Beint í efni

Norrænar bókmenntir

Norrænar bókmenntir
Höfundur
Örvar Þóreyjarson Smárason
Útgefandi
Nýhil
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Ljóð
Norrænar bókmenntir
Höfundur
Haukur Már Helgason
Útgefandi
Nýhil
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Ljóð
Norrænar bókmenntir
Höfundur
Óttar Martin Norðfjörð
Útgefandi
Nyhil
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Ljóð
Norrænar bókmenntir
Höfundur
Eiríkur Örn Norðdahl
Útgefandi
Nyhil
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Ingi Björn Guðnason

Gamall þrjótur, nýjir tímar eftir Örvar Þóreyjarson Smárason
Rispa jeppa eftir Hauk Má Helgason
Gleði og glötun eftir Óttar Martin Norðfjörð
Blandarabrandarar (die Mixerwitze) eftir Eirík Örn Norðdahl

Nýhilhópurinn hefur verið nokkuð áberandi síðustu þrjú árin eða svo, gefið út ljóðabækur, greinasöfn og skáldsögu. Einnig hefur hópurinn staðið fyrir líflegum upplestrakvöldum ásamt því að halda vel heppnað ljóðapartý um síðustu verslunarmannahelgi þar sem fjöldi erlendra og íslenskra ljóðskálda kom fram. Í haust boðaði hópurinn svo útkomu níu ljóðabóka eftir jafnmarga höfunda undir yfirskriftinni Norrænar bókmenntir. Fyrri skammtur þessa bókaflokks kom út fyrir skemmstu og eru bækurnar í honum eftir Eirík Örn Norðdahl, Hauk Má Helgason, Óttar Martin Norðfjörð og Örvar Þóreyjarson Smárason. Von er á seinni skammti bókaflokksins næstkomandi vor en höfundar hans eru Krístín Eiríksdóttir, Steinar Bragi, Valur Brynjar Antonsson, Ófeigur Sigurðsson og Þórdís Björnsdóttir. Það er rétt að geta þess áður en lengra er haldið að bókakápur þessara verka eru afar vandaðar og í raun listaverk í sjálfu sér. Sé bókunum raðað í réttri röð mynda kylir þeirra mynd eða brot af mynd, sem verður trúlega ekki heil fyrr en með seinni skammtinum í vor. Það eru þau Kristín Eiríksdóttir og Örvar Þóreyjarson Smárason sem eru höfundar kápulistaverkanna. En snúum okkur að innihaldi verkanna.

Gamall þrjótur, nýir tímar er titill fyrstu bókarinnar í flokknum og er hún eftir Örvar Þóreyjarson Smárason. Þetta er lágstemmd ljóðabók með nokkuð knöppum ljóðum. Sum þeirra eru frumleg og falleg lítil ástarljóð með óvæntu og skemmtilegu myndmáli, önnur innhverfari, enn önnur ljóð eru dálítið skondin en um leið agressív, þau fjalla um eitt og annað eins og herbergisþernur, brúðkaup og prjónakonur. Einnig er að finna ljóð sem teygja á tungumálinu og merkingu orðanna og eru á mörkum þess að vera hljóðaljóð:

[...] skransa ég við fuglabjarg
yfirgnæfi ástargarg ilma af
lýsisropa, aööarg
ullarhosumíííííííííííííííííííííííííííííííííííííííííííííííííí
íííííííííííí
(bls. 38)

Það er áberandi samhengi á milli ljóðanna í bókinni. Þau einkennast af ákveðnum og skýrum tóni ljóðmælanda sem gengur í gegnum öll ljóð bókarinnar, jafnvel þótt sum þeirra séu ávörp til annarar persónu, ýmist í eintölu eða fleirtölu, og sum séu sögð í fyrstu persónu. Ljóðin eru heldur ekki skýrt afmörkuð, t.d. með ákveðnum titlum, þótt fyrstu línu sumra ljóðanna megi lesa sem titil, eina afmörkunin er lítið strik sem er sett á milli einstakra ljóða. Annað atriði sem gerir þessa bók heilsteypta er ákveðin endurtekning í myndmáli. Þetta er vel heppnað og fær lesandann til að hugsa um bókina sem heild. Til dæmis er fjölbreytt augnmyndmál endurtekið hvað eftir annað í ólíkum útfærslum. Þegar best tekst til eru þessar myndhverfingar allt í senn fallegar, óvæntar og ganga auk þess í gegnum heilt ljóð:

ég loka fyrst öðru
og svo hinu
koffortinu, silungakerinu

og kalla upp
í huga mér
brjóst

í fjarska

þau eru löguleg
þau eru söguleg
og rífa vatnsyfirborðið

eftir öll þessi ár
veit ég enn
hvað ég þarf
til að svæfa mig
(bls. 26-27)

Einstök ljóð í bókinni eru reyndar ekki sérlega sterk í sjálfu sér, en þrátt fyrir það er ekki hægt að segja að þau megi missa sín því þau virka innan þeirrar heildar sem bókin er. Í þessu felst einmitt helsti kostur bókarinnar, þ.e. endurtekning í myndmáli, þar sem máninn, nefrennsli, hor, tunguber og augu birtast aftur og aftur.

Bók Hauks Más Helgasonar, Rispa jeppa, skiptist í þrjá hluta; „Lundinn (næstum því)“, „Sesar A“ og „Guð“. Hver hluti hefur að geyma stutta prósa sem í heild mynda einskonar smásögur. Fyrsti hlutinn segir frá lunda (eða næstum því lunda) sem heillast af matvöruverslunum og þá ekki síst því kerfi sem innan slíkra verslanna ríkir, hvernig hlutunum er raðað upp, áferðinni og útlitinu. Lundinn fær sér vinnu í matvöruverslun og kemur því þannig fyrir að hann getur flutt þangað inn, án þess að nokkur viti af því. Þessi lundi hagar sér í alla staði eins og manneskja: talar, notar tölvur o.s.frv.

Annar hluti bókarinnar byggist á nokkrum bréfum frá Sesari A sem hefur flakkað um með lestum frá borg til borgar en að endingu látið staðar numið, a.m.k. tímabundið, í furðulegri borg. Það er dálítill dystópíubragur yfir þessari borg, þar gilda t.a.m. allt aðrar reglur en annarsstaðar. Til dæmis hefur verið brugðið á það ráð að fella niður dómskerfið en efla löggæsluna því meira. Lögreglan hefur upp á glæpamönnum á örskömmum tíma en refsingar eru ekki til staðar. Í borginni er túristatímabilið ellefu mánuðir og túristarnir virðast einkum koma til borgarinnar í þeim tilgangi að skoða hvorn annan. Borgin sjálf er sérstaklega staðsett eins og fram kemur í samtali Sesars við Ítala sem þekkir vel til borgarinnar: „Borgin stendur á fjalli sem er gert úr sorpi og fer rísandi. Innan tíðar hélt hann [Ítalinn] því fram að neðstu lög fjallsins yrðu að kolum og olíu, orkulind sem á að duga til að knýja fjallið sjálft áfram.“ (bls. 31).“ Þetta er skemmtilegt sögusvið sem gaman hefði verið að sjá unnið frekar með. Þriðji hluti bókarinnar samanstendur af sögum af Guði og vandræðum hans. Þetta er besti kafli bókarinnar, mjög fyndinn og skemmtilega skrifaður. Hér er gengið alla leið í persónugervingu Guðs og hugmyndin um gamla manninn með hvíta skeggið skrúfuð í botn. Með þessari algjöru persónugervingu verður máttur Guðs annarlegur, hugmyndin um hinn algóða Guð er til að mynda skoðuð í fyrsta hluta kaflanns:

Guð var á bömmer eftir þetta djók með Job, allt saman. Hann settist á gaddavírsgirðingu og hugsaði með sér: Ókei, gott og vel, fyrst ég gerði þetta, fyrst ég lét undan skrattanum af þessum hégóma, hlýtur það að hafa verið gott. Og þá hlýtur hégómi að vera góður. Svo hann dró upp spegil, leit framan í sjálfan sig og snyrti lítillega á sér skeggið. Tími til kominn, hugsaði hann, ég þarf að fara að sitja fyrir á mynd. Hann leit einu sinni enn í spegilinn, blikkaði sjálfan sig, og hvarf svo út í buskann, til að sitja fyrir á stórkostlegu málverki eftir mikinn listamann.
(bls. 48).

Almætti Guðs er líka skoðað útfrá persónugervingunni, en þegar Guð er orðin svona gjörsamlega persónugerður verður almættið í raun fáránlegt. Það kann að virðast fáránlegt að láta Guð sitja á gaddavír, keyra um í sportbíl, liggja í faðmi kærustu og svo mætti áfram telja, en í raun er bara stigsmunur á þessu og því hvernig trúaðir, og stundum trúlausir, tala um Guð. Þessi algjöra persónugerving dregur fram eitthvað fáránlegt sem virkar á skjön við almættið: „Það hefur verið sagt um Guð að hann líði nokkra innilokunarkennd af því að geta ekki gert annað en gott. Að honum finnist stundum þrengt að sér af alvisku sinni og almætti – að eiga ekki eftir að sigrast á nokkrum hlut.“ (bls. 48).

Haukur Már skrifar vandaðan og skemmtilega texta, þeir er fyndnir en búa þrátt fyrir það yfir einhverjum alvarlegum blæ. Fyrst og fremst eru þetta skemmtilegar sögur, í þeim er þó velt upp alvarlegum spurningum en ávallt í gamansömum tóni. Eins og fyrr segir þá eru hér á ferðinni prósar, en þrátt fyrir það gefur káputexti bókarinnar til kynna að bókin samanstandi af ljóðum: „Skuggarnir taka á sig mynstur og ljóst verður að ljóðin eru flækjur úr litríku garni“. Hér er sannarlega ekki ætlunin að fara útí umræðu um hvar mörkin á milli prósa og prósaljóða liggja. Það er í öllu falli erfitt að draga línu í sandinn og kveða uppúr um það. Ég kýs þó að líta á texta bókarinnar sem smáprósa sem mynda einskonar smásögur. Að kalla prósa bókarinnar Rispa jeppa ljóð er þó fullkomnlega í takt við þá spurningu sem er undirliggjandi bókaflokknum í heild sinni. Spurningin: hvað er ljóð? Bækur Óttars og Eiríks, sem vikið er að hér að neðan, reyna á þanþol ljóðaformsins og á vissan hátt gerir þessi káputexti bókar Hauks Más það líka. Hann fær lesandann a.m.k. til að velta því fyrir sér hvað þurfi til að geta kallað tiltekinn texta ljóð. Er nóg að segja einfaldlega: þetta eru ljóð?

Í Gleði og glötun heldur Óttar Martin áfram að vinna útfrá svipuðum hugmyndum og fram komu í fyrstu ljóðabók hans sem ber nafnið Grillveður í október (2004) og voru einnig til staðar í annari bók hans Sirkus (2005). Grillveður í október er, að því er virðist, að nokkru unnin beint upp úr umfjöllunarefnum dagblaðanna og er því mjög ákveðið samtímaverk. Áræðanlega fyrst og fremst skrifuð í þeim tilgangi að virka og skipta máli núna en ekki endilega eftir fimm ár. Með Gleði og glötun tekur Óttar þetta skref enn lengra því í henni eru dagblöð og fjölmiðlar beinlínis hráefni bókarinnar að hluta til. Bókin er nefnilega klippilistaverk, sambland af myndlist og ljóðlist. Þetta er vægast sagt áhugavert form sem býður upp á fjölmarga möguleika, t.d. til beinskeyttrar samtíma ádeilu líkt og Gleði og glötun er.

Líkt og í fyrri verkum sínum notar Óttar einfalt tungumál, algjörlega flúrlaust og óljóðrænt. Áhrif Gleði og glötunar verða fyrst og fremst til í sambandi mynda og texta, en einnig vegna þess samhengis sem hið einfalda tungumál er sett í. Gagnrýni bókarinnar er afar beinskeytt eins og fyrr segir. Hún snýr einkum að neyslusamfélaginu og þeirri orðræðu sem einkennir styrjaldarhyggju bandarískra stjórnvalda. Neysluhyggjan og styrjaldarhyggjan blandast reyndar saman á mjög skýran hátt, þar sem orðið „satan“ er sett í staðin fyrir verðmerkingar í auglýsingum. Orðræða bandarískra stjórnvalda hefur einkum byggst á því að skipta heiminum og mannfólki uppí tvo andstæða póla, góða og vonda. Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að guð og satan (a.m.k. guð og hið illa) eru lykilorð í orðræðu bandarískra stjórnvalda vegna hins svokallaða stríðs gegn hryðjuverkum og vegna Íraksstríðsins. Íslensk stjórnvöld hafa svo fylgt í kjölfar þeirra bandarísku og tekið þessa orðræðu upp og Óttar bendir á þessi tengsl á margvíslegan hátt.

Hernaðarhyggja íslenskra stjórnvalda er tengd við bandarísk stjórnvöld á ýmsan hátt, eitt augljósasta dæmið um slíkt er „Sam frændi“ sem í bókinni er orðinn handbendi Sjálfstæðisflokksins, bendir á lesandann og segir „Sjálfstæðisflokkurinn – við viljum þig –“ (bls. 54).

Það er ákveðin mótsögn sem er undirliggjandi í verkinu og birtist að vissu leiti í titlinum þar sem gleðin og glötunin fylgjast að. Í þessari mótsögn felst einhverskonar sjálfsgagnrýni, því þótt bókin sé eins og fyrr segir afar gagnrýnin á samtímann, þá er einnig bent á hve máttlaus og inntantóm þessi gagnrýni getur verið. Lesandinn er spurður hvaða tilgangi þetta þjóni:

Farðu í kröfugöngu,
mótmæltu mismuni og ójafnrétti,
skapaðu stemmingu,
það skiptir engu máli,
hafðu hátt og öskraðu falleg slagorð,
reyndu að breyta heiminum,
það skiptir engu máli,
(bls. 53)

Á næstu opnu birtist svo mynd af höfundi fyrir neðan háan kirkjuturn og efst í horninu vinstramegin segir: „Óttar says ´why not give peace a chance?’“ (bls. 55). Og maður getur ekki annað en spurt sig hvort þetta fallega slagorð skipti yfirleitt einhverju máli?

Blandarabrandarar (die Mixerwitze) er fjórða ljóðabók Eiríks Arnar Norðdahl. Í henni notast höfundur við klippiaðferð sem í stuttu máli felst í því að búnir eru til textar úr öðrum textum. Klippiaðferðin er heillandi, kannski ekki alltaf vegna afurðanna sem af henni hljótast, heldur frekar vegna aðferðarinnar sjálfrar. Slagorðið „miðillinn er merkingin“ á kannski við í þessu samhengi. Bókmenntir sem byggja á þessari aðferð eru oft ekki sérlega auðlesnar og bók Eiríks Arnar er sannarlega ekki afþreyingarlesning á heildina séð. Þrátt fyrir það eru mörg ljóðanna merkilega aðgengileg, auðlesin og auðskilin, a.m.k.miðað við þá aðferð sem notuð er.

Tungumálið er hráefni skáldskaparins og möguleikarnir innan kerfis tungumálsins eru nær óþrjótandi þótt það sé vissulega takmörkum sett eins og öll önnur táknkerfi. Klippiaðferðin er einkum heillandi vegna hins óvænta og tilviljunarkennda sem henni fylgir. Henni má kannski líkja við höggmyndalist. Tiltekið grjót er hráefni myndhöggvarans, sem getur hoggið hvað sem hann kýs úr þessu grjóti en grjótið sjálft takmarkar einnig þá möguleika sem myndhöggvarinn hefur, því lögun þess, sprungur og annað setur myndhöggvaranum ákveðnar skorður. Hið sama gildir um textann eða textana sem eru hráefni rithöfundar sem notast við klippiaðferðina. Hráefnið býður uppá fjölda möguleika, en það takmarkar möguleikana líka og getur jafnvel tekið völdin að nokkur leiti. Allt þetta birtist í Blandarabröndurum Eiríks Arnar sem er í heildina séð vel heppnað verk, einkum vegna þess að það er bæði tormelt og auðmelt í senn.

Einn af textum bókarinnar virðist vera einhverskonar enduruppröðun á Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr. Undirritaður hefur reyndar ekki gert sérstaka athugun á því en orð eins og „þáfjall“ „sólvængjuð“ og „fjórvíðra“ eru trúlega ekki að finna í mörgum öðrum textum. Tíminn og vatnið hefur gjarnan verið talið eitt torskildasta ljóð módernismanns. Það viðhorf byggir auðvitað á þeirri illslökkvanlegu þörf að þurfa að rökvæða alla texta, skilja þá á sambærilegan hátt og við skiljum, eða teljum okkur skilja, einfaldasta lesefni. Það má líta á texta Eiríks sem ábendingu um þetta viðhorf, kannski fáránleika þess. Að forminu til er þetta prósatexti sem ber nafnið „Hnoða blóm“ og er trúlega óaðgengilegasti og torlesnasti texti bókarinnar, hann er í raun fullkomnlega óskiljanlegur, einhver myndi segja bull:

í yfir við sál vatnið koma berst sprengir og var þakskeggi ég sólskinið mánans flýjandi um minni hvíta og rignir vatninu blysmöskvum hugsanir og eins mín falla hinar fjarlægðarinnar brotnar veiða hönd fljótsins meðan til vængjum og vatnið tollir út og guð hrapandi myrkur [...]
(bls. 12)

Hvað á þetta að þýða? Hefur svona texti yfirleitt eitthvað að segja? Það væri mjög einfalt að svara þessum spurningum neitandi og kveða í framhaldinu uppúr um að þetta sé bull! En það má finna áhugaverða virkni í þessum „bull“ texta á sviði lestrarupplifunar. Ef maður á annað borð þrælar sér áfram og les „bullið“ er óhjákvæmilegt að reyna að finna einhverja skiljanlega þræði. Ljá einstaka orðaröðum merkingu, láta þær mynda skiljanlegar setningar, a.m.k. fá einhvern botn í merkingarleysuna. Lesandinn er því settur í aðalhlutverk. Honum er frjálst að finna merkingu úr merkingarleysunni, eða kasta fyrir róða hinni hefðbundnu lestraraðferð og leyfa orðunum einfaldlega að hljóma í rökleysu sinni.

Einn megin þráður þessa verks snýr að lestri og lestrareynslu. Nokkur ljóð í bókinni bera nafnið „Naglasúpa“ og eru númeruð frá I upp í VI. Þessi ljóð eru einskonar þulur þar sem sögn í boðhætti er endurtekin hvað eftir annað í samhengi við ýmiskonar matvæli, t.d. er hér brot úr ljóðinu Naglasúpa II: „Brytjið melónuna!/Brytjið eggin!/Brytjið spergilinn!/Brytjið pylsurnar!/ Brytjið krókantið!“ (bls. 19). Þetta er tungutak matreiðslubóka og eðlilegt í því samhengi, ef ekki væri fyrir upphrópunarmerkin sem vísa e.t.v. til einhvers annars (a.m.k. minnist ég þess ekki að hafa séð upphrópunarmerki mikið notuð í slíkum ritum). Endurtekningin er sefjandi og lesandinn býst ekki við öðru en að áfram sé haldið með sagnir í boðhætti í tengslum við nafnorð sem tákna matvæli. Boðhátturinn er á einhvern hátt eðlilegur í samhengi við nafnorð sem tákna matvæli en þegar nafnorð eins og fátæklingar koma í staðinn þá gerist eitthvað. Textinn verður ofbeldisfullur og boðhátturinn hættir að vera kurteisislegur og eðlilegur og upphrópunarmerkin fara að vega þyngra. Naglasúpuljóðin eru gott dæmi um aðgengilegustu texta bókarinnar. Þeir eru einfaldir en undir einfaldleikanum býr eitthvað meira. Annað gott dæmi um aðgengilega texta í bókinni eru stutt ljóð sem greinilega byggja á dagblöðum:

Fagnaðir þú kvennafrídeginum?
-DV 26.október

Að upplifa mig
betri í minnihluta
fannst mér yndislegt.
(bls. 14)

Bókin endar á eftirmála sem ber titilinn „Eftirmáli: Lausnir“ en eðlilega eru engar almennilegar lausnir eða svör þar að finna líkt og voru í stærðfræðibókunum í framhaldsskóla. Eina lausnin sem lesandanum er gefin er þessi: „Rýndu betur. Myndin er þarna. Á bakvið ljósið. Þú hefur lesið þennan texta áður.“ (bls. 62). Lesandinn er því eggjaður til að rýna og finna sínar eigin lausnir og af þeim sökum vill sá lesandi sem þessi orð skrifar ekki endilega troða sínum „lausnum“ upp á lesendur. Form bókmenntaumfjöllunar býður mér samt að gera það svo ég endurtek orðin úr eftirmálanum og segi: rýndu betur. Lestu aftur. Þú hefur lesið þennan texta áður.

Ingi Björn Guðnason, desember 2005