem tekur á efnivið sem ekki hefur verið mikið í sjónsviði bókmenntana nær Margrét að útskýra innri líðan Birtu listilega vel með því að lýsa upplifun hennar á því að lesa Þrymskviðu í íslenskutíma í skólanum.
Og afhverju þótti fyndið að karlar færu í föt kvenna? Þetta var greinilega ekki nýr brandari en afhverju var það fyndið? [...] Hún var stelpan sem þeir höfðu alltaf haldið að væri strákur. Svo fór hún yfir einhver landamæri sem ekki mátti fara yfir nema í gríni. Eins og þegar Þór fór yfir til Jötunheima í gervi Freyju. Hún fór yfir línuna. (55)
Með þessum hugsunum Birtu nær Margrét að undirstrika hvernig hugmyndir um trans fólk og hinsegin einstaklinga eru taldar fyndnar og fáránlegar í sögu þjóðarinnar og aldagömlum goðsögum okkar. Samtalið milli upplifunar Birtu, sem er skáldsagnapersóna nútímans og goðsagnarinnar í Þrymskviðu er mjög sterkt fyrir upplifun Birtu sem er á skjön við svo margt í samfélaginu en þráir engu að síður lífið sem hún þurfti að skilja eftir. Líf í vestfirskri sveit.
Birta er í raun alltaf í togstreitu milli gamla lífsins og þess nýja. Hún kunni vel við sig í sveitinni, er mikill dýravinur og saknar sveitarinnar. En hin sanna Birta fékk ekki frið fyrir vestan og hún neyðist til að flýja og þannig er líf hennar þegar lesandinn kemur inn í söguna. Birta er ennþá á flótta frá gamla lífinu sínu sem verður til þess að hún nær ekki að blómstra í því nýja. Hún bara er, læðist meðfram veggjum og tekst í raun ekki á við vandamálin. En eftir því sem atburðarásinni vindur áfram flysjast utan af varnarlaginu sem Birta hefur sveipað um sig.
Margrét nær að skapa áhugaverða dýnamík með því að staðsetja Birtu sem er utanveltu í samfélaginu, vegna þess að hún er trans, innan um erlent vinnuafl sem flutt er til Íslands af starfsmannaleigu og brotið er á á margvíslegan hátt. Aðstæðurnar sem Birta lendir í þegar hún fer að hafa áhyggjur af sambýlingum sínum og rannsaka hvernig brotið er á þeim leiða til þess að Birta lendir í atburðarás sem neyðir hana til að hætta að fela sig og takast á við ýmislegt sem hún hefur ýtt frá sér.
Hún getur samsamað sig með fólki sem hefur flúið heimaland sitt í leit að betra lífi. „Alveg eins og hún hafði gert sjálf. Hún hafði yfirgefið sína vestfirsku strönd sem var henni þó svo kær og allt lífið fram að því til þess að geta verið hún sjálf á eigin forsendum“ (203). En Birta áttar sig á því að þó hún sé utanveltu getur hún samt lagt sitt að mörkum til að aðstoða sambýlinga sína sem lentu í alveg jafn ömurlegum aðstæðum þegar til Íslands var komið. Starfsmannaleigan sem Magnús leigusali Birtu rekur, lætur starfsfólkið sitt þræla myrkranna á milli og tekur af þeim vegabréfin og launin svo þau eiga enga undankomuleið.
Eftir því sem Birta kemst að meiru um starfshætti Magnúsar lendir hún í vandræðum og endasprettur sögunnar verður æsispennandi. Magnús er illskan uppmáluð og lætur ófögur orð falla um Birtu þegar hann vill að samverkamaður hans láti hana hverfa: „Láttu bara líta út fyrir að hún hafi stútað sér sjálf. Svona krakkar eru hvort sem er alltaf að gera það. Því fleiri minnihlutahópar sem þetta lið tilheyrir, því betra. Þessi fær bara smá aðstoð“ (255). Magnús brýtur á öllum minnihlutahópum sem á vegi hans verða en Birta nær að vera sterk og í lok sögunnar hefur hún ekki bara upprætt glæpastarfsemi Magnúsar heldur einnig náð sátt við foreldra sína og æskuvini og við sjálfa sig.
Að lokum
Skáldverk Margrétar Tryggvadóttur sem hér hafa verið tekin til umfjöllunar eiga það öll sameiginlegt að vekja lesendur til umhugsunar á fjölbreyttan máta. Myndlýstu barnabækur hennar og Halldórs Baldurssonar sýna hvernig er hægt að dýpka klassísk frásagnarminni með því að staðsetja þau í þversagnakenndum myndheimi. Í Leitinni að Lúru brýst heili lítilla lesenda um þegar þeir velta því fyrir sér hvernig dýri er verið að lýsa þegar aðeins brotabrot af lýsingunni fæst á hverri síðu. Í ungmennabókinni Sterk gefur Margrét persónum sem tilheyra minnihlutahópum, sem hafa átt á brattann að sækja í samfélaginu, rödd og sýnir hvernig þær geta risið upp og verið sterkar. Margrét hefur löngu sýnt að hún nær vel til lesenda myndabóka með stuttum, hnyttnum og spennandi texta en með ungmennabókinni Sterk sýnir hún einnig að hún á vel erindi sem höfundur lengri skáldverka og nær að lýsa heimi unglingsstúlkunnar Birtu á sannfærandi hátt en líka af virðingu og skilningi fyrir aðstæðum hennar sem hafa ekki oft verið forgrunni í íslenskum skáldsögum fram að þessu.
Kristín Lilja, nóvember 2022
Einar, Anna og safnið sem var bannað börnum
Lesa meiraEinar Jónsson fæddist árið 1874 og ákvað ungur að verða listamaður án þess að hafa nokkurn tíma séð listaverk eða komið á listasafn. Seinna kynntist hann konunni sinni, Önnu, og saman stofnuðu þau fyrsta listasafnið á Íslandi, Listasafn Einars Jónssonar.. .Stolt
Lesa meiraBlær ræður sig í sumarvinnu á lítið hótel úti á landi. Hún heillast fljótt af Felix, sem er einnig að vinna á staðnum, en finnur aldrei rétta tækifærið til að segja að hún sé trans. Fljótlega renna á hana tvær grímur og hún veit ekki hverjum hún getur treyst. Er eitthvað að marka orðróm um að hún þurfi að vara sig á Felix? Og hver er þessi glæsilega en mislynda Bella, samstarfskona hennar? Fljótlega kemst hún að því að óupplýst mannshvarf tengist Felix og húsinu sem hún býr í en áhugaleysi ættingja vekur furðu hennar.Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina
Lesa meiraÍ þessari bók kynnumst við eldhugum sem héldu út í heim til að læra myndlist – þeim sem lögðu grunninn að íslenskri listasögu um og upp úr aldamótunum 1900 og fram eftir 20. öld. Þau höfðu áhrif á allt það listafólk sem fylgdi í kjölfarið og einnig okkur sem njótum myndlistarinnar; á söfnum, í skólum, undir berum himni eða á heimilum. Þetta er bók fyrir alla fjölskylduna.Reykjavík barnanna: Tímaflakk um höfuðborgina okkar
Lesa meiraÍ Reykjavík barnanna er stiklað á stóru um sögu höfuðborgarinnar í máli og myndumSterk
Lesa meiraBirta býr í óvistlegri kjallaraholu með ókunnugu, fullorðnu fólki. Það kýs hún þó miklu heldur en heimabæinn sem hún flúði eftir að hafa komið út sem trans við lítinn fögnuð fjölskyldu og vinaKjarval: Málarinn sem fór sínar eigin leiðir
Lesa meiraÍslandsbók barnanna
Lesa meiraÚtistöður
Lesa meira
Kóralína
Lesa meira