Um bókina
Stríðsbjarmar er saga þjóðar í stríði en jafnframt rúmlega þúsund ára saga Úkraínu, allt frá víkingum og kósökkum til keisaravelda og Sovétríkja og loks sjálfstæðis en þó enn meiri átaka. Úkraínustríðið er einhver örlagaríkasti viðburður okkar tíma og hér eru sem flestar hliðar málsins fangaðar á aðgengilegan hátt.
Sagnfræðingurinn Valur Gunnarsson stundaði nám í Úkraínu og hélt aftur þangað nokkrum mánuðum eftir að stríðið hófst. Hann ferðaðist um landið þvert og endilangt, frá Lviv til vestri til Kharkiv í austri, frá Odesa í suðri til Kyiv í norðri.
Úr bókinni
Stríðsguðamánuður
Reykjavík, mars
Það voru Rússar sem skipulögðu fyrstu mótmælin gegn Úkraínustríðinu í Reykjavík. Um 700 Rússar bjuggu á Íslandi við upphaf stríðs og ku samfélag þeirra klofið í afstöðunni til Pútíns. Sumir hengdu nærbuxur á sendiráðsgrindverkið í mótmælaskyni þegar eitur var sett í nærbuxur Navalní í ágúst 2020. Sömu andófs-Rússar gengu nú frá Hallgrímskirkju ásamt Íslendingum og Úkraínumönnum, Pólverjum og Litáum og fleirum, að Túngötu þar sem sendiráð hins blóðuga tvíhöfða arnar er að finna. Þar veifa þeir blágulum úkraínskum fánum eða þá hvít-blá-hvítum, rússneska fánanum þar sem litur blóðsins hefur verið fjarlægður.
Andrei Menshenin er sérlegur flugáhugamaður sem ku vita meira um Ísafjarðarflugvöll en nokkur annar sem nú er uppi. Hann er staddur hér í námi og óttast að verða rekinn heim þegar vegabréfið hans rennur út. Stöðugt dregst að fá nýtt vegabréf afhent í rússneska sendiráðinu og varla gerist það hraðar þegar hann sést mótmæla fyrir utan. Og ekki mun hagur hans batna mikið ef hann endar aftur í Rússlandi. Samt lagði hann það á sig að skipuleggja mótmælin gegn eigin ríkisstjórn.
Og svo fóru aðrir að taka við. Inga sem er heiðurræðismaður Litáen skipulagði næstu mótmæli en Úkraínumönnum hérlendis fer hægt og rólega fjölgandi og sjá nú um þetta sjálfir, stundum í samfloti við Pólverja að virðist. En andófs-Rússar láta ekki sitt eftir liggja og þann 13. mars halda rússneskar konur markað í Norræna húsinu. Stíft hefur verið bakað um allan bæ og skal allur ágóði renna til Úkraínu. Ég tek að mér að annast kynningu og sendi rússnesk-íslenska skáldið Natöshu S. í nokkur útvarpsviðtöl þar sem hún er vel mælt á íslensku. Og reyndar betur en flestir, þar sem hún yrkir á ylhýra og er að skrifa ljóðabók um stríðstíma þessa. Þess á milli annast hún flóttafólk hjá Rauða krossinum. Það reynist auðvelt að fá Ríkissjónvarpið til að koma á viðburðinn sjálfan. Og einhverjir peningar söfnuðust í baukinn.
(s. 35-36)