Beint í efni

Út að drepa túrista

Út að drepa túrista
Höfundur
Þórarinn Leifsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Leiðsögumaðurinn Kalmann er þreyttur. Hring eftir hring og ár eftir ár hefur hann mátt sinna kenjum fólks frá öllum heimshornum, svara furðulegum spurningum og bregðast við óvæntum uppákomum. En þessi síðasta Suðurstrandarferð ætlar allt að trompa. Ekki nóg með að einn farþeginn finnist myrtur í upphafi ferðar og morðinginn leynist um borð í rútunni heldur sveimar hættuleg veira um, veðurspáin er viðbjóður og sá sem lögreglan sendir til að leysa málið er í hæsta máta vafasamur.

Úr bókinni

Á góðum degi var skórkostlegt útsýni út um gluggana í norður. Hekla sást þá tróna yfir grænni sléttunni. En í kvöld var skyggnið mjög takmarkað, drungalegt hvítt mistur gleypti landslagið. 

   Parið sem beið í miðjum matsalum leit ekki út fyrir að vera í lögreglunni. Þau líktust miklu frekar starfsfólki fyrirtækis á leið á árshátíð. Karlinn áberandi smávaxinn og fínlegur í dökkum og snyrtilegum jakkafötum. Hún í látlausri dragt sem hefði leitt hugann að gjaldkera í banka ef ekki hefði verið fyrir stór speglasólgleraugu sem hún hafði tyllt letilega í ljósan hártopp yfir breiðu enni. Kalmani fannst hún horfa nánast ásakandi á sig án þess að blikka grænbláum augunum. Gat hún tengst þessu vandræðamáli á einhvern hátt? Kannski fulltrúi Stígamóta, mætt til að leggja fram kæru? Nei, það var fáránleg hugmynd. Ef það væri búið að kæra þá hefði hann einfaldlega verið kallaður í viðtal í Reykjavík.

   Lágvaxni maðurinn kynnti sig sem Baldur Eiðsson hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík. Hann lét hinsvegar alveg vera að kynna ljóshærðu konuna sem Kalman mundi þó allt í einu að hann hafði margoft hitt í móttökunni á Hótel Kabut. Hvað var hún að gera hér?

   „Það fannst lík á Hótel Kabut í morgun,“ tilkynnti Baldur, nánast hranalega. „Rétt eftir að þið fóruð af stað.“

   Kalman virtist stirðna upp við fréttirnar meðan Magnús iðaði allur, lagði þykka lófana aftur fyrir hnakka og síðan aftur á borðið. Mennirnir tveir virtust hafa misst málið, svo hann bætti við örlítið mýkri rómi:

   „Paul Davida, sænskur ríkisborgari á fimmtugsaldri.“

   Magnús varð fyrri til að jafna sig og hafa orð fyrir þeim.

   „Ertu að segja að nó-sjóið okkar hafi verið drepið?“

   „Við getum hvorki játað því né neitað ...“

   „Ég bara þoli ekki þegar fólk kemur of seint,“ sagði Magnús. „Indverjarnir eru auðvitað verstir. Sænskur segirðu? Skandinövum hefur fækkað mjög mikið. Engin furða ef þeir drepast áður en þeir ná að drattast niður í lobbí.“

   Kalman lagði lófann á upphandlegg Magnúsar til að þagga niður í honum.

   „Hvað áttu við ...“ spurði hann. „Hvorki játað né neitað?“

   „Ódæmigerð einkenni.“

   „Ódæmigerð?“ bergmálaði Kalman. „Var hann með þessa veiru?“

   „Við útilokum ekkert.“

   „Þannig að þá eru allir í rútunni veikir ...?“ hélt Kalman áfram.

   „Við skulum ekki fara fram úr okkur,“ flýtti Baldur sér að bæta við. „En við verðum auðvitað að grípa til varúðarráðstafana.“

(bls. 88-89)

Fleira eftir sama höfund

Götumálarinn

Lesa meira

Loyndarmálið hjá pápa

Lesa meira

Hrekklaus fer á netið

Lesa meira

Kaldakol

Lesa meira

Bókasafn ömmu Huldar

Lesa meira

Algjört frelsi

Lesa meira

Leyndarmálið hans pabba: Bók handa börnum með foreldravandamál

Lesa meira

Maðurinn sem hataði börn

Lesa meira

Fars store hemmelighed

Lesa meira