Smekkleysa sm.ehf. var á sínum tíma stofnað fyrst og fremst utanum plötuútgáfu Sykurmolanna en sýndi hinsvegar fljótlega að þar yrði ekki staðar numið, og fyrir utan að sinna útgáfu á tónlist hljómsveita sem héldu sig frekar nærri jaðrinum réðst fyrirtækið í bókmenntaútgáfu með skáldsögum Jóns Gnarr og Jóhamars seint á níunda áratugnum. Síðan þá hefur bókaútgáfa reyndar ekki verið sérlega áberandi hjá fyrirtækinu, utan listabókar eftir Gabríelu Friðriksdóttur og sýningarskráa utanum dagskrár/sýningar eins og Orðið tónlist og Humar eða frægð. Nú virðist hins vegar sem nýju lífi hafi verið hleypt í bókmenntaarm Smekkleysu, en í fyrra birtust tvær litlar bækur undir yfirskriftinni Smárit Smekkleysu. Það þriðja kom svo út fyrr á þessu ári og nú hafa tvær nýjar bæst í hópinn, eftir sömu höfunda og riðu á vaðið í fyrra, þá Braga Ólafsson og Óskar Árna Óskarsson. Það sem einkennir þessa útgáfu, fyrir utan sérlega fallegt lítið brot, er að hér ríkir lítill hátíðleiki gagnvart skáldskapnum, svona álíka og nafnið Smekkleysa gefur til kynna. Það þýðir þó ekki að óþarfi sé að taka bækurnar alvarlega, það er þvert á móti mjög mikilvægt, en þó ber að varast of mikinn hátíðleika.
Braga hefur nú bæst liðsauki í Einari Erni Benediktssyni, sem á hálft smáritið Mátunarklefinn og aðrar myndir. Framlag Einars eru teikningar en hann hefur einnig séð Braga fyrir teikningum á bókakápur hans á vegum annarra forlaga. Sem fyrr passa myndirnar vel við hugarheim Braga sem varpar skuggamyndum í textaformi á sínar síður. Fyrir utan að hitta manninn í mátunarklefunum í “Mátunarklefinn”, upplifir lesandi samfellu hljóðs og myndar þegar að lokum tekst að festa hringjandi síma á mynd í “Hljóð og mynd”, fregnar að hin myrku öfl heimsins munu alltaf fara með sigur af hólmi í “Hin myrku öfl” og horfir inn um gluggann á “Bögglapóststofunni, Tryggvagötu”. “Skuldir heimilana” vaxa meðan fjölskyldan fer í “la promenade” og barnið lærir að setja saman orð. Sami barnavagn leggur síðar í flókið ferðalag um borgina. Sumar myndirnar eru íhugular, aðrar fyndnar, stöku myrkar; flestar skondnar og skemmtilegar þó sumar missi marks. Sömuleiðis eru myndir Einars Arnar bæði ánægjulega furðulegar og dýrlega kynlegar, og minna á einhvern undarlegan hátt á myndlist Azteka.
Í heildina er eitthvað afslappað yfir þessu öllu saman, líkt og í fyrri smáritunum birtist skáldskapurinn hér sem leikur, skyssuvinna, púsluspil úr orðum og myndum. Það sama má segja um Sjónvillur Óskars Árna, sem eru allar samtöl. Segja má að þetta sé einskonar tilraunastarfssemi með samtalsformið, einhverntíma hefði þetta líklegast verið kallað örleikrit, líkt og smáritin í heildina eru útgáfa einskonar örverka. Samtöl Óskars eru flest frekar absúrd, þó sum séu hversdagslegri, þau fara fram á börum, í búðum og úti á götu og í einu þeirra hefur hlaupið ofvöxtur í eyru viðmælanda. Sjónvillan sjálf hefur með bílvél að gera og í einu samtalinu er vísað til fyrri smárits höfundar, Ráð við hversdagslegum uppákomum, þar dugir ráðið vel þegar losna á við lík sem óvænt finnst í skotti bílsins í miðri lautarferð. Þó um samtöl sé að ræða eru þau mörg hver sérlega myndræn, eins og til dæmis spjallið við manninn með álftina sem reynist vera gangandi skúlptúr. Og sum þeirra missa marks eins og sum myndverkanna í Mátunarklefanum, en það er allt í lagi, því í báðum bókum er svo margt sem gleður, yljar, kitlar og vekur til umhugsunar að það nægir í marga húslestra.
Úlfhildur Dagsdóttir, október 2007