Skáldsagan Slutet på kedjan eftir Fredrik T Olsson í þýðingu Ísaks.
Úr Síðasta hlekknum:
Voldugar dyrnar opnuðust inn í risastóran sal, og William stansaði ósjálfrátt í miðju skrefi.
Það voru áreiðanlega meira en sex metrar til lofts. Gildar steinsúlur stóðu meðfram veggjunum og runnu saman í eins konar krónu í miðri lofthvelfingunni. Lág haustsólin skein in um háa glugga með upphleyptum lituðum glerrúðum sem sundruðu geislunum í óregluleg sindur, svo allt sýndist dimmt og uppljómað í senn, og á gaflveggnum andspænis sameinuðust mjóir sólargeislarnir tindrandi bjarma frá opnum arni, svo stórum að hann hefði getað verið eitt af herbergjunum í íbúð Williams. Í miðju lofti salarins hékk risastór ljósakróna og undir henni stóð langborð úr þykkum dökkum viði, með djúpum förum og dældum eftir allt of dýrar veislur allt of ríkra fursta fyrir mörgum öldum.
Sviðið hefði verið fullkomnað ef grillað villisvín hefði trónað á miðju borðinu, borið fram á risastóru blikkfati, og vín í málmbikurum allt í kring. En þess í stað lá þarna einmanalegur fjöltengill. Úr honum lá gráhvít snúra í fartölvu sem stóð á borðsendanum, að minnsta kosti tíu metra frá dyrunum sem William og Connors voru nýkomnir inn um. Við tölvuna sat maður í dökkum einkennisbúningi.
„Franquin?“ sagði Connors.
Maðurinn kinkaði kolli.
Hann reis á fætur, og William sá að hann var nokkuð eldri en Connors. Andlit hans bar merki um að hann hefði kynnst stormum af öllu tagi, hreyfingarnar hægar, næstum eins og þær yllu honum sársauka, hann nam staðar í nokkurra metra fjarlægð. Ekkert handaband. Kynnti sig sem Maurice Franquin hershöfðingja og bauð William velkominn. William vissi ekki hvort hann átti að svara með þakklæti eða kaldhæðni, og gerði hvorugt.
„Ég gæti varið löngum tíma í að biðja þig afsökunar á því að við höfum flutt þig hingað með þessum hætti. En ætli ég láti það ekki eiga sig.“
William svaraði ekki, beið einungis á meðan Franquin færði sig nær þeim og gaf honum bendingu um að fá sér sæti.
„Nú veit ég ekki hvað Connors hefur sagt þér.“
„Ég myndi segja að hann hafi lagt heilmikið á sig við að segja ekki neitt.“
Franquin kinkaði kolli. Örstuttu hálfkæfðu glotti brá kannski fyrir á andliti hans. Eða kannski voru hrukkurnar kringum munninn bara svona misvísandi.
(62-4)