Beint í efni

Truflunin

Truflunin
Höfundur
Steinar Bragi
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Árið er 2034. Heimurinn hefur kvíslast í tvær víddir sem einungis snertast á litlu svæði í miðbæ Reykjavíkur, Trufluninni. Múr umlykur svæðið og inn fyrir hann fer einungis þrautþjálfað vísindafólk og hermenn, svokallaðir agentar. Einn þeirra er félagssálfræðingurinn Halla, sem hefur sérhæft sig í geimverum og sértrúarsöfnuðum og brennt allar brýr að baki sér í einkalífinu. Verkefni hennar er að hafa uppi á agentinum F sem sendi frá sér torrætt neyðarkall áður en hún hvarf sporlaust.

Steinar Bragi sendi síðast frá sér smásagnasafnið Allt fer sem tilnefnt var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Fyrir skáldsöguna Konur var hann tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og verk hans hafa komið út á yfir tuttugu tungumálum.

Úr bókinni

   „Við byrjum á að kíkja á Bíó Paradís,“ sagði ég, reyndi að rusla upp smá frumkvæði til að kveikja á heilanum.
   Bíllinn stefndi til vesturs meðfram torginu, sveigði inn á Óðisgötu og ók hægt framhjá stöðinni. Skömmu síðar smugum við í gegnum hjúpinn, þótt hann væri hvergi til hérna megin nema í líkönum eðlisfræðinga. Gáttin sem ég kom sjálf inn um var í jaðri götunnar, eins og hálfu spori út af gangstéttinni. Enginn birtist þar meðan við ókum hjá, og ég kom ekki auga á viðbúnað í grennd við gáttina, engar dauðasveitir en væntanlega kunnu þær að fela sig.
   Eftir Skólavörðustíg stefndum við upp á holtið. Nokkrum metrum síðar ókum við í gegnum aðgerðastöðina þar sem ég hafði - fyrir hálftíma, klukkutíma? - búið mig undir að fara inn. Þegar hjúpurinn birtist í Umheimi voru göturnar í miðbænum að mestu auðar. Einstaka leigubíll og nokkrir vesalingar á rölti heim af bar. Flest þeirra sem gengu fram á hjúpinn höfðu vit á að láta hann eiga sig, nokkur teygðu fram hönd til að snerta og sáu hönd aldrei framar - það sem fór inn í Truflunina kom ekki út aftur. Fáein óðu í gegn, kannski voru þau annars hugar og litu ekki upp. Seinna fundust lík að minnsta kosti tveggja þeirra á gangstétt í Trufluninni - bráðabirgðaniðurstaða var engin en lögreglan ætlaði að rannsaka málin nánar þegar tími gæfist. Góða lukku með það.
   Fyrsta girðingin utan um hjúpinn var gult lögregluteip. Þegar vettvangurinn reyndist óskiljanlegur og klippti hendur af fólki kölluðu Íslendingar í alþjóðlegar stofnanir til hjálpar, enda ekki nóg af lögregluteipi í landinu til að girða af Truflunina alla. Tálmar voru reistir, götum lokað og gefnar út tilkynningar um að „óþekkt náttúrufyrirbæri“, eins lags statískur jarðskjálfti, væri virkur í miðbænum; enginn vissi hvað það þýddi. Þegar ágangur jókst og ferðamenn - Svæði 51-fólkið og Samsæri eðlanna-fólkið - byrjuðu að heimsækja landið til að snuðra og kasta sér í gegnum hjúpinn í beinni á samfélagsmiðlum var byrjað að reisa girðingar og svo múra eftir að bandaríski herinn, af fórnfýsi sinni, tók að sér gæsluna. Fyrstu tilraunir til inngöngu, rétt eins og þegar geimurinn var kannaður, voru framkvæmdar með dýrum: hundum, köttum og öpum með hitt og þetta mælitækið ólað við sig. Nokkur dýranna lifðu ferðina af, þar á meðal tveir af simpösunum, og voru nú á flakki um bæinn - eins og lögreglan hérna hefði ekki nóg að gera?
   Ég fann að horft var á mig og leit upp.
   „Skrýtið, finnst þér ekki?“ sagði Ali eins og hann vissi hvað ég væri að hugsa, aftur með augun á baksýnisspeglinum.
   „Skrýtið lýsir því jafn vel og hvað annað, býst ég við,“ sagði ég og þagnaði. Ég var ekki stemmd fyrir samræður, tók í staðinn upp símann til að rifja upp það helsta sem gerðist í bíóinu.
   Nokkrar mínútur yfir átta, þegar kvölddagskráin var að hefjast, hafði strákur dáið í anddyrinu; innfæddir töluðu um sprengingu en það var ekki rétta orðið - einhvers konar þrýstingsbylgja hafði gengið yfir Truflunina, líklega með miðju nálægt Skólavörðuholtinu. Þegar bylgjan breiddi úr sér varð sums staðar til undirþrýstingur, rúður brotnuðu á vestur-austur götunum, en kröftugasta frávikið var við húsalengjuna sem bíóið stóð í við Hverfisgötu, þótt restin af götunni slyppi nánast alveg. Samkvæmt vitnum í anddyrinu hafði karlmaður, nýstiginn inn um dyrnar, tæst í sundur og varla neitt eftir af honum, það heillegasta voru tveir fætur í lakkskóm, mögulegur úlnliður og tveir fingur. Fyrsta kenning innfæddra um sjálfsmorðsárás var augljóslega út í hött. Fólkið í kringum strákinn hafði særst, sumt af því, en ekki svo alvarlega að líf nokkurs þeirra væri í hættu.
   Vitni úr anddyrinu minntist á eld en dró það til baka um leið. Nokkur neituðu að hafa heyrt svo mikið sem hvell. Fleiri en eitt vitni töluðu um suð í eyrum áður en heyrnin fór alveg - í atburðinum - og að sem snöggvast hefði orðið dimmt í anddyrinu. Fimm manns höfðu verið flutt á spítala með sprungnar hljóðhimnur og blóðspýja gekk upp úr tveimur þeirra sem voru næst miðasölunni, líklega vegna sára í lungum.
   Tímasetningin var um það leyti sem þriðja bylgjan var að koma inn í Truflunina.
   Undir lokin á þjálfuninni hafði ég setið námskeið um bíóið. Atburðarásin var álitin næstum jafn mikilvæg og tilurð hjúpsins; eðlis- og loftslagsfræðingarnar lágu yfir henni. F var horfin þegar þetta gerðist en andinn í síðustu skilaboðunum hlaut að vísa í bíóið - ef hægt var að skilja þau sem annað en dellu.
   Við lögðum bílnum úti í kanti næst lögregluteipinu sem lokaði götunni við Frakkastíg. Ali lyfti skilríkjunum í átt að götulöggu sem hleypti okkur í gegn án þess að líta á mig. Það hvarflaði að mér að hann væri einn af okkur. Ég mundi ekki hvort Reuter-skírteinið hefði verið betur við hæfi heldur en það frá CDC-sjúkdómavörnum.
   Framhlið bíósins var ekkert nema rúður. Móða var á glerjunum en ekkert þeirra hafði brotnað, ekki einu sinni sprunga var sjáanleg. Fyrir innan voru litirnir hvítir og rauðir, magnaðir af ljóskösturum. Plastklæddar verur sáust á hreyfingu með með litlu klípitangirnar sínar.

(s. 51-53) 

 

Fleira eftir sama höfund

Hálendið

Lesa meira

Kobiety

Lesa meira

Ljóð í Ny islandsk poesi

Lesa meira
dáin heimsveldi

Dáin heimsveldi

Í þessari skáldsögu fer höfundur með lesendur til upphafs 22. aldar þegar ríkasti hluti mannkyns hefur flúið óbyggilega Jörð og komið sér fyrir í geimnum.
Lesa meira

Turninn

Lesa meira

Áhyggjudúkkur

Lesa meira

Ljóð í Ljóð ungra skálda

Lesa meira