Æviágrip
Björn Th. (Theodor) Björnsson fæddist í Reykjavík 3. september 1922. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1943 og stundaði síðan nám í listasögu við Edinborgarháskóla frá 1943 til 1944, Lundúnaháskóla frá 1944 til 1946 og Kaupmannahafnarháskóla frá 1946 til 1949.
Björn starfaði sem rithöfundur, kennari og listfræðingur um árabil og eftir hann liggur fjöldi rita á sviði listasögu, auk skáldsagna og ritgerðasafns. Hann kenndi listasögu við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Kennaraháskólann og Háskóla Íslands. Björn var fulltrúi í útvarpsráði og undirbúningsnefnd um stofnun íslensks sjónvarps frá 1953-1968, og fulltrúi í Menntamálaráði Íslands frá 1968-1974. Hann var formaður og varaformaður Rithöfundasambands Íslands á árunum 1958-1964, sat í ritstjórn tímaritsins Birtings 1958-1963 og var forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands frá stofnun þess árið 1980 þar til hann lét af störfum árið 1997. Björn skrifaði einnig fjölda greina í innlend og erlend tímarit og annaðist þáttagerð um menningu og sögu fyrir útvarp og sjónvarp.
Fyrsta skáldsaga Björns var Virkisvetur og hlaut hún fyrstu verðlaun í skáldsögusamkeppni Menntamálaráðs árið 1959. Sögulegar skáldsögur Björns hafa notið mikilla vinsælda og listasögurit hans um íslenska og erlenda myndlist eru einnig mikið lesin. Skáldsögur eftir hann hafa verið þýddar á dönsku.
Björn Th. Björnsson lést í Reykjavík 25. ágúst 2007.
Frá höfundi
Frá Birni Th. Björnssyni
Á miðjum menntaskólaárum mínum hafði ég orðið talsverðan áhuga á sögu. Ekki þó sögu kónga og styrjalda, heldur sögunni um daglegt líf fólks fyrr á öldum. Skömmu eftir stúdentspróf komst ég yfir stórvirki Troels Lund, Dagligt liv i Norden, og þá rann brátt upp fyrir mér að Íslandssagan sem kennd var í skólum og skrifuð var á bækur væri ekkert nema mösulbeina yfirborðskák, um hirðstjóra, amtmenn og stiftamtmenn, „höfðingja“, það er einstaka stórbændur, en veitti alls enga innsýn í daglegt líf þjóðarinnar, matseld og mataræði, klæðnað, uppeldi barna eða almúgalækningar. Þjóðin sjálf var gersamlega týnd í þessum „fræðum“.
Eftir nokkurra ára dvöl í Kaupmannahöfn, hinum forna höfuðstað Íslands, beindist áhugi minn að lífi og kjörum þeirra Íslendinga sem þar stunduðu nám eða þar bjuggu lengst ævi sinnar. Upp úr þessu spratt bók, skrifuð árið 1961, Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn. Í því verki varð mér alls óvænt ljóst, að það voru ekki aðeins synir Mínervu sem skrimtu þar í fátækt sinni og armóði, heldur margfalt stærri hópur nauðugra innbyggjara í þeirri Kóngsins borg: Æviþrælar, karlar, jafnvel unglingar, konur og börn, í pyntingar- og refsingarhúsum, Stokkhúsi, Rasphúsi, Spuna- og Gullhúsi, svo að nam mörgum hundruðum landa okkar, dæmdum fyrir svo til engar sakir nema fyrir fátækt sína, hungur eða barnslega fávísi.
Nokkru síðar sat ég á skjalasafni Sjálands við Jagtvej, Landsarkivet for Sjælland, og þá lagðist mér í hendur stór og falleg bók, en ekki jafn fögur innan um sig. Það var Sclaven-Rolle in der königlichen Residence und Festung Copenhagen, öll vandlega skrifuð á þýzku, enda voru allir pyntingarmeistararnir þýzkarar, sem löngum hafa þótt öðrum fremri í því handverki. Þegar ég fletti þessari miklu bók, blöstu á hverri síðu við mér íslenzk nöfn, aldur manna, dómar og refsingar. Þessi örlagabók varð mér nú lykillinn að langri rannsókn sem eftir fór, bæði í Höfn og heima. Upp úr henni spratt síðan fyrsta heimildaskáldsaga mín, Haustskip, 1975, en oft útgefin síðan, meðal annars á dönsku.
Í þessum rannsóknum og í þessari bók kemur glögglega fram sú erkilygi sem okkur öllum hefur verið kennd, að það hafi verið Danir sem kúguðu þjóðina af grimmd og hörku. Vissulega var verzlunareinokunin þjóðinni þung í skauti, en hún var afleiðing einveldisins sem íslenzkir embættismenn, leikir og lærðir, samþykktu sjálfir á Kópavogsfundinum 1662. Nakinn sannleikurinn er sá, að það var íslenzka embættisstéttin og ríkisbændur landsins sem kúguðu almúgann hvað grimmilegast og háðu sitt útrýmingarstríð með því að senda fátækt fólk til æviþrælkunar í pyntingahúsum Kaupmannahafnar. Hvað eftir annað fá æðstu embættismennirnir hér harðar ákúrur frá dönsku ríkisstjórninni um að slíkt framferði nái engri átt og sé jafnt siðlaust sem löglaust. En áfram sigla haustskipin með þessa vesalinga, konur og ungabörn, á vit þjáninga og dauðans.
Í síðari sögulegum skáldsögum mínum hef ég skoðað efnið á svipaðan hátt. Ég hef sjaldnast farið beint framan að opinberum heimildum, heldur leitað þeirra í leyndum djúpum mannlífsins. Slíkt á við um skáldsögurnar Hraunfólkið, en þó öllu fremur Falsarann, Solku og Brotasögu, en í öllum þeim bókum reyni ég að skyggnast á bak við hið opinbera sviðstjald sögunnar og skynja fólk í daglegu amstri sínu, gleði þess, vonum og því miður sorgum. Stundum hafa slík tök efnis verið kölluð „að horfa á lífið neðan frá“. Séð af þeim sjónarhóli held ég að fremur sé sannleikans að leita en í glansmyndum hinnar opinberu Íslandssögu.
Björn Th. Björnsson, 2002.
Um höfund
Um verk Björns Th. Björnssonar
Saga sögulegu skáldsögunnar
Sögulega skáldsagan, þ.e. skáldsaga sem byggð er á rituðum heimildum, munnmælum eða nýliðnum atburðum er tiltölulega nýtt fyrirbæri í sinni núverandi mynd. Sókn hennar hófst á 19. öld og má nefna Vesalingana eftir Victor Hugo (1862) sem gott dæmi um frásögn sem tekur á helstu atburðum í sögu Frakklands allt frá 1789 til ritunartíma bókarinnar. Lesandinn fær sýn (sem aldrei reynir að vera hlutlaus) á hinar ýmsu byltingar og uppreisnir, Napoleonana og kjör almúgamanna, sem engin sagnfræðingur hefði getað dregið upp. Enda er einn helsti kostur sögulegrar skáldsögu að hún getur sagt frá atburðum á meira lifandi hátt en sagnfræðirannsókn og hefur því betur tækifæri á að hrífa lesandann með, jafnframt því að veita honum mikilsverðar upplýsingar.
Í bók sinni, Íslenskar heimildabókmenntir: Athugun á rótum íslenskra heimildaskáldsagna tekur Magnús Hauksson bókmenntafræðingur tvær bækur Björns Th. Björnssonar, Falsarann og Haustskip, sérstaklega til athugunar. Uppskrift Magnúsar að því hvernig hægt er að greina heimildaskáldsögur er sú að bera saman ýmsa þætti sem allajafna eru taldir einkenna skáldsögur eða sagnfræði og sjá hvar línurnar skarast eða hvort einkenni annars formsins séu ráðandi umfram hitt.
Í upphafi ritgerðarinnar var sú tilgáta kynnt að heimildaskáldsögur væru á mörkum skáldskapar og sagnfræði. Hún leiðir af sér ýmsar spurningar. Hvernig vinna höfundarnir úr heimildunum og hver er afstaða þeirra til texta síns? Sést hvers konar texta þeir telja sig vera að skrifa? Hvað segir form verkanna um hlut sagnfræði og skáldskapar í þeim? Eru stílbrögð af kyni skáldskapar ríkjandi eða er frásögnin sagnfræðileg? Er t.d. frásagnarhætti, persónusköpun og sviðsetningum beitt í líkingu við það sem gerist í skáldsögum? Eða er textinn fyrst og fremst röklegur og skýrandi, umræða um heimildir og túlkun?
(Magnús Hauksson, 1996, s. 148)
Þessari ágætu uppskrift Magnúsar verður ekki fylgt hér nema að svo takmörkuðu leyti að ljóst er að útkoman yrði allt önnur, fyrst og fremst er litið á hverja bók fyrir sig en látið liggja milli hluta sagnfræðilegt gildi hennar eða að hve miklu leyti hún sé afrakstur ímyndunarafls höfundarins. Þó má ljóst vera að í bókum Björns Th. Björnssonar er frásagnarhætti, persónusköpun og sviðsetningu beitt að hætti skáldsagna.
Björn skýrir sjálfur aðferð sína við að skrifa heimildaskáldsögur með þessum orðum: „[Þ]ar sem heimildir þrýtur er huga og líkindum sviðið frjálst“ (Solka, s. 63).
Höfundurinn gerir þetta á nokkrum stöðum í bókum sínum, að stíga fram og ræða eyðurnar sem óhjákvæmlega verða í heimildunum og þær spurningar sem þær vekja upp.
Við sem erum hér aðeins í huganum og úr engu efni nema forvitni sögunnar. Við getum smogið inn um glugga eða dyr án þess að nokkur verði okkar var. Við getum þó hvorki skrifað neitt niður og þaðan af síður fótógraferað, verðum aðeins að leiða augum það sem fyrir ber, ef eitthvert barnabarn skyldi síðar spyrja eitthvað á þessa leið: Voru þeir ríkir og miklir á þessum dögum, sonarsynir hans Valda í Skógum?
(Falsarinn, s. 189)
Eflaust spyrja margir sig þeirrar spurningar hvort það sé ekki einhverskonar sögufölsun að skálda inn í eyðurnar eins og Björn Th. Björnsson gerir í bókum sínum. Hvort heimildaskáldsögurnar skaði ekki alvöru sagnfræði? Helgi Ingólfsson rithöfundur og sagnfræðingur segir í grein sinni „Sagnfræðin sem skáldskapur“ sem birtist í riti Sagna, tímarits um söguleg efni, að:
... fá sagnfræðirit eru svo klén að gefa ekki einhverja innsýn í mannlegt eðli og flest bókmenntaverk eiga sér einhvers konar sögulegan ramma. En þar sem bókmenntirnar leggja miklu meira upp úr persónulegri reynslu og mannlegu eðli standa þær að mörgu leyti nærri sálfræði og heimspeki, þótt engan heyri ég spyrja hvort bókmenntir séu nytsamar eða skaðlegar þeim greinum.
(Helgi Ingólfsson, 1995, s. 40)
Niðurstaða Helga virðist því vera sú að heimildaskáldsögur séu ekki skaðlegar sagnfræðinni. Enda heldur Helgi því einnig fram að hann hafi heyrt „fleiri en einn íslenskan sagnfræðing lýsa því yfir að lestur sögulegra skáldsagna á unglingsárum hafi ráðið úrslitum um hvaða grein hann valdi sér.“ (Helgi Ingólfsson, 1995, s. 41).
Handbragð Björns Th.
Björn Th. Björnsson er þekktur fyrir störf sín í þágu íslenskar myndlistar. Hann samdi Íslenska myndlist, sem enn í dag er höfuðrit íslenskrar myndlistar og hefur einnig samið bækur um sögustaði eins og Kaupmannahöfn og Þingvelli. Þá hefur hann gert rómaða sjónvarpsþætti um söguslóðir Íslendinga í Kaupmannahöfn. Það má því segja að Björn sé á heimavelli þegar hann skrifar skáldsögur byggðar á sögulegum heimildum, sem gerast í Kaupmannahöfn eða á Þingvöllum. Tíðaranda hvers tíma nær hann fram með undraverðri nákvæmni (að því er best verður séð frá sjónarhóli lesanda á 21. öld) og samtöl manna á milli, af hvaða stétt sem þeir eru, verða ljóslifandi í meðförum Björns. Þá er augljóst handbragð listfræðingsins þegar kemur að því að lýsa híbýlum og innanstokksmunum, arkitektúr og fatastíl hvers tíma. Björn er í essinu sínu í þessum lýsingum og eys þar úr ótæmandi viskubrunni sínum. Næmt auga Björns fyrir kjörum fátæklinga gefur bókum hans sammannlega skírskotun og beitt ádeila hans á geistleg yfirvöld fer ekki fram hjá neinum. Þó hefur hann greinilega gaman af að sýna allar verstu hliðar hins spillta valds, og sést það einna best í Haustskipi.
Virkisvetur – Gerist um og eftir miðja 15. öld
Fyrsta atrenna Björns Th. Björnssonar að sögulegri skáldsögu er þátttaka hans í verðlaunasamkeppni Menntamálaráðs Íslands „um nýja íslenzka skáldsögu“. Eftir lestur handrita sem bárust var það „einróma álit dómnefndar að eitt handritanna bæri af, skáldsagan Virkisvetur.“ (af bókarkápu)
Jón Espólín skrifaði í Árbækur sínar um 15. öldina „að í henni týndu fræðimenn sagnafræði, skáld fornum smekk, bændur akurvinnuatferli, leikmenn hinu fyrra frelsi og landbúar kaupferðum, en biskupar urðu sem konungar, áður henni lauk.“ (Íslandsárbækur, Formáli 2. deildar, fengið úr bók Björns Þorsteinssonar, Enska öldin, Mál og menning, 1970, s. 11). Öld þessi hefur verið nefnd enska öldin vegna þess að þá hófu ensk skip að venja hingað komur sínar en fram að því höfðu norskir kaupmenn verið einir um að versla hér. „Hin nýju viðskipti Íslendinga við erlendar þjóðir ollu breyttum atvinnuháttum og ýttu undir auðsöfnun einstakra manna. Íslenzkt samfélag tók dálitlum stakkaskiptum á 15. öld; þá er skeið hinna „ríku manna“ á landi hér.“ (Björn Þorsteinsson, 1970, s. 11) Í Virkisvetri segir frá mönnum sem urðu fádæma efnaðir: Birni ríka og Guðmundi ríka. Sonur annars og dóttir hins leggja hug á hvort annað en vegna deilna feðranna lítur ekki út fyrir að þau megi eigast.
Virkisvetur er um Andrés Guðmundsson, son Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum og samband hans við Sólu, Solveigu Björnsdóttir, dóttur Björns Þorleifssonar ríka á Skarði og Ólafar Loftsdóttur ríku. Andrés á hálfsystur sem heitir líka Solveig en hún er dóttir Guðmundar með fyrri eiginkonu hans, Helgu Þorleifsdóttur, systur Björns ríka, sem þegar hér er komið sögu er látin. Sóla og Andrés eru ekki skyld þó hann kalli hana frænku sína, en Helga fyrri kona Guðmundar var föðursystir hennar.
Inn í samband Andrésar og Sólu blandast átök feðra þeirra, en Guðmundur ríki verslaði við enska kaupmenn. Áður höfðu þeir Björn verið „einhuga um að knýja konung til að gefa verzlun frjálsa“ (Virkisvetur, s. 29) en talast nú ekki við.
Andrési var það aldrei ljósara en nú, að verzlun föður hans við engelska var hin þyngsta dómssök að landslögum, og yfir henni enginn hlífiskjöldur nema ríkidæmi hans eitt. Samkvæmt búsreikningunum, sem nú voru komnir innsiglaðir í bréfastokkinn, lágu undir föður hans allar jarðir austan úr Gilsfjarðarbotni, allt vestur um Barðaströnd og norður um Dýrafjörð en austan heiðar allar jarðir í Kollafirði og út með Steingrímsfirði; með öllu nær tveim tugum vant annars hundraðs.
(Virkisvetur, s. 34)
Árið 1446 er Guðmundur ríki dæmdur útlægur „og allt sem hann á undir konung!“ (Virkisvetur, s. 90), sem er umtalsvert: miklar og margar jarðir, og breytist þá staða Andrésar verulega og líkurnar á að ástir hans og Sólu endi farsællega litlar. Gangi hann föður hennar og bræðrum á vald munu þeir aldrei telja hann verðugan Solveigar, berjist hann gegn þeim gefa þeir ekki óvini sínum dóttur sína og systur. Hann virðist alltaf standa frammi fyrir tveimur valkostum: „annað sem hann þráði og hitt sem mælti í mót?“ (Virkisvetur, s. 155-6)
Andrés á þrátt fyrir upptöku eigna föður hans rétt á jörðinni Felli í Kollafirði og stýrir þar búi jafnframt því að reyna að ná eignum föður síns til baka úr klóm Björns ríka, sem orðinn er hirðstjóri konungs á Íslandi. Andrés fer í því skyni oftar en einu sinni á Alþingi og nær með fulltingi Bjarna mágs síns einhverjum hluta arfs Solveigar eftir móður sína. (Virkisvetur, s. 136)
Þegar Björn ríki á Skarði er veginn af enskum kaupmönnum (1467) eru menn sannfærðir um að það hefði verið að undirlagi Andrésar og Bjarna. Við það minnka enn líkur á að Andrés og Solveig nái saman. „Aldrei drýgir eðaljúngfrúin þá blóðskömm, að gefast föðurbana sínum,” sagði fólk sín í millum. (Virkisvetur, s. 158)
Undir lok sögu býst Andrés til varnar gegn óvinum sínum. Andrés og fleiri af mönnum hans gangast uppí því að vera loks komnir í bardaga eins og hetjurnar forðum. „Þeir létu það ekki uppi við aðra, en með sjálfum sér vissu þeir að tími hetjuskaparins var runninn upp að nýju, og þeir hér á þeim stað sem hýsti fyrrum Þorgeir og Þormóð og Gretti.” (Virkisvetur, s. 220)
Höfundur hefur augljóslega gaman af að smeygja margháttuðum fróðleik inn í frásögnina og gerir það svo lipurlega að lesandinn gleðst kannist hann við það sem ýjað er að, en líður ekki fyrir ef hann kannast ekki við umræddan hlut eða atburð.
Andrés sótti hestana og leiddi þann gráa að hárri bakþúfu, hélt þétt við ístaðið meðan ábótinn velti sér á bak.
- Á ég ekki að reiða fyrir þig skjóðuna? Bókin sú arna sýnist vel þung.
- Þakka þér fyrir. Já, þetta er mikil bók, og fagurt er á henni lesið. Hún var sett saman norður í Víðidalstungu fyrir einum fimmtíu árum, en á nú heima á Skarði. Ajá, það er orðið margt kostgætið sem á þar heima. Það eru á henni fornkonungasögur og annáll.
(Virkisvetur, s. 85)
Skemmtileg lýsing á bæði bók og ríkidæmi!
Í þessari bók er fyrirboði þess sem koma skal í bókum Björns Th.: Glæsilegar náttúrulýsingar, nákvæmar húsbúnaðar- og fatnaðarlýsingar og umfram allt trygglyndi við sögulega atburði sem þó eru skáldaðir svo að þeir virðast ljóslifandi. Lesendur kannast ýmist við – eftir því hve vel lesnir þeir eru – atburði, persónur eða tíðaranda, en Birni Th. tekst að spinna sögu sem er spennandi og lýsandi bæði fyrir tímabilið og einstaklinginn.
Haustskip – Gerist um miðja 18. öld
Haustskip kom út 1976 og er önnur atrenna Björns að sögulegri skáldsögu eftir langt hlé frá skáldskaparskrifum. Rakin eru ýmis minniháttar sakamál 18. aldar, frá árinu 1745 til ársins 1770, og eru heimildir meðal annars úr dóma- og þingbókum og manntölum. Titillinn vísar til þess að þeir sem voru dæmdir sekir á Alþingi að sumri voru sendir utan með Haustskipi til þrælkunar í Stokkhúsinu, Spinnhúsinu eða Brimarhólmi.
Haustskip er líklega sú bók Björns Th. Björnssonar sem er erfiðust yfirferðar. Málið er uppskrúfaður danskur embættismannastíll að miklu leyti og mikið er vitnað í dóma og skjöl sem bera kanselístílnum vitni auk þess að vera skreytt latínutilvitnunum. Stundum er allerfitt að fylgja eftir „fornu“ málfarinu en í staðinn kætir það lesandann að heyra fyrir sér rödd Björns, djúpa og hljómmikla, fræða um vist íslenskra sakamanna í Kaupmannahöfn.
Höfundur notar skrifaðar heimildir víða og eru þær tilvitnanir óvönum lesendum nokkuð erfiður ljár í þúfu. Þær eru ýmist á þýsku eða svo upphafinni dönsku að annaðeins hefur aldrei verið kennt í íslenskum barnaskólum, hvaðan tungumálakunnátta flestra er upprunnin. Björn nýtir heimildir sínar á einstakan hátt: merkir við á spássíu hvaðan heimildir eru teknar hverju sinni. Gerir þetta frásögnina trúverðuglegri auk þess að gefa henni blæ fræðimennsku að sjá krotað á spássíur. Lesandanum líður eins og hann sé að lesa yfir öxlina á fræðimanninum sjálfum.
Allskyns pólitík blandast inn í frásagnir af smáglæpum og hörðum refsingum. Einnig samfélagsástandið, veðurfar og náttúruhamfarir. Þannig kemur berlega í ljós að þegar hungursneið ríkir vegna eldgosa og ótíðar (Kötlugos 1755, hafís 1754-56), þá játa menn hreinlega á sig glæpi fremur en deyja úr hungri á víðavangi. Í þessari harðindatíð neyðast margir til að stela sér til matar en við því eru ströng viðurlög og því herðast sýslumenn í dómum sínum sem fleiri grípa til gripdeilda. Þegar stefnir í stríð um Slésvík-Holstein og danski kóngurinn hyggst efla herlið sitt, sjá íslenskir sýslumenn sér leik á borði að losna við allskyns lausungarlýð og gera hann að fallbyssufóðri. Skúli fógeti sér fram á landauðn vegna horfellis og utanfara sakamannanna og fær því framgengt að menn séu frekar dæmdir til að afplána með vinnu í Innréttingunum en í Kaupmannahöfn og segir að stofna þyrfti fangelsi á Íslandi. (Haustskip, s. 250)
Nútíðarlesanda kann að finnast margt annað göfugra í samfélagi manna en hegningarhús, en í ljósi tímans var hér miklum áfanga náð. Sakeyrir rynni nú ekki lengur úr landi, né tekjur ríkasta klaustursins, og eigna- og tekjuskattur næmi nú í fyrsta sinni síðan á þjóðveldisöld staðar í landinu sjálfu.
(Haustskip, s. 277)
Lélegir, gráðugir og latir sýslumenn eru helsta umfjöllunarefni bókarinnar. Þeir nenna ekki á Alþingi og dæma menn til hýðingar eða jafnvel dauða heima í héraði og víla ekki fyrir sér að framfylgja dómum sínum líka (s. 151), „en hinir yngri og löghlýðnari sýslumenn koma með þá á þing“ (Haustskip, s. 180).
Til hvers, með respekt að spyrja, skyldu sýslumenn vera að fara á þing? Til hverrar nytsemdar skyldu þeir vera að forsóa tíma og uppákostnaði í að flytja sína delinkventa margra daga og vikna leið í þennan blauta hraunkarga og híma þar yfir engu langapart túnasláttar og vera síðan sveiað heim jafnnær?
(Haustskip, s. 232)
Sýslumenn tíma ekki að gefa föngunum að éta, nota þá í verk fyrir sig og dettur auðvitað aldrei í hug annað en þeir hafi rétt fyrir sér og þyngstu refsingum beri ávallt að beita við fáránlega vægum brotum. Þeir eru auk þess vankunnugir um fangelsismál í Danmörku og dæma menn til Brimarhólmsvistar löngu eftir að hann var lagður af árið 1741 (Haustskip, s. 25); dæma karlmenn til afplánunar í Spinnhúsinu sem var kvennafangelsi og þar fram eftir götunum, þannig að þegar fangarnir komu til Danmerkur áttu fangelsisyfirvöld í mesta basli með að ráðstafa föngunum á rétta staði.
Þegar þeir dæma, vefst allt fyrir þeim af skærum ókunnugleika; þeir dæma ýmist á Brimarhólm, sem þeir líta á sem einskonar allsherjar þrælabúð, þótt fangelsi með því nafni og á þeim stað hafi þá löngu verið aflagt; þeir dæma í einu og sama orðinu í Kaupenhafnar Tugthús og Citadellen Friderichshavn og vita naumast hvort til sé eða hver munur þar á.
(Haustskip, s. 74)
Af þessu leiðir líka að erfitt er að fylgja eftir hvað varð um einstaka menn sem dæmdir voru eftir að til Danmerkur var komið.
Ókunnugleiki íslenzkra yfirvalda af dönskum fangelsismálum og óglöggt orðalag dóma olli hinsvegar því, að margur hefur farið í Kristjánshafnartugthús sem hefur í rauninni verið Stokkhúsinu ætlaður.
(Haustskip, s. 78)
Valdsmenn fá háðuglega útreið hjá höfundinum en hinsvegar hefur hann mikla samúð með lítilmagnanum. Inn í frásögnina er fléttað ýmiskonar smásögum sem krydda hana nokkuð. Fólk er nefnt til sögunnar eingöngu til að segja af því skemmtilegar sögur, frekar en að það hafi áhrif á framvindu mála. Höfundur segir til dæmis um Jón Grunnvíking að hann hafi verið mjög trúgjarn. En auðvitað orðar Björn Th. það ekki þannig heldur svona:
Ekki varð mikil töf á því, að eimur af öðru og slíku bærist inn að Ögri, þar sem Erlendur Ólafsson sýslumaður sat, ævinlega jafn fús að hafa hverja sögu fyrir sannleik, engu síður en Jón bróðir hans Grunnvíkingur, sem trúað hefur mestum lygisögum af einum manni íslenzkum að vera.
(Haustskip, s. 64)
Af slíkum innskotum má hafa hina bestu skemmtun.
Haustskip er tyrfnasta bók Björns. Hann hefur tileinkað sér tungutak 18. aldar með miklum ágætum og fer á kostum í orðanotkun sem hvergi er að sjá annarstaðar. Veldur þetta lesanda nokkrum vandræðum þegar skilningurinn er enginn nema orðabók sé við hendina, en gefur bókinni mikla sérstöðu.
Falsarinn – Gerist á þremur öldum, á Íslandi, í Danmörku og í Chile
Falsarinn er aðgengilegri fyrir hinn almenna lesanda en t.d. Haustskip, hins vegar er Falsarinn eina bók höfundar þar sem er flakkað milli tímabila og landa. Bókinni er skipt í 5 hluta og fyrstu þrír hlutarnir gerast á sitthvorum staðnum á sitthvorum tímanum: fyrsti hluti í Chile á árunum 1886 – 1893, annar hluti á Íslandi uppúr 1782, sá þriðji í Danmörku 1894. Seinustu tveir hlutar bókarinnar flakka svo ótt og títt milli þessara þriggja staða og tímaskeiða. Hver hluti bókarinnar segir frá einum karlmanni af sömu ætt. Í þessari bók kemur Björn Th. sjálfur lítillega við sögu, eins og hann gerir reyndar líka í Brotasögu, þó hér sé það með beinni hætti.
Falsarinn segir frá Þorvaldi Skógalín, ættmennum hans og niðjum í tvær aldir. Þorvaldur fær dóm fyrir peningafals og er sendur til Danmerkur að afplána lífstíðarfangelsi. Að því leytinu má segja að Falsarinn sé framhald af Haustskipum, framhald þar sem saga niðja þess dæmda er fylgt eftir allt fram á okkar dag. Tenginguna má líka sjá á því að höfundur lætur Þorvald vera í námunda við atburðarás Haustskipa, þótt ekki sé hann þar persóna.
Ekki hafði Þorvaldur heldur neinar spurnir af því, þótt nær væri, að landar hans voru nú hýddir inn í Stokkhúsið í Kaupmannahöfn í þéttari röð en nokkurntíma áður, og síðan hver af öðrum bornir dauðir í opnu segli út fyrir bæjarvegg.
(Falsarinn, s. 282)
Sjálfur var Þorvaldur í Krónborgarvirki við Helsingjaeyri þegar þetta var. Lesendur verða svo að lesa bókina til að sjá hvort hann bar þar beinin. Eitt er þó óhætt að upplýsa, Þorvaldur breytti nafni sínu þannig að hann var ekki skrifaður Þorvaldsson í skjölum. Þetta hafa margir aðrir gert og hefur lengi þótt fínt, þó Þorvaldur hafi ef til vill ekki gert það sér til upphefðar, eins og komið var fyrir honum.
Eftir urðu í stofunni ungmennin tvö, Þorvaldur drátthagi frá Skógum, járnaður og dauðadæmdur, og drengurinn Jón Jónsson.
Síðar kenndu þeir sig hvor við sinn bæinn, Jón við stórsetur föður síns og nefndist Espólín; Þorvaldur við eyðikotið undir heiðarbrúninni og kallaði sig Skógalín.
(Falsarinn, s. 166-7)
Föðurból Jóns var Espihóll, en Þorvaldur var frá Skógum í Þelamörk í Hörgárdal við Eyjafjörð. Niðjar Þorvaldar dreifðust svo um ýmis lönd og er það ástæða þess á hve mörgum stöðum Falsarinn gerist.
Þó Falsarinn gerist á ýmsum stöðum á jarðarkringlunni, nást nokkrar aðalpersónanna saman í kvöldverðarboði í Kaupmannahöfn rétt fyrir aldamótin 1900. „Fyrir miðju þverborðinu sátu þeir bræðrungarnir, Alfred Viggó stórkaupmaður og konsúll í Conception, nýsæmdur orðunni af Kristjáni konungi, og Júlíus Vilhelm úr Kauphöllinni, með Teresu Lúdmilu milli sín.“ (Falsarinn, s. 189) Þarna er einnig Axel Schovelin listmálari, sonarsonur Þorvaldar Skógalíns. Hann „erfir listfengið og verður konunglegur málari“, en bróðir hans „erfir það sem að peningum snýr og verður ríkisfjármálastjóri“. (Falsarinn, s. 375) Synir þeirra víxluðu svo hlutverkum; Alfreð Viggó sonur Júlíusar Schovelin varð kaupmaður og konsúll, en Júlíus Vilhelm sonur Axels varð þjóðhagfræðingur og forstjóri Konunglegu kauphallarinnar. Það er svo dóttursonur Alfreðs Viggós sem bankar uppá hjá Birni Th. Björnssyni árið 1979.
Hraunfólkið – Gerist á fyrri hluta 19. aldar
Hraunfólkið er um fólkið á Þingvöllum, prestana sem búa þar með sitt búalið og líka bændurna í kring. Þar er sérstaklega einn bóndinn sem verður presti fram að presti þyrnir í augum en hann eignast mýgrút barna framhjá konu sinni og verður ekki lögum yfir hann komið því sjálfur er hann hreppstjórinn.
- Sá er orðinn grunur minn, að börnin þín í Skógarkoti komi ekki öll úr einum og sama burðarliðnum.
- Úr hvaða skauði ættu þau þá að koma prestur minn?
- Þú heldur fjórar ungar vinnukonur en engvan vinnumann. Mér sýnast burðarföllin hennar Sigríðar þinnar orðin nokkuð tíð, innan við þá tvöhundruð og áttatíu daga sem meistari Brynjólfur taldi.
(Hraunfólkið, s. 69)
Þetta er úr samtali séra Páls Þorlákssonar og kvennamannsins Kristjáns. Sonur Páls, séra Björn, er fjórði presturinn sem reynir að sansa hann til en verður ekki ágengt frekar en hinum.
- Þú heldur að þú kunnir orðið ræðuna Kristján Magnússon. Þú heldur að það sé ræðan sem hann faðir minn sálugi hélt yfir þér, og Einar bróðir minn og hann Einar Sæmundsson. Og sem þú síðan mátt gleyma!“
(Hraunfólkið, s. 200)
En Kristján fer sínu fram. Þetta eru nú helstu árekstrarnir í Hraunfólkinu, sem er ekki mikil átakasaga. Markverðast er kannski að þarna rekast saman persónur sem voru viðriðnar sögulega atburði (eða hreinlega skópu málið – Rasmus Kristján Rask – og söguna, eins og Jörundur hundadagakonungur sem ríður til Þingvalla á leið norður Kaldadal) og þekktu fólk sem kvað að: „Síðustu manneskjurnar sem muna blóma Skálholts og Alþing á Þingvöllum.“ (Hraunfólkið, s. 133) Ragnheiður Finnsdóttir, tengdamóðir séra Einars, var gift síðasta lögmanni á þingi og bróðir hennar var síðasti biskup í Skálholti.
Dóttir biskups, systir biskups, ekkja lögmanns, mágkona Eggerts Ólafssonar lögmanns og skálds; um slíkt stand er til einskis að jafna á þessu landi. Heima á Meðalfelli er önnur af tveimur dætrum hennar, Ragnhildur, nú sextán vetra; hin dóttirin, Guðríður, fjórum árum eldri, er hjá hinum mikilsvirta bróður frúarinnar, Steindóri sýslumanni Finnssyni í Oddgeirshólum í Flóa. Og síðan er það Finnur, nú í Reykjavík og hættur við skóla.
(Hraunfólkið, s. 55)
Finnur þessi er sonur Ragnheiðar; Finnur Magnússon sem síðar varð prófessor og leyndarskjalavörður. Þá er líka margfrægur bróðir séra Páls, sjálfur Jón á Bægisá, sá hinn sami sem þýddi Tilraun um manninn eftir Alexander Pope og Paradísarmissi Johns Milton.
Persónulýsingar ná hæstu hæðum þegar séra Páli er lýst. Séra Páll fær alltaf kvíðaköst þegar hann þarf að ferðast um sóknina hvað þá heldur lengra, og reynir allt hvað hann getur til að losna við öll ferðalög. Yfirleitt lætur hann þó undan fortölum og sinnir skyldum sínum, en þegar ætlast er til að hann verði viðstaddur prestvígslu sonar síns í annari sveit, snýr hann við á miðri leið.
- Komast úr þessu, hátta ofan í rúm sagði hann við Guðfinnu sína þegar hún leit forviða á hann koma heim hlaðið. – Ógn vesæll Guðfinna mín! Eitthvað laslegur held ég, og skrökvaði sig aldrei þessu vant undan ákúrum. Hann var mikið glaður þegar hann var kominn úr fornstássinu og undir brekán og gæru. Samt fékk hann dálítið þursabit í samviskuna þegar hún bar honum heitt í rúmið. (Hraunfólkið, s. 92)
Það eru miklar sorgir lagðar á séra Pál, hann missir konu og börn. Kona hans deyr 32 ára frá 6 börnum, skömmu síðar sonur þeirra. „Enn fækkaði, og með sárum harmi, fólkinu á Þingvallastað.“ (Hraunfólkið, s. 69) Séra Páll smíðar svo sjálfum sér líkkistu sem stendur á stalli í kirkjunni. Þegar Einar sonur hans er ráðinn til að taka við af honum, sem þýðir þá um leið að séra Páll þarf ekki að hrekjast burtu þó hann hætti prestskap, þykir það mikil góðgirni af hálfu biskups. „ – Gamli Páll má þá bera beinin í sinni eigin kistu og í sínum eigin garði sagði fólk og gleymdi því í bili að kistan var ekki mannbær.“ (Hraunfólkið, s. 99) Séra Einar lætur reyndar taka kistuna úr kirkjunni en þá hefur hún staðið uppi í sjö ár. Einar fær skömmu síðar mun betra prestakall að undirlagi tengdamóður sinnar, Þingvellir eru þá veittir öðrum presti sem þar er í sjö ár en er flæmdur burt af sóknarbörnunum sem hann hafði verið í stöðugu stríði við. Við tekur Björn Pálsson, yngri bróðir séra Einars. Sögu hans er svo fylgt til þess er hann lætur af embætti sökum holdsveikinnar sem dró hann til dauða, en jafnframt sagt frá þeirri stefnu sem næsta kynslóð tekur.
Glíma prestanna við hreppstjórann er gegnumgangandi í sögunni en þessi bók hefur sér helst til ágætis að vera næm lýsing á fallegri náttúru með háðskum lýsingum á lélegum búsetuskilyrðum Þingvallajarðarinnar.
Þingvellir eru enn á ný í brennidepli þegar þetta er ritað, nýútkomin er bók Jóns Karls Helgasonar Ferðalok sem greinir frá uppgreftri beina Jónasar Hallgrímssonar 1946 og því þegar þau voru (eða ekki) grafin í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum. Björn Th. Björnsson hefur sjálfur lagt orð í belg um beinaflutning þennan og segir frá því í bók sinni Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn. Í Ferðalokum fær Þingvallajörðin ekki háa einkunn, því Halldór Laxness sagði að: „lög um kirkjugarða voru þverbrotin í landinu, til þess, að hann [Jónas frá Hriflu] gæti æ síðan talið meðal frægðarverka sinna að hafa grafið Einar Benediktsson á þeim stað á Íslandi sem einna verst er fallinn til legstaðar, Þíngvallatúninu, ýmist blautu eða jarðvegslausu [...] þar sem áður var siður að stegla glæpamenn.“ (Jón Karl Helgason, 2003, s. 125).
Fyrir prestunum í Þingvallasókn var gæði – eða öllu heldur gæftaleysi jarðarinnar höfuðatriði, nútímamönnum er ofar í huga helgi staðarins og stórbrotin náttúran. Í Hraunfólkinu eru náttúrúlýsingarnar frá Þingvöllum meistaralegar, augljóst er að höfundurinn ber hlýjar taugar til staðarins.
Gróskan úr skauti náttúrunnar skifti sér heldur ekki af sorgum lúins prests. Yfir skóg og Vatn að líta titraði unaður lífsins af hverjum streng. Tófa skauzt með fugl í kjafti til yrðlinga sinna, köngurlóin óf alsæl sitt veiðinet yfir rifur og raufar, og himbriminn átti ekki til orð yfir dýrðina úti á Vatni og hló löngum hlátrum framan í sólina.
(Hraunfólkið, s. 50)
Hraunfólkið er auðlesin og skemmtileg, auðvelt er fyrir lesandann að hafa yfirsýn yfir menn og málefni.
Solka – Sagan gerist á ofanverðri 18. öld
Sögusviðið er Skagafjörður.
Solka er um forsögu hins margumrædda hvarfs séra Odds frá Miklabæ.
Höfundur tekur annan pól í hæðina en venjan var þegar fjallað var um hvarf séra Odds frá Miklabæ. Í þjóðsögum er Solveigu lýst sem ástsjúkri vinnukonu sem ásækir hann og heldur áfram ofsóknum í draugslíki og drepur að lokum manninn sem hún aldrei fékk. Þessi skýring þjóðsagnarinnar hefur á síðari tímum verið dregin í efa og skemmst er að minnast leikrits Ragnars Arnalds um þetta efni þar sem samúð hans er augljóslega með Solveigu.
Björn Th. snýr sögunni af séra Oddi og Solveigu þannig að þau elski hvort annað en hann sé óttaleg gunga. Vegna ætternis síns, en ekki síst aumingjaskapar, hafi Oddur fallist á að kvænast þeirri konu sem að honum var rétt og það hafi valdið því að Solveig fyrirfór sér. Oddur hafi alla tíð verið veikur á geði og eigi það sinn þátt í örlögum hans. Birni Th. er greinilega í mun að kveða niður draugaganginn sem umlokið hefur söguna um hvarf séra Odds frá Miklabæ.
Saga sú sem hér er fitjað upp á hefur aldrei verið sögð. Það er af því að hún hefur alla tíð verið undir huliðshjálmi þjóðtrúar og rammrar draugasögu. Sá sem vill gægjast undir þá hulu hefur samt sem áður nokkrar stillur til þess að komast yfir þann dimma þjóðsagnaflaum. Þær stillur báru út í brotið góðir menn sem annara var um atburði á jörðu en dauðrasvipi eða öfugsýnir í miðju lofti.
(Solka, s. 6-7)
Solveig Þorleifsdóttir hefur alla samúð höfundarins en Oddi biskupssyni er lýst sem geðveikum því hann á það til að hlaupa á fjöll sökum þess að hann greip „sinnisveiki með köflum ... en hann lézt ei vita hví hann fór svo.“ (Solka, s. 7) Þá er hann mannleysa sem tekur aldrei af skarið í nokkru máli. Hann býr með Solveigu en kvænist henni ekki, vill ekki verða prestur en tekur því samt eins og hverju öðru hundsbiti þegar faðir hans biskupinn úthlutar honum Miklabæ og prestsembætti þar.
Oddi er síðan þröngvað í hjónaband með Guðrúnu Jónsdóttur í Goðdölum og koma hans mótbárur fyrir lítið þar sem hann er ekki talinn ábyrgur gerða sinna. „- Þegar maður hefur bevísanlega sýnt sig vanheilan á geði, elskaði mágur, so sem þú hefir þráfaldlega í fallið, þá gildir umboð foreldra hans so sem um ómyndugan.“ (Solka, s. 162). Þó virðist geðveila Odds ekki nægja til að hann sé álitinn óæskilegt mannsefni!
Inn í söguna er svo fléttað örlögum Sigþrúðar blindu á Staðastað, bróðurdóttur Skúla fógeta, sem verður síðan góðgjörðakona Solveigar og Odds. Sonur hennar, séra Bjarni Jónsson á Mælifelli, reynist þeim einnig vel. Það er í samtali við Sigþrúði sem Oddur minnist á Guðrúnu Gottskálksdóttur sem síðar verður Birni Th. að yrkisefni í Byltingarbörnum.
Höfundur Solku setur þau hjúin niður í bæ í Vesturdal (sem gengur suður úr Skagafirði) sem hann kallar Dalkot, á þeim forsendum að flest bendi til „einhvers bæjar eða kots í eigu Goðdalakirkju. En þar sem heimildir þrýtur er huga og líkindum sviðið frjálst.“(Solka, s. 63) Nóg er samt af heimildum, eins og sjá má af heimildaskrá aftast í bókinni og einnig eru beinar tilvitnanir í aðrar frásagnir af Oddi á Miklabæ, en þær eru fáar og hvorki skyggja á frásögnina né setja sérstakt mark á hana.
Brotasaga – Gerist á tímabilinu 1869 til 1934
Sögusviðið er Ísland og Hull, Englandi.
Brotasaga segir frá fátækri og umkomulausri stúlku og örlögum hennar. Sagan hefst á því að móðir aðalsögupersónunnar, Guðrún Eiríksdóttir, flýr ofríki húsbónda síns á Torfastöðum í Grímsnesi árið 1869. Á leið sinni skilur hún tveggja ára gamla dóttur sína eftir í umsjá Dómhildar húsfreyju í Elliðakoti. Síðan er dótturinni, Önnu Guðrúnu Sveinsdóttur, komið fyrir í „Vilborgarkot[i] við Hólmsá, þar sem hún er skráð „sveitarbarn“. (Brotasaga, s. 22). Á fermingarári hennar fluttist Dómhildur einnig þangað „og gekk stúlkunni í jafn innilegan móðurstað sem nokkrum óskyldum er unnt.“ (Brotasaga, s. 30)
Anna Guðrún var nú orðin alger einstæðingur í lífinu, faðir hennar drukknaður „í flæðarmálinu í Reykjavík“, og Guðrún móðir hennar, sem hafði nokkru áður ráðizt vinnukona að Syðri-Reykjum í Mosfellssveit, var nú dáin þar á bæ, aðeins 33 ára gömul.
(Brotasaga, s. 31)
Anna Guðrún vex upp og þegar hún nálgast þrítugt fær hún vinnu hjá Gunnlaugi í Oddgeirsbæ, sem rekur útgerð. Þar kynnist hún Halldóri Diðriki Runólfssyni. Halldór biður Önnu Guðrúnar og vill að hún flytji með sér til Hull, þar sem hann hyggst verða ríkur á fiskverslun að hætti James White, sem hann vinnur hjá. Þau flytjast þangað en ekkert fer eins og ætlað var. Þar eignast Anna Guðrún tvo syni en annar þeirra er ákaflega heilsutæpur eftir slys. Þau flytjast svo heim og Anna Guðrún leitar skjóls hjá Gunnlaugi fyrrum vinnuveitanda sínum. Þar eignast hún enn son en flyst svo með Halldóri til Vestmannaeyja þar sem hún eignast fjórða og síðasta barnið á sex árum og er það dóttir sem er ein heimildarmanna Brotasögu.
Í Vestmannaeyjum tíðkaðist að menn kölluðu hús sín eftir þeim stöðum þaðan sem þeir keyptu bátsmótorana sína og var húsið sem Anna Guðrún bjó í því kallað Björgvin og hún þar af leiðandi Anna í Björgvin.
Anna Guðrún lærir sauma, sem kemur sér vel þegar hún býr í Hull og einnig síðar meir þegar illa árar hjá fjölskyldunni. Framan af hrekst hún úr einni vistinni í aðra, rétt eins og móðir hennar gerði, en hún á því láni að fagna að kynnast góðhjörtuðum manneskjum sem reynast henni vel. Allt frá Dómhildi fóstru hennar og Málfríði, sem deilir með henni kjörum í Hull og Vestmannaeyjum, til James White og Eldeyjar-Hjalta, karla sem bættu talsvert fyrir mannleysuna sem hún situr uppi með sem barnsföður.
Og þegar Anna Guðrún bar annan son sinn til skírnar í Fríkirkjunni þann 3. desember, sem var vatni ausinn og nefndur í blessun Frelsarans Halldór Magnús Ingiberg, þá var sjálfur Gunnlaugur í Oddgeirsbæ guðfaðir barnsins og sá til þess við séra Ólaf að foreldrarnir eru í bókum hans kölluð hjón í Bjarnaborg, hún 32 ára, þótt fyrrum húsbóndinn vissi sjálfur alla meinbugi á ektaskapsstöðu þeirra.
(Brotasaga, s. 147)
Það er til Gunnlaugs, sem bæði sat í bæjarstjórn og fátækranefndinni, sem hún flýr til í Ingvarsveðrinu þegar hún hélt að Bjarnaborgin myndi brenna ofan af sér, og hjá honum og konu hans dvelst hún alllengi, eða allt þar til hún snýr aftur til Halldórs.
Frá því að Anna Guðrún og Halldór kynnast og hann lofar henni öllu fögru og þar til hún sér hvaða mann hann hefur að geyma líður nánast óþægilega langur tími, en þó koma stundir þar sem hún lætur hann heyra hvað hann standi sig illa í flestu því sem hann tekur sér fyrir hendur. Henni mislíkar hve för þeirra til Hull hefur ekki orðið eins og um var samið við vinnuveitandann, James White, og reynir að brýna Halldór til að krefjast réttar síns. Þegar hann segist ekki kunna við „að heimta svoleiðis af honum mister Væt“ svarar hún honum því að þá skuli hún gera það, hún sé hætt að láta bjóða sér hvað sem er. Hún geti vel tekið sér húsbóndavaldið, ekki standi hann sig svo vel í stykkinu: „Ekki hefur þú enn séð fyrir neinu, ekki giftingunni og ekki drengnum til lækningar. Og varst ekki einu sinni heima þegar ég átti hann.“ (Brotasaga, s. 134).
Og sitthvað hefur höfundurinn fyrir sér þegar hann lætur Önnu Guðrúnu messa yfir manni sínum, hann hefur vitni: „Þegar þessi kona var í ham réði hún yfir einhverju mergjaðasta tungutaki sem ég hef heyrt um dagana, – og jafnvel ekki grunlaust að ræðu hennar fylgdi meiri kraftur en orðin tóm,“ hefur höfundur eftir Ása í Bæ. „Aðrir hafa líka til þess, bæði fyrr og síðar, að menn óttuðust ákvæði Önnu í Björgvin og þóttu þau jafnvel rætast með geipilegum hætti.“ (Brotasaga, s. 134). Ekki dró það úr óttablandinni virðingunni fyrir Önnu Guðrúnu að hún var sögð skyggn.
Ég segi stundum að einhver sé að koma, en þau neita því, segja að þau eigi ekki von á neinum og veðrið ekki þannig. En svo bara kemur einhver. Kannski með tvo hunda, alveg eins og ég sagði.
(Brotasaga, s. 24).
Brotasaga er eina saga Björns Th. sem gerist á 20. öldinni. Hún er jafnframt tilþrifaminnista saga hans, því þarna vantar eða er af skornum skammti margt það sem gerir hinar bækurnar svo ágætar: Náttúrulýsingar, lýsingar á fatnaði og húsmunum, ágjarnt yfirvald og kúgaða alþýðu. Í staðinn er þessi bók ágæt saga um basl alþýðukonu og góð sem slík.
Hlaðhamar – Gerist á fyrrihluta 18. aldar
Sögusviðið er Hrútafjörður.
Hlaðhamar er um Árna Kársson, fátækan, skapstyggan og fáfróðan auðnuleysingja. Hann er nýkvæntur Gerðu á Hlaðhömrum, sem hann kvæntist eingöngu vegna þess að hann taldi hana vera efnaða, en á óafvitandi dóttur sem er ungabarn við upphaf bókar. Barnsmóðirin fær honum barnið til uppeldis og veldur það mikilli úlfúð milli hjónanna og svo fer að Gerða flytur frá honum. Hann er því einn eftir með dótturina.
Þá gerðist það sem enginn hafði nokkurntíma séð og enginn mundi nokkurntíma trúa, að Árni Kársson lagðist fram á annað hnéð, brosti og kjáði með tveim fingrum í hálsakotið á barninu. Sveinborg stóð yfir þeim og blés út af móðurlegu stolti. Árni rétti sig upp og seildist eftir taumnum á þeim rauða sem hafði nú stillzt nokkuð og gripið niður. Árni horfði ýmist á barnið eða konuna, tvísté líkt og vandræðalega, spurði loks:
- Á hverju lifir svona mannkind Borga mín?
(Hlaðhamar, s. 25)
Það verður síðan meginuppistaða fyrrihluta bókarinnar, að lýsa aðförum Árna við að halda lífi í ungabarni án þess að hafa til þess nokkra kunnáttu.
Fljótlega tekur piltur nokkur, Jón að nafni, að venja komur sínar að Hlaðhamri og er barngóður mjög. Síðar meir verður hann örlagavaldur í lífi feðginanna er þau Guðrún fella hugi saman. En þegar þau hittast fyrst er hún ungabarn og er geymd í kassa svo hún fari sér ekki að voða. Jón spyr Árna hvernig standi á því að hún sé geymd í kassanum.
- Þá er hún á vísum stað og ekki fyrir neinu. Henni finnst það gott.
- Má ég taka hana upp?
Drengurinn Jón beið ekki eftir svari, en tók telpuna upp og hljóp með hana út í túnið. Þar lagðist hann á fjóra fætur, og Árni sá sér til nokkurrar furðu að hún skreið með honum í grasinu.
(Hlaðhamar, s. 61)
Fyrstu kynni feðginanna Árna og Guðrúnar af Jóni setja tóninn fyrir það sem á eftir kemur; Árni álítur að Guðrún sé ánægð þar sem hann setur hana en Jón vill hrífa hana á brott og hún lætur sér það vel líka.
Frá fyrstu síðu er Árna lýst sem ofstopamanni. Þegar hann tekur að sér að ala upp dóttur sína, aleinn, þá fær hann ofurást á henni. Hún er það eina sem hann hefur nokkurn tíma átt og hann vill aldrei láta hana frá sér. Hann er fáfróður og getur því ekkert kennt dóttur sinni en síðar kynnist hún öðru fólki og þá finnst henni ekki lengur að pabbi hennar sé eins mikill miðpunktur alheimsins og áður. Árna líst ekkert á áhuga Jóns á Guðrúnu og sér hann sem ógn við sig.
- Komdu sæll Árni, sagði Jón í Hlíð glaðværlega eins og hans var vandi til.
- Hvað ert þú að skrönglast hér, spurði Árni, og óvinsamlegt fúllyndið gaus út úr orðunum.
- Ég var nú sem mestan part að gá eftir gimbrinni hennar Guðrúnar, þeirri svartflekkóttu, ef hún hefði sótt saman við féð.
- Hvern andskotann í djöflinum kemur það þér við? Ég veit ekki til að hún eigi neina gimbur, hvorki flekkótta né annarskyns! Þér væri nær að skipta þér af því sem þér kemur við, en láta dóttur mína í friði! Nógu ertu búinn að hangsast yfir henni!
(Hlaðhamar, s. 184)
Að þessu leyti líkist Árni söguhetju Victors Hugo, Jean Valjean í Vesalingunum. Jean Valjean tekur að sér lítið stúlkubarn sem hann elur upp sem dóttur sína. Þegar hún er orðin gjafvaxta og karlmenn taka að renna til hennar hýru auga, gerir hann allt til að forðast þá. Hún verður ástfanginn af Maríusi Pontmercy og þegar Jean Valjean kemst að því hyggst hann drepa Maríus (endar reyndar á að bjarga lífi hans). Árni og Jean Valjean eiga það sameiginlegt að hafa aldrei elskað eða verið elskaðir nema af dætrum sínum og tilhugsunin um að missa ástir þeirra er þeim óbærileg.
Jean Valjean bar einungis föðurlega ást til Cosettu. Hann var henni eins og dóttur sinni, hann unni henni eins og móður sinni, hann unni henni eins og systur sinni. En þar sem hann hafði aldrei unnað konu öðruvísi, aldrei unnað eiginkonu, ófust þessháttar tilfinningar einnig ósjálfrátt saman við ást hans, óskýrar, blindar, engilhreinar, himneskar og guðdómlegar. Tilfinning hans var óumræðileg ástúð og umhyggja fyrir Cosettu, hulin og hrein eins og gullæð í fjalli.
Geri nú lesandinn sér það í hugarlund hvernig ástatt var. Hjónaband gat ekki komið til mála, jafnvel ekki hjónaband sálarinnar. En samt sem áður var það víst og áreiðanlegt, að örlög þeirra voru gefin saman. Þegar Cosetta, eða með öðrum orðum barnæskan, er fráskilin, hafði Jean Valjean, á allri hinni löngu ævi sinni ekki kynnst neinu því sem elskað yrði.
(Hugo, 1988, s. 233)
Það dregur ekki úr samlíkingunni að sögurnar, Hlaðhamar og ástarsaga Cosettu og Maríusar, gerast á svipuðum tíma, eða á fyrri hluta 18. aldar.
Þegar Gerða og Árni taka upp búskap aftur flytur Guðrún í Hlíð, til Jóns og móður hans Valgerðar. Þetta sættir Árni sig ekki við og reynir að fá Guðrúnu heim með sér, með góðu eða illu.
... aldrei hefur um Strandasýslu eða Húnaþing vakizt upp þvílík ásókn og ofsókn sem nú varð af hendi Árna á Hlaðhamri við það Hlíðarfólk. Þótt væri, sat hann um bæinn sem óvígur her, barði á hurð og þiljur, hrópaði uppi hótanir... En allt um það linnti ekki umsátrinu, og sama hvort var að degi eða nóttu.
(Hlaðhamar, s. 193)
Árni hefur sitt fram að lokum: honum tekst endanlega að stía Guðrúnu og Jóni sundur en þarf síðan að taka afleiðingum þeirrar gjörðar sinnar.
Byltingabörn
Sagan gerist á um það bil tíu árum rétt undir miðbik 16. aldar. Sögusviðið er Skálholt og persónurnar eru prestar staðarins, biskup og biskupsefni ásamt þjónustuliði.
Byltingarbörn kom út á 1000 ára afmæli kristni á Íslandi. Segir þar frá aðdraganda siðaskiptanna í Skálholti og vígslu Gissurar Einarssonar í biskupsstól og fylgir honum til dauðadags (1548).
Skálholt er mikill staður og húsaskipan svo flókin að fólkið sem býr þar ratar jafnvel ekki um alla rangalana. Þannig lifir það hvert sínu lífi og á ekki samskipti svo dögum og jafnvel mánuðum skiptir. Í hinum ýmsu skúmaskotum er ýmislegt á seyði sem ekki þolir dagsljósið; í undirbúningi er trúarbylting að undirlagi manna sem handgengnir eru biskupinum sem er orðinn gamall og blindur. Þar fara fremstir í flokki Oddur Gottskálksson (sem þýddi Nýja testamentið á íslensku 1540) og Gissur Einarsson sem báðir aðhyllast lútherstrú.
Diðrik frá Mynden (Dietrich von Mynden) hirðstjóri og fógeti á Bessastöðum kemur (1539) með skipun frá kóngi um að taka upp lúthersku, „bann við áheitum og ákalli dýrlinga, bann við Máríutíðum, og messugerðir eru fyrirskipaðar á landsmálinu sjálfu.“ (Byltingarbörn, s. 27) Staðarráðsmaðurinn í Skálholti, síra Eysteinn sterki Þórðarson felur öll bitjárn þegar hann fréttir að Diðrik frá Mynden sé á leið til Skálholts. Eysteinn lætur síðan menn sína vopnast „í heilagrar Skálholtskirkju rétti“ (Byltingarbörn, s. 85). Þeir ráðast á menn fógetans og höggva hann svo sjálfan og dysja með mönnum hans. Atburður þessi gæti haft áhrif á áform Odds og Gissurar um að ná völdum í Skálholti.
Berist fregnir af þessu til Kaupmannahafnar áður en klukkum Frúarkirkju verður hringt þeirri stóru hringingu, verður Gizur Einarsson aldrei biskup í Skálholti. Og þá er tapað allt okkar stríð.
(Byltingarbörn, s. 88)
Höfundi tekst vel að koma til skila hvað það var sem almenningi, háttsettum sem almúga, fannst ógnvænlegt og framandi við hinn nýja sið og hvernig hann breytir heimsmyndinni án þess þó endilega að renna styrkari stoðum undir trúna. Að allt það sem áður var gilt þykir í nýjum sið hjóm eitt. Að lesa Nýja testamentið á eigin tungumáli þýðir aðeins það að þurfa að stauta sig framúr hinum endalausu ættartölum og er það lítið uppbyggilegt miðað við að fá prestana til að segja sér til í orði guðs.
- Í þeim nýja sið, það segja þeir Gizur, á maðurinn syndina við sína eigin sál. Þá verður ekki lengur hægt að borga sig frá henni með aflátum eða áheitum, og ekki skilja hana eftir í neinum skriftarstól!
(Byltingarbörn, s. 51)
Skálholtsmenn ætla að verða prestar og bera út „það ómengaða orð“ (Byltingarbörn, s. 27) Menn eru þó missterkir í hinni nýju trú og virðast helst ætla að nota aðferð kristintökumanna fimmhundruð árum fyrr og fá að stunda gömlu trúna í laumi. Þannig er síra Eysteinn staðarráðsmaður einn af mönnum hins nýja siðar, en biður enn til „hins sæla Þorláks biskups“ (Byltingarbörn, s. 31) og kyssir á skrínið sem geymir bein hans. Átrúnaður á bein dýrlinga er einmitt eitt af því sem lútherskan barðist gegn.
Með upplýsingu, skólum og læsi á boðskap Kristí verður það smám saman sjálfbjarga í landinu. Þá leggjast líka af þessar ægilegu heitgöngur, í Kaldaðarnes og hingað að beinum Þorláks biskups, þar sem rekja má slóðina eftir stirðnuðum líkum gamalmenna og barna! Þá fer þetta fólk til sinnar kirkju og hlýðir á óbrjálað guðsorð!
(Byltingarbörn, s. 158)
Guðrún Gottskálksdóttir er systir Odds, hún er rödd pápískunnar í bókinni og verður örvæntingarfull þegar henni verður ljóst hvernig lútherskan lítur á hinn gamla átrúnað:
„ – Er sæl María á Hofstöðum þá ekki annað en tré og dulur? Er Jónshöfuð á Hólaaltari ekki annað en silfur og bein?“ (Byltingarbörn, s. 18) Guðrún er sem milli steins og sleggju, sjálf sannfærður kaþólikki en bæði bróðir hennar og ástmaður, Gissur Einarsson eru lútherstrúar, þó þeir leyni því sem frekast má meðan gamli biskupinn, Ögmundur Pálsson er enn á lífi. Ögmundur biskup lýsir Gissur eftirmann sinn og verður hann 34. biskup á Skálholtsstóli. Gerður er samningur um giftingu þeirra Guðrúnar, en í nýja siðnum mega prestar kvænast.
Þrátt fyrir að Gissur og Guðrún séu lofuð keppa dætur fyrrum hirðstjóra (sem dó 1534), Magdalena og Katrín Hannesdætur, sín á milli um Gissur og ganga hart fram að fá sínu framgengt. Bróðir þeirra, Eggert (síðar hirðstjóri), er í þjónustu Ögmundar biskups og síðar Gissurar. Verða kvennamál Gissurar nokkuð fyrirferðarmikil í bókinni, en lýsa um leið tíðarandanum.
Að vanda skýtur höfundur inn skemmtilegum fróðleiksmolum, geirfuglsveiðar eru útskýrðar á þann hátt sem gefur einu helsta vandræðamáli Íslendinga nýja vídd.
- Ég er hérna með sléttfulla öskju af geirfuglsbræðingi í skjóðunni minni. Ekkert smér jafnast á við blessaðan geirfuglsbræðinginn!
- Forláttu fáráðum Ráðhildur mín. Hvaða bræðingur sagðirðu?
- Blessaður geirfuglinn er ekkert nema mör og fita. Þegar ég svifti þeirri skepnu úr hamnum og sýð í sláturpottinum mínum, þá er soðskjöldurinn so þykkur, að taka má hann heilan upp eins og hlemm í potti. Og bræddur saman við soðið er hann það bragðbezta viðbit á guðs blessaðri jörð!
- Og hérna, hvernig veiðið þið þennan fugl?
- Hann er aldrei veiddur. Hann situr frammi á nesjum og gjögrum, og hver krakki getur hlaupið hann uppi. Ekki þarf annað en dálitla hleypilykkju um hálsinn. Já, góði maður. Þessi blessuð fiðurskepna leggur sig með litlu minna tillagi í keti og mör en sláturdilkur á hausti! Og hamurinn! Þessi skjóða hér er saumuð úr hamnum.
(Byltingarbörn, s. 39)
Lokaorð
Bækur þær sem hér hefur verið fjallað um hafa verið gríðarlega vinsælar meðal þjóðarinnar. Fyrsta bókin,Virkisvetur, seldist strax upp og varð þegar að endurprenta hana. Hún var ófáanleg í tuttugu ár þar til hún var endurútgefin nokkru eftir að önnur bókin, Haustskip kom út. Auk þess eru allar bækur Björns Th. Björnssonar í sífelldu útláni á bókasöfnum, eins og starfsfólk Borgarbókasafnsins getur borið vitni um. Auk heimildagrúsks og ritunar sögulegra skáldsagna hefur Björn Th. einnig þýtt talsvert af bókum. Ferst honum það vel úr hendi sem annað.
Helsti aðall bóka Björns Th. eru náttúrulýsingarnar. Það er sama hvort hann lýsir fugli eða fjalli, allt stendur það lesandanum ljóslifandi fyrir hugskotsjónum og hrífur hann með. Frásagnargáfa Björns Th. gerir Söguna, með stóru essi, að skemmtisögu og spennusögu. „Hin listræna blekking heimildaskáldsagnanna felst í því að okkur finnst við vera meðal sögulegra persóna og í liðnum tíma.“ (Magnús Hauksson, 1996, s. 222) Samkvæmt þessu er Björn Th. mikill blekkingameistari.
Það er ástæða til að hvetja fólk til að lesa bækur Björns, hann er ekki að ósekju einn vinsælasti rithöfundur þjóðarinnar.
© Bára Magnúsdóttir.
Greinar
Almenn umfjöllun
Auður Sigurðardóttir: „Björn Th. Björnsson: æviferill, ritaskrá“
Árbók Listasafns Íslands 1990-1992; 3: s. 121-125
Bera Nordal: „Björn Th. Björnsson sjötugur“
Árbók Listasafns Íslands 1990-1992; 3: s. 6-11
„Konan í íslenskri myndlist.“ Viðtal við Björn Th. Björnsson
19. júní ; 1974, 24. árg., s. 30-35.
Um einstök verk
Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn
Halldór Halldórson: „Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn“
Skírnir; 1962, 136. árg. s. 226-228.
Sverrir Kristjánsson: „Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 23. árg. 1962, 1. tbl., s. 83-85.
Brotasaga
Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir: „Brotasaga“ (ritdómur)
Vera, 17. árg., 6. tbl. 1998, s. 64
Byltingarbörn
Lanae Hjortsvang Isaacson: „Byltingarbörn. Skáldsaga“ (ritdómur)
World literature today, 76. árg. 2002, s. 194
Dunganon
Finnur N. Karlsson: „Dunganon: hertoginn frá Seyðisfirði“
Glettingur, 2. árg., 3. tbl. 1992, s. 7-8
Haustskip
Vésteinn Ólason: „Haustskip“
Tímarit Máls og menningar, 37. árg., 2. tbl. 1976, s. 195-200
Bergsteinn Jónsson: „Haustskip“
Saga, 14, 1976, s. 217-19
Hraunfólkið
Eiríkur Guðmundsson: „Ofbeldi tímans : Hugað að nokkrum skáldsögum ársins 1995“
Andvari, 121. árg., 1996, s. 138-59
Íslenzkt gullsmíði
Lárus Sigurbjörnsson: „Íslenzkt gullsmíði“ (ritdómur)
Skírnir, 129. árg. 1955, s. 188-189
Tómas Guðmundsson: „Íslenzkt gullsmíði“ (ritdómur)
Helgafell, 6. árg., 3. tbl. 1954, s. 58
Þorsteinn Jónsson: „Ritsjá“ (ritdómur)
Eimreiðin, 60. árg., 4. tbl. 1954, s. 310-316
Minningarmörk í Hólavallagarði
Páll Líndal: „Björn Th. Björnsson. Minningarmörk í Hólavallagarði“
Saga, 27. árg. 1989, s. 184-191
Solka
Einar Már Jónsson: „Síra Oddur kveikir á kolunni“
Tímarit Máls og menningar, 59. árg., 4. tbl. 1998, s. 129-32
Virkisvetur
Jóhann Sveinsson: „Bréf sent Skírni : Hugleiðingar um verðlaunabók“
Skírnir, 135. árg., 1961, s. 248-52
Sveinn Skorri Höskuldsson: „Virkisvetur“
Almenna bókafélagið: Félagsbréf, 16, 1960, s. 49-57
Kristján Karlsson: „Virkisvetur“
Nýtt Helgafell, 4, 1959, s. 214-16
Þingvellir, staðir, leiðir
Einar Þ. Guðjónsen: „Þingvellir, staðir, leiðir“ (ritdómur)
Skírnir, 159. árg., 1985, s. 267-269
Verðlaun
1959 - Skáldsögusamkeppni menntamálaráðs: Virkisvetur
1989 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Minningarmörk í Hólavallagarði
1990 - Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
Tilnefningar
1993 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Falsarinn
Jarlhettur: Sagan um Þórurnar tvær á Þingvelli
Lesa meiraGlóið þið gullturnar
Lesa meiraHaustlauf
Lesa meiraStofugólfið á Ströndinni
Lesa meiraByltingarbörn
Lesa meiraHlaðhamar
Lesa meiraHlaðhamar
Lesa meiraBrotasaga
Lesa meiraSolka
Lesa meira
Hundrað nætur í Höfn
Lesa meiraHarmaminning Leonóru Kristínar í Bláturni
Lesa meiraHeimslist - Heimalist
Lesa meiraVefarinn mikli I-II
Lesa meira