Æviágrip
Elín Edda fæddist í Reykjavík þann 7. nóvember árið 1995. Hún er rithöfundur, myndasöguhöfundur og hönnuður. Elín Edda útskrifaðist úr grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2018 og ritlist við Háskóla Íslands í febrúar 2022. Fyrsta myndasaga hennar, Plantan á ganginum (meðhöfundur: Elías Rúni) kom út árið 2014. Myndasögur hennar um Gombra og heim hans hafa vakið athygli : Gombri (2016), Glingurfugl (2018) og Gombri lifir (2019). Fyrsta ljóðabók hennar, Hamingjan leit við og beit mig kom út árið 2016. Gombri var gefinn út á frönsku af Éditions Mécanique Générale í Kanada árið 2019. Árið 2021 kom út samvinnuverkefni þeirra Ingólfs Eiríkssonar, ljóðabókin Klón, með ljóðum eftir Ingólf myndlýstum af Elínu Eddu. Árið 2022 var Elín Edda í þriðja sæti ljóðaverðlaunanna Ljóðstafur Jóns úr Vör.
Verðlaun
2022 - Þriðja sæti í ljóðasamkeppinni Ljóðstafur Jóns úr Vör
Um höfund
Lítill maður, stór náttúra – umfjöllun um verk Elínar Eddu Þorsteinsdóttur
„Ég hugsaði um samfélagið – illskuna og óréttlætið – og skyndilega langaði mig ekki lengur að vera manneskja.“
Þessi tilvitnun í Plöntuna á ganginum (2014), fyrsta útgefna verk Elínar Eddu, fangar ágætlega rauða þráðinn í verkum hennar þar sem samband manns og náttúru er í fyrirrúmi. Hún er ljóðræn í myndlýsingum sínum en ljóðin hennar eru jafnframt myndræn. Sögurnar í senn persónulegar og heimspekilegar, snerta á erfiðu sambandi við hinn manngerða heim og tilfinningatengslum við náttúruna og annað sem lætur ekki undan stjórnsemi og skipulagsáráttu mannanna.
Á ferli sínum hefur Elín Edda gefið út fjórar myndasögur, tvær ljóðabækur og myndlýst einni eftirmyndasögu. Allar fjalla þær á einstakan hátt um þessi málefni sem eru höfundi hugleikin og hrífa lesendur með í ljóðrænan myndheim hennar. Þrjár af myndasögum hennar, Gombri (2016), Glingurfugl (2018) og Gombri lifir (2019) gerast í sama söguheimi en þar eru átök milli manns og náttúru í algjöru fyrirrúmi.
Elin Edda er í senn teiknari, skáld og grafískur hönnuður. Auk þess að skrifa og teikna sögur sínar hefur hún einnig séð um hönnun og uppsetningu bókanna af mikilli alúð sem gerir heildarupplifunina af verkum hennar enn ánægjulegri.
Eitt lítið fræ
Plantan á ganginum er fyrsta útgefna verk höfundar. Hún hóf göngu sína sem vefmyndasaga en kom út á prenti árið 2014. Bókin er samvinnuverkefni systkinanna Elínar Eddu og Elíasar Rúna sem sömdu söguna saman og skiptust á að teikna blaðsíður og ramma. Úr ólíkum teiknistílum þeirra verður skemmtilegur, tilraunakenndur myndheimur sem hentar sögunni furðuvel og truflar ekki framvindu hennar. Þvert á móti ýta þessir ólíku stílar undir fegurðina sem felst í fjölbreytileikanum og fanga kjarna sögunnar: Ólík sjónarhorn og margbreytileika mannlegrar tilveru. Það er frjálslegt flæði í teikningum Elínar Eddu sem einkennast af þykkum útlínum og eru málaðar í lifandi litum sem gefa persónum bókarinnar og umhverfi þeirra lífrænan blæ. Á hinn bóginn túlkar Elías söguna með hreinteiknuðum útlínum sem gefa myndheiminum dýpt með því að draga fram fínustu smáatriði og áferðir í teikningum sem síðan eru litaðar í tölvu. Þessir ólíku stílar bjóða lesandanum upp í skemmtilegan dans milli hins lífræna, frjálslega heims og þess manngerða, skipulagða.
Sagan segir frá Geirþrúði Flóru sem hefur löngu sagt skilið við hefðbundið félagslíf og nýtur sín best innan um sínar fjölmörgu plöntur. Dag einn fær hún sendingu frá fjarlægu landi, litla plöntu sem hana hefur lengi dreymt um að eignast. Hún kemur plöntunni fyrir í potti frammi á gangi í blokkinni sinni og vekur með því athygli Örvars nágranna síns. Þegar Geirþrúði berst kvörtunarbréf frá Örvari vegna plöntunnar ákveður hún að svara fyrir sig með persónulegu bréfi þar sem hún færir rök fyrir sínum einskæra áhuga á plöntum, sér í lagi þessari tilteknu plöntu og staðsetningu hennar. Fyrr en varir eru Örvar og Geirþrúður farin að skiptast reglulega á bréfum. Út frá því blómstrar óvænt vinátta tveggja einstaklinga sem upplifa sig utangarðs í samfélaginu og kjósa að verja sínum tíma í sérstök áhugamál frekar en að rækta sambönd við annað fólk.
Þrátt fyrir að sagan sé í grunninn einföld byggir hún upp spennu með skemmtilegum hætti þar sem ólík sjónarhorn Geirþrúðar og Örvars mætast. Í gegnum söguna kemur þó í ljós að viðhorf þeirra eru alls ekki svo ólík. Bæði eru nokkuð ófélagslynd. Geirþrúður safnar að sér framandi plöntum. Örvar lætur sig dreyma um að kanna fjarlæg lönd en hefur aldrei stigið fæti á erlenda grundu. En á meðan vinskapur byrjar að myndast á milli tveggja félagsfælinna einstaklinga heldur spennan áfram að magnast. Þau talast aðeins við í gegnum bréfaskriftir þrátt fyrir að búa við sitthvorn endann á sama gangi. Lesandi bíður eftirvæntingafullur eftir því óhjákvæmilega – að þau mætist augliti til auglits og neyðist til þess að stíga út fyrir sinn þægindaramma.
Plantan á ganginum er falleg saga um það að vera öðruvísi. Hún fjallar um mannlegan fjölbreytileika og hvernig hann speglast í fjölbreytileika náttúrunnar. Sagan sýnir okkur að það að rækta sambönd við annað fólk er ekkert endilega svo frábrugðið því að rækta plöntu. Vináttan getur nefnilega sprottið upp á óvæntum stöðum, af örlitlu fræi.
Líttu til jarðar
Fyrsta ljóðabók Elínar Eddu, Hamingjan leit við og beit mig, kom út árið 2016. Hún var hluti af bókaflokknum Meðgönguljóð sem hafði það að markmiði að kynna efnileg ljóðskáld til leiks. Ljóðabókin er alls ekki órökrétt skref á eftir Plöntunni á ganginum, því ljóðrænn frásagnastíll höfundar gerir strax vart við sig í myndasögunni, bæði í máli og myndum. Frá ljóðrænum myndheimi færum við okkur hér yfir í myndrænan heim ljóða þar sem kennir ýmissa kunnuglegra litbrigða.
Ekki líta til himins.
Þar er ekkert handa þér.
Líttu til jarðar.
Hún tekur á móti falli þínu.(„Heilræði“)
Samband manns og náttúru spilar lykilhlutverk í myndmálinu en ljóðin fjalla enn fremur um tilfinningar. Kvíði, depurð, von, eftirvænting, eirðarleysi koma meðal annars upp í hugann við lestur ljóðanna sem blása lífi í þessar tilfinningar með beinum eða óbeinum hætti. Stundum liggja þær á milli línanna, oft eru þær umluktar myndmáli en þær leyna sér sjaldnast.
Einhver hefur búið til
þetta myrkur
og breitt það yfir mig
eins og sæng.(„Tilbúið myrkur“)
„Það eru lausar skrúfur út um allt“ skrifar Elín Edda í "Stilltu þig", fyrsta ljóði bókarinnar, og færir okkur í kvíðafullar aðstæður áður en hún kallar á algjöra uppgjöf gagnvart kvíðanum: „... slökktu á vilja þínum og skrúfaðu niður væntingarnar.“
Sólin drepur drauma mína
þegar hún fer á stjá.(„Morð“)
Í ljóðinu "Morð" er ástæða þess að höfundur segir sólina drepa drauma sína ekki kunngjörð en myndmálið gerir tilfinninguna áþreifanlega, átakanlega og jafnvel sársaukafulla.
Áttu einhver lyf
sem breyta mér í
rólegan hlyn
eða kaktus
sem er umlukinn tónlist?(„Læknir“)
Ljóðasafnið leikur á svartar jafnt sem ljósar nótur og slær stundum á létta strengi. Titill bókarinnar, Hamingjan leit við og beit mig, er til að mynda nokkuð skondinn. Setningin er fengin úr ljóðinu "Sólmyrkvi" sem lýsir eins konar flótta höfundar undan hamingjunni sem lætur sér ekki segjast.
Ég stóð fast í fæturna og dró fyrir
en hamingjan náði að narta í augnbotninn
gegnum rifuna á gluggatjöldunum.(„Sólmyrkvi“)
Hugrenningar höfundar spegla sig í myrkri og sól, veðri og vindinum, gróðrinum og öðrum náttúruöflum sem ríma vel við mannlegar tilfinningar. Ljóðin eru þó laus við hefðbundið rím og birtast okkur frjálsleg og flæðandi á síðunum. Í Hamingjan leit við og beit mig opinberar Elín Edda einlægni í hversdagslegri tilvistarkreppu.
„Hér er eyðilegt.“
Gombri (2016), önnur myndasaga Elínar Eddu, fjallar um samnefnda einmanalega furðuveru. Gombri býr einn í Garðinum þar sem áður voru blómleg heimkynni skyldmenna hans, Gombranna. Þau eru löngu farin þaðan þegar þessi saga hefst og enginn kemur að heimsækja Garðinn lengur. Þessi garður alls ekki líflegur að sjá, lítið er um gróður nema tré sem standa lauflaus og dapurleg. Gombri hefur því ákveðið að yfirgefa Garðinn, einmanaleikann og minningarnar um það liðna.
Starfi mínu lýkur senn. Það er varla neitt fyrir mig að gera lengur og brátt mun ég klára að tína ruslið úr tjörninni. Þá ætla ég að koma mér héðan. Ég ætla ekki að taka neitt með mér. Ég vil ekki neitt sem minnir mig á það sem var áður en verður aldrei aftur.
Svartur er einkennislitur Gombra. Það sjáum við strax á kápunni sem sýnir ekkert nema eymdarlegt hvítt andlit aðalpersónunnar á svörtum grunni. Sjálfur er Gombri bleksvartur frá toppi til táa fyrir utan andlitið. Svartar útlínur í bland við gráa og blá tóna eru einkennandi fyrir eymdarlegt umhverfið; auðn þar sem áður var að finna blómlegt líf. En ólíkt því sem í fyrstu sýnist er Gombri afar litrík saga. Þar er vissulega að finna litríkar persónur en myndirnar verða líka litríkari þegar líður á söguna. Heimkynni mannanna og húsin í borginni eru til að mynda mjög litrík. Þau skapa sterka andstæðu við eyðilagða náttúruna í kring. En það fellur í hlut Gombra að draga fram liti náttúrunnar á nýjan leik og sú litadýrð birtist okkur svo sannarlega á síðum bókarinnar.
Á ferðalagi sínu hittir Gombri aðra óvenjulega veru, hina dularfullu Nönnu, sem hefur farið langt að heiman af óljósum ástæðum. Saman ákveða þau að ferðast til Borgarinnar. Þar kynnumst við samfélagi manna sem lifir undir ógnarvaldi ríkisstjórnar sem bannar hverskyns andóf, brennir bækur og hefur sagt náttúrunni stríð á hendur. Minningar fólksins í Borginni virðast bældar og óljósar – jafnvel Nanna er ekki alveg viss hver hún er, eða hvað hún var áður. Hét hún kannski Embla? Það skiptir ef til vill ekki höfuð máli undir hvaða nafni hún gengur en eitt er víst: Hún er eftirlýst af yfirvöldum í borginni sem telja hana hættulega samfélaginu.
Hún lætur kannski ekki mikið fyrir sér fara ... en vefirnir sem hún spinnur, þeir eru hættulegir ... og aumingja flugurnar ... þær sem festast í þráðum hennar ... Já, þú mættir passa þig!
Í Borginni kynnist Gombri baráttufólki, vinum Nönnu/Emblu, sem enn heldur í vonina um að skapa betri heim. Örlögin virðast hafa fært Gombra mikilvægara hlutverki að gegna en hann hefði grunað þegar hann lærir meira um sögu Gombranna og Garðsins sem áður var heimkynni Móður Jarðar. Það liggur því ljóst fyrir að Gombri og vinir hans þurfa nú að færa Garðinn aftur í sitt upprunalega horf. Þau þurfa að koma Móður Jörð til bjargar enda er hún veikburða eftir framgang mannanna.
Eins og fyrri verk Elínar Eddu er myndasagan Gombri gríðarlega ljóðræn, bæði í máli og myndum. Orð persónanna í sögunni eru oft og tíðum vandlega valin og svipar jafnvel til ljóða höfundar.
Ég bara rata ekkert hérna. Það er bara alltaf þessi lína þarna ... sem skilur að blátt og blárra.
Hugsaðu þér bara, Gombri, línurnar sem við höfum dregið á leiðinni hingað.
Gombri og félagar berjast fyrir hönd náttúrunnar sem er ekki aðeins mikilvæg fyrir lífið á jörðinni, heldur er líka hinar andlegu hliðar lífsins. Því lengra sem við hverfum frá náttúrunni því meira missum við tengingu við hvort annað og okkur sjálf : „Þegar það eina sem við vitum fyrir víst er tekið í burtu er ekkert skrítið að maður verði ringlaður.“
Oft er talað um mikilvægi þess að rækta garðinn sinn og hér fær það orðatiltæki bókstaflega merkingu. Myndirnar fá mikið pláss til þess að njóta sín án orða. Umhverfið og upplifun Gombra verður einhvern veginn magnaðri í þögninni, í myndefni sem fangar víðáttumikla náttúruna og teflir henni á móti þröngu (og þröngsýnu) borgarlífi mannanna.
„Ég vil ekki lifa lengur án minninga.“
Glingurfugl (2018), þriðja myndasaga Elínar Eddu, skartar skemmtilega látlausri kápu: Svartur titill í einkennandi letri á annars alhvítri forsíðu. Aftan á bókinni er enginn texti (að nafni höfundar undanskildu) heldur svört útlínuteikning af fugli. Ekki mikið glingur við fyrstu sýn en söguheimurinn sem leynist spjaldanna á milli er svo sannarlega litríkur.
Glingurfugl er sjálfstætt framhald myndasögunnar um Gombra og kafar þar dýpra í þröngsýna og óréttláta borgarsamfélagið. Þar halda ógnvekjandi verðir þegnunum minnislausum í tilgangslausri rútínu. Sagan segir frá samstarfskonum, fuglunum Margréti og Evu. Þær vinna saman í verksmiðju þar sem allir dagar virðast renna saman í eitt. Á hverjum degi vinna þær sína vinnu og á hverjum morgni vakna þær og virðast hafa týnt minningum sínum.
Ólíkt hinum bleksvarta Gombra eru þær Margrét og Eva litríkar týpur, önnur blá og hin appelsínugul. Umhverfi þeirra er líka langt um bjartara, það er að segja utan grárra veggja verksmiðjunnar, þar sem náttúran blómstar og skartar sínum fagra gróðri og fuglalífi í litríkum tússteikningum. Myndirnar og litirnir fá oft pláss til að njóta sín á heilum blaðsíðum og opnum sem draga okkur dýpra inn í heillandi myndheim.
Dag nokkurn komast Margrét og Eva að leyndarmáli sem útskýrir minnisleysi þeirra og annarra borgarbúa. Verksmiðjan framleiðir gleymskulyf. Þær hafa fengið nóg af þessari ömurlegu hringrás og eftir að hafa uppgötvað leyndamálið ákveða þær að flýja. Hægt og rólega fara minningarnar þeirra að koma til baka og við þeim blasir nýr heimur, frelsi og fögur náttúran.
Togstreita milli græðgi manna og gjöfullar náttúru er alltumlykjandi. Sagan teiknar upp óhugnanlega mynd af samfélagi eyðileggingar. Aðalpersónurnar eru fuglar í mannsmynd en þar er einnig að finna fugla í hefðbundnum búningi sem flögra um eins og sendiboðar Móður Jarðar. Þessir fuglar eru veiddir til matar. Í sögunni teiknar Elín Edda upp einstaklega hrollvekjandi mynd af yfirvaldinu: Vörðum sem sitja innan um persónur sögunnar með fuglshræ á diskum, og bílfarm af fuglum á leið til slátrunar sem Margrét og Eva nýta sér til þess að flýja borgina. Úr verður prýðileg ádeila á þá græðgi, sóun, illsku og hræsni sem þrífst víða í nútímasamfélagi. Glingurfugl er óður til náttúrunnar eins og Gombri. Hún fjallar um mikilvægi þess að lifa í jafnvægi við annað líf á jörðinni og hvernig við finnum okkar sanna sjálf þegar við losnum undan þröngum skorðum hins manngerða heims.
„Sjálf jörðin treystir á þig.“
Þriðja myndasagan úr söguheimi Gombra og félaga kom út árið 2019. Gombri lifir heldur áfram þar sem frá var horfið í fyrri sögum. Nú eru áform ríkisstjórnarinnar um að eyðileggja Móður Jörð orðin kristaltær. Mennirnir leita að uppsprettu lífsins sem er að finna undir heimkynnum Gombra, Garðinum, og ætla í græðgi sinni að sóa henni. En fyrst verða þeir að reyna að koma í veg fyrir að Gombri og vinir hans geti stöðvað þá.
Það kemur í ljós að Gombrarnir höfðu lengi þurft að berjast gegn ágangi mannanna og standa vörð um Móður Jörð. Ríkisstjórnin hrindir af stað lygasögu um dauða Gombra til þess að réttlæta gjörðir sínar. Gombri og félagar láta þessar stórlega ýtku fregnir af dauða hans ekki draga úr sér kjarkinn og leggja af stað í björgunarleiðangur sinn – en það er einhver að fylgjast með.
Dularfull persóna með sjónauka birtist okkur í upphafi bókarinnar og virðist fylgjast með því sem er að gerast úr fjarska. Við vitum ekki hver er þarna á ferð en við sjáum að þessi vera er að fylgjast grannt með gangi mála. Svipmyndir úr sjónaukanum dúkka reglulega upp sem eins konar kaflaskil í bókinni.
Á leið sinni í Garðinn þurfa Gombri og vinir hans að bjarga Góu, vinkonu sinni, úr fangelsi og sleppa undan laganna vörðum í tæka tíð áður en ríkisstjórnin hefur gert útaf við Móður Jörð fyrir fullt og allt. Í skóginum rekast þau á Margréti og Evu, fuglana kunnuglegu úr Glingurfugli, sem slást í för með þeim. Sprengjurnar eru þegar farnar að dynja þegar bjargvættirnar mæta í Garðinn og eru handsamaðar af yfirvaldinu sem sýnir Móður Jörð enga miskunn, jafnvel þó hún birtist okkur hér sem lifandi vera : „Það hefur aldeilis ekki farið mikið fyrir henni og ekki skaðaði fjarvera hennar neinn.“
Á ögurstundu mætir dularfulla veran með sjónaukann inn í miðja atburðarásina, hreint út sagt ósátt með framferði mannanna. Hún er gríðarlega hávaxin, mögulega einhver æðri vera, og fer því létt með að leiðrétta óréttlætið. Veran leysir Gombra og félaga úr haldi og bindur höfuðpaura gráðugu ríkisstjórnarinnar fasta. Við vitum ekki hver þessi vera er eða hvaðan hún kom en hún heldur aftur leiðar sinnar að góðu verki loknu. Náttúran fær að lifa og blómstra í friði á ný.
Sagan er ekki bara ádeila á yfirvaldið sem ræðst fram af algjöru skeytingarleysi heldur líka fólkið sem í meðvirkni tekur þátt í gjörðum hinna fáu með beinum eða óbeinum hætti. Boðskapur sögunnar er nokkuð augljós og engin ástæða til þess að láta hann liggja milli línanna. Þótt persónurnar séu óvenjulegar í útliti og söguheimurinn ævintýralegur endurspeglar hann nokkuð vel okkar eigið samfélag: „Þú varst kannski einu sinni gagnleg en þú ert orðin óþarfi í nútímasamfélagi,“ segir einn ráðamannanna við Móður Jörð. Það er ekki erfitt að finna þessu viðhorfi hliðstæður í okkar veruleika þar sem neysluhyggja og hagvöxtur stjórna öllu.
Í bókinni varpar persóna Evu fram einni lykilspurning sem vakir eflaust fyrir mögum á tímum þar sem hamfarahlýnun og loftslagsvá eru yfirvofandi: „Hvað gerist ef við verðum of sein?“
Sorgin ætti aldrei að skíra barn
Hvað eiga hundurinn Samson, kindinn Dollý og Salvador Dalí sameiginlegt? Meira en margir gætu haldið – og kafar bókin Klón: Eftirmyndasaga í saumana á því í heldur óvenjulegri og glettinni frásögn. Eins og segir á bakkápu bókarinnar er hér á ferðinni „bráðfyndin og nístandi ljóðsaga um ábyrgð mannsins gagnvart lífi á jörðinni, um dauða og endurfæðingu.“ Texti bókarinnar er eftir Ingólf Eiríksson en myndlýsingar og umbrot eftir Elínu Eddu.
Þeir sem hafa lesið myndasögur Elínar Eddu um Gombra taka eflaust eftir því að myndlýsingarnar hér eru heldur mínímalískari. En glöggt er auga hönnuðar, því þær henta þessari bók einstaklega vel. Sagan er heimspekileg. Það eru myndlýsingarnar, og raunar öll uppseting bókarinnar, sömuleiðis. Hér er ekki verið að mata lesandann af upplýsingum heldur skapa hugvekju þar sem ímyndunaraflið fær að slást með í för.
Textanum er raðað á síður eins og í ljóðabók. Eitt ljóð, eitt erindi, ein málsgrein, stundum ein setning á síðu. Oft án mynda. Þessi uppsetning hægir á lestrinum. Hún þvingar fram ákveðin takt. Hún býr til tíma og rúm til þess að leysa hvers kyns vangaveltur úr læðingi. Maður spyr sig hvort þessar auðu síður tákni eitthvað. Kannski biðina eftir einhverju nýju. Kannski tómið, söknuðinn eða sorgina sem ristir svo djúpt að hún fær okkur knúin til þess að ... tja, klóna hund? Þessar fáu síður sem sýna okkur myndir eru aldrei fullskreyttar. Myndirnar birtast okkur eins og vísir að einhverju sem við eigum að þekkja. Tilvísanir í eitthvað sem við höfum séð áður. Fullkomlega viðeigandi í bók sem fjallar háðslega um eftirmyndir.
Þessi eilífi núningur
Í sinni annarri ljóðabók, Núningur (2022), kafar Elín Edda enn dýpra í samband manneskjunnar við náttúruna og hið manngerða; hliðstæður og andstæður þessara tveggja heima. Tiltill bókarinnar er ef til vill sprottin úr árekstrum þar á milli, eða þá árekstrum manneskjunnar við hvort tveggja. Mannvirki geta speglað tilfinningar okkar og andlega líðan alveg eins og náttúran.
Þegar við slípum sparsl finnum
við líklegast veika blettiSterku blettirnir skipta ekki máli
Sparslið molnar, veggurinn molnarog við finnum veika bletti á okkur líka
við molnum(„Iðnaðarljóð 1“)
Í bókinni er að finna sex Iðnaðarljóð. Þau birtast lesendum með reglulegu millibili á svörtum síðum. Þau marka kannski ekki beinlínis kaflaskipti en þjóna þeim tilgangi að gefa bókinni heilstætt yfirbragð, skapa ákveðinn takt og renna sterkum stoðum undir viðfangsefni hennar. Iðnaðarljóðin lýsa ákveðinni sjálfsvinnu og viðleitni til að friðþægja okkar innra sjálf með því að fínpússa hinn ytra heim. Slípa og sparsla þar til allt er spegilslétt. En ljóð Elínar Eddu eru á sama tíma í stríði við spegilslétta fleti og beinar línur.
Það er réttskeið inni hjá mér. Réttskeið á að vera þráðbein en mér sýnist hún vera örlítið skökk. Líklega er það vegna þess að að eru til tvær tegundir af réttu: Það sem er rétt samkvæmt mælingum og það sem manni finnst vera rétt
[...]
Náttúran gerir þetta fyrirhafnarlaust
Þess vegna hefur aldrei neinn hugsað:
Það er eitthvað rangt við þetta fjall(„Mér líður ekki vel í nýjum húsum“)
Fegurðin felst í óreiðunni, náttúrunni og þeim öflum sem uppfinningar mannsins eru máttvana gegn. Fegurðin sem Elín Edda dregur fram í hinum manngerða heimi felst frekar í því sem tíminn hefur heimt eða náttúran endurheimt. Að sama skapi felst fegurð hins mannlega ekki í rökhugsun eða mælingum, heldur tilfinningum og öðrum eiginleikum sem við fáum ekki fyllilega stjórnað.
húsin liðast í sundur
faðma hvert annaðleðjan sækir fram
veggirnir og parketið
og
litirnir
úr landslagsmálverkunum
hlykkjast aftur í blómin(„Pípulagnir“)
Í ljóðinu "Pípulagnir" lýsir höfundur á ljóðrænan hátt því sem gerist þegar mannkynið deyr út. Náttúran endurheimtir allt sem við höfum byggt og reynt að hafa einhverja stjórn á. Í ljóðinu Uppskrift að jafnvægi er að finna sambærilega hugmynd. Við reynum að taka eitthvað úr náttúrunni og móta það að eigin ósk en það varir ekki lengi.
Steypan harðnar með tímanum og breytist í náttúru. Það er fjörugrjót í veggjunum. Húsin skekkjast, loftin síga, veggirnir teygja sig í allar áttir. Viðurinn er lifandi.
Og ef mannfólkið hverfur blandast
hið manngerða landslaginu,
augnablik í jarðsögunni(„Uppskrift að jafnvægi“)
Í ljóðinu „Myndir“ gerir höfundur grín að sambandi okkar við náttúruna og hvernig við reynum að aðskilja hina ósnortnu fegurð frá mannlegum veruleika:
Fólk með myndavélar í landslagi
tekur myndir af landslagi án fólks með myndavélar
[...]
Rafmagnslínurnar mega ekki sjást
ekki heldur staurarnir
skiltið
ekki kamrarnir
Í bókinni er einnig að finna tvö myndljóð sem brjóta skemmtilega upp á formið og setja viðfangsefnið í myndrænt samhengi. Í ljóðinu „Hljóð“ lýsir Elín Edda misháværum hljóðum (eða fjarveru þeirra) – frá „Ekki væl“ til „Ekki sög sem ristir í sundur viðinn“ og aftur til „Ekki tif“ – og raðar setningunum lóðrétt neðst á síðunum svo úr verður mynd sem minnir á hljóðbylgjur. Ljóðið „Þrír bjórar, eitt skot og eitt freyðivínsglas“ raðar orðunum þannig að þau mynda útlínur um drykkjarílátin; drykkina sem höfðu í för með sér misgóðar ákvarðanir.
Núningur lýsir hversdagslegum veruleika á tilfinningaríkan og oft mikilfenglegan hátt. Bókin upphefur hversdagsleikann og gerir hann íþyngjandi, en brýtur hann einnig niður í öreindir og gerir grín að honum. Núningur tekur föstum tökum þær tilfinningar og upplifanir sem móta okkur, slípa okkur til, og breyta lögun okkar með einum eða öðrum hætti – jafnvel án þess að við veitum því eftirtekt í amstri dagsins.
Punkturinn yfir i-ið er þó prentuð reglustika sem fylgir bókinni og nýtist ágætlega sem bókamerki. Ætti maður kannski að athuga hvort hægt sé að mæla lífsgleðina eftir allt saman?
Endirinn sést ekki: Loakorð
Tenging okkar við náttúruna er mikilvæg en oft er rofin. Samband okkar við hinn manngerða heim er óhjákvæmilegt en flókið og oft og tíðum óheilbrigt. Þetta samband – þessi eilífi núningur – er einkennandi í verkum Elínar Eddu. Með myndum sínum segir hún sögur þar sem orð eru óþörf og með vandlegu orðavali málar hún myndir sem oft eru ljóslifandi og litríkar. Verk hennar fjalla ýmist á hversdagslegan eða ævintýralegan hátt um málefni sem snerta okkur öll. Það er óhætt að segja að þau hreyfi við manni frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu.
Endirinn sést ekki
og þú lokar bókinni einhvers staðar(„Iðnaðarljóð 4“)
Smári Pálmarsson, nóvember 2022
Frá höfundi
Út frá Núningi
„Við fundum upp mannvonskuna,“ er lína sem bar einhvern tímann að dyrum hjá mér og ég gerði nokkrar heiðarlegar tilraunir til að koma fyrir í ljóði – en allt kom fyrir ekki. Línan fékk ekki ljóð.
Ég endaði á að skrifa ljóðabók sem ætluð er mannfólki. Ég var með viðtakandann í huga. Bókin þróaðist út frá ljóðum sem ég samdi í námskeiðum í ritlistinni. Það sem ritlistin breytti var rof einangrunarinnar (meðal annars). Ég kynntist fólki sem las bækur og fólki sem hafði meira að segja lesið ljóðin mín. Ég hélt að enginn hefði lesið þau. Ég hafði ekki skrifað ljóðin með lesendur í huga.
Breytingin fólst í því að ég skrifaði áfram fyrir mig en ég hafði betri tilfinningu fyrir lesendum. Mig langaði að fá lesendur. Það var líka það sem gerðist óumflýjanlega í ljóðanámskeiðunum, bæði hjá Steinunni Sigurðardóttur og Huldari Breiðfjörð. Þau lásu ljóðin ásamt samnemendum mínum og ég fékk að vita hvernig ljóðin virkuðu á aðra.
Ljóðabókin heitir Núningur og er um það hvernig hið manngerða reynir ómeðvitað að líkjast náttúrunni en breytist í náttúru með tímanum, allt breytist í landslag.
Bókin fjallar um uppfinningar, sem eru oft hamlandi fyrir manneskjur, til dæmis peninga sem taka náttúruna úr hlutum og færa frá takti lífsins sem er tilviljanakenndur og fallegur. Þannig er mannvonskan undirtónn í bókinni, mannvonska sem bitnar líka á þeim sem beitir henni.
Þessi lína um mannvonskuna sem fékk ómögulega ljóð komst þar af leiðandi ekki í bókina. Þegar eitthvað kemst ómögulega í bók sem maður hefur skrifað er bókin nálægt því að vera tilbúin.
Vinnuaðferðir I
Ljóðin sem komust ekki í bókina eru mörg. Þó eru þau jafn mikilvæg þeim sem komust. Tíminn sem fór í að skrifa ómögulegt ljóð er jafn mikilvægur og tíminn sem fór í að skrifa prýðilegt ljóð. Tími sem útilokar ljóð er eini vondi tíminn.
Námið í ritlist krafðist þess að ég væri aðgengileg fyrir ljóðum, texta, orðum … Að vera aðgengileg fyrir ljóðum er besta vinnuaðferð sem ég hef fundið. Að vera aðgengileg felur í sér að taka á móti umhverfinu, vera á staðnum, vera forvitin, leyfa sér að skynja, túlka, leita, villast, rata, skrifa hjá sér.
Annað sem ég komst að er að það er ekki sniðugt að einbeita sér að því að skrifa. Það er sniðugt að einbeita sér að því sem skrifað er um.
Myndljóð
Í bókinni eru tvö myndljóð: „Hljóð“ og „Þrír bjórar, eitt skot og eitt freyðivínsglas“. Myndljóð eru varasöm. Þau geta auðveldlega fallið um sjálf sig. Á sama hátt eru myndskreytt ljóð mjög varasöm. Þetta getur orðið hræðileg klisja og valdið ómældum skaða í huga lesenda. Þessi tvö myndljóð eiga það sameiginlegt að vera án mikillar fyrirhafnar. „Hljóð“ varð til við hugmyndina að lýsa þögn með því sem þögn er ekki. (Fyrir utan að orðið „ekki“ getur líka staðið fyrir hljóð og tvöfölda merkingu orðsins „hljóð“.) Ég raðaði síðan ljóðlínunum eftir lengd til að búa til takt í upplestri en hliðarafurðin var sú að ljóðið líktist hljóðbylgju. Þetta er dæmi um hvað tilraunir eru nauðsynlegar til að skrifa ljóð. Mikilvægi þess að byrja að skrifa ljóð sem ekki er víst hvernig endar.
Seinna ljóðið, „Þrír bjórar, eitt skot og eitt freyðivínsglas“, varð til sem heimaverkefni í ljóðatíma hjá Huldari þegar við áttum að semja ljóð í anda einhvers ljóðakollektívs. Mér varð í fyrstu hugsað til Nýhils vegna þess að þau voru að fást við konkretljóð, en síðan minnti ljóðið mig á Svikaskáld, þá sérstaklega eitt ljóð sem fjallaði um það að konur segja „fyrirgefðu“ alltof oft. Ég samdi ljóðið með eitthvað dularfullt djammviskubit. Mér leið illa með frammistöðu mína í partíi sem ég hafði verið í kvöldið áður (stundum þegar maður ætlar að gera betur en vel gengur verr en illa). Vandræðin komu til vegna þess að ég reyndi að fitja upp á umræðuefni og ræða við fólk sem ég þekkti lítið en vildi samt vekja lukku hjá.
Eftir því sem ég hugsaði meira um partíframmistöðu mína fannst mér hún fyndin, en ég vildi líka biðjast afsökunar, ég skammaðist mín. Hugmyndin kviknaði þegar ég hugsaði um myndljóð, mér datt í hug að tengja skammastrikin mín við drykkina sem ég hafði drukkið á meðan ég gerði það sem ég skammaðist mín fyrir. Útkoman var eins og ég sá hana fyrir. Þetta var allt furðulega heppilegt. Vinkona mín sem bauð mér í partíið sá síðan ljóðið, fannst það fyndið og sagði: „ekkert að afsaka“.
Hvernig verður eitthvað til? Og hvenær?
Stundum grunar mann að það sem er gott hafi alltaf verið til, að það hafi verið til en einhver þurft að finna það, einhver þurft að finna sér tíma og setja það niður á blað. Ég hugsa mikið um þetta með tímann. Þegar maður sér til dæmis stórmynd í bíó sem mörg hundruð manns koma að, þá verður allur þessi samþjappaði tími eins og gljáandi gimsteinn.
Þessa tilfinningu tengi ég við náttúruna, náttúran virðist fullkomin. Fjöll virðast fullkomin því það tók langan tíma að búa þau til, löng röð tilviljana. Samansafn efnis, steintegunda, fugla sem búa í fjöllunum, ala upp unga, skíta, búa til hóla, dreifa fræjum.
Þetta tengist öllum umferðunum af hugsunum sem þarf til að búa eitthvað til. Þetta er augljósara í málverki þar sem þarf jafnan margar pensilstrokur. Tíminn umbreytist í eitthvað áþreifanlegt.
Það þarf að vera vakandi, passa að ljóðin komist beinustu leið til hugans. Þegar ljóðin koma eru þau ekki tilbúin heldur þarf að slípa þau, það þarf að fara margar umferðir af hugsunum, með því móti líkjast ljóðin náttúrunni, virðast – og eru kannski – sönn.
Sannleikur
Sannleikur er hugtak sem ég tengi líka við náttúruna. Fyrir mér er náttúran eini mælikvarði sannleikans.
En hvað er náttúra? Erum við ekki náttúra? Það held ég – og við erum alltaf að reyna að búa til eitthvað sem verður að eins konar náttúru, hefur hlutverk og tilgang. Við þurfum að láta það sem við gerum samræmast takti náttúrunnar – annars eru endalokin rétt handan við hornið.
Listaverk byggja á langri þróunarsögu líkt og hlutir í náttúrunni, bæði þróunarsögu verksins sjálfs en líka allrar sögunnar. Listaverk geta ekki orðið til fyrr en tilviljanir, samansafn atvika, efnis og hugsana hafa raðast saman á ákveðinn hátt.
Eins og manneskjan er með galla sem tengjast þróunarsögunni (til dæmis hiksti frá froskum) getur listin geymt galla sem tengjast þróunarsögu listarinnar, eitthvað sem okkur yfirsást.
En þessir gallar eru hluti af sannleiksgildinu. „Fyrir ástina“ er eitt ljóð í bókinni sem leitast við að fanga þessa hugmynd um sannleikann í skáldskap. Hvernig rithöfundar gætu breytt sögunni en gera það ekki vegna hættu á að verkið skorti þá sannleiksgildi.
Það hefur enginn frjálsar hendur við sköpun.
Iðnaður
Stór hluti bókarinnar fjallar um hús og viðhald þeirra. Hugmyndin kviknaði þegar ég stóð sjálf í því að gangsetja íbúð. Úr þeirri reynslu urðu til „Iðnaðarljóðin“ en þau eru nokkurs konar kjarni bókarinnar, fela í sér titilinn Núningur, sem er forsenda mótunar hluta og hugmynda.
Viðgerðir og viðhald er í sjálfu sér ekki mjög ljóðræn athöfn en við leiðigjarnar og endurtekningarsamar athafnir verða samt sem áður skemmtilegar hugmyndir til. Viðgerðirnar, yfirvofandi flutningar og skuldbindingar létu mig hugsa eitthvað nýtt.
Markaðsvera
Skuldbindingin leiddi til þess að ég varð að taka raunveruleikanum aðeins alvarlegar, og þar af leiðandi markaðnum. Ég kemst ekki undan að vera bæði markaðsvara og vera. Markaðurinn er jafnvel óljóðrænni en viðgerðir en samt er hann nokkurs konar trúarbrögð samtímans. Það má ekki gera hitt og þetta vegna hagvaxtar, gengisfellingar, lækkunar, taps, gjaldþrots, þrots ...
Markaðsljóðin eru viðbrögð við að vera gegn vilja sínum markaðsvera, þurfa að þykjast vilja hitt og þetta – og finna fyrir óþörfum skorti. Stöðugt að finnast maður vera að missa af.
Hús
„Torfa“ er ljóð sem fjallar um þróun lands og þjóðar. Það eru ófáir Íslendingar sem eiga ömmu eða langömmu sem bjuggu í torfbæjum. Híbýlin líktust náttúrunni, féllu inn í landslagið á meðan seinni tíma hús skera sig úr, rísa hærra, þráðbein úr speglagleri og sléttum málmplötum. Í ljóðinu er fjallað um lífsgæðakapphlaupið sem endar allt á sama stað, undir sömu torfu og formæðurnar.
Náttúrusköpun
Hús eru hluti af náttúrusköpun mannsins. Hús líkjast engu í náttúrunni, þau eru symmetrísk, hafa ferköntuð göt í veggjunum til að sjá út og hleypa birtu inn. Það vantar tilviljanir í ný hús. Það vantar samþjappaðan tíma. Þess vegna líður mér betur í gömlum húsum. Útsýni yfir náttúru telst dýrmætt en flestir gluggar vísa að fleiri húsum.
Endalokin
Endalokin fela í sér að allt hið manngerða verður að landslagi. Tilviljanaskortur verður að tilviljun.
Tilgangur
Í bókinni er tilgangur hugleiddur og því er lýst yfir að hann verði til við núning. Tilgangur líkist náttúrunni. Hann er ekki hreinn og beinn, heldur samansafn tilviljanakenndra atburða. Núningurinn er margskonar, núningur við lífið, núningur við hugmyndir annarra.
Smit
Lokaljóðið „Smit“ er skylt hugleiðingunum um tilganginn. Það að mótast af umhverfi sínu er óumflýjanlegt. Að smitast af hugmyndum, orðum og fólki. (Mér finnst ekki verra að titillinn vísar í Covid, sem sýndi mannkyninu að við sitjum öll í sömu súpu, það sem gerist einhvers staðar lengst í burtu snertir okkur öll og smitar út frá sér.)
Maðurinn í landslagi
Eitt ljóðið er um fólk í landslagi sem vill ekki sýna ummerki um annað fólk en ástvini. Fólk í náttúru vill ekki sjá það sem tilheyrir ekki náttúrunni, eins og til dæmis mannvirki. Manngert umhverfi mótast ekki af þessari sömu þrá.
Manngert
Náttúran er mælistika hamingjunnar. En náttúran er víðsfjarri í bókinni. Manneskjurnar eru guðir bókarinnar, slípa og þyrla ryki til að reyna að búa til fullkomnun. En þrífast tilfinningar í fullkomnun? Þrífast samskipti? Af hverju þarf mannfólkið að aðskilja sig frá náttúrunni, þykjast vera æðri?
Þessi togstreita liggur undir niðri í gegnum alla bókina: Hvað smíðar fólk til að skilja sig frá náttúrunni og raunveruleikanum?
Fólk leitar merkingar og lífsfyllingar í manngerða hluti.
Verðmæti tímans
Vissir þú hvað tíminn er dýrmætur?
(Ég fæ aulahroll þegar ég les þetta, fyrirgefðu ef þú ert líka að lesa)
Tími lesenda er svo dýrmætur.
Tíminn er svo dýrmætur að tímasóun er eins og demantsfesti um hálsinn.
Orð taka svo mikinn tíma. Þegar ég les heyri ég í orðunum.
Ég hef lesið að það á ekki að heyra í orðunum því þá hægist á lestrinum.
Þegar ég þarf að lesa hratt reyni ég að hlusta ekki á orðin og skanna blaðsíðurnar frekar, það finnst mér stundum algjör synd.
Því orð eiga að taka ákveðin tíma.
Orð hafa ákveðinn hljóm.
Sumt á að lesa mjög mjög hægt.
Eins og ljóð.
Vinnuaðferðir II
1.
Ég er með skrifstofu ofan í jörðinni. Ég sé bara fætur og dekk út um gluggann. Ég heyri brot úr samtölum, brot úr lögum í útvörpum í bílum. Sé brot úr lífi fólks. Ég fæ brot úr sólargeislum í andlitið og brot úr andrúmsloftinu inn um gluggann.
2.
Ein af vinnuaðferðunum er að reyna að fá ekki önnur verkefni, reyna að fá ekki vinnu.
Það er óþægilegt að reyna að fá ekki vinnu, sækjast ekki eftir vinnu og jafnvel hætta, segja: nei, ég vil ekki þessa peninga sem duga fyrir mat og húsaskjóli.
3.
Ljóðskáld verða að vera útsjónarsöm. Núðlur eru ódýrar.
Og láta peninginn vinna fyrir sig, það er lykilatriði, einhvern veginn.
Heimsendir
Er hægt að skrifa ljóðabók án þess að fjalla um heimsendi?
Þessi ljóð eru ekki fyrir framtíðina, því framtíðin er svo skrítin.
Framtíðin er fjær náttúrunni, framtíðin er í símanum, framtíðin
er á skjá.
Framtíðin les ekki ljóð.
Framtíðin er kannski ekki til.
Framtíðin kynnist öfgum.
Öfgum í skoðunum.
Öfgum í veðri.
Eitt ljóðið fjallar um þessar öfgar: „Vatnið“.
Leiðbeinandi
Steinunn Sigurðardóttir kenndi mér í fyrsta ljóðakúrsinum mínum í ritlist. Það voru góðir tímar áður en veiran skæða varð að veruleika okkar. Ég var bæði stressuð og heilluð. Ég var ekki alveg viss heldur hvort ég ætlaði að klára námið. Ég hafði áður lært grafíska hönnun og mér fannst hálfgerð uppgjöf að byrja í ritlist. Ég fann að ég hafði engan sérstakan áhuga á að skrifa skáldsögur til dæmis. Þegar ég hugsa um að skrifa skáldsögur sé ég fyrir mér myrkur en þegar ég hugsa um ljóð sé ég ljós.
Ljóðatímar Steinunnar auðvelduðu mér að halda áfram.
Ég fann að það virkaði vel fyrir mig að skrifa fyrir Steinunni og samnemendurna. Í hverjum tíma voru öll ljóðin tekin fyrir og fólk var óhrætt að segja skoðun sína. Ég lærði helling af þessum tímum.
Ég kynntist líka ljóðvinum mínum sem björguðu mér í náminu.
Ég áttaði mig á því að ég hef tilfinningu fyrir ljóðum.
Eftir ljóðanámskeið Steinunnar notaði ég þessa tilfinningu fyrir ljóðum til að skrifa texta í öðrum smiðjum. Það hjálpaði mér mikið. Ég held að ljóðlistin séu útgangspunktur í öllum skrifum mínum.
Steinunn hefur ótrúlega tilfinningu fyrir texta og ljóðum. Ég vissi að ég vildi hafa hana sem leiðbeinanda og ég sé alls ekki eftir því. Hún hjálpaði mér mikið að móta bókina og hugmyndir mínar.
Minningar
„Minning um fjall“ er eins og „Gegn fjarvíddinni“ um minningar og hvernig þær breytast í fjarlægð. Í því fyrrnefnda er meiri sátt við þessa staðreynd, að gleyma steininum úr fjallinu á kaffihúsinu er það sem kom fyrir mig í sumar. Það er viss léttir að þurfa ekki að burðast með steina úr fortíðinni.
Fleiri ljóð eru byggð á minningum, til dæmis ljóðið „Kannski varstu allan tímann nálægt“. Það veldur því að ég sé ákveðna mynd þótt myndin blasi við á ólíkan hátt fyrir lesendum. Ég breytti minningunni til að gera það að ljóði.
Landslagsmálverk
Landslagsmálverk er eitt af því sem límir bókina saman. Landslagsmálverk felur í sér skynjun, teikningu, túlkun á náttúrunni en líka hið manngerða. Landslagsmálverkin breytast í landslag, bæði borgarlandslag og síðar meir landslag „óspilltrar náttúru“ því það tekur enga stund að þurrka öll ummerki um mannkynið út.
Húmor
Fátt jafnast á við að hlæja eða fá fólk til að hlæja.
Mig langaði að hafa húmor í ljóðunum.
Ljóðin eru þar af leiðandi ekki hádramatísk.
Textinn hefur húmor fyrir sjálfum sér.
Námið
Tíminn er dýrmætur.
Túlkaðu aðstæður þér í hag og nýttu tímann í eitthvað gagnlegt.
Skráðu þig í ritlist.
Hver er ég? Hver ert þú? I
Ég skrifaði bókina en bókin er ekki um mig. Eins og ég hef farið í gegnum í þessum pistli varð bókin til vegna tilviljana. Atvik sem hentu mig kveiktu hugmyndir í kollinum. Hugmyndirnar fóru síðan í ferðalag. Bókin er ekki um mig en er skrifuð fyrir þig. En ég er ekki alveg viss hver þú ert.
Hver er ég? Hver ert þú? II
Ég mun afneita mér að eilífu. Fyrir hverja afneitun eru þúsund já. Það er algjör óþarfi að vera eitthvað ákveðið. Ég vil vera það sem þú vilt að ég sé. Má það?
Elín Edda, nóvember 2022
Glingurfugl
Lesa meiraMig grunar að eitthvað hafi verið tekið frá mér – eitthvað sem ég veit ekki hvort ég hafi átt.Hamingjan leit við og beit mig
Lesa meiraKlón : Eftirmyndasaga
Lesa meira