Æviágrip
Sigurjón Magnússon fæddist í Reykjavík 19. janúar 1955. Hann ólst upp í Vesturbænum og gekk í Mela- og Hagaskóla og síðan í M.R. Vistin þar varð ekki löng, en árið 1988 lauk hann stúdentsprófi frá öldungadeild M.H. og stundaði eftir það nám í íslensku og ensku við Háskóla Íslands. Þá hefur Sigurjón gegnt margs konar störfum í áranna rás, eða þar til hann sneri sér að skriftum eftir útkomu fyrstu bókar sinnar, meðal annars var hann barna- og unglingakennari, starfsmaður á drykkjumannaheimili og tryggingasali, svo eitthvað sé nefnt. Árið 1992 stofnaði hann bókaútgáfuna Ormstungu með mági sínum, Gísla Má Gíslasyni, og vann þar um skeið.
Fyrsta útgefna verk Sigurjóns er skáldsagan Góða nótt, Silja sem Bjartur gaf út árið 1997 og vakti hún verulega athygli. Síðan hefur hann sent frá sér sex skáldsögur, síðast Snjór í myrkri árið 2014. Góða nótt, Silja var gefin út í sænskri þýðingu árið 2000.
Sigurjón Magnússon býr í Kópavogi. Hann er kvæntur og á tvö börn.
Forlag: Bjartur
Frá höfundi
Frá Sigurjóni Magnússyni
Árið 1975 gerðist ég rithöfundur. Að vísu ekki með því að gefa út skáldsögu eða smásagnasafn, heldur skenkti ég sjálfum mér starfsheitið ef svo má segja. Þetta ár fór ég í langt ferðalag um meginland Evrópu og skráði „Rithöfundur“ undir starf/occupation í vegabréfið mitt.
Og þetta gerðist einfaldlega vegna þess að eitthvað varð ég að vera í vegabréfinu, en var því miður ekki neitt. „Nemi“ hefði auðvitað verið nærtækara fyrir tvítugan mann. Þeir jafnaldrar mínir sem höfðu farið til útlanda voru allir nemar í vegabréfum sínum. Ég hafði hins vegar hrökklast úr skóla þremur árum áður svo það átti ekki við. „Fallisti“ hefði verið nær sanni.
Ekki hafði ég heldur haft fast starf sem ég gæti vísað til. Ég var ekki á uppleið heldur útleið. Í tvennum skilningi. Áður en ég sótti um vegabréfið leitaði ég ráða hjá vini mínum. Ég vildi vita gagnvart hvaða starfsstéttum gætti minnstrar tortryggni á meginlandinu. Hann nefndi nokkrar, þar á meðal presta, minnir mig, og lækna. Síðan rithöfunda. Og það hentaði mér prýðilega. Ég var hvorki biblíufróður né sterkur í anatómíu, en ég var bókelskur og ágætlega að mér í þeim efnum. Auk þess hafði ég fengist við að yrkja eins og títt er um bókelsk ungmenni svo þetta svalaði jafnframt vissum metnaði. Eða hégómagirnd öllu heldur. Það var því rithöfundurinn Sigurjón Magnússon sem flaug með Flugfélagi Íslands til Spánar í september árið 1975.
Og „Rithöfundur“ varð mitt fyrsta og raunar eina starfsheiti, alltént það eina sem ég sætti mig við. Ég var rithöfundur í Evrópu í meira en ár og það var ekki slæmur tími. Þegar ég var kominn heim minntist ég þessa árs með söknuði því ég var aftur orðinn ekki neitt. Ég seldi bækur og tryggingar en aldrei varð ég „Sölumaður“. Og þaðan af síður varð ég „Meðferðarfulltrúi“ þótt ég ynni á drykkjumannaheimili í áratug. Og sama má segja um fjölmörg önnur störf sem ég stundaði. Sá sem einu sinni hefur verið rithöfundur, og aukinheldur á erlendri grund, getur greinilega átt í mesta basli með að tengja sig við almennt hversdagsstrit hér norður á hjara veraldar.
Um miðjan níunda áratuginn tók ég mér tak og hóf nám, fyrst í öldungadeild, síðan í háskóla. En nú var ég orðinn of gamall til að geta kallað mig „Nema“. Ennþá fékkst ég við að skrifa, og þegar kom fram á miðjan tíunda áratuginn óx blaðastaflinn dagvöxtum eins og tuddinn í Eyrbyggju. Og sumardag einn árið 1997 stóð ég svo andspænis þessari spurningu: Væri ekki ráð að reyna að standa undir nafni og „vera“ rithöfundur? Publish or perish, segir jú einhvers staðar. Ég fór með handrit að fyrstu skáldsögu minni til útgefanda hér í bæ. Hann var vanur að fást við byrjendur í faginu og tók mér ljúfmannlega, það vottaði jafnvel fyrir vorkunnsemi þegar hann sá þennan taugaóstyrka mann sem stóð þarna með ófullburða handrit í titrandi lúkunum. Enda óneitanlega fátt sem benti til þess að sá hefði þegar gegnt starfi rithöfundar í tuttugu og tvö ár.
Sigurjón Magnússon, 2007
Um höfund
Ein í myrkrinu. Um skáldsögur Sigurjóns Magnússonar
Sigurjón Magnússon hefur sent frá sér fjórar skáldsögur: Góða nótt, Silja (1997), Hér hlustar aldrei neinn (2000), Borgir og eyðimerkur (2003) og síðast Gaddavír (2006). Það er ekki hægt að segja um neina af þessum bókum að Sigurjón forðist erfið og sársaukafull viðfangsefni. Skáldsögur hans eru bækur um mannlegt eðli, einsemd, þrá, væntumþykju og ást. En þær fjalla einnig að stórum hluta um andhverfu en jafnframt systkini ástar og væntumþykju – hatrið og illskuna. Sögurnar um einmana mannshjörtu sitja eftir þegar bókinni hefur verið lokað og vekja til umhugsunar um einstaklinginn, samfélagið og samskipti sála.
Góða nótt, Silja
Góða nótt, Silja, fyrsta bók Sigurjóns, gerir kröfu um að lesandinn sé virkur í leit að merkingu og setur hann eiginlega í hlutverk spæjara. Sagan gerist í Reykjavík nútímans á fáum dögum. Þar segir frá fjölskyldu sem einkasonurinn Haraldur hefur bakað miklar sorgir, trúnaðarvini og jafnframt eina vini foreldranna, næturverðinum Jónatan, og ‘vinkonu’ Haraldar, Silju. Sagt er frá hughrifum og viðbrögðum persónanna við atburðum sem lesandinn kynnist ekki fyrr en síðar – orsakir athafna eða atburða koma gjarnan áður en lesandinn kemst að því hvað olli þeim. Þannig vitum við að hegðun Haraldar hefur valdið harmleik innan fjölskyldunnar, en við vitum ekki hvað hann gerði. Að sama skapi fylgist lesandinn í upphafi bókar með Jónatani missa stjórn á skapi sínu við ógæfumennina í húsinu þar sem hann er næturvörður, en það er ekki fyrr en seinna sem við komumst að því af hverju hann er í slíku uppnámi. Silja sjálf, sem út frá titlinum mætti álykta að gegndi lykilhlutverki í sögunni, birtist ekki fyrr en nokkuð er liðið á söguna. Hér er sýnt en ekki sagt, lesandanum látið eftir að hugleiða málin og draga ályktanir, og Sigurjón gerir það alla jafna mjög vel.
Stíllinn er yfirlætislaus og myndirnar sem Sigurjón dregur upp yfirleitt hárfínar og samtvinnaðar sögunni. Dæmi um þetta er þegar Silja eltir Harald inn í skuggalegt húsasund er hún vill biðja hann fyrirgefningar í kjölfar ofbeldisfullrar hegðunar hans sem hún telur sig ábyrga fyrir: „Hún veit ekki hvert hann leiðir hana, hún hefur aldrei komið hingað fyrr, en sundið er langt og þröngt og hrópin og hlátrarnir frá götunni hljóðna að baki henni“ (49-50). Umhverfið speglar það sálarástand sem Haraldur leiðir Silju í á mjúkan og sannfærandi hátt, sem hluti af sögunni frekar en utanáliggjandi stílbragð.
Flestar ef ekki allar persónur bókarinnar eru staddar í einhverskonar tilfinningalegu öngstræti líkt og Silja. Næturvörðurinn Jónatan er einstæðingur í lífinu. Það er sennilega ástæðan fyrir því að hann helgar sig svo fullkomlega vináttunni við foreldra Haraldar, en þau hafa ekki samneyti við neinn annan en Jónatan. Hegðun Haraldar er undirrót þessa harmleiks og hann kemur fram við Jónatan, foreldra sína og Silju af algjöru tillitsleysi. Silja sjálf þjáist af samviskubiti yfir að hafa þurft að senda móður sína á elliheimili. Gamla konan var því mjög mótfallin og áfellist dóttur sína ákaflega, innrætir henni í raun þann persónueiginlega sem Haraldur nýtir sér – að Silja geti kennt sjálfri sér um það hvernig aðrir koma fram við hana. Samúð og samhjálp virðast ekki vera ráðandi afl í mannshjartanu og jafnvel þegar hluttekning nær að brjótast fram á yfirborðið og leiða til þess að einhver rétti öðrum hjálparhönd fer illa. Eini gæskuvotturinn sem ein persóna sýnir annarri í bókinni hrindir af stað atburðarás sem endar á skelfilegan hátt.
Mannleg grimmd kemur samt einna sterkast fram í viðbrögðum ógæfumannanna sem Jónatan vaktar, eftir að hann missir stjórn á skapi sínu við þá, nokkuð sem ekki hefur átt sér stað áður og á sér eins og áður segir skýringu í sögunni sem ekki er vert að segja frá hér. Eina gleði þeirra í lífinu virðist vera tækifæri til að koma höggi á liggjandi mann og þeir nýta þessa einu hrösun Jónatans til að fá hann rekinn úr starfi. Röksemdafærslan er á þessa leið: hinir heimilislausu eru menn sem allt hefur gengið „úr greipum, bæði stórt og smátt, og þess vegna líðst engum að tala niður til þeirra“ (8). Þeir eru á botninum og þannig friðhelgir fyrir árásum þeirra sem standa ofar í þjóðfélagsstiganum og „það breytir engu þó að þeir skynji að málið snýst í raun og veru ekki um þá … þegar hann sagðist ekki þola „þetta“ lengur hafði hann eitthvað annað í huga, eitthvað sem snertir hann sjálfan persónulega en kemur þeim ekkert við“ (8). Þó þessir ógæfumenn ættu umfram aðra að hafa skilning á öngstræti hjartans eru þeirra fyrstu viðbrögð ekki að reyna að hjálpa Jónatani, ekki einu sinni bara að láta hann í friði, heldur mynda einfararnir sjaldgæft bandalag um að flýta fyrir falli hans.
Silja finnur einhverja lausn frá einsemd og illsku raunveruleikans í heimi tónlistarinnar: „Þegar svona stendur á sækir hún alltaf meira og meira í tónlistina sína“ (34). Silja virðist að auki trúa því að takist henni að vígja Harald inn í þennan heim muni persónuleiki hans breytast til hins betra – að tónlistin geti á einhvern hátt læknað hann af ofbeldishneigðinni. Uppáhaldsverk Silju er Winterreise, tónsetning Franz Schubert á ljóðum eftir Wilhelm Müller. Verkið hefst á þeim ógurlegu en jafnframt ógnarfallegu línum „Fremd bin ich eingezogen / Fremd zieh ich wieder aus“ og tvisvar vitnar Sigurjón til fyrstu línunnar. (1) Írónían felst í því að Silja lítur til þessarar tónlistar sem líknandi sáluhjálpar og sameiningartækis á meðan ljóðið lýsir einsemd í lífi og dauða. Til að undirstrika tenginguna kallast titill bókarinnar á við titil fyrsta ljóðsins, „Gute Nacht“. Leiðarstefið „Fremd bin ich eingezogen“ endurómar í bókinni í einsemd persónanna og vangetu þeirra til raunverulegra samskipta við aðra einstaklinga – hér eru allir ókunnugir. Síðustu setningar sögunnar ítreka þessa einsemd og umkomuleysi einstaklingsins. Okkur er boðin góð nótt og persónur og lesendur skilin eftir, ein í myrkrinu.
Hér hlustar aldrei neinn
Það sem umkomulaust barnið í Hér hlustar aldrei neinn hlakkar helst til í lífinu er að geta glatt aldraðan afa sinn með því að hann hafi – alveg heilan eftirmiðdag – fengið „að vera í friði fyrir hrekkjum og aðkasti“ (42). Þennan eftirmiðdag láta hinir strákarnir Benna reyndar aldrei þessu vant í friði, en Kata móðir hans kemur að hitta hann eftir langa fjarveru. Kata er langt leidd af misnotkun fíkniefna, áfengis og ótilgreindum sjúkdómi. Hún hefur verið meira og minna á götunni í einhver ár en hefur nú fengið leigt herbergi í húsi manns sem fljótlega neyðir hana til lags við sig. Hún er of veikburða til að mótmæla, of langt leidd til að hafa miklar áhyggjur af því sem gert er við líkama hennar. Hún er svo veik að hún lætur leigusalann og rekjunautinn Aron telja sér trú um að þetta sé fínt heimilisástand og að hún eigi endilega að taka Benna til sín. Og Benni litli lætur tilleiðast vegna þess að vera hans á heimili afa og ömmu er undirrót heiftúðugra rifrilda sem hjartveikur afinn ræður ekki við. Sæunn amma hans er síngjarn narsissisti sem leggur fæð á dóttur sína og telur Benna fá allt of mikið af athygli Guðbrands afa á sinn kostnað. Í hamslausri reiði sinni hrekur hún bæði Benna og Guðbrand frá sér og eyðileggur helstu gleðina í lífi þeirra beggja – samneyti hvor við annan og við bækur.
Hér hlustar aldrei neinn er fjölskylduharmleikur. Líkt og Góða nótt, Silja lýsir sagan einsemd og hjörtum sem ná sjaldnast að snerta hjörtu annarra, þó sumar persónurnar reyni ítrekað að brúa bilið milli sín og annarra. Í þessi fáu skipti sem það tekst er snertingin skammvinn og örlög persónanna sem búa yfir hæfileika til samúðar og ástar eru slæm. Guðbrandur afi og Benni eru félagar. Mitt í öllum harmleiknum upplifa þeir ánægjulegar stundir, djúpt sokknir í „eljuverki þúsunda“ og návist hvors annars. Ólíkt ljóðmælanda Jóns Helgasonar í „Í Árnasafni“, ljóðmælanda sem fyrrverandi prófessorinn og fræðimaðurinn Guðbrandur þó samsamar sig, á Guðbrandur þess ekki kost að sitja „innan við múrvegginn“ á meðan dóttir hans og dóttursonur eru föst „utan við“. Gamli maðurinn reynir að ná til dóttur sinnar, hann reynir að vernda dótturson sinn og hann reynir að gera konu sinni til hæfis. Fyrir sitt leyti reynir Benni litli að vera ekki fyrir ömmu sinni og vernda lasburða afa sinn. Þessar tilraunir til raunverulegra samskipta og til að vernda ástvini mistakast: Benni endar hjá dauðveikri móður sinni og sinnisveikum ‘sambýlismanni’ hennar og Guðbrandur fær hjartaáfall af hugaræsingi sem hann kemst í yfir að geta ekki bjargað neinum, hvorki Kötu, Benna né sjálfum sér.
Ég lagði þessa bók frá mér með sting í hjartanu.
Borgir og eyðimerkur
Borgir og eyðimerkur er ólík fyrri bókum Sigurjóns að efnisvali og afskaplega áhugaverð fyrir margar sakir. Hér segir frá einum sólarhring í lífi rithöfundarins Kristmanns Guðmundssonar sem, rúmlega sjötugur að aldri, stóð í málaferlum við ungan stéttarbróður sinn, Thor Vilhjámsson. Undirtitill bókarinnar er ‘skáldsaga um Kristmann Guðmunsson’, enda getur Sigurjón eins og við hin líklega bara ímyndað sér hvað Kristmann hugsaði og fann til, en hér er engu að síður sagt frá sögulegum atburðum og raunverulegum einstaklingum. Sagan er sögð frá sjónarhóli Kristmanns og Sigurjón notar endurlit (afturgrip) til að tengja atburði í lífi Kristmanns nútíðinni.
Kristmann bjó mestanpart ævi sinnar í Noregi og aflaði sér umtalsverðra vinsælda þar. Sem staðfestingu á því má nefna að bækur hans voru þýddar á 40 tungumál á sínum tíma og það var þá afrek sem Halldór og Nonni einir annarra íslenskra rithöfunda gátu státað sig af. Meiðyrðamálið sem Kristmann höfðaði á hendur Thor var mjög umrætt á sínum tíma og skáldsaga Sigurjóns er ekki eina umfjöllunin sem það fær í nútímanum. Páll Sigurðsson fjallar ítarlega um málið út frá lagalegu sjónarhorni í bók sinni Lagaskuggsjá: greinar um lög og sögu, sem kom út 2004, og það fær einnig talsvert rými á síðum Ísland í aldanna rás 1900-2000. Í fimmta bindi Íslenskrar bókmenntasögu frá 2006 er málið reifað svo: „Þeir Kristmann og Thor voru fulltrúar ólíkra kynslóða, aðhylltust gagnstæða fagurfræði og höfðu andstæðar pólitískar skoðanir“ (51). Ef við er bætt að báðir voru orðhagir og stóðu fast á sínu þarf held ég ekki að lýsa því orðrétt hér sem þeim fór á milli, enda hvorugum sérstakur sómi að. Kristmann vann málið og Thor var dæmdur til að greiða sekt fyrir móðganir og aðdróttanir. En jafnvel þó Thor hafi tapað fyrir rétti virðist almenningsálit hafa verið hans megin. Þessi úrslit eru lýsandi fyrir stöðu Kristmanns sem rithöfundar, því þó hann nyti hylli stjórnvalda var almenningsálitið á Íslandi mjög gegn honum eftir að hann fluttist heim frá Noregi.
Sigurjón setur sig inn í hugarheim Kristmanns sem reynir að ímynda sér hvað valdi því sem hann upplifir sem ofsóknir. Sögumaðurinn Kristmann telur pólitík vera helstu ástæðuna fyrir neikvæðu almenningsáliti og ofsóknum, enda var hann einn fárra rithöfunda sem aðhylltust ekki fagnaðarerindið um sæluríki öreiganna í austri. Hann taldi „að skáld yrðu að vera frjáls og óbundin af hvers kyns pólitískum kreddum og þeim bæri að segja sannleikann um heiminn í því skyni að gera hann að ögn lífvænlegri stað – að öðrum kosti væru þau mannfólkinu næsta lítils virði“ (30). Kristmann-sögumaður sér ekki neitt ósamræmi í þessari skoðun og ræðu sem hann heldur um réttmæti flugvallarsamningsins. Sjálfur:
hafnaði hann því algerlega að fullveldi Íslands væri ógnað með lendingarleyfinu … [Bandaríkjamenn] væru hvað sem öllum ávirðingum liði ekki aðeins vinaþjóð Íslendinga og nánustu samherjar í nýafstaðinni heimsstyrjöld, heldur aðhylltust þeir svipað gildismat og stjórnarhætti.
(65)
Kristmann-sögumaður er fyllilega sannfærður um að hér sé hann að segja sannleikann í því skyni að gera heiminn að ögn lífvænlegri stað, en lesandinn getur varla annað en litið á þetta sem pólitík.
Kristmann gerir hins vegar heiðarlega tilraun til að gera heiminn að lífvænlegri stað með því að taka Voltaire bókstaflega og rækta garðinn sinn. Hann flytur til Hveragerðis, þar sem fleiri þekkt skáld bjuggu á þessum tíma, og umbreytir litlum landskika í kringum húsið Garðshorn í sælureit. Hann gerir sér sjálfur grein fyrir hversu léttvægt þetta framtak er á heimsmælikvarða: „Þessi garður var að vísu aðeins örlítill blettur á jörðinni, nánast ósýnilegur í samanburði við þau gríðarlegu flæmi sem vígvélar mannsins tortímdu á hverju degi“ (107). En ræktun hans er engu að síður lóð á vogarskál fegurðar og Kristmann hellir sér í garðyrkjuna af lífi og sál. Það er ekki langsótt að líta á garðinn sem hliðstæðu lífs Kristmanns – hann gerir það sjálfur. Kristmann-sögumaður segir að „ekki greindi hann alltaf milli baráttunnar sem hann háði fyrir lífinu í þessum garði, sinnar eigin lífsbaráttu, sem oft var hörð, og baráttunnar fyrir sigri þess fagra og sanna hvar sem var í heiminum“ (48-9). Kristmann vill auka hlut fegurðar í heiminum, en það endist ekki lengi og að lokum er garðurinn á góðri leið með að verða aftur eyðimörk og búið að rífa skörð í vegginn sem umlukti hann. Að sama skapi muna fæstir eftir skáldsögum Kristmanns um ást og unað en þeim mun fleiri tengja hann meiðyrðum og málaferlum.
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir segir í grein um Borgir og eyðimerkur í TMM að bókin „sé nokkurs konar síðbúin málsvörn Kristmanns“ (13), en mér finnst vörn einum of sterkt orð. Sigurjóni tekst einmitt afskaplega vel það sem hann sýndi í Góða nótt, Silja að hann geti svo vel – hann sýnir frekar en að segja. Frásagnaraðferðin, þar sem einstök atvik úr fortíðinni varpa ljósi á lífshlaupið í heild, er furðu áhrifarík og auðveldar lesandanum að gera sér heildstæða hugmynd um Krismann sem mótast ekki bara af staðreyndum réttarhaldanna. Eftir stendur óljós hugmynd um að Kristmann – í raun dagfarsprúður maður sem auðvelt er að hafa samúð með – hafi alls ekki hlotið góða meðferð samferðamanna en hafi engu að síður ekki beinlínis verið þvingaður út í hornið þar sem hann stendur í sögulok.
Gaddavír
Þar sem ég er „utan af landi“ hef ég alltaf mjög gaman af bókum sem gerast í ótilgreindri sveit fyrir austan. Ótilgreinda sveitin fyrir austan er leikvöllur nútímaskáldsins. Á þessu óskilgreinda svæði sem lesendur vita einungis að er ekki Reykjavík, ekki þekkt og kortlögð miðjan, gerist Gaddavír. Lesandi og persónur eru staddar á jaðri siðmenningarinnar þar sem allt getur gerst. Og ef eitthvað er að marka grípandi en jafnframt ógnvekjandi kápu bókarinnar má búast við að ‘here there be monsters’.
Aðalpersónan Hrafn virkar þó næsta sakleysislegur. Hann er fráskilinn prestur á miðjum aldri og óperuaðdáandi. Hrafn er hins vegar fíkill, veikur af alkóhólisma sem fellir hann af og til á milli þess sem hann er þurr eða fer í meðferð. Frásögnin hefst á endalokum, á kveðjustund og jarðarför manns sem hefur gert eitthvað mikið af sér. Seinna kemur í ljós að Haraldur bóndi í Litlu-Gröf misnotaði Elsu dóttur sína eftir að móðir hennar dó, líklega frá því að stúlkubarnið var sjö ára og fram að fermingu, en þá komst málið upp fyrir tilstilli Hrafns og Þrúðar, bekkjarsystur Elsu. Það vefst þó ekki fyrir Hrafni að halda yfir honum líkræðu, enda hefur honum lærst að „séð úr fjarska hefðu flest heimili á sér friðsemdarbrag þótt fæst þeirra, ef nokkur, væru allskostar laus við ýmsa óhamingju sem fylgir nánum tengslum fólks, og oft ráði tilviljun ein hvað um slíkt vitnast og hvað liggur í ævarandi þagnargildi“ (25). Sagan leiðir lesandann svo nær og nær nokkrum heimilum, dýpra inn í fortíðina þar sem sagt er frá þeirri óhamingju sem fylgir nánum tengslum sögupersónanna.
Frásögnin er í þremur hlutum og í öfugri tímaröð. Hún hefst á kveðjustund, hoppar svo inn í miðju þremur árum fyrr og að lokum aftur til upphafsins tíu til fimmtán árum áður, þegar Hrafn kemur í sóknina sem nýr prestur. Skuggaleg fortíðin markar samskipti persónanna seinna á lífsleiðinni, þ.e. fyrr í frásögninni. Líkt og í Góða nótt, Silja er lesandanum ekki sagt mikið um persónurnar berum orðum heldur bregður frásögnin sjálf upp myndum af þeim sem útskýra hegðun og samtöl fyrr í sögunni. Bókin er stutt líkt og allar skáldsögur Sigurjóns, en frásögnin hnitmiðuð og markviss; textinn fágaður og orðin vel valin.
Það er fleira en stíllinn sem minnir á Góða nótt, Silja. Tónlistin, eina líknandi aflið í heimi Silju, skýtur hér aftur upp kollinum í svipuðu hlutverki – Hrafn hverfur inn í hana þegar óskemmtilegar hugsanir verða of áleitnar. Hins vegar er tónlistinni stillt upp við hlið drykkjunnar, þannig að lesandi velkist í vafa um hvort hún sé saklaust áhugamál og ástríða eða bara annars konar fíkn fyrir Hrafn:
Ég hellti aftur í glasið meðan ég stóð þarna en tók svo flöskuna með mér inn í stofu og kveikti á hljómflutningstækjunum þegar ég fann að þessar gamalkunnu hugrenningar um pabba voru farnar að gera mig helst til angurværan. Í fyrstu ætlaði ég að halda áfram að fylgjast með ævintýrum Tannhäuser … en mér skildist þó fljótlega að hollast væri að spila eitthvað annað því Wagner æsti mig bara upp í drykkjunni. Ég valdi þá í staðinn geisladisk með lögum eftir Schumann sem er kyrrlátara tónskáld og stefnir tilfinningunum í þveröfuga átt.
(26)
Hrafn notar tónlistina og áfengið á svipaðan hátt, og gjarnan saman, en á móti kemur að heilbrigðustu samskiptin sem hann á við aðra manneskju, Þórarin orgelleikara og bónda í Stóru-Gröf, byggja á samræðum um tónlist. Þeir Þórarinn og Hrafn geta setið þöglir saman og hlustað á tónlist, en jafnframt rætt hana og notið hennar í sameiningu. Afstaðan til tónlistarinnar er því tvíbent líkt og hún var írónísk í Góða nótt, Silja, því hún getur skapað grundvöll til samskipta, verið miðill sem léttir tilvistina í oft ljótum raunveruleikanum en að sama skapi flóttaleið sem kemur í veg fyrir að tekist sé á við aðsteðjandi vandamál.
Drungalegt lífsviðhorf Hrafns í Gaddavír byggir að mati Þrúðar á því að hann „virðist ekki vænta annars af fólki en að það baki öðrum böl með nærveru sinni – og ekki hvað síst sínum nánustu“ (43). Þetta er viðhorf sem endurómar í öllum bókum Sigurjóns. Samskipti eru yfirleitt dæmd til að mistakast og harmleikur er gjarnan það sem lesandinn sér þegar frásögnin flettir þagnarhulunni af heimilum persónanna. Mannlegt eðli eins og því er lýst í bókunum markast af því að við erum öll ‘Fremd’, ókunnug á einmana ferð okkar í gegnum lífið. Mannshjartað býr yfir mikilli ást en það er sjaldgæft að aðstæður leyfi nokkrum að gera heiminn fallegri með því að miðla henni til annarra. Hins vegar ná sögurnar því sem persónur þeirra ná ekki sín á milli – þær ná að snerta lesandann.
© Agnes Vogler, 2007.
Heimildir
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir. 2004. „Endurfundir við einsemdina“. TMM 65(2), bls. 112-16. Mál og menning, Reykjavík.
Íslensk bókmenntasaga, V. bindi. 2006. Ritstj. Guðmundur Andri Thorsson. Mál og menning, Reykjavík.
[1]„Fremd bin ich eingezogen / Fremd zieh ich wieder aus“ er ein af þessum línum sem þýðendur liggja andvaka yfir á nóttunni. Þýska orðið ‘fremd’ þýðir ókunnugur, ókunnur, útlendur, framandi, annarlegur, utanaðkomandi, öðruvísi, o.fl. Ég hef þýðingu Þórðar Kristleifssonar ekki við hendina og veit því ekki hvernig hann íslenskaði þetta, en „Einsamall kom ég í heiminn / einsamall kveð ég hann nú“ eða „Ókunnur kom ég í heiminn / ókunnur enn er ég kveð“ komast nálægt merkingunni án þess að endurspegla hana alveg. [til baka]
Greinar
Um einstök verk
Borgir og eyðimerkur: Skáldsaga um Kristmann Guðmundsson
Jón Yngvi Jóhannsson: „Hver var Kristmann?“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir: „Endurfundir við einsemdina“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 2. tbl. 2004, s. 112-116
Endimörk heimsins – frásögn hugsjónarmanns
Auður Aðalsteinsdóttir: „Sagan endurrituð“
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 9-17.
Útlagar
Sigurður Ólafsson: „Söguleg áminning“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Ritdóma um bækur Sigurjóns má einnig finna í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins
Verðlaun
Tilnefningar
2012 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Endimörk heimsins: frásögn hugsjónamanns
Biluð ást
Lesa meiraNanna er látin – konan sem Jóhann Máni elskaði. Það var biluð ást. Hér segir frá harkalegum örlögum manns sem hafði margt til brunns að bera, var gæddur góðum gáfum, óvanalegu líkamlegu atgervi og hugdirfsku. En ástina kunni hann ekki að varast.Sonnettan
Lesa meiraSnjór í myrkri
Lesa meiraEndimörk heimsins: frásögn hugsjónamanns
Lesa meiraÚtlagar
Lesa meiraGaddavír
Lesa meiraBorgir og eyðimerkur: Skáldsaga um Kristmann Guðmundsson
Lesa meiraHér hlustar aldrei neinn
Lesa meiraGod natt, Silja
Lesa meira