Um bókina:
„Við erum á vissan hátt heppin,“ segir Björgvin upp úr eins manns hljóði. „Flestir sem fá svona fréttir þurfa að endurskoða líf sitt, jafnvel snúa því á hvolf. Við þurfum þess ekki því við lifum einmitt því lífi sem okkur langar mest til.“ Það má til sanns vegar færa; við höfum látið drauma okkar rætast, hvern af öðrum. En mér finnst þetta samt ósanngjarnt og segi það við hann. „Ósanngjarnt?“ Hann sperrir dökkar brýnnar í spurn. „Væri það sanngjarnara ef einhver annar hefði fengið þetta heilaæxli?“
Í Ástinni, drekanum og dauðanum lýsir Vilborg Davíðsdóttir vegferð sinni og hennar heittelskaða með sjúkdómnum sem þau vissu að myndi draga hann til dauða og fyrsta árinu eftir að hún varð ekkja. Bókin veitir í senn innsýn í veröld krabbameinsins og djúpa sorg þess sem hefur elskað og misst. En hún er ekki síður óður til kærleikans, hvatning til að lifa í árvekni og sættast við að dauðinn er órjúfanlegur hluti af lífinu.
Úr bókinni:
Þótt Björgvin sé enn úthaldslítill hafa önnur einkenni látið undan síga og við látum því verða af fyrirhugaðri tveggja vikna ferð okkarum hálönd Skotlands, Orkneyjar og Suðureyjar um miðjan júní. Ég er byrjuð að flétta söguþráð bókarinnar um Auði djúpúðgu og hef að rökstuddu ráði prófessors hjá School of Scottish Studies valið henni og öðru ættfólki víkingahöfðingjans Ketils flatnefs búsetu á eynni Tiree út af vesturströnd Skotlands. Eyjan er ein þeirra syðstu í eyjaklasanum sem Bretar kalla Hebrides en við Suðureyjar. Íslenska heitið kemur til af því að norrænir menn lögðu fyrst undir sig Hjaltland og Orkneyjar fyrir norðan en síðan Katanesið nokkru áður en þeir héldu með skip sín í suður til þessara eyja. Við sjáum víst veröldina alltaf út frá eigin nafla. Suðureyjar eru alls um 180, sé hver hólmi talinn, og í Landnámu og fleiri fornum ritum segir að Ketill hafi verið þar höfðingi en hvergi tiltekið á hverri eyjanna hann hafi bústað sinn. Á Tiree er fjöldi norrænna örnefna, þar eru ágætar sanfdjörur sem henta vel fyrir langskip víkinga, jörð mjög frjósöm og góð til kornræktar, og síðast en ekki síst þá liggur eyjan mjög nálægt Írlandi, þar sem Flatnefur og frænkur hans gerðu ófá strandhöggin.
Mig hefur lengi langað tila ð ferðast um þessar slóðir, raunar allt frá því að ég skrifaði mína fyrstu bók, um ambáttina Korku, sem einnig hefur skosku eyjarnar að sögusviði, auk Íslands og Danmerkur víkingatímans. Þegar ég hef gengið frá búslóðinni okkar ofan í 89 pappakassa og tilbúinni í gám förum við með lest til Inverness, höfuðstaðar hálandanna, og þaðan áfram með rútu til nyrsta odda Bretlands, John O‘Groats á Katanesi. Þar stígum við um borð í ferju sem flytur okkur yfir straumharðan Péttlandsfjörðinn, sem er raunar alls ekki fjörður heldur sund, og yfir til Orkneyja. Birtan þar í eyjunum og trjálaust dreifbýlið minnir mjög á Ísland, alltaf er útsýn til hafs og auðvelt að sjá fyrir sér forfeðurna og –mæðurnar í þessu kunnuglega landslagi.
(67-8)