Þrír höfundar senda í ár frá sér þrjár nýjar glæpasögur sem eiga það sameiginlegt að snúast um rannsókn á málum tengdum börnum. Í Voðaverk í Vesturbænum er það Birnir sem slasast alvarlega og bæði Einar Starri í Týndur og Kría í Ég læt sem ég sofi hverfa að því er virðist sporlaust. Það fylgir því sérstaklega mikill óhugnaður þegar börn eru fórnarlömb glæpa. Það keyrir upp tilfinningarnar og spennuna þegar glæpasögur róa á þessi mið og tefla saman sakleysi barnsins við hryllilega glæpi. Óhugnaðurinn í þessum andstæðum er sérstaklega áberandi og meðvitað nýttur hjá Yrsu Sigurðardóttur, sem er þekkt fyrir blóðugar og hrollvekjandi glæpasögur, með titlum bóka sinna um Karó, Tý og Iðunni sem allar sækja nöfn sín í þekktar barnavísur.
Einnig er önnur vídd á þessum andstæðum í tilfelli þessara þriggja bóka því að auk þess að skrifa glæpasögur hafa allir höfundarnir skrifað barnabækur sem notið hafa mikilla vinsælda. Ragnheiður Gestsdóttir og Yrsa Sigurðardóttir hófu raunar báðar ritferil sinn sem barnabókahöfundar. Að rithöfundar leggi fyrir sig skrif bæði barnabóka og glæpasagna kann að virðast mótsagnakennt við fyrstu sýn því fáar bókmenntagreinar eru ólíkari en þessar tvær. Eða hvað? Þegar betur er að gáð má finna ýmislegt sameiginlegt með þeim. Báðar eru þetta formfastar bókmenntagreinar þar sem atburðarásin þarf að vera skýr. Eins má segja að væntingar lesenda séu í grófum dráttum þær sömu: „Góði kallinn“ á að vinna og „vondi kallinn“ á að fá makleg málagjöld. Í glæpasögum og barnabókum er einnig mikilvægt er að fanga athygli lesandans strax frá byrjun og halda henni út söguna. Allar þrjár gera þær Jónína, Ragnheiður og Yrsa þetta vel, bækurnar byrja allar á spennandi atviki og þegar það er dauður tími í rannsókn málanna er nóg um að vera í einkalífi sögupersónanna svo lesandanum leiðist aldrei.
Voðaverk í vesturbænum (Eddumál nr. 6) – Jónína Leósdóttir
Voðaverk í vesturbænum segir frá eldhressa ellilífeyrisþeganum Eddu sem einu sinni sem oftar er að blanda sér í lögreglurannsókn milli þess sem hún jöfnum höndum býr til og leysir úr vandamálum fjölskyldu sinnar og vina. Bókin er sú sjötta um Eddu og ævintýri hennar. Líkt og í fyrri bókum er Edda ekki einungis að kljást við sakamál sem þarf að leysa heldur einnig margvísleg persónuleg vandamál fólksins í kringum hana. Að þessu sinni slasast drengur í næsta húsi við dularfullar aðstæður og þar sem honum er haldið sofandi vegna meiðsla sinna getur hann ekki sagt frá því hvað gerðist. Edda tekur (óumbeðin) að sér að komast að því hvað gerðist þrátt fyrir að lögreglan, nánar tiltekið tengdasonur hennar Leifur, séu með málið. Ofan á það bætast dularfullar póstsendingar til spákonu í hverfinu, mögulegur sjónvarpsframi tengdasonarins Viktors, veikindi dótturinnar Ingu og sambandið við Finn, nágranna Eddu á efri hæðinni.
Edda hefur því í nógu að snúast og líkt og fyrri daginn deyr hún ekki ráðalaus þegar kemur að því að hjálpa fólki í vanda og skipta sér af hverju því sem vekur áhuga hennar. Bækurnar um Eddu eru ekki í nordic noir stílnum eins og svo margar af vinsælustu íslensku glæpasögum síðari ára heldur er bragurinn öllu notalegri. Þær sverja sig að mörgu leyti í ætt við bækur Agöthu Christie og mætti kalla Eddu fröken Marple vesturbæjarins. Lipur frásagnarstíll Jónínu teymir lesandann í gegnum allar flækjur og útúrdúra sögunnar án þess að hann missi þráðinn og þrátt fyrir að Edda eyði ekki mestum tíma bókarinnar í rannsókn aðalmálsins dregst sagan aldrei á langinn. Léttur tónninn og glettnin í frásögninni á það til að vera á skjön við alvarleika atburðanna sem sagt er frá en er engu að síður eitt það besta við bókina og gerir hversdagsleg vandamál Eddu alveg jafn skemmtileg aflestrar og sakamálin sem hún fæst við.
Týndur – Ragnheiður Gestsdóttir
Týndur er fjórða glæpasaga Ragnheiðar Gestsdóttur og hér kynnir hún til leiks lögreglukonuna Helgu Maríu sem þarf að leysa barnshvarf. Sagan hefst á flóknum tíma hjá Helgu þar sem hún er á leið í útför móður sinnar. Til að fylgja móður sinni til hinstu hvílu þarf hún að snúa aftur á æskuslóðir sínar á Vestfjörðum þar sem hún á ekki von á góðum móttökum nema frá systur sinni. Hún er því fegin að vera kölluð aftur suður í miðri erfidrykkjunni þegar lýst er eftir Einari Starra, ungum dreng sem hvarf á leið sinni heim úr skólanum í Breiðholti. Móðir drengsins og sambýlismaður hennar eru sannfærð um að faðir drengsins hafi numið hann á brott en á milli þeirra er forræðisdeila í járnum. Helga er þó fljót að komast að því að hvarf drengsins er flóknara en svo og upphefst mikið kapphlaup við tímann að komast að einhverju um hvarf drengsins áður en það er um seinan.
Sagan er að mestu sögð út frá sjónarhorni Helgu Maríu en inn á milli fléttast brot þar sem sjónarhornið er hjá Einari Starra. Lesandinn hefur því stundum meiri upplýsingar um afdrif drengsins en Helga María. Það verður þó ekki til þess að minnka spennuna í atburðarásinni heldur þvert á móti leika sjónarhornin vel á móti hvort öðru og fá lesandann til að fletta enn hraðar. Þrátt fyrir að innri tími sögunnar sé knappur og mikil tímapressa á rannsókninni gefst lesandanum einnig tækifæri til að kynnast persónu Helgu Maríu betur þegar hún á stund milli stríða. Auk hennar eru nokkrar áhugaverðar persónur til viðbótar kynntar og gefnar vísbendingar um spennandi baksögur, í raun allt sem þarf í klassíska glæpaseríu. Það verður því gaman að sjá hvort hér sé á ferðinni fyrsta bók af mörgum um Helgu Maríu.
Ég læt sem ég sofi – Yrsa Sigurðardóttir
Ég læt sem ég sofi er síðasta bókin um Karó, Tý og réttarlækninn Iðunni en sá bókaflokkur hófst með bókinni Lok, lok og læs sem kom út árið 2021. Líkt og í fyrri bókum er titillinn fenginn úr barnavísu og kallast á við atburði í sögunni. Það sem hrindir af stað atburðarás Ég læt sem ég sofi er hvarf Kríu, níu ára stúlku í Vesturbænum. Kría hafði fengið leyfi foreldra sinna til að gista í nýbyggðum garðskúr nóttina sem hún hvarf en röð óviðráðanlegra atvika olli því að hún var eftirlitslaus þar stóran hluta næturinnar. Mörgum árum síðar er hvarf hennar enn óleyst og foreldrar Kríu hafa flutt með fjölskylduna í Stykkishólm í tilraun til að hefja nýtt líf eftir harmleikinn. Íbúðina í Vesturbænum hafa þau sett í útleigu og þangað flyst Gréta með tvö börn sín án þess að hafa hugmynd um hvað átti sér stað í garðinum eða hverjir eigendur íbúðarinnar eru. Fljótlega kemst hún þó að því að það er ekki að ástæðulausu sem leigan er svona lág og hún fer að grennslast nánar fyrir um hvarf Kríu og hagi fjölskyldunnar í kjölfar þess.
Karó og Týr komu ekki að upphaflegu rannsókninni á hvarfi Kríu en blandast inn í hana eftir að hafa gert húsleit hjá eiturlyfjasala og fundið þar tösku sem reynist innihalda fötin sem Kría var í nóttina sem hún hvarf. Þá virðast loksins komin fram sönnunargögnin sem þarf til að leysa ráðgátuna um hvarf Kríu en það reynist hægara sagt en gert að greiða úr öllum flækjunum og flestir sem tengjast málinu hafa eitthvað að fela. Lesandinn fær að fylgjast með rannsókn málsins frá öllum hliðum því auk lögreglunnar er sjónarhornið hjá föður Kríu í Stykkishólmi og Grétu í Vesturbænum þar sem hún grúskar í atburðum fortíðarinnar með hjálp nágranna sinna. Það eru margir þræðir í gangi sem þarf að hnýta saman í lok sögunnar sem einnig er lok bókaflokksins. Bæði er sakamálið flókið en ekki síður einkalíf aðalpersónanna þriggja. Karó er með hugann við kærastann sem er fluttur til Finnlands, Týr er að slá sér upp með hálfsystur Iðunnar og Iðunn er að rannsaka fortíð Týs og tengslin sem kunna að vera á milli fjölskyldna þeirra. Sumir þessara þráða hefðu þurft meira andrými til að njóta sín til fulls því eins og fyrri daginn er Yrsa með góðar fléttur í gangi og synd að lok bókarinnar verða svolítið eins og upptalning á upplýsingunum sem þarf til að afgreiða málin, glæpsamleg jafnt og persónuleg.
Í Voðaverk í vesturbænum, Týndur og Ég læt sem ég sofi eru höfundar allar að vinna með óvissu lesandans um hvað kom fyrir barnið sem sögur þeirra hverfast um. Þær magna upp spennuna sem verður til þegar lesandinn fær nægan tíma til að ímynda sér allt það versta því örlög barna í glæpasögum eru iðulega ekki fögur. Ráðgátan í sögunum öllum felst jafn mikið í því að komast að því nákvæmlega hvað gerðist eins og hver það var sem framdi glæpinn. Andrúmsloft bókanna er ólíkt en allar ná þær að halda spennu og forvitni lesandans frá upphafi til enda.
Svanhvít Sif Th. Sigurðardóttir, desember 2024