Beint í efni

Elín, ýmislegt

Elín, ýmislegt
Höfundur
Kristín Eiríksdóttir
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Elín býr til leikmuni og gervi fyrir kvikmyndir og leikhús og þó hún sé komin yfir sjötugt lifir hún enn fyrir vinnuna. Hún býr ein og veit ekki af fortíðinni sem leynist í kössum úti í bæ. Dag einn birtast þeir á stofugólfinu hennar.

Þegar Elín fer að vinna við sýningu á nýju leikriti eftir unga vonarstjörnu, Ellen Álfsdóttur, vitjar fortíðin hennar á ný. Leiðir þeirra tveggja hafa áður legið saman við hræðilegar kringumstæður, þó að önnur muni ekki eftir því og hin sé í þann veginn að gleyma því.

Úr Elín, ýmislegt

Kassamir stóðu á miðju stofugólfi. Ég kveikti á sjónvarpsfréttunum, gekk nokkra hringi kringum þá en staðnæmdist síðan allt í einu vegna þess að ég mundi augnablikið þegar amma dó. Hún hafði verið brum á grein sem annars hefði endað, nakin og mjó. Bling, sagði laufblað, gat af sér annað og dó. Um leið rykktist í augnablikið þegar mamma fæddist og þegar hún dó, og þegar ég fæddist og þegar ég dey. Augnablikið þegar ég dey var ekki runnið upp en samt rykktist í það, einhvers staðar í framtíðinni.

Ég kveikti mér í sígarettu og mundi strax eftir peysunni. Hörðu ullargarninu sem strekktist um fingur mömmu á meðan hún prjónaði. Hún tók upp prjónaskap þegar hún hætti að reykja og peysan var á mig.

Ætli peysan sé í kassanum, hugsaði ég. Þá væri blóðið úr mömmu í kassanum. DNA mömmu í kassanum. Hennar einstaka samsetning í kassanum.

Kassarnir voru úr matvöruverslun. Utan af Ora-grænum baunum. Utan af Johnson & Johnson-barnapúðri. Utan af pakkasúpu. Þeir höfðu verið merktir áður, krassað hafði verið yfir merkingarnar. Svo höfðu þeir verið merktir aftur.

í sjónvarpinu var myndskeið af hvalshræi sem hafði verið skorið. Ég leit útum gluggann og sá að á tröppunum stóð maður sem ég kannaðist ekki við. Í innkeyrslunni var hvítur ómerktur sendibíll. Ég fór til dyra.

Góða kvöldið, sagði ég og virti fyrir mér manninn, sviplausan á miðjum aldri, fölleitan, í úlpu og með hanska.

Eg er kominn að sækja kassana, sagði hann flötum rómi.

Kassana? spurði ég.

Kassana sem þú fannst í geymslunni hennar ömmu þinnar, sagði hann.

En þeir eru merktir mér, sagði ég. Ég á þessa kassa.

- Maðurinn svaraði engu, brá ekki svip.

Nú, jæja, sagði ég og opnaði uppá gátt. Maðurinn fór inn á skónum. Hann gekk rakleiðis inn í stofu, lyfti fyrsta kassanum og bar hann út í bíl.

Hvað er í þeim? spurði ég þegar hann kom aftur inn til að sækja næsta kassa en hann horfði bara á mig einsog dauðyfli og svaraði engu. Hann náði seinni tveimur í einni ferð, staflaði þeim í skottið á bílnum og keyrði þvínæst burt án þess að líta á mig eða kveðja.

Ég fór aftur inn í stofu, þurfti að koma mér að verki. Í kjallaranum átti ég trefjaplastmót af stelpu á unglingsaldri. Það stóð þar uppá rönd og ég sótti það, burðaðist með það upp snarbrattan stigann. Ég tæmdi borðstofuborðið og lagði mótið ofan á það, opnaði það svoleiðis að neikvæð rými stúlkunnar blöstu við mér.

Ég man ekki einu sinni hvað hún hét, dóttir leikstjórans sem bauðst til að vera gifsuð. Það tók heilan dag. Svo gerði ég þetta trefjamót til að eiga. Leikritið snerist um barnaníðing sem pantaði sér sílikondúkku í barnslíki á netinu. Ótal siðferðilegar spurningar og drepleiðinlegt. En dúkkan kom mjög vel út þótt ég segi sjálf frá.

Hvað ætli stelpan skyldi vera orðin gömul? Kannski þrítug, en líkami hennar lá þarna óbreyttur.

(46-8)

Fleira eftir sama höfund

tól

Tól

Kvikmyndagerðarkonan Villa Dúadóttir situr fyrir svörum á heimildamyndahátíð í Stokkhólmi en spurningarnar vefjast fyrir henni.
Lesa meira

Kjötbærinn

Lesa meira

Annarskonar sæla

Lesa meira

Húðlit auðnin

Lesa meira

Í öðru landi

Lesa meira

Fáránlegt samtal við sjálfa mig

Lesa meira

Doris deyr

Lesa meira

Tvö ljóð

Lesa meira

Ljóð í Ást æða varps

Lesa meira