Um Endimörk heimsins:
Haustið 1939 í rússnesku borginni Sverdlovsk austan Úralfjalla.
Snemma kvölds.
Uppljómuð í myrkrinu er víðkunn bygging − kaupmannshúsið, oftast nefnt Ípatjev-húsið, þar sem Nikulás keisari var skotinn af bolsévíkum sumarið 1918.
Á aðalhæð hússins hittum við fyrir gesti. Háttsetta flokksmenn frá Moskvu. Þeir standa saman í hnapp við dyr gömlu borðstofunnar.
En andspænis þeim − á gólfinu miðju − getur að líta sjálfan Pétur Jermakov.
Þann illræmdasta úr aftökusveitinni forðum.
Úr Endimörkum heimsins:
Ég iðrast þess ekki sem ég sagði þetta kvöld – ___sagði, nei, ég þrumaði yfir þeim. Það þurfti að gerast. Ég formælti þeim fyrir að hafa ekki í sér manndóm til að kalla hlutina réttum nöfnum en drápið á blóðsugunni hér niðri og ættingjunum norður í Alapajevsk daginn eftir væru risaskref á leið þjóðarinnar út úr ánauð aldanna til betra og réttlátara lífs – leiðinni sem við hugsjónamennirnir ruddum. Við hefðum því ærna ástæðu til að gleðjast hér saman. Horfa um öxl og rifja upp sigurstundirnar. Og það hefði ég haldið að væri tilefni veislunnar. Hún yrði samfagnaður slíkra manna. En hvað biði mín svo! Ekkert nema gunguháttur og fálæti! Já, argasta fyrirlitning. Það væri engum viðstaddra til sóma.
En þarna fór allt úr böndunum. Ég hóf að sveifla Mausernum og barði sessunaut minn í hausinn með skeftinu. Það var ef til vill fulllangt gengið en viðbrögðin voru algerlega fráleit. Nokkrir þeirra sem næst mér sátu spruttu á fætur, fyrst eins og hræddir rakkar en gripu mig svo þegar ég hleypti af.
Takið manninn! sagði Júrovskí. Takið hann! hvein í Avdejev. Og þrælarnir keyrðu mig þjösnalega í gólfið. Þeir töldu sig víst hólpna að ég skyldi ekki senda þá sömu leið og fangana um árið – það létu einhverjir þeirra hafa eftir sér.
En var það allt og sumt? Sveið ekki líka undan því sem ég sagði? Kom það ekki við kauninn á þeim?
---
Já, mikið var býsnast yfir framgöngu minni, bæði næstu daga og síðar. En hvar eru þeir núna heiðursmennirnir sem töldu sig þess umkomna að afvopna mig og leiða á dyr? Það er skemmst frá því að segja að margir eru horfnir á braut. Ansi margir. Sumir lentu í fangabúðum, aðrir voru skotnir. Stalín hefur enga þörf fyrir gungur. Hvað varð um Júrovskí? Vitið þið það? Mér skilst hann hafi misst starfið í Moskvu og lifað á snöpum uns hann drapst úr kröm í fyrra. Engum til sorgar.
Avdejev er að vísu enn á lífi en það er ekki merkilegt líf. Eftir því sem ég best veit er hann ótíndur róni hér í borginni. Og deilir fleti með flækingshundum.
Já, það sannaðist rækilega á þessum kónum að skamma stund verður hönd höggi fegin.
---
Ef þið nú horfið hér upp í loft, félagar góðir, þá blasa við verksummerkin eftir það sem gerðist þetta kvöld fyrir fimm árum. Sjáið þarna á milli rafmagnssnúrunnar og skrautlistans. Í horninu. Nei, þið sjáið það víst ekki í þessu rökkri. Það sést þó greinilega í dagsljósi. En þarna er sem sé gatið eftir skotið sem ég hleypti af. Þarna sökk kúlan í loftklæðninguna. Æjá, þið hefðuð átt að fylgjast með gungunum þegar ég tók að sveifla byssunni. Þá fór nú lítið fyrir æðruleysinu og hugprýðinni sem Júrovskí hafði skrafað um í ræðu sinni.
En nóg um það! Dveljum ekki lengur við árans samkomuna en hverfum lengra aftur í tímann. Rifjum upp veru Nikulásar keisara í þessum vistarverum og svo endalok hans – en um þau vitnar ekki eitt óljóst kúlugat í loftinu hér á íbúðarhæðinni heldur heill veggur í dimmu kjallaraherbergi undir fótum okkar, sundurtættur eftir skothríðina forðum. Og raunar, ef út í þá sálma er farið, allt þetta hús.
Já, félagar, húsið sjálft – þótt hrörlegt sé orðið – er minningarmark um atburð sem má aldrei gleymast.
(16-19)