Beint í efni

Doris deyr

Doris deyr
Höfundur
Kristín Eiríksdóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Smásögur

Úr Doris deyr:

Mánuði eftir að pabbi hvarf kom fyrsta vísbendingin í ljós. Bróðir minn fann hana. Ég veit ekki hvers vegna hann stakk puttanum inn í rör undir eldhúsvaskinum. Kannski fékk hann hugboð, kannski var vaskurinn stíflaður. En hann stakk putta inn í gúmmírör sem vatnið rann ekki í gegnum lengur, þetta var gamalt ógeðslegt rör sem hékk þarna gagnslaust og rifið.

Vísbendingin var lítil askja sem pabbi hafði keypt þegar hann var unglingur og fór til Marokkó með afa og ömmu. Askjan var á stærð við kóktappa og úr þunnum slípuðum viði, myndin var flögnuð af lokinu svo að enginn vissi af hverju hún var. Bróðir minn opnaði öskjuna og ofan í henni var miði. Á miðanum hafði pabbi skrifað eitt orð með klunnalegum blokkstöfum: EITUR.

Mamma fór að gráta. Hún var annars hætt að gráta alveg eins mikið og fyrst eftir að pabbi hvarf. En þegar bróðir minn fann öskjuna í rörinu dró hún gardínurnar fyrir, lokaði sig inni í herbergi og gaf frá sér þessar kvöldu stunur sem mér og bróður mínum þóttu svo óþægilegar. Við sátum á róló skammt frá húsinu okkar og skoðuðum miðann, lyftum honum upp í sólarljósið til að sjá hvort pabbi hefði skrifað eitthvað á hann með glæru njósnableki, en það var bara þetta eina orð: EITUR.

Bróðir minn var orðinn tíu ára. Síðan pabbi hvarf hafði hann breyst mjög mikið. Hann var hættur að stríða mér, sem mér fannst ágætt, en ég saknaði þess að hann brosti og segði asnalega brandara. Í staðinn var hann alltaf alvarlegur, eins og hann væri að þykjast að vera fullorðinn og eg ég reyndi að fíflast í honum reiddist hann ekkert, sagði bara lágum rómi að ég ætti að hætta að láta illa og vera til friðs.

Ætli pabbi hafi borðað eitur? sagði hann og hvítnaði í framan, ég hristi hausinn.

Neh, sagði ég; hann fór á báti yfir Bermúdaþríhyrninginn, steig í kviksyndi og píranafiskarnir borðuðu hann.

(s. 150-160)

 

Fleira eftir sama höfund

Kjötbærinn

Lesa meira

Annarskonar sæla

Lesa meira

Húðlit auðnin

Lesa meira

Í öðru landi

Lesa meira

Fáránlegt samtal við sjálfa mig

Lesa meira

Tvö ljóð

Lesa meira

Ljóð í Ást æða varps

Lesa meira

Ljóð í Ny islandsk poesi

Lesa meira

A Fist or a Heart

Lesa meira