Fyrir mörgum mörgum árum skrifaði þýski bókmenntafræðingurinn Walter Benjamin grein um mikilvægi sögumennskunnar, þess að segja sögur upphátt fyrir annað fólk sem þá verður að einskonar þátttakendum í frásögninni. Greinina skrifaði Benjamin næstum sem minningargrein um hverfandi fyrirbæri, eitthvað sem nútíminn hefur að mestu útrýmt. Líklegast hefði hann, maðurinn sem í öðrum skrifum fagnaði tækninni sem gerði myndir endalaust eftirprentanlegar, glaðst yfir því að sjá að nú er sagnamennskan komin aftur, einmitt í krafti tækninnar. Hljóðbækur njóta vaxandi vinsælda og pöddur (tónhlöður, hljóðpungar eða hvað sem nýjasta þýðingin á ‘i-Pod’ er) hafa aukið enn á möguleika fólks til að taka inn efni í formi lifandi frásagna sem það hlustar andaktugt á - og gerist jafnvel þátttakandi í; hver hefur ekki séð hlæjandi fólk úti á götu, eitt með sjálfu sér og pöddunni sinni?
Frásögnin lifir líka góðu lífi í barnabókum. Eins og nemandi minn, Íris Dögg Jónsdóttir, bendir á í BA ritgerð sinni eru myndabækur fyrir börn ekki bara spurning um tengsl orða og mynda heldur fela þær einnig í sér hljóðrás, því bækur af þessu tagi eru yfirleitt ætlaðar yngri og lítt læsum börnum. Þær kalla á upplestur og jafnvel leiklestur, því leturbreytingar og ýmsir æsilegir atburðir krefja lesanda um tilþrif. Þetta á við um þær bækur sem hér eru til umfjöllunar: Kári litli og klósettskrímslið eftir Þórgunni Oddsdóttur (Mál og Menning, 2009), ljóðabókina Segðu mér og segðu ... eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson (Dimma, 2009), Skrímsli í heimsókn eftir eftir Áslaugu Jónsdóttur (Mál og Menning, 2009), Kalle Güettler og Rakel Helmsdal og Súperamma og sjóræningjarnir eftir Björk Bjarkadóttur (Mál og Menning, 2009).
Titill bókar Aðalsteins lýsir þessu ágætlega, en sú bók er ólík hinum að tvennu leyti. Annarsvegar er textinn í bundnu máli, þetta er ljóðabók fyrir börn (og fullorðna), og hinsvegar er hlutur myndanna ekki eins mikill og í hinum bókunum. Ljóðin eru ólík, allt frá því að vera léttilegar hugleiðingar og leikir með tungumál og upptalningar eins og „Gustur eða gjóla” sem er einskonar þula um íslensk orð yfir vinda, og „Taktu eftir, teldu betur” sem er einnig í þuluformi (eða romsu, svo vísað sé til annarar bókar Aðalsteins). Önnur lýsa draumum barna um engla og það að klifra upp í himininn, eins og „Engilfugl” og „Það var ekki ég”. Þó tóntegundin sé almennt létt og leikandi þá búa víða undir alvarlegri tónar sem eru kannski ekki sýnilegir strax en vekja upp áhugaverðar hugleiðingar um margbreytileika hversdagsleikans. Myndir Lindu Ólafsdóttur eru í formi myndskreytinga og bæta ekki endilega miklu við textana, en þjóna vel því hlutverki að gleðja augað og færa ýmsa furðuatburði í myndrænt form.
Furðurnar eru langtþvífrá hversdagslegar í fjórðu bók Áslaugar Jónsdóttur og félaga um litla og stóra skrýmslið, sem hafa upplifað bæði skin og skúrir í vináttu sinni. Í Skrímsli í heimsókn reynir enn einu sinni á þegar litla skrýmslið fær annan vin, loðna skrýmslið í heimsókn, og stóra skrýmslið verður útundan. Sagan er ofureinföld eins og fyrri sögurnar en býr þó yfir endalausum möguleikum, ekki síst í krafti frábærra mynda Áslaugar. Litanotkunin spilar hér heilmikið hlutverk, sérstaklega í síðasta hluta sögunnar þegar dökk og loðin skrýmslin leika sér með litríka kubba, en litagleðin gefur einmitt góðar vonir um farsælan endi, auk þess sem táknmál kubbana (sem raðast saman) kallar á samstöðu.
Samstöðu þeirra Óla og ömmu hans virðist einnig ógnað í Súperamma og sjóræningjarnir eftir Björk Bjarkadóttur, en þar er amman komin með kærasta og Óla líst ekki á blikuna. Í líflegum bardaga við sjóræningja (með smá hléi þarsem súperamma lætur undan þeirri freistingu að spila tölvuleik) reynist kærastinn þó ekki alslæmur. Að sjálfsögðu er unninn fullur sigur á sjóræningjunum þar sem nýju sokkabuxurnar sem amman klæðist koma við sögu því hún lokkar skipstjórann til að skoða munstrið og nær þá að fanga hann og binda með bleiku belti. Amman sýnir hér kvenlegri hliðar en oft áður og er það ánægjuleg viðbót.
Skrýmsl kemur svo aftur við sögu í bók Þórgunnar Oddsdóttur, Kári litli og klósettskrímslið, en þar segir frá litlum strák sem er meinilla við klósett. Kári er þó engin gunga, svona almennt, en hann veit að ofaní klósettinu býr óvætt sem étur börn. Eina nóttina þegar hann er alveg að pissa á sig hættir hann sér þó fram og viti menn, uppúr klósettinu kemur skrýmsli - og langar til að leika við Kára. Og þá verður sko gaman. Teikningar höfundar eru bráðskemmtilegar, klósettskrýmslið er grænt margarma fyrirbæri með gisnar tennur og stór augu og rekur fálmarana ógnandi upp úr klósettskálum. Á einni síðunni, þarsem Kári liggur angistarfullur uppí rúmi, myndar lúin planta skugga sem er alveg eins og klósettskrýmslið og þannig er lesanda sýndur heimur barnsins á ýmsan hátt.
Eins og áður sagði spilar leturgerð og leturstærð stórt hlutverk í öllum bókunum. Orð eru stækkuð upp og minnkuð, þau breyta litum og svífa á stundum yfir síðuna í óreglulegum öldum, í stað þess að skipa sér niður í beinar línur. Leturbreytingar kalla á tilbrigði í upplestri, alveg eins og vísur Aðalsteins kalla á það að vera lesnar upphátt (enda kom líka út hljóðbókarútgáfa). Kannski vinsældir pöddu-lestra ýmiskonar séu einmitt tilkomnar af þessu, að endurupplifa þá ánægju að láta lesa fyrir sig? Það að láta segja sér sögur er allavega ein af bestu bernskuminningum þeirrar sem þetta skrifar.
Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2009