Um bókina:
Merkin sem berast frá njósnahnettinum hafa komið honum á sporið. Ánægjuglott færist yfir andlit hans. Hann hefur nefnilega uppgötvað lítið og skrítið sker sem lúrir úti í hafi og lumar á dýrmæti sem vert er að rannsaka betur.
Strokubörnin eru fundin! En þau neita að snúa heim fyrr en fullorðna fólkið hefur lagfært allt sem eyðilagðist í stríðinu heima í Fagradal. Sumarið er framundan og Skuggasker heimsins besti staður. Eða hvað? Getur verið að hér sé eitthvað hættulegt á sveimi?
Úr bókinni:
Það er komið kvöld. Sólin varpar eldrauðum bjarma á himininn. Það er engu líkara en kviknað sé í honum. Bátarnir líða einn af öðrum burt frá Skuggaskeri. Þau standa þarna í flæðarmálinu, krakkarnir og amman, og fylgjast með þeim sigla á brott. Þetta hefur aldeilis verið viðburðaríkur dagur!
Það hófst allt þegar þau sáu bátana koma. Þá vissu þau um leið að fullorðna fólkið hafði uppgötvað hvar þau héldu sig. En krakkarnir vildu ekki hleypa þeim á land fyrr en þau lofuðu að vera til friðs. Svo var skuggasker allt í einu iðandi af fólki. Sama fólki og þau höfðu flúið frá nokkrum vikum fyrr. Línu fannst á einhvern hátt bæði gott og vont að hitta foreldra sína aftur. Hún hefur ekki enn fyrirgefið þeim að þau skyldu bregðast svona gjörsamlega!
En nú er þessi dagur á enda og þarna standa þau og veifa í kveðjuskyni. Hringur er hugsi. Hann finnur í hjarta sér að nú muni allt breytast. Ekkert verður alveg eins og áður.
„Þetta er á vissan hátt spæling því okkur var einmitt farið að ganga svo vel að bjarga okkur hérna,“ segir hann. „Nú verðum við örugglega aldrei látin í friði!“ Lína kinkar kolli.
„Bráðum koma bátarnir aftur með mat handa okkur og eitthvert dót,“ svarar hún. „Svo verða fleiri krakkar sendir hingað. Sennilega verða stöðugt einhverjir að koma og trufla okkur í sumar!“
„Það verður alveg örugglega ekki sama friðsældarlífið og hingað til. Kannski verður það auðveldara … en ég á eftir að sakna þessa tíma,“ bætir Hringur við.
(11-2)