Beint í efni

Veisla undir grjótvegg

Veisla undir grjótvegg
Höfundur
Svava Jakobsdóttir
Útgefandi
Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
1967
Flokkur
Smásögur

Úr Veislu undir grjótvegg:

Saga handa börnum


Efstur í fötunni var heilinn.
 Fjölskyldan rauk fram þegar veinið barst inn í stofuna. Faðirinn var í fararbroddi og var fljótur að átta sig á hvers kyns var þegar hann sá konu sína stara niður í ruslafötuna. Veinið var þagnað, en sat enn í andlitsdráttum hennar.
 Finnst þér leiðinlegt að fleygja honum, elskan mín? spurði hann.
 Ég veit það ekki, sagði hún og leit afsakandi á hann, ég hugsaði ekki.
 Mamma hugsaði ekki, mamma hugsaði ekki, mamma hugsaði ekki, sönglaði eitt barnanna sem hafði sérlega næma kímnigáfu.
 Þau skelltu upp úr og það var sem hláturinn leysti vandann. Faðirinn sagðist vita ráð; óþarft væri að fleygja heilanum, það væri hægt að geyma hann í spíritus.
 Að svo mæltu lét hann heilann í gagnsæja glerkrukku og hellti spíritus yfir. Þau báru krukkuna inn í stofu og fundu henni stað á hillu sem bar skrautmuni. Öllum kom saman um að þar færi krukkan vel. Síðan luku þau við að borða.
 Við heilamissinn urðu engar teljandi breytingar á heimilisháttum. Fyrst í stað var talsvert um gestakomur. Fólk kom til að sjá heilann og þeir sem höfðu hreykt sér af gömlum spunarokki ömmu sinnar í stofuhorni litu nú öfundaraugum á heilann á hillunni. Sjálf fann hún fyrst í stað ekki til neinna breytinga á sér. Hún átti engan veginn erfiðara með að vinna húsverkin eða skilja dönsku blöðin; margt reyndist jafnvel auðveldara en fyrr og atvik sem áður ollu henni heilabrotum virtust nú ekki verð umhugsunar. En smám saman fór hún að finna til þyngsla fyrir brjósti. Engu var líkara en lungun hefðu ekki lengur nægilegt rými til að starfa og að ári liðnu fór hún til læknis. Nákvæm rannsókn leiddi í ljós að hjartað hafði stækkað usus innaturalis et adsidui causa. Hún afsakaði við lækninn að hún hefði gleymt allri latínu sem hún lærði í skóla og þolinmóður útskýrði hann fyrir henni hvernig missir eins líffæris hefði í för með sér breytingar á öðru; eins og maður sem glatar sjón sinni fær næmari heyrn, þannig hefði hjarta hennar aukið starfsemi sína að mun þegar heilans naut ekki lengur við. Þetta væri eðlileg þróun, lex vitae, ef svo mætti segja – og læknirinn hló við – enginn þyrfti að óttast að þau lög væru annað en réttlát. Hún gæti því verið óhrædd. Heilsan væri í bezta lagi.

(s. 47-49)

Fleira eftir sama höfund

Reicht euch ...

Lesa meira

Küche auszumessen

Lesa meira

Frau mit Spiegel

Lesa meira

Krabbentierchen, Hochzeit, Tod

Lesa meira

Eine Geschichte für Kinder

Lesa meira

Party an der Mauer aus Natursteinen

Lesa meira

Kvinde med spejl: noveller

Lesa meira

Stórbók: Tólf konur ; Veisla undir grjótvegg ; Leigjandinn ; Gefið hvort öðru ; Gunnlaðar saga ; Undir eldfjalli

Lesa meira

Hringsól: Ritdómur

Lesa meira