Beint í efni

Vetrarmein

Vetrarmein
Höfundur
Ragnar Jónasson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Aðfaranótt skírdags finnst lík af ungri konu á gangstétt fyrir framan þriggja hæða hús við Aðalgötuna á Siglufirði. Skömmu síðar skrifar íbúi á hjúkrunarheimili í bænum með æpandi rauðum lit á vegginn í herberginu sínu: Hún var drepin.

Ari Þór Arason lögreglumaður, sem lesendur þekkja úr Siglufjarðarseríu Ragnars, þarf að glíma við undarlegt og óhugnanlegt mál. Páskahelgin er að ganga í garð. Fólk hefur flykkst til bæjarins. Og stórhríð er að bresta á.

Úr bókinni

Það voru tvö rúm inni í herberginu. Annað var augljóslega ekki í notkun en í hinu, innst við gluggann, lá maður, væntanlega umræddur Hávarður, hreyfingarlaus. Og á vegginn við rúmið hans hafði verið skrifað, með æpandi rauðum lit:

Hún var drepin.

Aftur og aftur. Hún var drepin. Það fór hrollur um Ara, hann gekk inn í herbergið og upp að veggnum og virti þetta fyrir sér. Skriftin var óskýr, hálfgert pár, en merkingin komst vel til skila. Eins og órar vanstillts manns, veggurinn nánast þakinn sömu setningunni. Það var vissulega rétt hjá Uglu að dauðsfall ungu stúlkunnar setti þetta í athyglisvert samhengi. Gat verið að gamli maðurinn vissi eitthvað um það? Hafði hann þekkt stelpuna eða kannski afa hennar og ömmu? Hverjir höfðu komið og heimsótt hann eftir að stúlkan fannst látin?
   „Þetta er ... sérkennilegt,“ sagði Ari eftir dálitla þögn.
   „Óþægilegt að horfa á þetta, já,“ svaraði Ugla. „Ég ætlaði að þrífa þetta af, en vildi heyra í þér fyrst. Auðvitað gæti þetta bara verið tilviljun, bara rugl, skilurðu, en hann hefur skrifað þetta í gærkvöldi, í beinu framhaldi af umræðunum um stelpuna, mér fannst það mjög undarleg tilviljun, eins og hann vissi kannski eitthvað ...“
   „Er einhver leið að átta sig á því? Ég meina, er hægt að vita hvort hann sé nógu hress andlega til að skirfa eitthvað sem mark er á takandi?“
   „Þú þarft eiginlega að spyrja Hersi að því, ég er svo sem ekki sérfræðingur, en eins og ég sagði áðan þá flakkar hann dálítið á milli raunveruleikans og þess heims sem hann býr í núna. Hann segir oft hluti sem vit er í, skilurðu?“
   Ari hefði helst viljað segja henni að hreinsa krotið bara af veggnum, láta eins og ekkert hefði í skorist. Afskrifa þetta sem óra gamals manns. Það hentaði best. Það voru komnir páskar, Kristín í bænum og - það sem mikilvægara var - Stefnir litli líka. Ari hafði allra síst ætlað sér að eyða páskunum í einhverja lögreglurannsókn. Það var varla hægt að kalla þetta sönnunargögn, tengslin við látnu stúlkuna lítil sem engin og Hávarður að einhverju leyti kominn út úr heiminum. Einfaldast væri að gleyma þessu öllu saman ...
   „Get ég kannski fengið að spjalla við Hersi um þetta, áður en þið fjarlægið krotið af veggnum?“ spurði hann samt, því það var eitthvað við þetta alltsaman sem Ara þótti óþægilegt, einhver tilfinning sem sagði honum að kannski væri ástæða til að skoða dauða stúlkunnar aðeins betur.

(s. 69-70)

 

Fleira eftir sama höfund

Morð í þremur þáttum

Lesa meira

Morð um borð

Lesa meira

Ráðgátan um jólabúðinginn og fleiri sögur

Lesa meira

Sígaunajörðin

Lesa meira

Spilin á borðið

Lesa meira

Lávarður deyr

Lesa meira

Á síðustu stundu

Lesa meira

Brögð í tafli

Lesa meira

Dauðinn á Níl

Lesa meira