Beint í efni

Sterk

Sterk
Höfundur
Margrét Tryggvadóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Ungmennabækur

Um bókina

Sterk er hröð og spennandi saga sem varð hlutskörpust í samkeppninni um Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 2021.

Birta býr í óvistlegri kjallaraholu með ókunnugu, fullorðnu fólki. Það kýs hún þó miklu heldur en heimabæinn sem hún flúði eftir að hafa komið út sem trans við lítinn fögnuð fjölskyldu og vina. En svo hverfur konan í næsta herbergi sporlaust, og síðan önnur. Hvaða konur eru þetta og hvað verður um þær? Og hvað er Jóhanna, skólasystir hennar, að spá? Getur verið að hún sé skotin í Birtu? En veit hún þá hver Birta er?

Úr bókinni

Í stað þess að koma út á eigin forsendum, segja frá og útskýra, var eins og hún væri með ólæknandi og smitandi sjúkdóm. Krakkarnir forðuðust hana og hún þau. Bjagaður orðrómurinn sem hafði borist á undan henni rændi hana tækifærinu til að koma út sem trans á eigin forsendum og útskýra hver hún væri í raun og veru. Kennararnir í skólanum áttuðu sig annaðhvort ekki á stöðunni eða vissu ekki hvað þeir gætu gert. Loks barst orðrómurinn til foreldra hennar sem kröfðu hana svara. Hún hafði því sagt þeim að hún upplifði sig sem stelpu og hefði alltaf gert það og nú væri kominn tími til að gera eitthvað í málunum. Fyrstu viðbrögð mömmu hennar voru að standa á fætur og rjúka út úr húsinu og skella á eftir sér. Birta og pabbi hennar sátu þögul eftir og það eina sem pabbi hennar gerði var að spyrja hvort hún þyrfti nauðsynlega að vera að þessu. Þetta var samt ekki í fyrsta sinn sem hún hafði sagt þeim að hún væri í raun stelpa. Hún hafði stundum gert það þegar hún var lítil en þau vildu ekki heyra á það minnst og sögðu henni að hætta öllu rugli. En þetta var ekkert rugl. Þetta var hún sjálf og nú vissi hún að hún var ekki ein um að upplifa að henni hefði verið úthlutað röngu kyni við fæðingu. Það var miklu algengara en flest fólk gerði sér grein fyrir. Þetta var ekki sjúkdómur eða galli. Hún var bara svona. Og fjölbreytni er góð. 

   Þegar mamma Birtu hafði komið inn aftur sagðist hún aldrei aftur vilja heyra á þetta minnst. Þau reyndu að láta eins og ekkert væri en það var ómögulegt. Birta var þeim báðum sár fyrir að reyna ekki að skilja hana. Pabbi hennar átti þó til að biðja hana að koma með sér út og sinna ýmsum verkum á bænum og á þeim stundum var allt í lagi á milli þeirra. Þegar mamma Birtu var ekki með kom þeim feðginunum ágætlega saman. Þeirra samband hafði alltaf verið gott og þeim leið vel saman en Birta gat ekki fyrirgefið honum að hafa ekki tekið afstöðu með henni þegar mamma hennar neitaði að viðurkenna hver hún væri í raun og veru. Og þegar inn var komið var eins og þau þrjú væru að leika í ömurlegu leikriti sem ekki nokkur leið var að komast út úr. 

   Birta hafði reynt að tala betur við Geir og Pétur en þeir höfðu ásakað hana um að hafa logið að sér. Svo spurðu þeir hana hvort hún væri hommi núna og þá áttaði hún sig á að þeir áttu langt í land með að skilja hvað hún var að ganga í gegnum. Þeir vissu ekki einu sinni að kynvitund og kynhneigð væri ekki einn og sami hluturinn. Hún treysti sér ekki til að reyna að tala betur við þá og útskýra hver hún væri eða hvernig henni liði og dró sig í hlé, inn í skelina sína þar sem hún var ein. Og smám saman hætti hún að mæta, tók skólabílinn á morgnana því ekki vildi hún vera heima en hékk á bókasafninu eða í sjoppunni. Þegar skólafélagarnir þreyttu prófin um vorið var hún löngu hætt því líka og ef ekki hefði verið fyrir sauðburðinn hefði hún ekki komið sér fram úr rúminu. Litlu lömbin hjálpuðu henni að ná tökum á bugandi þreytunni og tóminu í hjartanu sem stækkaði í hvert skipti sem mamma hennar sagði henni að vera ekki með þessa vitleysu eða þegar hún hugsaði til krakkanna sem hún hafði talið vara vini sína. Hún var fegin að hafa verkefni, eitthvað til að halda sér í og einbeita sér að. Og með björtu vornóttunum kviknaði nýtt líf. Ekki bara í fjárhúsunum heldur alls staðar. Snjórinn hvarf á braut og gróðurinn vaknaði af djúpum vetrardvala. Birta fann aftur tilgang í lífinu og þá lá líka í augum uppi hvað hún ætti að heita í nýja lífinu. Birta.  

   Í fjárhúsunum gat hún staðið vaktina með pabba sínum. Þau gátu setið yfir kindunum og hjálpast að við að taka á móti lömbunum án þess að vera með leiðindi. Þau voru samtaka án orða.

(bls. 22-24) 

 

Fleira eftir sama höfund

Útistöður

Lesa meira

Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar

Lesa meira

Skoðum myndlist: heimsókn í Listasafn Reykjavíkur

Lesa meira

Drekinn sem varð bálreiður

Lesa meira
stolt kápa

Stolt

Blær ræður sig í sumarvinnu á lítið hótel úti á landi. Hún heillast fljótt af Felix, sem er einnig að vinna á staðnum, en finnur aldrei rétta tækifærið til að segja að hún sé trans. Fljótlega renna á hana tvær grímur og hún veit ekki hverjum hún getur treyst. Er eitthvað að marka orðróm um að hún þurfi að vara sig á Felix? Og hver er þessi glæsilega en mislynda Bella, samstarfskona hennar? Fljótlega kemst hún að því að óupplýst mannshvarf tengist Felix og húsinu sem hún býr í en áhugaleysi ættingja vekur furðu hennar.
Lesa meira
íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina

Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina

Í þessari bók kynnumst við eldhugum sem héldu út í heim til að læra myndlist – þeim sem lögðu grunninn að íslenskri listasögu um og upp úr aldamótunum 1900 og fram eftir 20. öld. Þau höfðu áhrif á allt það listafólk sem fylgdi í kjölfarið og einnig okkur sem njótum myndlistarinnar; á söfnum, í skólum, undir berum himni eða á heimilum. Þetta er bók fyrir alla fjölskylduna.
Lesa meira
reykjavík barnanna

Reykjavík barnanna: Tímaflakk um höfuðborgina okkar

Í Reykjavík barnanna er stiklað á stóru um sögu höfuðborgarinnar í máli og myndum
Lesa meira

Íslandsbók barnanna

Lesa meira

Kjarval: Málarinn sem fór sínar eigin leiðir

Lesa meira