Beint í efni

Sextíu kíló af sunnudögum

Sextíu kíló af sunnudögum
Höfundur
Hallgrímur Helgason
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Síðasta bindið í Sextíu kílóa sögu Hallgríms Helgasonar um síldarævintýrið á Segulfirði og fylgifiska þess.

Þegar söguhetjunni Gesti Eilífssyni berst óvænt sendibréf leggur hann upp í langferð. Í Ameríku kynnist hann nýjum og framandi heimi en líka áður ókunnum hliðum á sjálfum sér. Á meðan breytist allt í firðinum hans heima. Nýjar persónur og hugmyndir ganga á land og úr verður áratugur harðvítugrar stéttabaráttu.

Úr bókinni

  Á sviðinu birtist nú dökkhærð myndarkona á svörtu síðpilsi og samlitri peysufatapeysu, þó ekki með skotthúfu, og tók til máls. Hún þakkaði öllum fyrir komuna, dásamaði mætinguna og sagði settan stofnfund Verkalýðsfélags Segulfjarðar, VFS.

  „Þið munuð alltaf muna þetta kvöld og það mun alltaf muna um þetta kvöld!“

  Gæsahúð breiddist um salinn og braust út í dynjandi lófataki. Konan var skelegg í tali, með skýra rödd og eilítið fornenskjulega máltilfinningu, slíka sem Íslendingar hafa ætíð verið veikir fyrir. Gestur hallaði sér að Skapta, spurði hver þetta væri. Alfabet Andrésdóttir, útskýrði hann, kennara- og hjúkrunarmenntuð kona af námskeiðum í Kaupmannahöfn. Hún hefði komið hingað síðasta haust og kenndi í Barnaskólanum auk þess að sinna sjúkum í sjúkraskýli bæjarins. Afskaplega væn kona í alla staði.

  „Alfabet?“

  „Já, en kölluð Alfa. þetta er eitt af þessum gömlu skrýtnu nöfnum. Hún er að vestan.“

  Hún kynnti ræðumann kvöldsins, Almar Ingólfsson, og spenningurinn knúði fram krampakennt lófatak.

  „Velkominn heim!“ hrópaði drengsleg rödd úr miðjum sal um leið og ljóskollurinn gekk til sviðs. Hann skálmaði til pontu á víðum ljósum buxum úr þykku tvíd-efni og fálmaði þar um blöð sín og bækur en brast síðan blaðlaust á:

  „Kæru vinir og félagar, bræður og systur. Við sitjum hér á sögulegri stund. Í fyrsta sinn í sögu staðarins kemur alþýðan saman og sýnir mátt sinn og megin. Við skynjum öll það afl sem hér er að fæðast. Fögnum saman einingu okkar og einurð. Þær lengi lifi!“

  Almar steytti hnefa á loft og salurin nötraði af lófataki. Rödd hans var ekki alveg jafn mjó og líkaminn en átti það til að titra á háu tónunum, víbrató sem aðeins varð til að undirstrika mikilvægi þeirra mikilvægustu orða.

  „Kæru bræður, kæru systur, við vitum öll hver staðan er. Nær þrjú ár eru nú liðin frá byltingunni miklu í Rússlandi. Um allan heim eru vinnandi stéttir að vakna. Um okkar góða land leika nú vorvindar hinnar fögru hugsjónar kommúnismans og sósíalismans. Við þekkjum öll þær byrðar sem á okkur eru lagðar, það erfiði sem við innum af hendi, og það úthald og þær vökur sem okkur eru uppálagðar, vikum og mánuðum saman, þegar vertíð stendur hæst og gróðamenn græða mest. Og við þekkjum líka þau laun sem okkur bjóðast fyrir þrjátíu og sex tíma hlélausar vaktir við síldarsöltun ...“

(s.240-241)

Fleira eftir sama höfund

Vom zweifelhaften Vergnügen, tot zu sein

Lesa meira

Konan við 1000°

Lesa meira

Three movies away from New York : Reykjavík, isolated yet international

Lesa meira

Málverk en þó ekki. Viðtal við Gerwald Rockenscaub.

Lesa meira

101 Reykjavik

Lesa meira

Islands forfatter

Lesa meira

101 Reykjavik

Lesa meira

Rokland

Lesa meira

Konan við 1000°

Lesa meira