Um þýðinguna
Skáldsagan Besy eftir Fjodor Dostojevskíj í þýðingu Ingibjargar.
Djöflarnir, sem er skáldsaga í þremur hlutum, kom út á árunum 1871 - 72 og er hún umdeildasta meistaraverk rússneska rithöfundarins Fjodors Dostojevskís. Sumir hafa séð í bókinni mikinn spádóm um vargöld Stalíns en öðrum hefur þótt nóg um árásir höfundar á róttæk öfl. Ætlunarverk Dostojevskís var að segja sögu hins syndum spillta manns eftir að hafa lýst algóðum manni í Fávitanum. Nikolaj Stavrogín sem stígur hér fram er leyndardómsfullur og segulmagnaður karakter, ein frægasta persónan í þeirri löngu röð skrautlegra persóna sem Dostojevskí skapaði á ferli sínum eins og Ingibjörg Haraldsdóttir, þýðandi bókarinnar segir í formála sínum að sögunni. Ingibjörg hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag 2002 fyrir störf í þágu íslenskra bókmennta. Hún hefur þýtt allar helstu skáldsögur Dostojevskís, auk fleiri verka eftir rússneska og spænskumælandi höfunda.
Úr Djöflunum
Forvitnilegt fannst mér og það almenna hatur sem gaus upp og varð til þess að allir réðust á ribbaldann og oflátunginn úr höfuðborginni. Menn vildu endilega sjá í hegðun hans ósvífinn ásetning og þaulhugsuð áform um að móðga alla bæjarbúa í einu. Á því lék enginn vafi að maðurinn hafði ekki gert neinum til geðs, þvert á móti hafði hann fengið alla upp á móti sér, en hvernig tókst honum það? Fram til þessa hafði hann ekki átt í útistöðum við nokkurn mann og engan móðgað, og kurteis hafði hann verið einsog kavalér á tískumynd, ef sá síðarnefndi gæti bara talað. Ég geri ráð fyrir að mönnum hafi mislíkað stolt hans. Meira að segja dömurnar okkar, sem í upphafi höfðu dýrkað hann, hömuðust nú gegn honum af meiri hávaða en karlmennirnir.
(s. 53)