Beint í efni

Blóðug jörð

Blóðug jörð
Höfundur
Vilborg Davíðsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur

Gefin út innbundin og í rafbók. 

Bókin kom út í hljóðbók 2022. Hljóðbókin er 9 klukkustundir og 5 mínútur að lengd. Höfundur les.

Um bókina

Árið er 883. Veldi norrænna manna á Bretlandseyjum riðar til falls og Þorsteinn rauður berst við að halda velli á Katanesi þar sem innfæddir gerast æ herskárri. Lífið er hverfult og enginn veit Urðar hug. Á augabragði stendur Auður Ketilsdóttir ein uppi, umkringd óvinum og ábyrg fyrir ungum sonarbörnum. Stefnan er tekin til eylandsins á enda veraldar þar sem ár og vötn eru sögð iða af fiski, jökulhettur ber við himin og sjálf jörðin spýr eldi.

Á suðurströnd Íslands hafa þrælar gert uppreisn og goldið grimmilega fyrir. Nýja landið er vígt blóði. Einn kemst lífs úr þeim hildarleik: maður sem á harma að hefna á ætt Dyflinnarkonungs.

Vilborg Davíðsdóttir lýkur hér þríleiknum um landnámskonuna Auði djúpúðgu með Blóðugri jörð, sjálfstæðri sögu um siglinguna yfir hafið. Fyrri bækurnar tvær eru Auður og Vígroði.

Úr bókinni

Gróa vaknar upp með andfælum við að tekið er óþyrmilega í öxlina á henni og horfir upp í áhyggjufullt andlit ömmu sem stendur álút yfir henni.

  „Á fætur með ykkur, stúlkur, og fljótar nú,“ segir hún og er auðheyrilega mikið niðri fyrir, ýtir um leið við Lóu við hlið hennar. „Við verðum að halda niður í bát strax og gæta þess að menn verði þess ekki varir að við séum að fara. Þið Þorgerður sjáið um tátlurnar, dragið á þær og sjálfar ykkur hverja spjör sem þið finnið og takið með ykkur þau brekán sem þið getið borið.“

  Lóa rís upp við dögg og nýr augun syfjuleg. „En hvað er eigilega-?“

  „Gerið bara eins og fyrir ykkur er lagt,“ grípur amma fram í fyrir henni höstug. „Og í Guðs bænum, farið eins hljóðlega og ykkur er unnt!“ Henni hefur aldrei legið lágt rómur, röddin er sterk og berst um alla dyngjuna, í þversögn við fyrirskipunina. Hún snýst snöggt á hæli svo að löng hárfléttan sveiflast til og stikar yfir að pallinum þar sem móðir þeirra er sest upp og spyr svefndrukkin hvað gangi á. Litli bróðir byrjar að gráta.

   Systurnar líta hvor á aðra og Gróa sér skelfingu í augum Lóu. skynjar óorðaða hugsunina að baki sem oft áður: allar hennar ógnvænlegustu hrakspár að rætast, vart þrjú dægur frá því að pabbi var heygður og veröldin skekst enn á ný.

  „Vertu róleg, Lóa,“ segir hún og tekst sjálfri sér til léttis að halda eigin ótta í skefjum, rómnum ákveðnum. „Við megum ekki gera stelpurnar hræddar. Hlýðum bara sem skjótast og þá fer allt vel. Þú klæðir Vigdísi, ég sinni Þórhildi og Þorgerður sér um að hjálpa Ósk.“

  Lóa kinkar hægt kolli og felmtrið víkur úr svip hennar: þær bera ábyrgð á þeim litlu, hafa verk að vinna.

  Syfjaðar tátlurnar eru sem betur fer óvenju meðfærilegar, leyfa þeim eldri að klæða sig í hverja flíkina yfir aðra. Þegar Þorgerður dregur hettu á höfuð Óskar og vetti á hendurnar maldar sú stutta þó í móinn: það er komið sumar og hlýtt í veðri.

„Það er alltaf kalt úti á sjó,“ segir Auður amma hvassyrt og telpan steinþagnar veit að það þjónar engum tilgangi að andmæla henni í þessum ham. Þær láta teyma sig upp þrepin út úr dyngjunni bakdyramegin og út í morgunsárið án þess að mögla frekar. Mamma fylgir á eftir, föl á vanga og bláir baugar undir augum, með Ólaf Fáelán í fetli innan undir hlýjum möttlinum. Amma rekur lestina, ber tágakörfu á handleggnum sem í er eitt og annað matarkyns sem hún hefur tínt saman þrátt fyrir asann.

(s. 112-113)

Fleira eftir sama höfund

Felustaðurinn

Lesa meira

Face to face: i islansk natur

Lesa meira

Eldfórnin

Lesa meira

Nornadómur

Lesa meira

Vígroði

Lesa meira

Die Winterfrau

Lesa meira

Undir Yggdrasil

Lesa meira

Korku saga

Lesa meira