Beint í efni

Birgitta Jónsdóttir

Æviágrip

Birgitta Jónsdóttir fæddist í Reykjavík þann 17. apríl 1967. Hún ólst upp í Þorlákshöfn og Reykjavík en stundaði einnig nám í heimavistarskólum og lauk grunnskólanámi á Núpi í Dýrafirði. Birgitta hefur sótt fjölmörg námskeið á sviði netmiðlunar og skapandi hugsunar. Hún hefur búið víða um heim, meðal annars á Norðurlöndunum, Ástralíu, Bandaríkjunum, Nýja Sjálandi, Englandi og í Hollandi.

Birgitta hefur skrifað greinar og tekið viðtöl fyrir blöð og tímarit allt frá árinu 1988, og má þar nefna Morgunblaðið, Tölvuheim, Veru og The Reykjavík Grapevine. Hún hefur tekið þátt í og stjórnað fjölmörgum list- og menningarviðburðum, þar á meðal margmiðlunarhátíðinni Drápu sem var á dagskrá Listahátíðar 1996 en þar var í fyrsta sinn myndefni sent beint út á vefinn á Íslandi. Ríkissjónvarpið gerði heimildarmynd um Drápu sem sýnd var í RÚV sama ár.  Birgitta var ein þeirra sem skipulagði hátíðina List gegn stríði árið 2003. Hún setti upp og hafði listræna umsjón með listasmiðju Apple á Íslandi frá 1996 – 1998 en smiðjan var fyrsta lifandi galleríið á netinu hér á landi. Auk ritstarfa og útgáfu hefur hún unnið ýmis störf, svo sem í plötubúð, í frystihúsi, við umbrot og hönnun, blaðamennsku, grafíska hönnun og þingmennsku á Alþingi Íslendinga.

Birgitta hóf snemma að senda frá sér ljóð, fyrsta útgefna bók hennar var ljóðabókin Frostdinglar sem kom út hjá Almenna bókafélaginu 1989 en áður höfðu ljóð eftir hana birst í tímaritum og safnritum. Hún var frumkvöðull sem netlistamaður á Íslandi og er mjög virk á því sviði og hefur fjöldi verka eftir hana birst á netinu á íslensku og fjölmörgum öðrum málum. Ljóð og önnur hugverk eftir hana hafa einnig birst í tímaritum, safnritum og fleiri miðlum víða um heim. Hún er einn af stofnfélögum í e-poets. Birgitta skilgreinir sig sjálf sem fjöllistakonu, enda fæst hún við bókmenntir, myndlist, tónlist og vídeóverk þótt textagerðin sé þar fyrirferðamest. Birgitta hefur sent frá sér fjölda smákvera sem geyma ljóð og myndir eftir hana og fyrsta skáldsaga hennar, Dagbók kameljónsins, kom út 2005. Bókin er í dagbókarformi eins og titillinn gefur til kynna og byggir hún á endurminningum skáldkonunnar sjálfrar. Þá hefur hún þýtt skáldskap annarra á íslensku auk verka af öðrum toga.

Birgitta hefur komið fram á fjölda ljóða- og listhátíða hér heima og erlendis, m.a. í Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada, Portúgal og Makedóníu og hefur tekið virkan þátt í samstarfi skálda á alþjóðlegum vettvangi.