Beint í efni

Til minningar um dauðann

Til minningar um dauðann
Höfundur
Bjarni Bjarnason
Útgefandi
Augnhvíta
Staður
Reykjavík
Ár
1992
Flokkur
Skáldsögur

Sagan birtist einnig í bókinni Vísland (1994) undir heitinu Sonur skuggans.

Úr Til minningar um dauðann:

Sæhesturinn

 Hann lá í snjóskafli og hugsaði:
 Ég man eða mig dreymdi. Ég var í neðanjarðarholunni og gróf og færði hana þannig til, þar til undrið gerðist. Eða martröðin. Það fór að seytla inn vatn. Komu brestir í einn vegginn, svo braust vatnið inn. Holan varð dæld hulin vatnsfjúkandi sandgruggi, og ævafornt frelsi mitt hvarf. Nema það sem ég hafði í mér.
 Það er ekki sjálfgefið að ég nái alla leið. Það er ekki sjálfgefið að ég stoppi ekki hér á síðustu metrunum. Ég get ekki farið að anda bara afþví ég sé ljós.
 Og ef ég næ uppá yfirborðið er ekkert sem tryggir að ég geti gengið á vatninu. Ekkert víst að ég sé fugl með fisk í gogginum, ekki öruggt að ég geti flogið. Alveg óvíst að ég hafi lært nóg til að eiga vísan aðgang að djúpinu aftur, til að mega einhverntíma fara niður á botn og máta gömul mót, eða drauma, eða martraðir. Og er öruggt að þetta séu sólargeislar hér í vatninu, er vatnið ekki bara svona litt hér. Kannski er ég í djúpinu miðju, eða neðansjávarhelli, eða neðanjarðarsjávarhelli. Króaður af. Þá drukkna ég hér. Hvernig leyfði ég mér að vona, jafnvel trúa að það tækist, að senn gæti ég andað, litið dagsbirtu í fyrsta skipti.
 Einkennilegt að hafa vitundartýru, hafa séð svo margt, og hafa þó aldrei skapast, aldrei horft út, bara inn. Ætti ég að halda því áfram. Sé ég þá allt hér að lokum? Kannski verð ég einungis fyrir vonbrigðum þegar ég opna augun. Eftilvill er sólin ekki ljóshærð kona, og lítil von á að ég komi upp í hennar bláu augum. Þá er ást hennar ekki sjálfgefin. Þá verð ég að vinna til hennar. Það get ég ekki.
 Hvar enda ég, hvar er leiðin öll, stefnulaus staður? Eins langt aftur og ég man með vissu hef ég kafað án þess að anda.
 Ætli ég þurfi þá nokkuð að draga andann. Ég á sennilega bara að draga vatn. Hversvegna hefur mér aldrei komið það í hug fyrr?
 Ég er áreiðanlega Sæhestur. Ég skil ekki afhverju mér hefur alltaf fundist sjálfgefið að vatn væri vitum mínum skaðlegt. Eða hvernig stendur á því að ég hef lengst af verið í vatni og er samt enn við lýði. Þetta hlýst af því að þora aldrei að opna munninn eða augun, en rýna eftir birtu í gegnum augnlokin. En nú er nóg komið af þessari vitfirringu, það er þörf gagngerra breytinga, of miklum tíma hefur verið sóað í óravingl, nú dreg ég vatn. 1. 2. og hii, Ah! Þetta var vont. Þetta er vont. Þetta er ekki rétt. Furðulegt, mér finnst ég hafa lifað þetta áður. Líklega er ég að endurtaka gömul mistök. En niðurdrepandi. Og nú er ég ekki í gulleitu vatni lengur, og köfnunarskynjunin hefur aldrei verið ýttnari. Þetta gráa haf er snara um hálsinn á mér. Ég hangi í snöru, svo gleymi ég því, endurtek gömul mistök, og enn herpist snaran, og nú skil ég líka afhverju ég gleymi. Þennan sannleik er svo sárt að muna að ekki nokkur hluti minn vill geyma hann.
 En meðan ég man verð ég að einbeita mér. Ég verð að ná uppá yfirborðið. Ef ég er kjurr smá stund þá segir innri rödd mín mér eftilvill hvað er upp. Nema ég hafi sóað of miklu af efninu sem beinir mér að frelsinu. Frelsið inni í mér seytlar burt með mistökunum. Þá hef ég líka snúist við. Gott að ég áttaði mig á því. Nú er bara að halda í gagnstæða átt við það sem pendúllinn segir. Þangað. Ég verð að nota tunguna sem sporð síðustu metrana. illl.illl.illl.
 En hvað er þetta? Ég passa alveg í þetta. Ef ég gref, get ég þá ekki lokað vatnið úr holunni? Nei, þetta er martröð, ég er ekki að grafa yfir mig. En þetta leggst svo notalega að mér. Bráðum kemst ég yfir mörkin.
Hann sofnaði grafinn í snjóskafl.

(s. 183-185)

Fleira eftir sama höfund

Mannætukonan og maður hennar

Lesa meira

The Return of the Divine Mary

Lesa meira

Örninn

Lesa meira

Sólarlag við sjávarrönd

Lesa meira

Nakti vonbiðillinn

Lesa meira

Borgin bak við orðin

Lesa meira

Borgin bak við orðin

Lesa meira

Smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Læknishúsið

Lesa meira