Saga og myndir eftir Sigrúnu Eldjárn.
Úr Eyju glerfisksins:
Ýmir situr á rauðum glerstól í leyniherberginu bak við spegilinn. Hann er gjörsamlega ráðvilltur og auk þess dauðhræddur um að stóllinn geti brotnað undan honum þá og þegar. Hann ákveður að taka ekki áhættuna og sest á gólfið í staðinn. Andspænis honum sitja þessir furðulegu krakkar sem segja að þau hafi látið hann koma hingað! Hvernig ættu þau svo sem að hafa gert það? Ýmir veit ekki lengur hvað hann á að halda.
„Sjáiði, hérna eru gleraugu handa ykkur,“ segir Bína og afhendir honum tvenn gleraugu. Ými líst ekkert á að þurfa að setja þau á sig en Tumi virðist hafa talsverðan áhuga.
„Þið verðið að hafa gleraugu því annars kemur kannski einhver og handtekur ykkur. Það er nefnilega ólöglegt að vera gleraugnalaus!“ segir Uggi. Hann skellihlær þegar hann sér að Tumi stingur sínum gleraugum beint í munninn.
(bls. 76-77)