Um bókina
Ungur maður, óþekktur, finnst látinn í húsagarði í litlum bæ úti á landi. Nýstofnuð morðrannsóknardeild lögreglunnar fer þegar á staðinn en er vandi á höndum. Bærinn er sneisafullur af erlendum ferðamönnum og skemmtigarður nýopnaður, kattamorðingi gengur laus, tvær systur virðast ráða öllu sem máli skiptir – og ein úr lögregluliðinu á miður góðar minningar úr þessum smábæ.
úr bókinni
Á heimleiðinni varð henni litið í garð nágrannans sem var stærsti og fegursti garður á Reykjum en því miður yfirgefinn. Hjónin höfðu flutt í borgina seinasta haust eftir að maðurinn veiktist og konan kom örsjaldan hingað núorðið. Aldrei um helgar. Þau höfðu ekki beinlínis falið Elísabetu að fylgjast með garðinum en stundum hafði hún séð unglinga þar og hafði þá samt komið út og sveiað þeim burt. Hótað með lögreglunni auðvitað því að ekki voru þau hrædd við hana sjálfa. Frekar takmarkað við lögregluna líka sem ekki var hér í bænum heldur tíu mínútur í burtu á Ósi. En yfirleitt dröttuðust þau burt eftir að hafa brúkað munn við hana í nokkrar mínútur. Sennilega væru þau örlítið smeyk við gömlu hjónin sem áttu garðinn. Hann hafði verið mektarmaður hér og var ekki dauður enn.
Frúin hafði sagt henni fyrir nokkrum mánuðum að sprautunál hefði fundist í garðinum. Elísabetu hafði brugðið. Hvað ef Snickers rækist á sprautu? Eins og það væri ekki nógu hættulegt að vera hundur í þessu bæjarfélagi. Elísabet hleypti henni aldrei út einni.
En nú var garðurinn sem betur fer friðsæll. Hún horfði lengi á hann. Eins gott að túristarnir vissu ekki af þessari fegurð í hennar eigin götu, þá fengju þau engan frið fyrir myndavélum og traðki. En hvað var þarna á bak við einn runnann? Það var engu líkara en glytti í fatnað. Jakka kannski. Ótrúlegt að fólk henti fatadruslum í fegursta garð bæjarins.
Þegar Sesselja hafði sagt henni frá sprautunálinni hafði hún tekið fram að Elísabet mætti alveg fara inn í garðinn og fjarlægja rusl þó að það væri alls engin skylda.
Ég er ekki í þinni þjónustu, hugsaði hún þá en brosti þó vinalega. Of lítið, of seint. En núna nokkrum mánuðum síðar fannst henni samt alls ekki viðeigandi að skilja þessa yfirhöfn eftir þarna í garðinum. Það gerði góður granni ekki.
Komdu, Snickers, tautaði hún, og þær gengu hægum skrefum inn í garðinn, að runnanum.
Guð minn góður, hugsaði hún þegar að runnanum kom. Þetta er ekki aðeins jakki heldur sofandi karlmaður. Snickers var farinn að gjamma.
Þegiðu, urraði hún. Ekki vildi hún að hann vaknaði. En þá leit hún betur á hann og allt í einu rann upp fyrir henni að hann vaknaði aldrei aftur.
(9-10)