Æviágrip
Birgitta Jónsdóttir fæddist í Reykjavík þann 17. apríl 1967. Hún ólst upp í Þorlákshöfn og Reykjavík en stundaði einnig nám í heimavistarskólum og lauk grunnskólanámi á Núpi í Dýrafirði. Birgitta hefur sótt fjölmörg námskeið á sviði netmiðlunar og skapandi hugsunar. Hún hefur búið víða um heim, meðal annars á Norðurlöndunum, Ástralíu, Bandaríkjunum, Nýja Sjálandi, Englandi og í Hollandi.
Birgitta hefur skrifað greinar og tekið viðtöl fyrir blöð og tímarit allt frá árinu 1988, og má þar nefna Morgunblaðið, Tölvuheim, Veru og The Reykjavík Grapevine. Hún hefur tekið þátt í og stjórnað fjölmörgum list- og menningarviðburðum, þar á meðal margmiðlunarhátíðinni Drápu sem var á dagskrá Listahátíðar 1996 en þar var í fyrsta sinn myndefni sent beint út á vefinn á Íslandi. Ríkissjónvarpið gerði heimildarmynd um Drápu sem sýnd var í RÚV sama ár. Birgitta var ein þeirra sem skipulagði hátíðina List gegn stríði árið 2003. Hún setti upp og hafði listræna umsjón með listasmiðju Apple á Íslandi frá 1996 – 1998 en smiðjan var fyrsta lifandi galleríið á netinu hér á landi. Auk ritstarfa og útgáfu hefur hún unnið ýmis störf, svo sem í plötubúð, í frystihúsi, við umbrot og hönnun, blaðamennsku, grafíska hönnun og þingmennsku á Alþingi Íslendinga.
Birgitta hóf snemma að senda frá sér ljóð, fyrsta útgefna bók hennar var ljóðabókin Frostdinglar sem kom út hjá Almenna bókafélaginu 1989 en áður höfðu ljóð eftir hana birst í tímaritum og safnritum. Hún var frumkvöðull sem netlistamaður á Íslandi og er mjög virk á því sviði og hefur fjöldi verka eftir hana birst á netinu á íslensku og fjölmörgum öðrum málum. Ljóð og önnur hugverk eftir hana hafa einnig birst í tímaritum, safnritum og fleiri miðlum víða um heim. Hún er einn af stofnfélögum í e-poets. Birgitta skilgreinir sig sjálf sem fjöllistakonu, enda fæst hún við bókmenntir, myndlist, tónlist og vídeóverk þótt textagerðin sé þar fyrirferðamest. Birgitta hefur sent frá sér fjölda smákvera sem geyma ljóð og myndir eftir hana og fyrsta skáldsaga hennar, Dagbók kameljónsins, kom út 2005. Bókin er í dagbókarformi eins og titillinn gefur til kynna og byggir hún á endurminningum skáldkonunnar sjálfrar. Þá hefur hún þýtt skáldskap annarra á íslensku auk verka af öðrum toga.
Birgitta hefur komið fram á fjölda ljóða- og listhátíða hér heima og erlendis, m.a. í Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada, Portúgal og Makedóníu og hefur tekið virkan þátt í samstarfi skálda á alþjóðlegum vettvangi.
Frá höfundi
Frá Birgittu Jónsdóttur
Fyrsta ljóðið mitt orti ég í rútu á bréfpoka með augnblýanti á leiðinni frá Reykjavík til Hveragerðis. Bekkurinn minn hafði farið í starfskynningu þennan dag og ómeðvitað tók ég þetta skref eftir að hafa eigrað um verksmiðju Vífilfells og ekki fundið nein teikn um framtíð fyrir mig í hinum vélræna heimi iðnaðarins. Skrifaði ljóð sem heitir Svartar rósir og fjallar um það sem mín kynslóð óttaðist hve mest; eftirmála kjarnorkustyrjaldar. Og eftir það var ekki aftur snúið. Ég sýktist af vírus sem heitir orðið og hef ekki hætt að skrifa síðan ég páraði á poka á fjórtánda ári.
Eitt leiddi af öðru og ég var svo lánsöm að fá ljóð mín birt víða á þessum fyrstu árum tilrauna minna með orð. Ég fékk fyrstu ljóðabókina útgefna hjá AB þegar ég var um tvítugt og fékk ritlaun skömmu síðar. Beinast lá við að feta hina hefðbundnu slóð íslenskra rithöfunda. En í millitíðinni hafði ég uppgötvað að ég gæti málað og önnur lönd toguðu í mig. Eðli sígaunans tók yfir og ódrepandi þörf á að fara mínar eigin leiðir. Þær torförnu slóðir hafa gefið mér óendanlega mikið í þann sarp sem ég sæki í nú þegar ég hef loks fest rætur við landið mitt. Núna fyrst er ég tilbúin að arka hina beinu og breiðu slóð þeirra sem á undan mér hafa gengið.
Árið 1995 fann ég þann miðil sem mér fannst sniðinn að mínum þörfum. Vefurinn bauð upp á að blanda saman ólíkum listformum við lítinn kostnað og að koma ljóðum mínum á framfæri við lesendur mína milliliðalaust. Ég heillaðist svo af þessu að ég losaði mig við tölvufælni mína og uppgötvaði annan hæfileika: ég get gert hvað sem er á tölvur, meira að segja unnið í frekar framandi umhverfi eins og unix og fékk nokkra ást á forritun á þessu tímabili. Á vefnum gat ég endurunnið mikið af mínu eldra efni, ljósmyndir, listaverk, orð og pistla. Ég gerði heilmargar tilraunir á þessum tíma með ljóð og forrit, myndmál, tónlist og þá möguleika sem netið gaf. Þessar tilraunir urðu til þess að mér var boðið að taka þátt í fjölmörgum samstarfsverkefnum á alþjóðlega vísu og fékk mikil og góð viðbrögð frá lesendum víðsvegar um heim. Þá var mér einnig boðið á allskonar skringilegar hátíðir í löndum sem ég hafði aldrei ímyndað mér að ég myndi heimsækja á minni lífstíð. Netið opnaði dyr að möguleikum sem ég hefði aldrei nýtt mér án tilkomu þess. Ég hefði einfaldlega aldrei vitað af þeim. Þá hafa ljóð mín fyrir vikið verið þýdd á fjölmörg tungumál og birst á ótrúlegustu stöðum. Hef fengið bréf frá fólki sem hefur tekið eftir ljóði eftir mig í dagblaði í Nígeríu, vill nota ljóð á loftbelgi, boli, límmiða, á blótum, í safnbókum, við tónlist eða í tímaritum. Uppáhalds beiðnin er sennilega sú að hafa verið beðin um að ljóð eftir mig yrði notað af þorpsbúum í litlu þorpi í Indónesíu til að prenta á boli sem seldir yrðu ferðafólki til að hjálpa íbúum þorpsins að komast á réttan kjöl eftir hörmungar flóðbylgjunnar sem reið yfir landið 2004. Þá þykir mér ákaflega vænt um að hafa sett saman tvær safnbækur með verkum skálda, listamanna og trúarleiðtoga sem okkar mennska svar við þeirri ómennsku sem eftirmálar 911 fólu í sér.
Þó ég sé nú farin að fást við að skrifa skáldsögur, er langt í frá að ljóðin missi sinn sess í lífi mínu. Mér finnst fátt eins ögrandi, en að sama skapi eins gott, og að yrkja ljóð. Á ögurstundum lífs míns hefur það að yrkja um það sem ég er að upplifa á þeirri stundu verið á við tíu tíma hjá sálfræðingi.
Máttur orðsins hefur verið mér einstaklega hugleikinn undanfarið. Ég var að ljúka við að þýða bók sem fjallar meðal annars um mátt orðsins og heitir Lífsreglurnar fjórar. Þar er talað um að það sem við segjum sé eins og svartigaldur ef við hugum ekki að áhrifum orða okkar. Eitt lítið orð getur hreinlega lagt hræðileg álög á aðra manneskju ef hún er móttækileg fyrir því og orðið til þess að líf hennar breytist um ókomna tíð. Að sama skapi getur maður létt álögum af öðru fólki ef svo ber undir. Þetta getur átt við lífið sjálft og sér í lagi mann sjálfan. Ég hef stundað svartagaldur á sjálfa mig sem tekur á sig mynd lítils púka sem situr á öxl minni og gagnrýnir og fordæmir allt og alla, sér í lagi sjálfa mig. Stunda núna miklar særingar við að koma honum út og ef hann getur ekki mælt fyrir opnum tjöldum þá er honum best að þegja. Þá er talað um að eitt mesta og versta mein mannsins sé árátta hans til slúðurs. Þetta er áhugavert, því ef eitthvað land er þjakað af slíkri áráttu er það fámennislandið okkar. Mér finnst þessar hugmyndir um mátt orðsins áhugaverðar, bæði á mannlegum nótum, en ekki síst sem manneskja sem skrifar orð í tíma og ótíma.
Blæbrigði í hverju tungumáli eru ekki síður mikilvæg og ég vona að við Íslendingar munum ekki tapa því ríkidæmi sem við eigum í tungumáli okkar. Ég hef tekið eftir því að hið talaða mál verður sífellt einhæfara og ef við pössum okkur ekki á að lesa og þroska málvitundina, munum við glata ómetanlegum fjársjóði sem felst í þessum blæbrigðum og tilfinningu fyrir þeim sem rekja má til forfeðra okkar og mæðra. Að þekkja rætur sínar er undirstaða allrar menningar og samfélagsvitundar. Þessi skilaboð skildu hinir fornu seiðmenn Mamas sem ég rakst á í Kólumbíu, enda hafa þeir séð menningu sína þurrkast út á undraskömmum tíma með tilkomu nýrra hefða frá okkar vestræna heimi, en ekki síst með tilkomu nýrra orða sem segja ekkert um þá þjóðsögu sem býr í hverju orði frumbyggjana. Segja má að við Íslendingar séum hátækni-frumbyggjar, með óeðlilegar áherslur á hátæknina.
Birgitta Jónsdóttir, 2006.
Um höfund
Countries without Borders: Um verk Birgittu Jónsdóttur
The cities of the world
are merging,
borders falling.
cultures crossing.Through the void
of cyberspace,
the earth is shrinking,
the sense for distance changing.One race,
emerging.
Floating through space,
virtually real.
I feel home
in every corner of the world.Expressions
through symbols,
we can all understand.
Art is the language,
the word still a virus
from outer space.Colors, forms, sounds, shapes,
interwoven
in interspace.Cities without borders.
Earth without borders.
Us without borders.The birth of the creative,
from the wild woman,
the sacred warrior.
a seed of unity.
Í ljóði Birgittu Jónsdóttur, „Countries without Borders“ („Lönd án landamæra“) úr samnefndri bók (2001), er því lýst hvernig borgir heimsins renna saman, landamæri mást út og menningarstraumar blandast. Heimurinn dregst saman í krafti sæbóls og tilfinningin fyrir fjarlægðum breytist. Nú tjáir fólks sig svo að allir skilja í gegnum list sem flæðir eins og vírus um hjáveruleika netsins. Ljóðið endar á kvenmynd, þarsem sköpunin flæðir frá konunni. Þannig mætti skoða ljóðið sem einskonar yfirlýsingu skáldkonunnar um eigið starf, en hún er frumkvöðull í því að nýta sér netið sem miðil fyrir list sína, bæði skáldskap, aðallega ljóð, og myndlist. Það er athyglisvert að sjá þessa kvengervingu netsins í ljóði Birgittu, en í vestrænni menningu er rík hefð fyrir því að tengja tækni karlmennsku. Hinsvegar hefur einmitt verið bent á að netið er uppfullt af kvenlegu myndmáli vefnaðar, auk þess sem heimssýn netsins, sem byggir á flæði og tengingum, stendur í raun nær konunni en karlinum.
Birgitta var ekki nema tuttuguogtveggja ára þegar hún gaf út sína fyrstu ljóðabók, Frostdinglar (1989) hjá Almenna bókafélaginu, en í kjölfar þeirrar útgáfu sneri skáldkonan sér að mestu leyti að útgáfu á netinu. Árið 2001 hóf hún þó útgáfu á pappír á ný, en nú undir eigin merkjum. Fyrst sendi hún frá sér röð stuttra ljóðabóka, eiginlega einskonar ljóðabæklinga, auk ljóðaplakata og loks skáldsöguna Dagbók kameljónsins (2005). Allar bera bækurnar merki tilrauna með form, eða uppbrots á formi, en slíka formleiki er auðvelt að rekja til reynslu skáldkonunnar af því að vinna með ljóð og list á netinu. Birgitta lýsir sjálfri sér sem fjöllistakonu og leggur mikla áherslu á að tengja saman myndlist og orð í verkum sínum, en þó virðist tungumálið og skáldskapurinn standa henni næst. Fyrir utan myndlist hefur hún unnið með tónlistarmönnum og gert vídeóverk. Hún heldur úti öflugri heimasíðu og bloggsíðum bæði á íslensku og ensku (sjá hér). Sem netlistakona hefur hún náð mikilli útbreyðslu, verk hennar má finna á vefsíðum víða um heim, og ljóð eftir hana hafa verið þýdd á fjölda tungumála. Flest ljóðanna á netinu eru á ensku, en hluti ljóðanna í útgefnum bókum eru á íslensku. Það að hafa ljóðin á ensku eykur augljóslega mjög möguleika þeirra til útbreyðslu eins og raun ber vitni, en hér að neðan má sjá nokkra tengla í síður með ljóðum Birgittu, og/eða umfjöllun um hana. Hinsvegar eru ljóðabækurnar gefnar út í litlu upplagi og standa í raun á mörkum listaverka og bóka, eru einskonar bókverk. Dreifingin er því allólík, annarsvegar eru ljóðin aðgengileg öllum nettengdum og hinsvegar takmörkuð vara og með þessu sýnir Birgitta hversu breiður vettvangur ljóðsins er: ljóðið getur verið allra og allsstaðar, en það getur líka verið fágæti, jafnvel spari.
Þetta tvennt kemur einnig saman í öðru helsta einkenni Birgittu Jónsdóttur sem skáldkonu, en það er jaðarstaða hennar í íslenskum bókmenntum. Það má með nokkrum rétti kalla Birgittu neðanjarðarskáld, sem virkar í raun ótrúlega þversagnakennt ef miðað er við þá útbreyðslu sem hún hefur í gegnum netið. Þó er ekki annað hægt en að staðsetja skáldkonuna á þennan hátt, því þrátt fyrir að vera nokkuð þekkt á alþjóðlegum ljóðasíðum og -tímaritum netsins er hún lítt þekkt á Íslandi. Annað sem skiptir máli er tungutak hennar, en það er afar háfleygt og dramatískt, og á þann hátt sver stíllinn sig einnig í ætt við neðanjarðarskáldskap. Í þriðja lagi er Birgitta mjög pólitískt skáld, en mörg ljóða hennar, sérstaklega þau frá síðari árum, fjalla um náttúruvernd og gagnrýni á stríð. Sjálf hefur skáldkonan svo verið áberandi í mótmælum gegn stóriðju og hernaði, reyndar svo áberandi og gengið svo hart fram að hennar er sérstaklega getið í ræðu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra um hryðjuverk (http://www.bjorn.is/greinar/2005/08/24).
Ljóðið „Fjallkonan“ á ljóðasíðunni ljod.is (sjá hér) er dæmi um náttúruverndarljóð en þar beitir Birgitta sínum tilfinningahlaðna stíl til að fjalla um stóriðju og náttúruspjöll:
Óhamin ást
flæðir inn í þungar jökululsár
streymir í gruggugan sjóinn sem umlykur
viðkvæman svörð landsinsÓrólegir draumar
fylltir
gráti og öskrum
meðan þeir skera djúpt í móðurkviðinnRisabor
treður sér í sköp náttúrunnar
Hleypir af með sífellt meiri græðgilosta
—álsæðinuDrunur og jarðhræringar
vekja okkur
við dögun þjóðarblekkingarHenni blæðir
Sárin eru djúp
Fóstrið sem inni í henni vex
hefur hundrað höfuð
nartandi í hvort annað
með hvössum tönnum skammtímagræðginnar
—eitruð úrgangsframtíðÍ fjarlægð sjáum við stóriðjuvininn
með áhyggjulaust glott sitt
Konungur fjallsins
blindaður græðgi
og metnaðiHún var hið ævaforna helgitákn
Tilbeiðslutákn til þessarar öfgakenndu náttúru
Villt fegurð sem sindrar í kristaltærum augum
—tákngerving hins íslenska hálendisÖldungar, vættir, hulin öfl og Íslandsvinir
mynda skjaldborg um landið
galdurinn stigmagnast
fóstureyðing
fóstureyðing
á marghöfða álfóstrinu
á stóriðjudraumnumGaldurinn er ást okkar
á sérhverjum fossi
á sérhverjum steini
á sérhverju fjalli
á sérhverju lífi
sem er á útrýmingarlistanum
Hér birtist sú persónugerfing náttúrunnar sem er einkenni rómantískra ljóða og lýsir einnig vel viðhorfi Birgittu, en hún aðhyllist kenningar um jörðina sem ‘Gaiu’, einskonar lifandi veru. Inní náttúrurómantíkina fléttast jöfnum höndum nútímaleg hörð pólitísk ádeila (þjóðarblekking, græðgi, metnaður) og þjóðtrúin, sem birtist í vættum og huldum öflum. Að lokum kemur ákall til lesenda um að taka höndum saman og stöðva útrýminguna. Í bókinni Ísland (2005) er einnig ljóð sem nefnist „Fjallkonan“, en það er mun hefðbundnara náttúruljóð. Náttúran er einnig persónugerfð sem kvenmynd og ljóðmælandi lýsir sjálfum sér sem hluta hennar.
Enska ljóðið „Taste of Blood“ er ádeila á Bush og stríðsrekstur hans og undir kaflanum „For Peace not War“ á heimasíðu Birgittu er að finna fjölda ljóða gegn stríði. Íslensk ljóð gegn stríði einkenna bókina Heimurinn (2005), meðal annars er þar að finna áhugaverðar vangaveltur um hvað teljast hetjudáðir og hverjir séu hetjur.
Eins og ljóst má vera eru ljóðabækurnar tematengdar, Ísland, Heimurinn, Dauðinn, Ást, Ótti (allar frá 2005), svo einhverjar séu nefndar, og eins og áður segir er mikið lagt uppúr hönnun bókanna og myndrænni eða efnislegri framsetningu. Þetta er í takt við birtingar Birgittu á vefnum, en hún leikur sér bæði með bakgrunni, myndefni og letur og skapar ljóðum sínum þannig mjög sérstæða umgjörð sem eykur mjög á upplifunina af þeim. Svipaða áherslu með umgjörð má sjá á sumum þeirra ljóðasíðna sem birta ljóð skáldkonunnar.
Eins og áður segir er tungutak Birgittu afar háfleygt og á stundum um of. Þó á hún einnig til léttleika eins og birtist í mörgum þeirra ljóða sem fjalla um þjóðsögur og ævintýri. Nokkur slík er að finna í bókinni Ævintýraljóð (2005) en fyrst ljóð hennar nefnist „Ævintýraljóðið“:
Langt inni í fjallinu
fela ævintýrin sig.
Þau eru allskonar
í laginu og á litinn.Til að laða ævintýri
inn í lífsmunstrin
þarf maður að loka augunum
og biðja þau um að koma.Einnig er hægt að labba út á götu
með galopið sinni.
og ímynda sér að
maður sé gegnsær.
Að vindurinn blási
í gegnum mann
en ekki á móti.
Svo er líka hægt að ímynda sér að
það séu ofurlitlir vængir á bakinu
og alltaf þegar maður tekur nýtt skref
þá dúar maður ofurlítið.Langbestu ævintýrin eru þannig
að þau laumast til þín
og verða hluti af veruleikanum
án þess þó að þú takir eftir því
fyrr en þú ert skyndilega
í miðju þess.
Stíllinn er hér allur annar en í fjallkonuljóðinu og myndmálið er sömuleiðis einfaldara og tærara, en ljóðið lýsir því hvernig ævintýrið er í raun allsstaðar og alltumkring, það þarf bara að opna augun – eða hugann – fyrir því. Þessi sýn er í raun í takt við þá lífsgleði sem heildarmynd skrifa Birgittu gefur til kynna, en þó hér hafi verið lögð áhersla á ádeilu og baráttu fer því fjarri að höfundarverkið sé allt drungalegt. Skáldkonan leggur mikla áherslu á ástina í ljóðum og lífi og leikir hennar með blogg eru kraftmiklir og húmorískir, en nú bloggar hún undir nafninu Joy B, og blogginu fylgja teikningar eftir listamann sem gengur undir nafninu The Hand. Sá nefnist öðru nafni Maurizio di Bona og í félagi við hann hefur Birgitta gert bráðskemmtileg myndasöguljóð (http://www.literati-magazine.com/magazine_features/spring05/designintent/birgitta-jonsdottir.html). Þetta form kemur sérlega vel út, því samspil kómískra og glaðlegra teikninganna og dramatískra ljóðanna skapar áhugaverða togstreitu. Ljóðin gefa teikningunum vikt jafnframt því að teikningarnar létta tóninn í ljóðunum.
Það var þó ekki beint létt yfir fyrstu ljóðabók Birgittu, Frostdinglum, en það kemur ekki í veg fyrir að þar er á ferðinni afar áhugaverður frumburður. Á sínum tíma man ég að ég varð fyrir miklum áhrifum af bókinni og við endurlestur, nú þessum 17 árum síðar, finnst mér bókin enn búa yfir heilmiklum áhrifamætti. Ljóðin eru almennt stutt og knöpp, öfugt við orðmörg ljóð skáldkonunnar nú, og bera merki áhrifa frá súrrealismanum, en ljóð þeirra Medúsufélaga voru enn mikill áhrifavaldur á ung skáld á þessum tíma. Sem dæmi má nefna „Mátt minninga“
Sverðfiskur syndir
um í lófa mínum.
Ég legg egg hans
í mynd fortíðar.Meðan ég sef skera
sverðfiskabörnin
holur í hörund mitt.Andardráttur þeirra
varð klukka lífsins.Myndin blóðlit.
Hér er nokkuð sterk mynd af óþreyju sem birtist sem sprikl í lófa. Í bókinni eru einnig að finna ljóð sem kallast á við ljóðskáldið Stein Steinarr, og eitt ljóð sem ber nafn hans, en Birgitta hefur lýst honum sem áhrifavaldi á skáldskap sinn.
Það er áhugavert að bera saman þessa ljóðabók og nýjustu útgefnu bók Birgittu, skáldsöguna Dagbók kameljónsins. Dagbókin er sjálfsævisöguleg og hefst á sjálfsmorði föður Birgittu, en nokkur ljóð í Frostdinglum eru einmitt skrifuð til minningar um hann. Það má sjá sterka þræði úr þessu byrjendaverki skáldkonunnar yfir í skáldsöguna sem er á allan hátt mun þroskaðra verk, enda tók samning sögunnar fjölda ára, og teygir sig alveg aftur til tíma Frostdinglanna.
Skáldsagan – því bókin er gefin út sem skáldsaga, þrátt fyrir að æviskrifin séu áberandi þáttur – ber mörg einkenni neðanjarðarútgáfu, bæði í útliti og stíl, og kemur þar helst til fyrrnefnd yfirdrifin dramatík sem í fyrstu virðist truflandi og óþörf, en þegar á líður fer þessi þráður að styrkjast og virka betur innan hinnar brotakenndu heildarmyndar verksins. Ljósmyndir og myndefni leika einnig stóran þátt í verkinu og skapa enn annan áhugaverða flötinn á þessari samþáttun minninga og skáldskapar, en ekki er betur hægt að sjá en að myndirnar sýni höfund á unga aldri. Sjálf hönnun bókarinnar undirstrikar svo enn viðfangsefnið, en í útliti minnir bókin á lúna dagbók og sumar síðurnar eru línustrikaðar, auk þess sem handskrifuð textabrot birtast meðal teikninga og skyssa. Þessi áferð öll og það hvernig hún styður við innihaldið er augljóslega framhald af vinnu Birgittu með netið sem miðil sem hún yfirfærir á bókina, það er, ekki netið sjálft, heldur áhesluna á miðilinn, það hvernig netið myndar ramma utanum ljóðin. Á sama hátt er bókin öll einskonar bókverk, allt frá ytri hönnun til framsetningar textanna til viðfangsefnis sögunnar.
Í bók sinni Borderlines: Autobiography and Fiction in Postmodern Life Writing (2003) fjallar Gunnþórunn Guðmundsdóttir um þátt skáldskaparins í æviskrifum (ævi- og sjálfsævisögum, dagbókum, bréfum, minningabókum) og sýnir fram á hvernig skáldskapurinn er ævinlega órjúfanlegur þáttur slíkra skrifa. Meðal annars birtist skáldskapurinn í því hvernig æviskrifin skapa sjálf, sjálfsmynd þess sem skrifar (eða er skrifað um), en slíkt sjálf hlýtur ávallt að vera tilbúið, samsett úr völdum minningum og hugmyndum, skrifað sem hefðbundin frásögn með upphafi, miðju og endi. Gunnþórunn fjallar meðal annars um æviskrif kvenna og bendir á að slík einkennast af sköpun þessarar sjálfsmyndar í gegnum togstreitu móður og dóttur, auk þess sem mótun sjálfsins helst í hendur við mótun konunnar sem rithöfundar.
Í eftirmála bókar sinnar, Dagbók kameljónsins, segir höfundurinn, Birgitta Jónsdóttir, að bókin sé „hugmyndafræðilega séð að hluta til byggð á mínum eigin dagbókum sem ég hélt í kringum tvítugsaldurinn.“ Hún bætir því við að hún hafi séð bókina fyrir sér sem „einskonar scrap book, þarsem ljósmyndir, teikningar, orð, ljóð, minningarbrot og dagbókarfærslur myndu spinnast saman í eina margbrotna heild.“ Þessi samsetning úr ólíkum brotum er einmitt eitt af því sem Gunnuþórunn bendir á sem einkenni framsækinna æviskrifa, þarsem skáldskapur, minningar, saga og heimildir blandast saman.
Dagbók kameljónsins er sett saman úr tveimur meginþráðum, annarsvegar er það dagbókin sjálf, sem hefst á Þorláksmessu með þessum orðum:
Það er feigðarilmur í lofti og hann blandast jólalyktinni. Ég dreg fram dagbókina mína og skrifa erfðaskrá aftast í hana. Ég á ekki margar veraldlegar eigur. Ákveð að gefa vinkonu minni allar bækurnar mínar og bróður mínum plöturnar. Ég finn að núna gerist eitthvað. Eitthvað sem ég veit í hjarta mínu en þori ekki að hugsa um. Á morgun er aðfangadagur jóla, en ég finn enga tilhlökkun. Ljósin eru dauf í ár.
Daginn eftir fremur faðir stúlkunnar sjálfsmorð. Dagbókin lýsir síðan tilraun stúlkunnar til að takast á við það áfall, jafnframt því sem hún glímir við samband sitt við móðurina. Inni á milli dagbókarfærslanna eru síðan minningarbrot frá æsku til unglingsáranna, en þar er lýst erfiðum uppvexti, átökum við móður og föður, ást á öfum og ömmum og litlum bróður, og svo auðvitað bókum. Átökin við móðurina eru þó í forgrunni, svo og átökin við sjálfsmyndina, en stúlkan lýkir sér við kamelljón að því leyti að hún er svo áhrifagjörn, tekur á sig þann lit sem er í bakgrunni hverju sinni. Þannig verður samband skáldskapar og sjálfsmyndar skýrt, sjálfsmyndin er mótuð í myndmáli og minningarbrotum, og átökin við sjálfsmyndina halda svo áfram í gegnum dagbókarbrotin – skrifin – og enda með dramatískri uppljómun.
Rithöfundarþátturinn er grannur en skýr þráður í gegnum söguna, en stúlkan lýsir sjálfri sér sem heillaðri af orðum og bókum og fer fljótlega að setja saman eigin sögur. Inni í dagbókinni rekst lesandi svo á ljóð hennar, og þannig er gefið til kynna að skrif, hvort sem er dagbókarskrif eða skáldskaparskrif, eru ríkur þáttur í tilveru stúlkunnar.
Dagbók kameljónsins er áhrifamikil og flott saga, sem býður lesanda uppá ýmiskonar átök við tilfinningar og texta og vangaveltur um form og mörk skáldskapar og sjálfsævisögu. Textinn er vel unninn og á köflum afar fallegur og öll hönnun og útlit verksins skapa bókinni sterka nærveru.
Í grein sinni, „Reading Floating Texts“, í nýju greinasafni, Literature and Visual Culture (2006), fjallar fræðikonan Gitte Mose um ólíkar leiðir til þess að setja skáldskap fram á netinu. Hún lýsir því hvernig þeir höfundar sem skrifa frásagnir nota sér iðulega allskyns tækni til að brjóta textann upp og láta lesandann um að setja söguna saman á eigin hátt. Í sama riti birtist grein eftir skáldkonuna og fræðikonuna Caitlin Fisher sem lýsir því hvernig hún hefur gert tilraunir með að birta sjálfsævisöguleg skrif á netinu sem brotna texta, svipað þeim sem Mose fjallar um. Báðar eru krítískar á að með netinu hafi enn sem komið er skapast raunveruleg nýbreytni í skáldskap, þó vissulega séu þær á því að netið bjóði uppá ýmsa möguleika, bæði í framsetningu og einfaldlega því að koma skáldskap á framfæri. Þessar vangaveltur eru áhugaverðar með hliðsjón af höfundarverki Birgittu, en segja má að hún hafi nýtt sér möguleika netsins á margvíslega vegu. Í fyrsta lagi til dreifingar á ljóðum sínum, í öðru lagi til framsetningar á þeim, sem síðan skilar sér út í prentuð verk. Í þriðja lagi má segja að höfundarverk skáldkonunnar nái langt út fyrir þau verk sem hér er fjallað um, en sú sterka net-nærvera sem Birgitta hefur gerir það að verkum að allt það sem hún skrifar á netið og allar birtingarmyndir hennar á netinu, á síðum annarra og eigin, eru hluti af hennar höfundar-verks-persónu, eins og hún reyndar lýsir sjálf og segir vera órjúfanlegan hluta listar sinnar. Netið er auðvitað kjörinn vettvangur kamelljónsins, því þar er endalaust hægt að aðlaga sig nýjum aðstæðum og máta sig við nýjan bakgrunn, jafnframt því að setja mark sitt á þá staði sem ferðast er um.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2006
Greinar
Almenn umfjöllun
Stefán Hrafn Hagalín: „Konur metnaðarfyllri á vefnum“
Tölvuheimur 2. tbl. 1996, s. 58.
Elísabet Þorgeirsdóttir: „Vefur ljóð sín út í geiminn“
Vera, 16. árg., 2. tbl. 1997, s. 40-42.
Elísabet Þorgeirsdóttir: „Orð skrifuð í þágu friðar: Birgitta Jónsdóttir gefur út bækur með hugverkum fólks frá öllum heimshornum.“
Vera, 21. árg., 2. tbl. 2002, s. 55-57.
Um einstök verk
Dagbók kameljónsins
Viðar Hreinsson: „Hrifla um Dagbók kameljónsins“
Kistan, vefrit sem hefur nú lagst af
Úlfhildur Dagsdóttir: „Kona verður til: Dagbækur, minningar, dætur og mæður“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Conversations with Ghosts
Lesa meiraLove is Love
Lesa meiraThe World
Lesa meiraLjóð á ensku í Mindfire
Lesa meiraReykjavík
Lesa meiraGoð og gyðjur
Lesa meiraGuð
Lesa meiraÓtti
Lesa meira
Tuttugasta öldin og lærdómar hennar
Lesa meira