Æviágrip
Sigurður A. Magnússon fæddist 31. mars 1928 að Móum á Kjalarnesi. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1948 og stundaði nám í guðfræði, grísku og trúarbragðasögu við Háskóla Íslands frá 1948 til 1950. Sama ár fór Sigurður til Kaupmannahafnar og nam guðfræði og bókmenntir við Kaupmannahafnarháskóla til 1951 og síðan sögu og bókmenntir við háskólann í Aþenu til 1952. Að því loknu lá leiðin til Svíþjóðar þar sem Sigurður lagði stund á bókmenntir við Stokkhólmsháskóla. Hann lauk BA-prófi í samanburðarbókmenntum frá The New School for Social Research í New York árið 1955. Sigurður kenndi við Stýrimannaskóla Íslands og Gagnfræðaskóla Austurbæjar á árunum 1948 til 1950.
Hann var útvarpsfyrirlesari hjá Sameinuðu þjóðunum og kenndi íslensku við The City College of New York frá 1954 til 1956. Hann var fyrirlesari í íslenskum fornbókmenntum í The New School for Social Research 1955 til 1956. Síðan lá leiðin til Íslands aftur og var Sigurður blaðamaður á Morgunblaðinu 1956 til 1967 og ritstjóri Lesbókarinnar frá 1962 til 1967. Hann var ritstjóri Samvinnunnar 1967 til 1974 og skólastjóri Bréfaskólans 1974 til 1977.
Sigurður vann ötullega að félagsmálum og gegndi formannsstöðu í fjölmörgum samtökum og félögum. Hann var t.a.m. formaður Félags íslenskra leikdómenda 1963 til 1971, Rithöfundafélags Íslands 1971 til 1972 og Rithöfundasambands Íslands hins fyrra 1972 til 1974. Sigurður var fyrsti formaður Rithöfundasambands Íslands og gegndi því embætti frá 1974 til 1978. Hann var formaður Norræna rithöfundaráðsins 1976 til 1977 og Íslandsdeildar Amnesty International 1988 til 1990 og 1993 til 1995. Sigurður var í alþjóðlegri dómnefnd um The Neustadt International Prize for Literature 1986 og í dómnefnd um Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs frá 1990 til 1998. Sigurður ritaði fjölda pistla um þjóðfélags- og menningarmál í dagblöð og tímarit. Hann var að auki leiðsögumaður í Austurlöndum nær, Grikklandi, Indlandi, Nepal, Japan og Brasilíu.
Sigurður skrifaði fjölda bóka á íslensku og ensku, þar á meðal skáldsögur, ljóð, leikrit, ferðasögur, endurminningabækur, greinasöfn og bækur um íslenska hestinn. Fyrsta bók hans var ferðasagan Grískir reisudagar sem kom út 1953. Sigurður vann að kynningu íslenskra bókmennta erlendis og ritstýrði meðal annars sýnisbókum og þýddi ljóð íslenskra skálda. Hann þýddi einnig mikið úr dönsku, ensku, grísku og þýsku, þar á meðal verk eftir H.C. Andersen, Bertolt Brecht, Gíorgos Seferis, Pandelis Prevalakis, Walt Whitman, James Joyce, Nagíb Mahfúz, Kazuo Ishiguro, John Fowles og Ernest Hemingway.
Sigurður lést þann 2. apríl árið 2017.
Frá höfundi
Til hvers allt puðið?
Á bernskuheimili mínu voru ekki til nema tvær eða þrjár bækur. Ég varð ekki læs fyrren á níunda ári — hef alla tíð verið ákaflega seinlæs — og las lítið annað en námsbækur öll árin í barnaskóla. Afturámóti var faðir minn á sína vísu mjög ljóðelskur, kunni heilu ljóðabækurnar utanað og átti til að þylja langa bálka, einkanlega þegar hann var við skál. Kannski hefur það ráðið einhverju um, að ég fékk þá flugu í höfuðið tíu eða ellefu ára gamall, að einmitt kvæði væru salt jarðar. Þá barði ég saman einhverja kviðlinga undir áhrifum frá Einari Ben. Um svipað leyti varð ég fyrir nokkurskonar hugljómunum eldsnemma á sólríkum morgnum þegar allir voru í fastasvefni og ég rölti inn Laugarnesveg til að sækja hrossin í hagana innvið Kleppsveg. Frá því segir í kaflanum „Morgunsár“ í Möskvum morgundagsins (1981). Þar stendur þessi klausa: „Á mig sótti ómótstæðileg löngun til að tjá þessa reynslu fyrir öðrum, því ég þóttist viss um að hún væri einstæð: ég nyti forréttinda sem öðrum dauðlegum mönnum væru fyrirmunuð, nema kannski í draumum, einfaldlega vegna þess að þeir væru allir steinsofandi og færu því á mis við morgungjafir guðdómlegrar náttúru.“ — Kannski er þarna að finna frjóangann sem bar blóm áratugum síðar.
Síðan lenti ég í KFUM tólf ára gamall og varð heittrúaður uppúr fermingu. Þá var einsog allur skáldskapur lokaðist fyrir mér í heilan áratug. Það var ekki fyrren ég kom norður frá Grikklandi sumarið 1952, að ég bar við að setja saman ljóð. Það var í Finnlandi. Þar kynntist ég stúlku sem orti, og hún opnaði þessa æð. Ári síðar var ég kominn til Bandaríkjanna og skráði mig á námskeið í nútímaljóðalist sem var hluti af háskólanáminu. Þá var einsog opnuðust fyrir mér nýjar víddir.
Eftir heimkomuna 1956 setti ég saman fjórar ljóðabækur á löngu skeiði. Sú fyrsta, Krotað í sand (1958), fékk fremur neikvæðar viðtökur, enda kom á daginn að gagnrýnandi sem sendir frá sér ljóðabók er vinsæll skotspónn. Síðan kom Hafið og kletturinn (1961), sem mér finnst sjálfum vera heillegust ljóðabókanna, enda hefur þýðingum úr henni verið mjög vel tekið erlendis, ekki síst í Grikklandi, en hérlendis var hún nálega þöguð í hel. Hef ég aldrei skilið hvernig í því lá. Kannski er eitthvað til í því, sem ég hef heyrt fleygt, að ljóð mín hafi á sér framandi og „óíslenskan“ blæ. Í öllu falli áttu umrædd ljóð greiðari aðgang að útlendingum en samlöndum mínum — þau hafa verið þýdd á grísku, ensku, þýsku, frönsku, rússnesku, úkraínsku, búlgörsku, kínversku, lettnesku, dönsku og norsku.
Seinni ljóðabækurnar, Þetta er þitt líf (1974) og Í ljósi næsta dags (1978), fengu þarámóti mjög jákvæða dóma, einkanlega sú fyrri, og virðast af einhverjum ástæðum hafa átt brýnna erindi við hérlenda lesendur, kannski vegna þess að þær voru persónulegri og berorðari um einkahagi höfundar.
Ég hef fengist við nálega allar tegundir ritstarfa, samið ljóð, sögur, leikrit, ævisögur, ferðabækur, ritgerðir og þýðingar bæði í bundnu máli og óbundnu. Hver þessara greina ritlistarinnar sé mér hjartfólgnust, er erfitt að segja til um. Ljóðagerðin var mér lengivel nákomnust, en ég hef líka haft gaman af að semja ferðabækur, kynningarbækur um Ísland og ritgerðir um bókmenntir og samfélagsmál. Bestum árangri virðist ég hafa náð með bókinni um íslenska hestinn og sjálfsævisögunni sem hófst með uppvaxtarsögunni Undir kalstjörnu (1979) og er orðin átta bindi með átakasögunni Á hnífsins egg (2001).
Þó mér komi ekki til hugar að bera mig saman við Þórberg vin minn Þórðarson, sem samdi álíka mörg sjálfsævisöguleg rit, þá eigum við það sammerkt, að okkur lætur betur að setja saman bækur byggðar á eigin reynslu helduren hrein skáldverk. Reyndar lít ég svo á að sjálfsævisögur séu ein tegund skáldskapar, en útí þá sálma skal ekki farið hér. Halldór Laxness sagði við mig árið 1981, að ég hefði samið þrjár „klassískar bækur“, Við elda Indlands (1962 og 1983) og bindin tvö af sjálfsævisögunni sem þá voru komin út. Við þá umsögn hef ég látið huggast á undanförnum árum, þegar í ljós kom að seinni bindi sjálfsævisögunnar reyndust ekki eins söluvænleg og þau fyrri.
Ég hef fundið hjá mér hvöt til að semja allmargar bækur á ensku til að kynna erlendum lesendum íslenska menningu í víðasta skilningi. Meðal þeirra má nefna Northern Sphinx — Iceland and the Icelanders from the Settlement to the Present (1977 og 1984), Iceland — Country and People (1978, 1986 og 1994), sem kom út á fimm tungum, The Iceland Horse (1978), sem kom út á átta tungum, Iceland — A Modern Artistic Renaissance (1985), The Icelanders (1990) og Iceland — Isle of Light (1995). Við þetta má bæta átta bókum þýddum á enska tungu, meðal þeirra The Postwar Poetry of Iceland (1982) og This is Iceland Today (2000).
Þýðingar á íslensku eru sérstakur kafli ritferilsins sem ég er einkar stoltur af. Hef ég einkum þýtt úr ensku, grísku, þýsku og dönsku. Meðal bóka sem tíðindum hafa þótt sæta eru einu verkin sem þýdd hafa verið úr nýgrísku: skáldsagan Sól dauðans (1964) eftir Pandelís Prevelakís, ljóðabálkurinn Goðsaga (1967) eftir Gíorgos Seferís og Naktir stóðum við — Fimm grísk nútímaskáld (1975). Úr bókmenntaheimi Araba hef ég þýtt tvær skáldsögur eftir egypska nóbelshöfundinn Nagíb Mahfúz, Blindgötu í Kaíró (1989) og Míramar (1990). Úr þýsku þýddi ég Túskildingsóperuna (1959) eftir Bertolt Brecht ásamt ljóðum og sögum í safnritunum Og trén brunnu (1989) og Sögur frá Þýskalandi (1994). Meðal verka sem þýdd voru úr ensku eru Dreggjar dagsins (1990) eftir Kazuo Ishiguro, Safnarinn (1991) eftir John Fowles, Söngurinn um sjálfan mig (1994) eftir Walt Whitman, Satt við fyrstu sýn eftir Ernest Hemingway (1999) ásamt þremur verkum eftir James Joyce, Í Dyflinni (1982), Ódysseifi I-II (1992-93) og Æskumynd listamannsins (2000). Við þetta má bæta tveimur bindum ljóðaþýðinga af ýmsum tungum, Úr ríki samviskunnar (1994) og Með öðrum orðum (1995).
Hér hefur verið getið fáeinna þeirra ríflega 70 bóka, frumsaminna og þýddra, sem komið hafa frá minni hendi á 48 ára ritferli. Og vaknar þá væntanlega spurningin, hvort allt þetta puð hafi verið ómaksins vert. Eftir hverju var ég að slægjast þegar lagt var útá grýtta braut rithöfundarins? Sigmund Freud hélt því fram, að með skrifum sínum sæktust höfundar einkum eftir frama, auði, völdum eða hylli fagurra kvenna, en þar held ég hann hafi farið villur vegar. Að minnstakosti voru þessir hvatar ekki meðvitaðir í mínu tilviki. Það var öllu fremur uppfræðarinn í mér sem réð ferðinni, löngunin til að deila með öðrum reynslu minni og því sem ég taldi mig hafa nytsamlegt lært á lífsleiðinni. Hinsvegar veitti 20 ára blaðamennska ekki þá fullnægju sem ég stundaði eftir, þó vissulega væri hún með köflum skemmtileg og ögrandi. Mér hraus iðulega hugur við að vera einskorðaður við atvik líðandi stundar og þurfa sífellt að skrifa fyrir bréfakörfu náungans.
Kannski var þetta einber hégómaskapur og átti rætur að rekja til hins fornkveðna: „Deyr fé, / deyja frændur, / deyr sjálfur ið sama; / en orðstír / deyr aldregi, / hveim er sér góðan getur.“ Þessi orð Hávamála hafa verið einsog viðlag við gervallt athæfi Íslendinga í ellefu aldir og eru daglega áréttuð í látlausum flaumi eftirmæla í Morgunblaðinu. Með vissum hætti má jafna saman skrifæðinu og kynhvötinni: við viljum skilja eftir okkur afkvæmi. Þetta er djúplæg þörf, ekki endilega þörf fyrir frægð eða frama, heldur fyrir „ófeiga athöfn“ sem ég orðfæri í síðustu ljóðabókinni. Ófeig athöfn merkir að maður hafi gert eitthvað sem skipti eftirkomendurna einhverju máli. En um leið losnum við aldrei við aðgangsfrekar efasemdir. Sennilega göngum við fyrir ætternisstapa með áleitinn grun um að öll okkar verk hafi verið unnin fyrir gýg. Kannski má líkja þessu við ástir mannsins. Þær kunna allar að hafa verið til einskis nema ein eða tvær sem báru áþreifanlega ávexti. Meðan á þeim stóð voru þær samt mjög mikilvægar. Sama máli gegnir um ritmennskuna.
Sigurður A. Magnússon, 2001
Um höfund
Þegar saman kemur – Um ritstörf Sigurðar A. Magnússonar
Það er enganveginn auðvelt að gera grein fyrir hlutverki eða stöðu Sigurðar A. Magnússonar í íslensku bókmennta- og menningarlífi. Hann er „rithöfundur“ í einkar víðum skilningi þess hugtaks og starfsheitis. Hann hefur birt ljóð, leikrit og smásögur og árið 1961 sá dagsins ljós skáldsagan Næturgestir. En raunin er sú að þessar fyrirferðamestu greinar hinnar hefðbundnu bókmenntasögu rúma einungis lítinn hluta verka hans. Hann hefur löngum starfað sem ritstjóri, blaðamaður, gagnrýnandi, þýðandi, höfundur ferðabóka og kynningarrita og síðast en ekki síst höfundur skáldlegrar sjálfsævisögu, sem hóf göngu sína með bókinni Undir kalstjörnu (1979). Alls urðu bindi þeirrar „uppvaxtarsögu“ fimm talsins á sjö árum og á árunum 1997-2001 hefur komið framhald á þeirri sögu í þremur bókum, svo sem síðar verður getið.
Sigurður er fæddur árið 1928 og sinnir ritstörfum enn ötullega, nær hálfum áttunda áratugi síðar. Í sjálfum ferli þessa fjölhæfa og afkastamikla rithöfundar býr eiginlega áskorun um að skilja veröld og sögu bókmenntanna víðara skilningi en tíðkast. Bókmenntasöguleg hugsun hefur löngum beinst að röð tiltekinna frumsaminna skáldverka, en lítt skeytt um það bókmenntalíf, það menningarlega umhverfi, sem fyrir hendi þarf að vera til að einstök bókmenntaverk fái notið sín.
Ef kosið væri þröngt sjónarhorn mætti staðnæmast við tvennt. Annarsvegar mætti fjölyrða um hvernig bestu ljóð Sigurðar bendi til þess að hann hafi haft alla burði til að verða mikilhæft ljóðskáld hefði hann kosið að leggja megináherslu á þá bókmenntagrein (hér er átt við frumort ljóð). Á hinn bóginn er augljóst að með uppvaxtarsögu sinni gerist Sigurður einn af lykilmönnum annarrar og oft vanmetinnar bókmenntagreinar. Þær bækur hans eiga drjúgan þátt í því að íslensk augu hafa opnast á ný fyrir því bókmenntagildi sem býr í góðum ævisögum. Hér segir „á ný“ vegna þess að þrátt fyrir stórvirki Þórbergs Þórðarsonar í þessari bókmenntagrein og góð verk ýmissa annarra höfunda hefur hún löngum átt erfitt með að ryðja sér til verðugs rúms í íslensku bókmenntalífi, þótt það sé kannski að breytast um þessar mundir. Þarmeð er ljóst að við erum eiginlega þegar komin út fyrir hið þrönga sjónarhorn sem nefnt var; sú rækt sem Sigurður hefur lagt við ævisagnaformið vísar á sinn hátt til þess hversu víðan ritvöll hann hefur haslað sér. Og ljóðræn tjáning Sigurðar hefur að ýmsu leyti fundið sér frjálsari farveg í þessu formi en í frumortum ljóðum hans. Svona lýsir hann hinni grísku birtu í „þroskasögunni“ Með hálfum huga:
Þegar ég kvaddi Delfí kom mér í hug að héruðin kringum Hvítahaf voru nefnd Bjarmaland af norrænum mönnum, sennilega sökum heimskautsbirtunnar sem um þau lék að sumarlagi. Ekkert land á heimskringlunni þekki ég sem fremur verðskuldi þetta bjarta nafn en Grikkland, og það á við jafnt vetur sem sumar. Þetta nakta og hrjóstruga land er birtu baðað — birtu sem er frábrugðin annarri birtu. Hún er nálega efniskennd og áþreifanleg, síbreytileg, glampandi á klettum og marborði, geislandi á runnum og byggingum, glitrandi í dölum og lækjum. Hún leikur um mann einsog ljúfur andvari, og stundum er því líkast sem hægt væri að drekka hana. Hún umvefur alla hluti og gerir mynd þeirra tærari, hreinni, fyllir himinhvolfið, hrópar fagnandi. Birtan er svo lifandi að Grikkir léðu henni áþreifanlega mynd guðdóms og nefndu Föbos Apollon, tákn hins guðdómlega ljóma, völdu honum fæðingarstað á eykrílinu Delos á dimmbláu Eyjahafi og fengu honum helgidóm í Delfi, einhverjum stórbrotnasta bletti landsins, umluktum tveimur slútandi hamrabeltum sem þeir nefndu Fedríades — Björtubjörg. Í Grikklandi hefur sjálft mannlífið bjartara yfirbragð en annarstaðar þarsem ég þekki til. (Með hálfum huga, Mál og menning 1997, bls. 168)
Þessar línur bera mikilvæg skilaboð um höfundinn, auk þess sem þær bera vitni náttúruskynjun hans, hrifnæmi og ljóðrænum sköpunarkrafti. Grikkland er veigamikill áfangastaður í lífi Sigurðar. Árið sem hann dvaldist þar rúmlega tvítugur að aldri breytti lífsstefnu hans og það má teljast táknrænt að fyrsta frumsamda bókin hans er Grískir reisudagar sem út kom fyrir hálfum fimmta áratug (1953). Þegar litið er á ritaskrá Sigurðar sést að á fyrstu árum ritferilsins dvelur hugur hans einkum við tvennt: ferðalög og kristindóminn. Af frásögn hans í Með hálfum huga má ráða að Grikklandsárið hafi að vissu leyti beint hinum kristnu hugsjónum að jarðneskri fegurð og veraldlegum áhugamálum.
Ferðalög og kynni af erlendum þjóðum og menningu þeirra áttu eftir að marka djúp spor í ævi Sigurðar. Leiðin hefur oft legið til Grikklands og þar hefur hann einnig starfað sem leiðsögumaður íslenskra ferðalanga. Fyrir nokkrum árum kom út önnur bók um það land: Grikklandsgaldur (1992). Einnig hefur hann skrifað bækur byggðar á ferðum um Indland og Írland: Við elda Indlands (1962) og Írlandsdagar (1995). Um miðjan sjötta áratuginn bjó Sigurður þrjú ár í New York-borg og lauk þar B.A.-prófi í enskum bókmenntum. Þau tök sem hann náði þar á enskri tungu áttu eftir að nýtast honum til að skrifa ýmsar bækur og ritgerðir þar sem hann kynnir Ísland og íslenska menningu fyrir erlendum lesendum, rit eins og Northern Sphinx (1977), Iceland Crucible (1985) og The Icelanders (1990). Vafasamt er að nokkur annar einstaklingur hafi lagt jafnþungt lóð á þá vogarskál. Óhætt er því að segja að Sigurður hafi verið önnum kafinn leiðbeinandi á landamærum; fylgjandi Íslendingum um erlendar slóðir og fræðandi útlendinga um land okkar, þjóð og menningu.
Sigurður hefur ekki síður unnið mikið starf í menningarmiðlun á öðru sviði og þó allskyldu. Hann hefur verið einn atkvæðamesti bókmenntaþýðandi okkar síðastliðinn áratug. Sú athafnasemi er þó ekki ný af nálinni, því fyrstu þrjár bækur Sigurðar eru raunar þýðingar (1949-50). Einnig á þessu sviði hefur hann flutt varning jafnt heiman sem heim, því hann hefur þýtt mikið af íslenskri ljóðlist á ensku, m.a. heilt ljóðasafn: The Postwar Poetry of Iceland (1982). Einnig hefur Sigurður þýtt ljóð úr ýmsum málum á íslensku; sérstök ástæða er til að nefna brautryðjandastarf hans sem þýðanda grískrar nútímaljóðlistar (sjá bók hans Með öðrum orðum. Ljóðaþýðingar 1956-1995 sem út kom 1995) og þýðingu hans á Söngnum um sjálfan mig eftir Walt Whitman (1994), einu áhrifamesta ljóðverki síðustu alda. En atkvæðamestur hefur Sigurður verið við þýðingu skáldsagna og þá einkum síðustu þrettán árin. Má þar nefna verk eftir John Fowles, Nagib Mahfúz og Kazuo Ishiguro. Stærsta verk hans á sviði þýðinga er þó íslensk gerð eins frægasta verks 20. aldar, skáldsögu James Joyce, Ulysses, sem á íslensku heitir Ódysseifur (tvö bindi, 1992-1993). Sú saga er sérdeilis róttæk og nútímaleg í málbeitingu og ótal erfiðleikum bundið að flytja hana yfir á íslensku. Þýðing Sigurðar á þessu verki er sögulegur viðburður í íslensku bókmenntalífi. Hann hefur þýtt tvö önnur merkisverk eftir Joyce, Í Dyflinni (1982) og Æskumynd listamannsins (2000). Nýverið hefur hann einnig snúið sér að Ernest Hemingway; skáldsaga hans Satt við fyrstu sýn kom út 1999, og væntanlegt er safn styttri sagna Hemingways í þýðingu Sigurðar.
Hér að framan var vikið að hinni „veiku“ stöðu ævisagna í bókmenntasögunni, sem hefur valdið því að augu manna hafa ekki verið opin fyrir gildi og möguleikum þeirrar bókmenntagreinar. Þetta á enn frekar við um þýðingar, sem löngum hafa verið í jaðarstöðu þegar kemur að sögulegu eða menningarlegu mati á bókmenntum, þótt fáir beri brigður á mikilvægi þýðinga þegar á það er bent. Sökum þeirrar skekkju sem enn ríkir í þjóðlegri bókmenntaumræðu er þess kannski langt að bíða að afurðir mikilvirkra þýðenda eins og Sigurðar A. Magnússsonar verði metnar að verðleikum sem íslensk bókmenntaverk.
Störf og verk Sigurðar sem drepið hefur verið á fram að þessu eru svo margvísleg og umfangsmikil að telja mætti drjúgt ævistarf þótt ekki kæmi fleira til. Enn hefur þó ekki verið fjallað um mikilvæg störf á vettvangi bókmennta og íslenskrar menningar. Skömmu eftir að Sigurður snýr heim frá Bandaríkjunum tekur hann að skrifa ritdóma og haustið 1957 gerist hann bókmenntagagnrýnandi hjá Morgunblaðinu. Um árabil skrifar hann fjölmarga ritdóma í blaðið og frá 1962 tekur hann að birta þar leikdóma. Hefur hann á ferli sínum skrifað mikinn fjölda bóka- og leikdóma í dagblöð og tímarit. Ekki er nokkur leið að leggja mat á þennan þátt ritstarfa hans að þessu sinni, en impra má á nokkrum almennum atriðum í þessu sambandi. Gagnrýni í fjölmiðlum hefur mikilvægu hlutverki að gegna í lýðræðislegum menningarsamfélögum, ekki aðeins vegna þess að hún tryggir að fram komi gagnrýnið mat á menningarverkum, heldur ætti hún að vekja frekari umræðu um jafnt einstök verk sem almenna þætti lista og menningar. Góður gagnrýnandi þarf ekki aðeins að ráða yfir þekkingu á viðkomandi sviði, hann þarf einnig að búa yfir heiðarleika til að fjalla á sannferðugan hátt um verkið og þroska til að skapa sitt eigið ritverk án þess að láta grunnviðbrögð sín — svo mikilvæg sem þau eru, til dæmis hrifning eða andúð — snúast upp í sjálfhverft sjónarspil.
Góð gagnrýni í dagblöðum er ekki aðeins mikilvægur þáttur í bókmenntaumræðunni heldur getur hún líka verið fyrirmynd vandaðrar blaðamennsku. Þegar kemur fram á sjöunda áratuginn aukast umsvif Sigurðar sem blaðamanns og jafnfram beinist áhugi hans í æ ríkara mæli að samfélags- og menningarmálum almennt. Það er um miðbik sjöunda áratugarins sem Sigurður tekur sér þá stöðu í íslensku samfélagi sem hann verður þjóðkunnur fyrir. Þarna skarast persónusaga hans jafnframt við átakaskeið í íslensku samfélagi — tímabil kalda stríðsins.
Árið 1962 gerist Sigurður meðritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins og tekur þátt í að endurmóta hana. Skrifar hann þar á næstu árum fjjölda greina um menn og málefni og beinir sjónum jafnt til útlanda sem um innlent svið. Fimm árum síðar hrekst hann burt þaðan og tekur við ritstjórn Samvinnunnar, reisir það tímarit úr láginni og stýrir því til 1974. Á síðum Samvinnunnar birtist mikil menningar- og þjóðmálaumræða í tíð Sigurðar og komu þátttakendur úr ýmsum áttum. Viðhorf og verk slíkra ritstjóra skipta miklu máli í allri menningarmiðlun og menningarumræðu og þótt oft sé erfitt að leggja mat á sköpunarstarf þeirra er full ástæða til að skyggnast eftir því hvernig þeir haga þeim birtingar- og umræðuvettvangi sem þeir ráða yfir. Og stjórnunarhæfileikar Sigurðar nýttust víðar, því á árunum 1971-78 var hann í forystuhlutverki í hagsmunasamtökum rithöfunda. Hann var fyrsti formaður hins sameinaða Rithöfundasambands Íslands (1974-1978) og vann ötullega að því að koma því á styrkan grunn.
Meðal hugvísindamanna hefur undanfarið gætt sterkra strauma sem stundum eru kenndir við „menningarfræði“ eða „menningarlega efnishyggju“ og lúta að könnun efnislegra, stjórnunarlegra og hugmyndafræðilegra þátta menningarlífsins, þannig að ekki er einblínt á einstakar afurðir þess (til dæmis skáldverk). Augljóst má vera að hlutverk Sigurður á hinu mikilvæga breytingaskeiði frá og með miðjum sjöunda áratugnum og fram á þann áttunda yrði mun veigameira í sögulegri könnun með slíkum áherslum heldur en í hefðbundinni bókmenntasögu. Mikilvæg skáldverk þessa tíma eru ekki einangruð fyrirbæri; þau urðu til í menningardeiglu þar sem Sigurður var afar virkur sem gagnrýnandi, greinahöfundur, ritstjóri og þátttakandi í umræðum og deilum. Saga hans á þessu skeiði er saga menntamannsins og rithöfundarins sem lætur eldmóðinn kynda undir gagnrýnni hugsun, þorir að eiga sér hugsjónir en tekur jafnframt sjálfstæða og óflokksbundna afstöðu í þjóðþrifamálum. Hann tekur ekki aðeins til máls í tíma heldur líka í „ótíma“ (svo vísað sé til heitis á greinasafni hans frá 1998), þótt það komi við kaunin á öðrum og reynist honum sjálfum skeinuhætt frá „hagkvæmu“ sjónarhorni.
Þetta er sá Sigurður sem við þekkjum síðan, þótt málefnin hafi breyst. Á sjöunda áratugnum tók hann kappsamlega þátt í „sjónvarpsumræðunni“ og var harður gagnrýnandi Kanasjónvarpsins svonefnda; hann gagnrýndi Bandaríkjamenn fyrir stríðsreksturinn í Víetnam og hann fordæmdi herforingjastjórnina í Grikklandi. Og hann hikar ekki við að senda löndum sínum hvöss skeyti eins og hann hefur gert æ síðan. Hann tekur stundum sterkt til orða, eins og í grein árið 1968, þar sem honum svíður:
siðleysið og spillingin í stjórnmálum og öllu stjórnkerfi landsins: gerræði stjórnmálaflokkanna; valdníðslan í sambandi við stöðuveitingar; herfileg misbeiting peninga- og bankavaldsins í pólitísku skyni: einsýni og þýlyndi dagblaðanna; auðsöfnun braskara og annarra sníkjudýra samfélagsins; sinnuleysi stjórnvalda um það sem horfir til almannaheilla, svosem sjúkrahús, barnaheimili og leikvelli, skóla og aðrar menningarstofnanir; undirlægjuháttur gagnvart erlendu valdi; hugleysi stjórnmálamanna og hugmyndafátækt á alþjóðavettvangi — og þannig mætti langalengi telja (Í tíma og ótíma. Ræður og ritgerðir, Háskólaútgáfan 1998, bls. 245-246).
Á bak við þessi orð er einstaklingur sem reiðubúinn er að tefla djarft í eigin nafni, vitandi það að samfélagið í lýðræðisríki er samkomulag, það er samningur sem má ekki hvíla á dauðum bókstaf heldur þarfnast lifandi hugsjóna um gott mannlíf. Og ef stór orð eru látin fljúga er það ekki vegna ofstækis, heldur vegna þess að það eru svo margir sofandi; vakni þeir og séu ósáttir við þessa rödd geta þeir sjálfir tekið til máls og látið í sér heyra. Menn þurfa ekki að vera sammála skoðunum Sigurðar til að finna að málefnin eru brýn og að meira af eldmóði mannskepnunnar mætti nýta til skapa mannúðlegt samfélag og fjölbreytilega, örvandi menningu.
Ferill Sigurðar, störf og ritverk, vekja raunar þá spurningu hvort íslenskir rithöfundar og aðrir menntamenn (þar á meðal fræðimenn) séu ekki almennt of feimnir við að láta til sín heyra um félagslegan búskap jafnt sem andans mál. Við göngum oft of langt í að greina bókmenntaleg umræðuefni frá öðrum menningarlegum og samfélagslegum málefnum. Rithöfundar láta að sjálfsögðu „til sín heyra“ í skáldverkum sínum — það er oftast þeirra kjörna „sérsvið“ og eðlilegt að metnaður þeirra sé mestur þar, og bókmenntaverk geta veitt okkur dýpri og margþættari innsýn í samfélagið en nokkur annar miðill. En einnig sú innsýn er háð hinu menningarlega umhverfi og hví skyldi rödd rithöfunda ekki heyrast víðar í því samhengi? Jafnvel í sjálfri bókmenntaumræðunni fer oft furðulítið fyrir rithöfundum okkar og finnst manni þó fátt eðlilegra en að þeir, eins og svo mörg starfssystkin þeirra erlendis, komi viðhorfum sínum til bókmennta og annarra lista á framfæri í ritgerðum og pistlum, fjalli um erlenda höfunda sem skipta þá máli jafnt sem um innlendar bókmenntir. Á þessu eru þó vissulega undantekingar. Benda má á bókmenntaritgerðir Svövu Jakobsdóttur og ýmsar greinar eftir Guðberg Bergsson, Pétur Gunnarsson, Einar Má Guðmundsson og Gyrði Elíasson.
En ritgerðin, esseyjan, hefur þó ekki verið áberandi form metnaðarfullrar rittjáningar á allra síðustu áratugum. Ekki er það vegna þess að engin hefð sé fyrir slíku framlagi rithöfunda hér á landi. Tveir af fremstu rithöfundum landsins á liðinni öld eru jafnframt með bestu ritgerðahöfundum okkar, þeir Þórbergur Þórðarson og Halldór Laxness. Auk þess á einn helsti bókmenntaþýðandi landsins sérlega beitt stílvopn þegar kemur að greinaskrifum: Helgi Hálfdanarson. Eftir hann liggur fjöldi góðri pistla frá síðari hluta aldarinnar. Þá voru tveir rithöfundar af næstu kynslóð einnig teknir að leggja nokkuð samfellda rækt við esseyjur, en það eru þeir Thor Vilhjálmsson og Sigurður A. Magnússon. Báðir hafa þeir verið ötulir samfélagsgagnrýnendur og báðir hafa þeir skrifað fjölda ritgerða um bókmenntir og menningu. Sérstök ástæða er til að benda á umfjöllun þeirra um erlendra rithöfunda og listamenn. Slík miðlun er eylandinu mikilvæg og gerir hvorttveggja að efla vitund um framandi menningu og örva skilning og tjáningu í íslensku málsamhengi.
Í greinasöfnum Sigurðar, Nýju fötin keisarans (1959) og Sáð í vindinn (1968) má finna fjölmargar greinar hans um bókmenntir sem og ritdóma er eftir hann liggja. Úrval leikdóma Sigurðar er að finna í bókinni Í sviðsljósinu (1982). Á sjötugsafmæli höfundar birtist svo úrval úr ritgerðum hans og ræðum, Í tíma og ótíma (1998). Fyrsti og stærsti hluti bókarinnar hefur að geyma greinar um bókmenntir og getur skoðast sem framhald af eldri greinasöfnum. Í öðrum bókarhluta eru greinar og erindi um önnur samfélagsmál, þriðji hluti er um kristileg málefni — en þess má geta að Sigurður hefur ítrekað sagt að hugsjónir sínar og félagsleg umbótastefna eigi rætur í kristindómnum — og að lokum eru nokkrar greinar sem Sigurður samdi á ensku.
Enn er hér ógetið ævisögu Sigurbjörns Einarsonar biskups, sem Sigurður A. Magnússon skráði og nefnist Sigurbjörn biskup. Ævi og störf (1988), sem og æviágrips sem hann skrifaði um málarann Louisu Matthíasdóttur (1999). En þriðja ævisagan er þó fyrirferðarmest á ritferli Sigurðar og munu vafalaust margir telja hana hryggjarstykkið í höfundarverki hans. Það er auðvitað frásögn hans af eigin ævi, saga sem hófst í bókinni Undir kalstjörnu 1979, og hélt áfram í bókunum Möskvar morgundagsins (1981), Jakobsglíman (1983), Skilningstréð (1985) og Úr snöru fuglarans (1986). Þessar fimm bækur kallar höfundur „uppvaxtarsögu“.
Í aðfaraorðum fyrstu bókarinnar segir: „Þessi saga rekur atvik sem gerðust í reyndinni en getur þó ekki talist sannsöguleg vegna þess að hún endurvekur og umskapar löngu liðna atburði samkvæmt lögmálum sem eru ekki alténd virk í daglegu lífi.“ (Undir kalstjörnu, Mál og menning 1979, bls. 6). Uppvaxtarsaga Sigurðar getur að öllum líkindum fallið undir hugtakið „skáldævisaga“ sem fleygt hefur orðið á síðustu árum eftir að Guðbergur Bergsson notaði það sem undirtitil á endurminningabækur sínar. Uppvaxtarsaga Sigurðar er semsé á mörkum skáldsögunnar og sjálfsævisögunnar, ásamt því raunar að fjallað er um bernsku og uppvöxts einstaklings sem átti eftir að rata inn á lendur skáldskaparins.
Staðgengill Sigurðar í uppvaxtarsögunni heitir Jakob og aðrir honum nákomnir bera einnig „dulnefni“. Í fyrstu bókinni — en hún vakti mikla athygli er hún kom út og óhætt að segja að hún hafi slegið í gegn — rekur hann sögu sína frá frumbernsku til þess er móðir hans deyr, en þá er hann níu ára. Vaknandi vitund barnsins er lýst ýmist frá sjónarhóli þess eða með greinandi umsögn hins fullorðna sögumanns:
Ég var smátt og smátt að verða þess áskynja — það var fremur hugboð en formuð hugsun — að ég hefði eignast þegnrétt í veröld sem var umsetin mótsögnum, gegnsýrð sterkum ástríðum, ofurseld fátækt, óreglu og öryggisleysi. Pabbi var ekki túramaður sem kallað er, heldur sídrykkjumaður í þeim skilningi að hann drakk oft og stundum illa. (Undir kalstjörnu, bls. 41)
Andspænis, óreglu, öryggisleysi, lífsgleði og ástríðum, en faðir hans er fulltrúi alls þessa, leitar Jakob í skjól móður sinnar og þar bætir höfundur fallegri móðurmynd í drjúgt safn slíkra mynda sem finna má í bókmenntum. Eftirminnilegt er atriðið undir bókarlok þegar Jakob laumast inn í herbergið þar sem lík móður hans liggur, heldur spegli að vitum hennar og mænir í spegilinn í von um að sjá móðu setjast á hann (Undir kalstjörnu, bls. 251).
Í næstu bókum má svo lesa um leið Jakobs til þroska, um umbrot unglingsáranna og baráttu til að komast menntaveginn. Þetta er býsna ítarleg tilfinningasaga ungrar manneskju sem er viðkvæm og hrifnæm, hugsjónarík og dálítið bláeyg. Jafnframt geyma þessar bækur sögu tíðaranda og menningarlífs í Reykjavík á fjórða og fimmta áratug tuttugustu aldar. Uppvaxtarsögunni lýkur þegar Jakob hverfur í ástarsorg af landi brott rúmlega tvítugur að aldri.
Á nákvæmlega þeim tímapunkti hefst svo „þroskasagan“ Með hálfum huga, sem út kom meir en áratug síðar (1997). Þar hefur Sigurður fært sig yfir í hefðbundnara sjálfsævisöguform og hefur varpað frá sér dulnefninu. Í frásögninni, sem fjallar að mestu um dvöl hans í Grikklandi og á Norðurlöndunum og um námsárin í New York, má þó víða sjá ljóðræn tilþrif og höfundur dregur ekki fjöður yfir lífsþorsta sinn, sem meðal annars fær útrás í litríkum ástamálum. Næstu tvær bækur í þessum flokki, Undir dagstjörnu (2000), með auknefnið Athafnasaga, og Á hnífsins egg. Átakasaga (2001), segja sögu athafnasams blaðamanns, gagnrýnanda, ritstjóra, leiðsögumanns og félagsmálamanns á árunum 1956 til 1980. Þessar bækur eru með mun meiri heimildablæ en hinar fyrri og höfundur gerir minna af því að grafast fyrir um tilfinningalíf sitt. Haldið er til skila hinum ýmsu verkum og hlutverkum sem einkenna annasamt lífs hans á þessu tímabili. Honum er greinilega í mun að standa á þeim samfélagsleg reikningsskil og hin persónulega mynd aðalsöguhetjunnar lendir í skugga félagslegra viðburða og hugleiðinga um ástand þjóðmála og heimsmála. Þetta voru viðsjárverðir tímar og Sigurður tók kappsamlega þátt í hinni heitu menningar- og stjórnmálaumræðu sem fram fór hér á landi á tímabilinu sem gjarnan er kennt við kalt stríð. Bækurnar eru jafnframt mikilvægt framlag til menningarlegrar umræðu um þessa tíma, þegar mikil umskipti urðu í bókmenntum og listum, og í íslenskum lifnaðarháttum almennt.
Á vordögum 2003 mun væntanlegt fjórða bindið í bókaflokknum sem hófst með Með hálfum huga, og jafnframt níunda bindið í þeirri ævisögu sem hófst með Undir kalstjörnu. Þegar saman er komið hlýtur þetta að verða ítarlegasta æviskráning nokkurs Íslendings, þrisvar sinnum þreföld króníka viðburðaríks lífs.
© Ástráður Eysteinsson, 2002
(Fyrri hluti þessarar greinar er nokkuð samhljóða inngangi mínum að greinasafni Sigurðar A. Magnússonar, Í tíma og ótíma, frá 1998.)
Greinar
Almenn umfjöllun
Ástráður Eysteinsson: „Á víðum velli : Um rithöfundinn Sigurð A. Magnússon“
Sigurður A. Magnússon: Í tíma og ótíma : Ræður og ritgerðir ásamt ritaskrá 1944-1998. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1998, s. 11-17
Sigurður A. Magnússon: „Á hálum ís – ljóðræn skautahlaup“
Jón á Bægisá, 10. árg., 2006, s. 85-93
Sigurður A. Magnússon: Ljósatími : Einskonar uppgjör.
Reykjavík: Mál og menning, 2003.
Sigurður A. Magnússon: Á hnífsins egg : Átakasaga.
Reykjavík: Mál og menning, 2001.
Sigurður A. Magnússon: Undir dagstjörnu : Athafnasaga.
Reykjavík: Mál og menning, 2000.
Sigurður A. Magnússon: Með hálfum huga : Þroskasaga.
Reykjavík: Mál og menning, 1997.
Snæbjörn Arngrímsson: „Íslendingar eiga djarfhuga rithöfunda“ : Viðtal við Sigurð A. Magnússon“
Bjartur og frú Emilía, 1. árg., 1. tbl. 1990, s. 12-19
„The Pros and Cons of Sigurður A. Magnússon’s Translations of Postwar Icelandic Poetry“
Scandinavian Studies, 58. árg., 4. tbl. (haust) 1986, s. 341-406.
Um einstök verk
Goðsaga
Baldur Ragnarsson: „Ljóð úr grísku“
Tímarit Máls og menningar, 29. árg., 2. tbl. 1968, s. 203-5.
Fabíóla
Ástráður Sigursteindórsson: „Frá bókagerðinni Lilju“
Víðförli : Tímarit um guðfræði og kirkjumál, 4. árg., 3.-4. tbl. 1950, 242-3.
Í Dyflinni (þýðing)
Ástráður Eysteinsson: „Sambras – eða hádegissnarl í Dyflinni með James Joyce og Sigurði A. Magnússyni“
Tímarit Máls og menningar 2008, 69. árg., 3. tbl. bls. 29-36.
Í sviðsljósinu : Leikdómar 1962-1973
Jón Viðar Jónsson : „Sigurður A. Magnússon. Í sviðsljósinu, Leikdómar 1962-1973“
Skírnir, 157. árg., 1983, s. 171-75.
Jakobsglíman : Uppvaxtarsaga
Þorleifur Hauksson: „Mannlíf í gáruðum spegli : Ritdómur“
Tímarit Máls og menningar, 48. árg., 3. tbl. 1987, s. 378-82.
Krotað í sand
Einar Bragi: „Krotað í sand“
Birtingur, 4. árg., 3.-4. tbl. 1958, s. 65-6.
„Fjórar ljóðabækur“
Forspil, 1. árg., 2. tbl. 1958, s. 4-5.
Halldór Stefánsson: „Sigurður A. Magnússon. Krotað í sand. Ljóð.“
Tímarit Máls og menningar, 19. árg., 3. tbl. 1958. s. 314-15.
Kristján Karlsson: „Frá íslenzkri bókaútgáfu 1958“
Nýtt Helgafell, 3. árg., 3.-4. tbl. 1958, s. 154-7.
Möskvar morgundagsins : Uppvaxtarsaga
Silja Aðalsteinsdóttir: „„Ég er aðeins barnshöfuð“ : Ritdómur um bækurnar Undir kalstjörnu og Möskvar morgundagsins“
Tímarit Máls og menningar, 43. árg., 5. tbl. 1982, s. 617-23.
Northern Sphinx : Iceland and the Icelanders from the Settlement to the Present
Hermann Pálsson: „Sigurður A. Magnússon. Northern Sphinx“
Scandinavica, 18. árg., 1. tbl. (maí) 1979, s. 60-61.
Ódysseifur
Soffía Auður Birgisdóttir: „Karl á gægjum og kona til sýnis : ást og ástleysi í Ódysseifi“
Tímarit Máls og menningar, 55. árg., 1. tbl. 1994, s. 51-57
Sverrir Hólmarsson: „Vindar og vonbrigði : rýnt í sjöunda kafla Ódysseifs“
Tímarit Máls og menningar, 55. árg., 1. tbl. 1994, s. 58-65
Nýju fötin keisarans
Helgi Sæmundsson: „Nýju fötin keisarans, greinar og fyrirlestrar“
Andvari, 85. árg. (nýr flokkur II), 1. tbl. (vor) 1960, s. 88-92
Sigurbjörn biskup : Ævi og starf
Hjalti Hugason: „Sigurður A. Magnússon. Sigurbjörn biskup, ævi og starf“
Saga, 27, 1989, s. 243-251.
Þórir Kr. Þórðarson: „Um Sigurbjörn biskup og bók Sigurðar A. Magnússonar“
Kirkjuritið, 55. árg., 3.-4. tbl. 1989, s. 160-65.
Skilningstréð : Uppvaxtarsaga
Þorleifur Hauksson: „Mannlíf í gáruðum spegli : Ritdómur“
Tímarit Máls og menningar, 48. árg., 3. tbl. 1987, s. 378-82.
Sól dauðans
Jón frá Pálmholti: „Sólir dauðans og lífsins“
Tímarit Máls og menningar, 26. árg., 3.-4. tbl. 1965, s. 365-6.
The Postwar Poetry of Iceland
Firchov, Peter: „The Postwar Poetry of Iceland. Tr. by Sigurdur A. Magnússon“
Scandinavian Studies, 56. árg., 3. tbl. (sumar) 1984, s. 282-4.
Undir kalstjörnu : Uppvaxtarsaga
Silja Aðalsteinsdóttir: „„Ég er aðeins barnshöfuð“ : Ritdómur um bækurnar Undir kalstjörnu og Möskvar morgundagsins“
Tímarit Máls og menningar, 43. árg., 5. tbl. 1982, s. 617-23.
Úr snöru fuglarans : Uppvaxtarsaga
Þorleifur Hauksson: „Mannlíf í gáruðum spegli : Ritdómur“
Tímarit Máls og menningar, 48. árg., 3. tbl. 1987, s. 378-82.
Wasteland with words: a social history of Iceland
Ingar Kaldal: „Sigurður Gylfi Magnússon, Wasteland with words. A social history of Iceland“ (ritdómur)
Saga 2012, 50. árg., 2. tbl. bls. 194-7.
Verðlaun
Verðlaun og viðurkenningar
1995 - Evrópsku bókmenntaverðlaunin kennd við Jean Monnet
1994 - Heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands
1985 - Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1980 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Undir kalstjörnu
1961 - Verðlaun í leikritasamkeppni Menningarsjóðs: Gestagangur
1955 - Gullkross grísku Fönixorðunnar
Tilnefningar
1981 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Undir kalstjörnu
Síðasta freistingin
Lesa meiraFótatak í fjarska
Lesa meiraÖrlagavaldar 20. aldar
Lesa meiraGarður guðsmóður: munkríkið Aþos - elsta lýðveldi í heimi
Lesa meiraTil fiskiveiða fóru
Lesa meiraHænur eru hermikrákur
Lesa meiraPS: Ég elska þig
Lesa meiraSnjórinn á Kilimanjaro og fleiri sögur
Lesa meiraLjósatími : Einskonar uppgjör
Lesa meira
Hvernig konurnar stöðvuðu blásturinn
Lesa meiraDreggjar dagsins
Lesa meira