Beint í efni

Ragnar Jónasson

Æviágrip

Ragnar Jónasson fæddist í Reykjavík árið 1976. Hann útskrifaðist með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Reykjavíkur og nam lögfræði við Háskóla Íslands. Með námi starfaði hann við fjölmiðla, meðal annars á Rás 2 og sem fréttamaður hjá fréttastofu sjónvarpsins. Hann starfaði sem forstöðumaður skrifstofu slitastjórnar Kaupþings og lögfræðiráðgjafar Nýja Kaupþings og var yfirlögfræðingur sjóðstýringafyrirtækisins Gamma. Hann hefur einnig starfað á fjárfestingabankasviði Arion banka og kennt höfundarétt við lagadeild Háskólans í Reykjavík. 

Ragnar er stjórnarmaður í Sinfóníuhljómsveit Íslands og varaformaður Rithöfundasambands Íslands. Hann stofnaði ásamt Yrsu Sigurðardóttur glæpasagnahátíðina Iceland Noir sem haldin er í Reykjavík í nóvember.

Ragnar hefur þýtt fjórtán skáldsögur Agöthu Christie á íslensku. Sú fyrsta, Sígaunajörðin (Endless Night) kom út árið 1994. Hann þýddi einnig leikverkið Orð gegn orði (Prima Facie) fyrir Þjóðleikhúsið. Fyrsta skáldsaga Ragnars, glæpasagan Fölsk nóta, kom út árið 2009 og síðan hefur komið út ný glæpasaga eftir hann á hverju ári. Bækur hans hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og hefur hann verið á metsölulistum og hlotið viðurkenningar á erlendri grundu sem og tilnefningar til Blóðdropans, hinna íslensku glæpasagnaverðlauna.

Árið 2024 voru frumsýndir þættirnir Dimma (The Darkness) sem byggðir eru á bókum Ragnars um lögreglukonuna Huldu (Dimma, Drungi og Mistur) og hafin er vinna að þátt­um um Ara Þór, upp úr Snjó­blindu og fleiri bók­um úr þeirri seríu auk þess sem fyrirhugað er að búa til bíómynd eftir bókinni Úti

Heimasíða Ragnars er www.ragnarjonasson.com.