Beint í efni

Eden

Eden
Höfundur
Auður Ava Ólafsdóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Málvísindakona, sérfræðingur í fámennistungumálum, ákveður að breyta landi þar sem ekkert grær í Edenslund. Hjá íbúum í nálægu þorpi kviknar óvæntur áhugi á málvísindum. Á fjörur söguhetju rekur handrit að ljóðabók fyrrverandi nemanda hennar sem fjallar um ást ungs karlmanns á eldri konu. Eden fjallar um mátt orðsins og ábyrgðina sem við berum.

Úr bókinni

Í hvert sinn sem ég sting skóflunni niður lendi ég á grjóti. Til þess að losa stærstu steinana úr moldinni þarf ég að mjaka þeim til og nota síðan vogarafl skóflunnar til að lyfta þeim upp. Stundum kem ég niður á klöpp og þá þarf ég að leita að nýjum stað til að stinga skóflunni niður. Það tekur mig klukkustund að gróðursetja tíu birkiplöntur. Konan í garðyrkjustöðinni sem seldi mér plönturnar sagði að ef jarðvegurinn væri rýr þyrfti að vökva plönturnar fyrsta árið á meðan þær væru að róta sig. Hún sagði reyndar líka að eldfjallaaska af söndunum væri hinn fínasti áburður.
   Ég hafði ekki tekið eftir því hversu gríðarlega stór himinninn yfir spildunni minni er. Það má eiginlega segja að hann liggi alveg ofan í landinu. Endalaus köld heiðríkja.
   Ég halla mér fram á skófluna og virði fyrir mér granna trjásprotana og hugsa, munu þeir lifa af vetrarstorm og hauststorm og sumarstorm og vorstorm, munu þeir verða nógu sterkir eða munu þeir brotna? Mér er sem ég heyri pabba segja, mjór er mikils vísir, Alba mín.
   Tré vaxa ekki mikið fyrstu árin á þessari breiddargráðu. Hins vegar má búast við að þau taki góðan kipp eftir fimm ár, hafði konan í garðyrkjustöðinni sagt. Hún sagði að eftir tíu ár yrðu birkiplönturnar orðnar um einn metri á hæð, jafnvel hærri við rétt skilyrði. Það þýðir að ég yrði komin með vísi að skjólbelti fyrir norðanáttinni. Ég veit að plönturnar teljast þó ekki tré fyrr en þær hafa náð þriggja metra hæð og ekki skógur fyrr en þær hafa náð fimm metra hæð. Þangað til eru þær runni.
   Dagurinn fer allur í að koma nokkrum bökkum af birkihríslum niður.
   - Heimurinn er að farast, já, gott og vel, hafði systir mín sagt. Það er ekki ólíklegt. Og er þetta það sem þú ætlar að gera þangað til? Að gróðursetja birki?
   Þegar ég leit við hjá pabba til að sækja stígvél mömmu sagðist hann hafa rætt gróðursetningaráform mín nánar við Hlyn og hann hefði stungið upp á fleiri trjátegundum.
   - Hlynur sagði að þegar þú værir komin með skjólbelti gætir þú farið að prófa þig áfram með útlendar trjátegundir.
   - Nefndi hann einhverjar tegundir sérstaklega?
   - Já, hann nefndi Hlyn.
   - Og einhverjar fleiri?
   - Hann talaði líka um ask, beyki, álm og þin og taldi að ef lofthiti á jörðinni hækkaði um tvær gráður eins og spár gerðu ráð fyrir, þá gætu mögulega skapast skilyrði fyrir tré sem ættu erfitt með að festa rætur svona norðarlega.
   - Sagði hann hvaða tré?
   - Hann talaði um að í framtíðinni gæti eik jafnvel átt sér lífsvon og nefndi líka ávaxtatré. Helsta vandamálið sagði hann þó að yrði rokið. Hann sagði að tré með grunnar rætur ættu sér litlar lífslíkur.

(s. 63-64)

Fleira eftir sama höfund

Afleggjarinn

Lesa meira

Rosa candida

Lesa meira

Svartur hundur prestsins

Lesa meira

Undantekningin – de arte poetica

Lesa meira

Weiß ich, wann es Liebe ist

Lesa meira

Dýralíf

Lesa meira

Hotel Silence

Lesa meira

Ungfrú Ísland

Lesa meira