Æviágrip
Ragnar Jónasson fæddist í Reykjavík árið 1976. Hann útskrifaðist með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Reykjavíkur og nam lögfræði við Háskóla Íslands. Með námi starfaði hann við fjölmiðla, meðal annars á Rás 2 og sem fréttamaður hjá fréttastofu sjónvarpsins. Hann starfaði sem forstöðumaður skrifstofu slitastjórnar Kaupþings og lögfræðiráðgjafar Nýja Kaupþings og var yfirlögfræðingur sjóðstýringafyrirtækisins Gamma. Hann hefur einnig starfað á fjárfestingabankasviði Arion banka og kennt höfundarétt við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Ragnar er stjórnarmaður í Sinfóníuhljómsveit Íslands og varaformaður Rithöfundasambands Íslands. Hann stofnaði ásamt Yrsu Sigurðardóttur glæpasagnahátíðina Iceland Noir sem haldin er í Reykjavík í nóvember.
Ragnar hefur þýtt fjórtán skáldsögur Agöthu Christie á íslensku. Sú fyrsta, Sígaunajörðin (Endless Night) kom út árið 1994. Hann þýddi einnig leikverkið Orð gegn orði (Prima Facie) fyrir Þjóðleikhúsið. Fyrsta skáldsaga Ragnars, glæpasagan Fölsk nóta, kom út árið 2009 og síðan hefur komið út ný glæpasaga eftir hann á hverju ári. Bækur hans hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og hefur hann verið á metsölulistum og hlotið viðurkenningar á erlendri grundu sem og tilnefningar til Blóðdropans, hinna íslensku glæpasagnaverðlauna.
Árið 2024 voru frumsýndir þættirnir Dimma (The Darkness) sem byggðir eru á bókum Ragnars um lögreglukonuna Huldu (Dimma, Drungi og Mistur) og hafin er vinna að þáttum um Ara Þór, upp úr Snjóblindu og fleiri bókum úr þeirri seríu auk þess sem fyrirhugað er að búa til bíómynd eftir bókinni Úti.
Heimasíða Ragnars er www.ragnarjonasson.com.
Frá höfundi
Frá Ragnari Jónassyni
Ég hef verið að skrifa nánast frá því að ég man eftir mér.
Kannski má segja að ég hafi að ýmsu leyti verið alinn upp við ritstörf og bækur. Afi minn og nafni var sískrifandi á langri ævi og sagði í tíma og ótíma: „Þú verður að vera duglegur að yrkja, nafni“. Pabbi, sem er ritstjóri og rithöfundur, og mamma hvöttu mig stöðugt til þess að skrifa sögur. Og fleiri fyrirmyndir voru í ættinni þegar kom að ritun og útgáfu bóka, til dæmis föðurbróðir minn sem var rithöfundur og bókaútgefandi.
Ég byrjaði því að skrifa sögur og ljóð fljótlega eftir að ég lærði að halda á penna og brátt leit fyrsta „skáldsagan“ dagsins ljós – þar var um að ræða myndskreytta barnabók, „Óli fer í ævintýraferð“. Og ellefu eða tólf ára gamall skrifaði ég meira að segja fyrstu sakamálasöguna, sem bar hinn dramatíska titil „Í Lundúnaþokunni“. Eins og gefur að skilja þá eru þessar bækur (og verða) óbirtar.
Sautján ára fékk ég svo tækifæri til þess að þýða sakamálasögu úr ensku yfir á íslensku og hélt áfram að þýða eina bók á ári eftir það, fyrst með námi og svo með öðrum störfum, þar til þýddu skáldsögurnar urðu fjórtán talsins.
Þær skáldsögur sem ég hef sent frá mér hafa allar verið sakamálasögur eða glæpasögur (greinarmunurinn þarna á milli er kannski óljós), en áhugi minn á ritstörfum er þó ekki einskorðaður við þá tegund. Það er samt eitthvað við það form, ráðgátuna og fléttuna, sem heillar mig. Skemmtilegast þykir mér þó að skrifa um ólíkar persónur og viðbrögð þeirra við krefjandi aðstæðum, en allt rúmast það vel innan glæpasögunnar.
Svo ef spurningin er hvers vegna ég skrifa þá held ég að svarið sé að ég hreinlega gæti ekki hugsað mér að gera það ekki.
Ragnar Jónasson, 2015
Um höfund
Hefð utan alfaraleiða: Glæpasögur Ragnars Jónassonar
Fyrsti áratugur nýrrar aldar á Íslandi einkenndist af aukningu í glæpum. Þrátt fyrir að hið meinta góðæri hafi reynst fallvalt var sigurganga glæpasögunnar ósvikin og náði ákveðnu hámarki með hátíðarræðu Arnaldar Indriðasonar við opnun íslenska skálans á bókamessunni í Frankfurt árið 2011, en þar var Ísland heiðursgestur.
Í kjölfar vinsælda Arnaldar jókst íslenskum glæpasögum ásmegin, væntanlega vegna þess að bæði útgefendur og almenningur áttuðu sig á að hægt var að skrifa góðar glæpasögur í landi sem almennt er talið tiltölulega laust við glæpi. Þrátt fyrir að flestar íslenskar glæpasögur sæki í brunn félagslegs raunsæis, þá þýðir það ekki að verkin þurfi að innihalda dólgaraunsæi eða dogmatískan eltingaleik við samfélagslegan veruleika – sem, eins og í ljós kom árið 2008, er langt því frá allur þar sem hann er séður.
Einn þeirra höfunda sem kvöddu sér hljóðs á sviði glæpa kom reyndar ekki fram fyrr en í kjölfar kreppunnar, en fyrsta bók Ragnars Jónassonar, Fölsk nóta, kom út árið 2009. Sagan gerist þó nokkrum árum fyrr, árið 2006 og þrátt fyrir að Ragnar hafi síðar bætt upp þennan tímamismun þá er það eftirtektarvert að hann forðast að mestu að fjalla um kreppuna, en hún hefur verið íslenskum glæpahöfundum afar hugleikin undanfarin ár.
Auk þess að skrifa glæpasögur hefur Ragnar, í félagi við Yrsu Sigurðardóttur, komið á fót fyrstu glæpasagnahátíðinni sem haldin hefur verið á Íslandi, Iceland Noir. Hátíðin var fyrst haldin í nóvember árið 2013. Fyrir utan skemmtigildið þá er ljóst að það er íslenskum glæpasagnahöfundum mjög hollt að geta mátað sig í alþjóðlegu samhengi, en erlendir gestir hafa verið fjölmargir og fjölbreyttir.
Fölsk nóta
Í ljósi þessa er því athyglisvert að fyrsta saga Ragnars ber heitið Fölsk nóta, sannarlega ekki réttnefni. Sagan er ekki hefðbundin glæpasaga, en sver sig meira í átt við gátusögur, ‚mystery‘, og það er erfitt að forðast frasann að með henni hafi kveðið við nýjan tón í íslenskri spennusagnaflóru. Þó er tónninn kannski ekki svo spánnýr, það er ýmislegt í andrúmslofti sögunnar sem minnir á bækur Viktors Arnars Ingólfssonar, auk þess sem ljóst er að Ragnar hefur lært ýmislegt af klassískum breskum reyfurum, enda hefur hann þýtt bækur Agöthu Christie.
Í Falskri nótu er fátt um töffaraskap, slettur, drykkju eða hasar, í staðinn er spilað á fremur kyrrláta, næstum tilviljanakennda rannsókn ungs manns á afdrifum föður síns. Sagan hefst á því að aðalsöguhetjan, hinn ungi Ari Þór Arason, fær sendan greiðslukortareikning sem stílaður er á föður hans og alnafna, en sá hefur horfið sporlaust níu árum áður. Stuttu eftir hvarf föðurins ferst móðir Ara í bílslysi í Belgíu og eftir það er drengurinn munaðarlaus og elst upp hjá föðurömmu sinni. Hann hefur þó plumað sig ágætlega og er kominn í háskólanám í guðfræði, auk þess sem óvæntur fundur með stúlku á Landsbókasafninu virðist ætla að færa honum frekari gæfu.
Reikningurinn setur þó nokkuð strik í þessi áform og skyndilega finnur Ari sig knúinn til að reyna að komast að því hvað hafi orðið um föður sinn, þó ekki sé alveg ljóst hvert markmiðið er, eða eins og fyrrum lögreglumaðurinn Lárus segir: „Segðu mér eitt, hvort ertu að leita að föður þínum eða sannleikanum?“ (100). Ari verður auðvitað að leita til fortíðarinnar og í leiðinni rifjar hann upp tengsl við fyrrum samstarfsfélaga föður síns, auk fjölskyldumeðlima og annarra sem tengdust foreldrum hans. Fljótlega kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist, en ástæðurnar fyrir því skýrast ekki fyrr en undir lokin.
Vanur lesandi áttar sig nú líklega á því hvað sé um að vera nokkuð fljótlega, en það breytir ekki því að sagan er skemmtileg aflestrar. Flakk fram og til baka í tíma – og ferð til London – gerir sig vel og sú mynd sem er dregin upp af fremur einmana ungum manni er áhugaverð og skýr; hér er ekki farin sú leið að velta sér uppúr ýktum tilfinningum heldur er áherslan á að sýna hvernig áfall á borð við móðurmissi og dularfullt hvarf föður hefur áhrif á einstakling og tilveru hans. Á þann hátt mætti kannski skoða söguna sem einskonar stúdíu á því hvernig manneskjan þarf að takast á við fortíðina til að geta haldið áfram inní framtíðina – en í rannsókn Ara kemur greinilega fram að hann hefur ekki haldið miklu sambandi við það fólk sem tengist fortíð hans og foreldrum. Að þessu leyti sver sagan sig í ætt við bækur Christie, sem eru einmitt að stórum hluta til persónustúdíur – og gefa sér að allir hafi alltaf eitthvað að fela.
Fölsk nóta Ragnars sýndi því vel fram á þá fjölbreyttu möguleika sem búa í glæpasögunni, en í kjölfarið hélt höfundurinn síðan á hefðbundnari brautir glæpasögunnar.
Siglufjörður
Falskri nótu var vel tekið og Ragnar hélt ótrauður áfram. Aðalsöguhetja Falskrar nótu, Ari, áttar sig á því að honum lætur vel að leita lausna og söðlar um. Hann hættir í guðfræðináminu og skráir sig í lögregluskólann. Þegar næsta bók, Snjóblinda (2010), hefst, er hann farinn að búa með Kristínu, stúlkunni sem hann hitti á Landsbókasafninu. Hann hefur lokið námi við lögregluskólann og er að leita sér að vinnu. Á sama tíma er hún að ljúka sínu læknanámi. Sambandið kemst í uppnám þegar Ari tilkynnir Kristínu að hann hafi ráðið sig sem lögreglumann á Siglufirði, án þess að ráðfæra sig við hana. Hér erum við að einhverju leyti minnt á að Ari er einfari og greinilega ekki vanur að þurfa að taka tillit til annarra. Þetta kemur að nokkru leyti til af óvenjulegri fjölskyldusögu, en fellur einnig vel að femínískri greiningu; glögg greining Helgu Kress á Laxdælu á hér enn við, karlinum finnst sjálfsagt að hann hafi fullt ferðafrelsi og ætlast til að konan einfaldlega bíði.
Ari er því særður þegar hann kemur til Siglufjarðar auk þess sem snjóþunginn yfir veturinn ógnar honum, en Ragnari tekst vel upp í því að skapa andrúmsloft óhugnaðar í þessum friðsæla smábæ, í krafti náttúruaflanna. Auðvitað er það svo ekki bara veðurfarið sem ógnar, en í fljótlega kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist í bænum. Þekktur aldraður rithöfundur finnst látinn fyrir neðan stiga og svo virðist sem hann hafi fallið niður, ekki alveg edrú. Það finnst yfirmanni Ara, Tómasi lögregluvarðstjóra, allvega viðbúið, en nýliðinn er ekki alveg eins sannfærður: „Hann hefur augljóslega dottið aftur fyrir sig [...]. Það bendir kannski til þess að honum hafi verið hrint“ (89). Rithöfundurinn hafði verið að störfum í leikhúsi bæjarins en þar er verið að setja upp leiksýningu sem fjölmargir bæjarbúar koma að á einn eða annan hátt. Nokkrum dögum síðar finnst hálfnakin ung kona stungin á hol úti í garði og þrátt fyrir að hún sé enn með lífsmarki er ljóst að málið er alvarlegt. Þrátt fyrir efasemdir Tómasar – „Kanna hvað? Þetta var bara óhapp – ég ætla ekki að fara setja bæjarfélagið á annan endann“ (119) – ákveður Ari upp á eigin spýtur að spyrja nokkurra spurninga. Það setur bæjarfélagið vissulega á annan endann, því fréttir berast fljótt í litlu samfélagi.
Ari reynist þó að sjálfsögðu hafa rétt fyrir sér, en, eins og oft er raunin í klassískum glæpasögum af þessu tagi, er lausnin ekki endilega borðleggjandi og í ljós koma ýmis og flókin leyndarmál fortíðar.
Í grein um klassískar nítjándualdar glæpasgögur (og þar með um upphaf nútímaglæpasögunnar) segir Clive Bloom að eitt einkenni þeirra sé að skapa sérveröld sem lýtur lögmálum glæpasögunnar, er umfram allt skáldaður heimur og skýrt afmarkaður frá raunveruleikanum, þrátt fyrir að vera vandlega staðsettur innan raunsæislegs samfélags og byggður á staðreyndum. (Bloom 1988).
Þetta er nokkuð sem vel má heimfæra upp á Ragnar, en strax í upphafi Snjóblindu aðskilur hann verk sitt frá því sem þá var helsta viðfangsefni íslenskra glæpasagnahöfunda: kreppunni. Þegar Ari kemur fyrst til Siglufjarðar finnst honum bærinn helst til líflaus og segir við Tómas: „Það er aldeilis rólegt hérna [...]. Þetta bankahrun á væntanlega eftir að fara illa með ykkur eins og aðra.“ Sagan gerist veturinn 2008-2009 og því hrunið nærtækt umræðuefni:
„Bankahrun? Kannast ekki við það. Bankakreppan verður eftir í Reykjavík, kemst ekki hingað norður – of langt að fara, meistari,“ sagði Tómas og ók inn að Ráðhústorginu í miðjum bænum. „Við misstum alveg af góðærinu hérna á Siglufirði, svo þetta hrun kemur okkur ekkert við heldur.“ (31-32)
Hann bendir svo á að „okkar kreppur koma frá hafinu“ og þar með er búið að afmarka heim sögunnar, lítið sjávarþorp utan alfaraleiða, ekki aðeins í þeim skilningi að vera afskekkt heldur einnig utan stefna og strauma þjóðfélagsins.
Það samfélag sem hann lýsir á Siglufirði er svo hans eigin tilbúningur, skáldaður heimur sem samt er byggður á nokkrum staðreyndum um lítil samfélög. Gott dæmi um það er leikhúsið, en áhugamannaleikhússtarfssemi er víða öflug í bæjum úti á landi. Með því að nota leikhúsið í fyrstu Siglufjarðarbókinni er Ragnar því bæði að vísa í þekkt fyrirbæri, en jafnframt má sjá leikhúsið sem einskonar táknmynd þess tilbúnings sem samfélag skáldsögunnar er.
Þriðja saga Ragnars, Myrknætti (2011), gerist tæplega tveimur árum síðar, það er að segja, sumarið 2010. Tímamismunurinn á milli sögusviðs og útgáfuárs er því orðinn mun minni. Atburðarásin hefst á því að maður finnst myrtur fyrir utan sumarbústað í Skagafirði og í ljós kemur að hann vann við framkvæmdirnar í Héðinsfjarðargöngum (sem opnuðu í október 2010).
Tómasi og Ara er falið að grennslast fyrir um manninn á Siglufirði, þó rannsóknin sé í höndum lögreglunnar á Akureyri.
Mikil áhersla er lögð á heim þorpsins, en Tómas skilgreinir og metur fólk útfrá því hvort það sé heimamenn eða aðflutt. Stigveldisskiptingin er mjög í vil þeim fyrrnefndu. Ari, sem sjálfur er aðfluttur, er krítískur á þetta viðhorf og reynir að skoða samfélagið á hlutlausari hátt.
Spæjarinn sem stendur utan samfélagsins er annað atriði sem Bloom ræðir í grein sinni um klassískar glæpasögur, en þar leggur hann áherslu á lögreglan á heimasvæðinu sé háð því að fá sjónarhorn þess sem er utanaðkomandi. Það er í hlutverki sínu sem aðkomumaður sem Ari kemur auga á ýmislegt sem er heimamanninum Tómasi falið, einfaldlega vegna þess að hann er ófær um að skoða sitt eigið samfélag úr fjarlægð. Jafnframt ítrekar Bloom að þrátt fyrir að spæjarinn standi utan við samfélagið verði hann að vera vel samlagaður samfélaginu, fullkomlega venjulegur. Þetta á einnig við um Ara, sem er lýst sem ákaflega dæmigerðum ungum manni, allt frá fyrstu bók. Við sjáum þetta birtast meðal annars í veikleikum hans, stefnuleysi til að byrja með, óöryggi gagnvart stöðu sinni á Siglufirði (hann þolir ekki uppnefnið sem honum er úthlutað, presturinn, af því hann hafði stundað guðfræði) og því hvernig hann klúðrar sambandi sínu við Kristínu.
Inn í málið blandast svo annar utanaðkomandi rannsóknaraðili, fréttakonan Ísrún sem gengur í að kynna sér morðmálið nánar. Hún starfar á fréttastofu RÚV og kemst meðal annars að því að eigandi sumarhússins á sér vafasama fortíð. Þegar hún fer norður uppgötvar hún sömuleiðis að fórnarlambið var ekki eins hvítskúrað og virtist í fyrstu. Þrátt fyrir að hafa verið virkur þátttakandi í góðgerðastarfssemi bera fyrrum eiginkona og ýmsir kunningjar honum ekki sérlega gott orð. Ari kemst að því sama og rannsóknir þeirra tveggja, sín úr hvorri áttinni, skarast ítrekað án þess að leiðir þeirra liggi nokkurntíma saman. Í ljós kemur að málið teygir sig í ýmsar áttir, meðal annars aftur í fortíð eins íbúa á Siglufirði.
Persónuleg málefni leika hér stærra hlutverk en í Snjóblindu, en auk ástarsorgar Ara er Tómas í skralli því kona hans er flutt suður til Reykjavíkur og byrjuð þar í námi. Þriðji lögreglumaðurinn, sem annars hefur lítið komið við sögu, er sömuleiðis utan við sig, en í Snjóblindu kom fram að hann hafði verið illskeyttur krakki sem stóð fyrir einelti. Á fullorðinsárum hefur hann gert sitt besta til að bæta fyrir brot sín, en nú virðist sem eitt þeirra verði ekki bætt og hann situr uppi með sektarkennd – og nafnlausa tölvupósta sem ýta undir hana.
Hluti Ísrúnar er sömuleiðis öllu meiri en ætla mætti í fyrstu og svo virðist sem verið sé að kynna til sögunnar nýja aðalpersónu, því hennar þáttur er fyrirferðamikill í bókinni og tengist málinu með óvæntum hætti. Ísrún kemur aftur fyrir í næstu bók, Rofi (2012), í Andköfum (2013) er hún fjarri, en birtist stuttlega á ný í Náttblindu (2014).
Héðinsfjörður
Fjórða bók Ragnars, Rof, nýtir sér opnun Héðinsfjarðarganganna til að skapa enn afskekktara sögusvið. Sagan gengur út á löngu liðna atburði í Héðinsfirði, á stað sem skyndilega er aðgengilegur umferð eftir að göngin liggja í gegnum fjöllin beggja vegna. En það er ekki aðeins sögusviðið sem er afskekkt, málið er líka gamalt:
Ari Þór Arason, lögreglumaður á Siglufirði, kunni engar haldgóðar skýringar á því hvers vegna hann hafði núna, þegar litla bæjarfélagið var hreinlega í hers höndum, ákveðið að gefa sér tíma til að skoða gamalt sakamál fyrir mann sem hann þekkti lítið sem ekki neitt.
Maðurinn, Héðinn að nafni, hafði hringt í Ara skömmu fyrir jól [...]. Spurt hvort hann hefði tíma til að skoða gamalt mál – dauðsfall ungrar konu. (15)
Þær hers hendur sem vísað er til er farsótt sem herjar á bæinn, og erlendur ferðamaður hafði borið með sér: „Skömmu eftir að ferðamaðurinn lést var sú óvenjulega ákvörðun tekin að setja litla bæjarfélagið í sóttkví“ (16). Fólk er eðlilega hrætt og lögreglan verður að standa sína vakt. „Ari vonaðist til þess að heimsókn Héðins gæti fengið hann til að hugsa um eitthvað annað en þessa helvítis sótt“ (17). Einangrunin er því tvíþætt, annarsvegar hvað varðar fjörðinn sjálfan og hinsvegar þá sóttkví sem Ari er bundinn við, en Héðinsfjörður er innan hennar.
Eins og áður sagði kemur Ísrún aftur heilmikið við sögu, en hún er að rannsaka mál í Reykjavík sem einnig reynist tengjast fortíðinni. Ungur maður verður fyrir bíl og grunur leikur á að keyrt hafi verið á hann af ásettu ráði. Maðurinn er talinn hafa látist samstundis en hann er sonur þekkts stjórnmálamanns og málið vekur nokkra forvitni. Inn í þetta blandast svo stjórnmálaátök innan flokks föðurins. Að auki fær Ísrún það hlutverk að leita frétta af sóttkvínni í Siglufirði og hringir í Ara í þeim tilgangi:
Hann horfði sjaldan á fréttir en vissi þó hver hún var, hafði stundum séð hana fjalla um hin og þessi sakamál. Hann hafði auk þess lesið viðtal við hana í einu helgarblaðanna eftir að hún vann blaðamannaverðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku í tengslum við mansalsmálið í Skagafirði sem þeir Tómas höfðu komið að tæpu ári áður. (54)
Málin tvö tengjast þó ekki að öðru leyti en því að Ari biður Ísrúnu um aðstoð í sínu máli sem hún lætur fúslega í té og þannig vinna þau að einhverju leyti saman á ný.
Mál Ara er fyrirferðameira, en ofan á einangruna er gefið til kynna að eitthvað kynlegt hafi verið á kreiki á bænum við Héðinsfjörð, þar sem konan lést. Þar höfðu búið tvenn hjón, systur og eiginmenn þeirra. Einnig kemur fram að ungur maður hafði unnið um tíma á bænum, og kona nokkur, ljósmyndari hafði komið þar við og tekið myndir. Ara verður fljótlega ljóst að málið er öllu flóknara en virðist í fyrstu og þó lausnin sé kannski ekki mjög óvænt þá er hún vel unnin og athyglisverð.
Það er ákveðin ró yfir Rofi og höfundur nýtir sér tilfinninguna fyrir einangrun afar vel. Ógnin sem stafaði af snjónum í Snjóblindu er hér yfirfærð á klassískan orðróm um draugagang á svo afskekktum stað sem bærinn í Héðinsfirði var. Með þessu skapast eftirminnilegt og áhrifaríkt andrúmsloft, sem er um margt ólíkt fyrri bókunum.
Breytingar hafa líka orðið í einkalífinu, Ari og Kristín hafa loksins náð saman, en tvö og hálft ár eru liðin síðan Ari flutti til Siglufjarðar. Sagan gerist því væntanlega árið 2011. Tómas hefur tekið sér nokkurra mánaða leyfi til að kanna möguleikann á sáttum við konuna og líkar ekki alilla – Ari sér fram á stöðuhækkun og er ekki alveg viss um afstöðu sína til þess. Hann á þetta þó fyllilega skilið, því hér er skerpt á því að þrátt fyrir reynsluleysi er Ari mun flinkari rannsóknarlögreglumaður en Tómas. Enn á ný má sjá þetta í ljósi kenningar Bloom, um að sá utanaðkomandi sé hæfileikaríkastur, þrátt fyrir að vera fullkomlega venjulegur maður, en Ari er ítrekað sýndur sem afar dæmigerður ungur maður: Hann borðar harðfisk, klúðrar ástamálum sínum, dettur í hálku, langar að eignast son og svo framvegis. Hæfileikar hans liggja í því að sleppir ekki takinu – frekar en hundur af harðfiskroði.
Fortíð og fantaskapur
Í Rofi takast á fortíðin – sem þó er ekki svo fjarlæg, og nútíminn, í líki spilltra stjórnmálamanna. Fortíðin og átök við nútímann er einnig viðfangsefni Andkafa. Líkt og í Rofi nýtir Ragnar sér fásinnið og einangrunina til hins ítrasta, en söguþráðurinn er á þá leið að við vita nokkurn í Kálfshamarsvík, skammt frá Skagaströnd, stendur stórt hús sem á sér dramatíska sögu. Ung kona finnst látin fyrir neðan vitann og fyrst er talið að um sjálfsmorð sé að ræða, en þó er eitthvað ekki eins og það á að vera. Tómas er fluttur suður en Ari er enn á Siglufirði, þó ekki hafi hann fengið varðstjórastöðuna. Fjögur ár eru liðin frá því að hann flutti til Siglufjarðar og hann er enn óviss um stöðu sína og framtíðaráætlanir. Jólin eru að nálgast og Kristín er komin átta mánuði á leið. Allt þetta fær hann til að hugsa um fortíð sína og foreldra, en hann er ekki sá eini: Kristín er líka að grúska í gömlum dagbókum. Í bókinni er því heilmikil og margháttuð umræða um fortíð og farangur fortíðar.
Nærri vitanum stendur gamalt hús og þar búa eldri hjón, sem hafa lengst af verið einskonar þjónustufólk auðugs manns sem á húsið. Sú látna var þarna í heimsókn eftir fjölda ára fjarveru, en þegar hún var barn fórust systir hennar og móðir við sama vita. Dauði systurinnar var talinn slys en móðurinnar sjálfsmorð.
Eins og vænta má kemur ýmislegt upp á daginn, annað dauðsfall verður og þarna eru svo margar beinagrindur í skápum að það hringlar í hverri síðu. Ragnar keyrir hér enn meira á dulúð og mystík en í Rofi og andrúmsloftið er þrúgandi, enda er teflt saman einangrun og fámenni. Stemningin er teiknuð upp í stuttum áhrifaríkum senum eins og þessari snemma í sögunni, þegar Ásta, sú sem síðar finnst látin, kemur að húsinu við vitann:
Snörp vindhviða sendi kuldahroll niður bakið á henni og hún leit sem snöggvast við. Hávært hvíslið í vindinum hafði eitt stundarkorn skapað óþægilega tilfinningu: það var eins og einhver stæði fyrir aftan hana.
Ásta leit við, til þess eins að sannfæra sjálfa sig um að svo væri ekki.
Við henni blasti myrkrið. Hún var alein, fótspor hennar þau einu í hvítri mjöllinni.
Það var of seint að snúa við núna. (15)
Tómas er sendur norður til að kanna málið og fær Ara með sér, en í þessari bók kemur vel fram að Tómas hefur grætt á færni Ara í úrlausn sakamála. Þetta þema hins ófæra og lata yfirmanns og flinka og spræka undirmanns er klassískt innan lögreglusögunnar og rekur rætur sínar aftur til klassíska reyfarans. Í gömlu sögunum er það þó iðulega einkaspæjarinn sem allt getur, meðan lögreglan er klaufaleg og föst fyrir, en þetta samband hefur svo verið útfært á ýmsan hátt í nýrri sögum.
Þess ber þó að geta að það er ekkert rætið við þetta samband þeirra Tómasar og Ara, og að því leyti minna samskipti þeirra meira á klassísku glæpasöguna en nýrri útfærslur þar sem pólitísk spilling og skriffinska er alvarlegt vandamál. Það að sviðsetja sögurnar utan borgarinnar er einnig í ætt við eldri hefðina, en í bókum Agöthu Christie eru lítil þorp eða samfélög einmitt vinsælt viðfangsefni. Allt þetta er til marks um hvernig Ragnar nýtir sér hefðina og vinnur með hana jafnhliða því að sigla á nútímalegri mið.
Náttblinda (2014) endurtekur að einhverju leyti sama leikinn, en þar er Tómas fenginn til að aðstoða Ara, að þessu sinni við mál á Siglufirði. Hinn nýi yfirmaður Ara finnst skotinn við afskekkt og yfirgefið hús og Tómas er mættur til að leggja lið. Sem fyrr vill hann fara varlega að heimamönnum en er þeim mun meira ákafur að ræða við aðkomumenn, en sem fyrr blandast spilltir stjórnmálamenn inn í málið.
Fljótlega kemur í ljós að það eru í raun þrír þræðir í sögunni, sem eiga sér snertifleti. Í fyrsta lagi er það morðið á varðstjóranum, sem er það sem kemur öllu af stað, en inn í það fléttast svo forvitni Ara um sögu þessa afskekkta húss, þar sem maður féll eitt sinn af svölum og lést. Í ljós kemur að húsið er notað sem miðstöð fyrir eiturlyfjadreifingu en nokkur áhersla er lögð á breyttar aðstæður í Siglufirði í kjölfar gangnanna. Nú er þessi friðsæli bær kominn í alfaraleið, ferðamannastraumurinn eykst og jafnframt breytist margt.
Þriðja málið tengist svo aðstoðarkonu hins nýja bæjarstjóra (aðkomumanns), en hún er á flótta undan ofbeldisfullum sambýlismanni. Hjónabandsmál og ástamál koma því nokkuð við sögu sem fyrr, en enn á ný virðist samband Ara við Kristínu í hættu, meðal annars vegna skapsmuna hans og þrjósku. Í lokin er gefið í skyn að Ari sé að yfirgefa Siglufjörð, en Tómas hvetur hann til að sækja um stöðu í Reykjavík.
Hulda
Í bókum Ragnars er oft komið inn á stöðu kvenna og ofbeldi gegn konum, eins og sjá má sérstaklega í Myrknætti og Náttblindu.
Staða kvenna kemur enn meira við sögu í næstu tveimur bókum, en þar söðlar Ragnar um og kynnir nýja aðalsögupersónu sem er staðsett í Reykjavík. Þessi nýja persóna er lögreglukonan Hulda Hermannsdóttir. Í Dimmu (2015) er hún að fara á eftirlaun og kvíðir því frekar, og ekki bætir úr skák að yfirmaður hennar, snöggtum yngri maður, ‚býður‘ henni að hætta enn fyrr, því það þurfi að rýma fyrir ungum manni á uppleið. Hulda fær tvær vikur til að ganga frá sínum málum og henni er gefið fyllilega í skyn að hún þurfi ekki að nýta þær til mikillar vinnu.
En Hulda hefur áhuga á sínu starfi og þegar hún fær frjálsar hendur ákveður hún að sinna ‚köldu‘ máli, sem þó er varla mál: hvarfi rússneskrar stúlku. Hún veit að lögreglumaðurinn sem vann að því gerði það illa og veit líka að mál horfins hælisleitenda fær ekki forgang. Að sjálfsögðu kemur svo ýmislegt í ljós þegar hún hefur sína rannsókn, bæði hvað varðar málið og stöðu Huldu innan lögreglunnar.
Það er því ljóst að þarna er snert á margvíslegum málum, en auk þess að taka til stöðu kvenna í lögreglunni og stöðu hælisleitenda kemur kynferðisofbeldi við sögu. Í upphafi er Hulda að rannsaka árás á barnaníðing og hefur fengið játningu móður eins fórnarlamba hans, sem viðurkenndi að hafa keyrt manninn niður. Hún ákveður þó að gera ekkert með þessa játningu.
Dimma er stutt og fremur einföld í sniðum, það er ekki mikið um umhverfislýsingar eða málalengingar, fléttan rekur sig átakalaust áfram, en undir lokin kemur svo ýmislegt óvænt í ljós. Á margan hátt má segja að sagan sé ekki síður hugleiðing um glæp en hefðbundin glæpasaga, og minnir að því leyti á fyrstu bók Ragnars.
Hulda er enn í aðalhlutverki í Drunga (2016), en þar hittum við hana í fyrstu sem tæplega fertuga, reynslumikla lögreglukonu sem telur sig vera á uppleið – en rekur sig illilega upp undir hið fræga glerþak. Þetta er árið 1987 og ung stúlka, Katla, finnst myrt í sumarbústað vestur á landi. Félagi Huldu í lögreglunni, Lýður, ungur maður á hraðri, glerþaklausri uppleið, leysir málið snarlega og handtekur föður stúlkunnar sem síðan hengir sig í varðhaldinu.
Tíu árum síðar ákveða vinir Kötlu að eyða helgi í veiðikofa á einni eyju Vestmannaeyja. Benedikt, ungur maður sem var með stúlkunni í sumarbústaðnum fyrir tíu árum, er sá sem kallar hópinn saman. Í honum eru auk Benedikts tvær skólasystur þeirra Kötlu, Alexandra og Klara, og svo yngri bróðir Kötlu, Dagur.
Dvölin verður dramatísk því Klara finnst myrt á eyjunni og sýnt að einhver úr hópnum er sá seki. Það er ljóst að málin tengjast og Hulda, sem vinnur að rannsókninni, er stöðugt trufluð af yfirmanni sínum, Lýð, sem vill skipta sér af öllu í ljósi þess að hann leysti morðið á Kötlu áratug fyrr. Eftirgrennslanir Huldu afhjúpa ýmislegt sem annars hafði farið leynt í fyrri rannsókninni og málið reynist bæði snúið og einfalt.
Sjálf er Hulda gerbreytt, þrátt fyrir að hafa ennþá ánægju af starfi sínu er hún bitur því framgangur hennar hefur verið lítill meðan yngri menn rjúka upp metorðastigann. Hún glímir einnig við sorg, en dóttir hennar, Dimma, og eiginmaður létust bæði með stuttu millibili fyrir nærri áratug. Hún stendur því uppi ein og virðist að auki að mestu vinalaus.
Það er meiri kraftur í Drunga en Dimmu, skipt er ört á milli persóna og þannig byggt upp púsluspil sem hægt og hægt raðast saman. Enn á ný eru það persónur og samskipti þeirra, og þá ekki síst ástamál sem leika lykilhlutverk, en fjölskyldan er Ragnari hugleikin sem fyrr.
Inn í báðar sögurnar blandast saga Huldu sjálfrar, en hún er Hermannsdóttir eins og fleiri af hennar kynslóð: dóttir erlends hermanns, ástandsbarn. Í Dimmu fáum við innsýn í uppeldi hennar en foreldrar móðurinnar tóku barninu ekki vel og móðirin varð að setja stúlkuna á vöggustofu meðan hún vann myrkranna á milli. Hulda elst því ekki upp við mikið ástríki eða nánd og líður fyrir það alla tíð. Að því leyti minnir hún á Ara, hana vantar það bakland sem fjölskyldan gefur og hefur því tilhneigingu til að einangra sig og sökkva sér í vinnu.
Í Drunga tekur hún sig til og ákveður að leita föður síns, en móðir hennar er nýlátin. Hún flýgur til Bandaríkjanna eftir að hafa fengið upplýsingar um tvo menn sem mögulega gætu verið faðir hennar. Annar er látinn en hún hittir hinn sem er hamingjusamlega giftur fjölskyldufaðir og tekur vel á móti Huldu en neitar því að geta verið faðir hennar, hann hafi verið þá þegar giftur og ekki komið til greina að halda framhjá konunni. Hulda fer því að leiði hins mannsins og sættir sig við að fá aldrei að kynnast föður sínum.
Það er því ýmislegt sem tengir þessar tvær aðalsöguhetjur bóka Ragnars og honum lætur vel að flétta persónulegum málum inn í verk sín án þess að þau verði of fyrirferðamikil en þó þannig að þau segi sína sögu, sem svo kann að tengjast glæpamálunum á margvíslegan hátt.
úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2016
Heimildir
Bloom, Clive, „Capitalising on Poe‘s Detective: The Dollars and Sense fo Nineteenth-Century Detective Fiction“, í Nineteenth-Century Suspense: From Poe to Conan Doyle, ritstj. Clive Bloom, Brian Docherty, Jane Gibb og Keith Shand, Houndsmills og London, Macmillan Press 1988.
Greinar
Um einstök verk
Dimma
Úlfhildur Dagsdóttir: „Hugleiðing um glæp“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Mistur
Vera Knútsdóttir: „Mistur“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Myrknætti
Helga Birgisdóttir: „Eitt morð og margir glæpir“ (ritdómur)
Spássían 2011, 2. árg., vetur, bls. 35.
Náttblinda
Ingvi Þór Kormáksson: „Náttblinda“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Reykjavík
Iclal Vanwesenbeeck: „Icelandic Stories: A Conversation with Katrín Jakobsdóttir & Ragnar Jónasson“
World literature today, árg. 98, 1. tbl. 2024, bls.19-23
Rof
Helga Birgisdóttir: „Fjöllin, myrkrið og þögnin“ (ritdómur)
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 39.
Snjóblinda
Helga Birgisdóttir: „Morð í myrkri og snjó“ (ritdómur)
Spássían 2010, 1. árg., vetur, bls. 22.
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir: „Veðrið fyrir norðan“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
Tilnefningar
2024 - Storytel hljóðbókaverðlaunin: Reykjavík (Ásamt Katrínu Jakobsdóttur)
2023 - Blóðdropinn, hin íslensku glæpasagnaverðlaun: Reykjavík (Ásamt Katrínu Jakobsdóttur)
2021 - Storytel hljóðbókaverðlaunin: Hvítidauði
2020 - Storytel hljóðbókaverðlaunin: Þorpið
2019 - Blóðdropinn, hin íslensku glæpasagnaverðlaun: Þorpið
2018 - Blóðdropinn, hin íslensku glæpasagnaverðlaun: Mistur
2017 - Blóðdropinn, hin íslensku glæpasagnaverðlaun: Drungi
2016 - Blóðdropinn, hin íslensku glæpasagnaverðlaun: Dimma
2015 - Blóðdropinn, hin íslensku glæpasagnaverðlaun: Náttblinda
2014 - Blóðdropinn, hin íslensku glæpasagnaverðlaun: Andköf
2013 - Blóðdropinn, hin íslensku glæpasagnaverðlaun: Rof
2012 - Blóðdropinn, hin íslensku glæpasagnaverðlaun: Myrknætti
2011 - Blóðdropinn, hin íslensku glæpasagnaverðlaun: Snjóblinda
2010 - Blóðdropinn, hin íslensku glæpasagnaverðlaun: Fölsk nóta
Hulda
Lesa meiraKvöld eitt í nóvember árið 1980 fær lögreglukonan Hulda Hermannsdóttir símtal frá yfirmanni sínum. Í veiðihúsi hefur fundist bangsi sem kann að varpa ljósi á tuttugu ára gamalt barnshvarf sem aldrei upplýstist. Hulda tekst þegar í stað á hendur ferðalag norður í Blöndudal, í fámenna sveit þar sem henni er misjafnlega tekið.Hvítalogn
Lesa meiraElín S. Jónsdóttir, frægasti glæpasagnahöfundur þjóðarinnar, er horfin, sjötug að aldri. Verk hennar hafa notið mikillar alþjóðlegrar hylli en undanfarin tíu ár hefur hún haft hægt um sig. Lét hún sig hverfa eins og hún gerði eitt sinn fyrir mörgum áratugum – eða hefur einhver gert henni mein?. .Reykjavík
Lesa meiraÍ ágúst 1956 hverfur ung stúlka, Lára Marteinsdóttir, úr vist í Viðey og eftir það spyrst ekkert til hennar.Úti
Lesa meiraVetrarmein
Lesa meiraByn
Lesa meiraL'île au secret
Lesa meiraThe mist
Lesa meiraSneeuwblind
Lesa meira