Beint í efni

Gunnar Helgason

Æviágrip

Gunnar Helgason er fæddur árið 1965 í Reykjavík. Hann er leikari að mennt, útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1991 og hefur síðan þá unnið sem leikari, leikstjóri og handritshöfundur fyrir kvikmyndir, svið og sjónvarp. Gunnar hafði umsjón með Stundinni okkar á Ríkissjónvarpinu árin 1994-6 ásamt Felix Bergssyni og í kjölfarið hafa þeir samið og sent frá sér heilmikið af tónlist fyrir börn og leiknu barnaefni í ýmsum miðlum. Þá hafði Gunnar umsjón með uppsetningum leikrita Latabæjar víðs vegar um heim árin 2008-10.

Gunnar gaf frá sér sína fyrstu barnabók, Goggi og Grjóni, árið 1992. Árið 1995 birtist framhald á ævintýrum þeirra félaga, Goggi og Grjóni: vel í sveit settir. Síðan hefur Gunnar sent frá sér fjölda barnabóka, þar á meðal sögurnar um fótboltastrákinn Jón Jónsson sem hefjast með Víti í Vestmannaeyjum (2011) og Stellubækurnar sem hefjast með Mamma klikk (2015). Gunnar fékk vorvindaviðurkenningu IBBY á Íslandi árið 2013 fyrir framlag sitt til barnamenningar og komst á heiðurslista IBBY International fyrir bókina Bannað að eyðileggja árið 2024. Hann hefur margsinnis hlotið eða verið tilnefndur til Bókaverðlauna barnanna. Þá hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta fyrir Mömmu klikk! árið 2015 og fyrir Bannað að drepa árið 2023, en hann hlaut einnig Storytel verðlaunin 2024 fyrir sömu bók.

Eftir bókinni Víti í vestmannaeyjum hefur bæði verið gerð kvikmynd og leiknir sjónvarpsþættir (2018). Árið 2019 var leikrit byggt á Mamma klikk! sett á svið í Gaflaraleikhúsinu og þar var einnig sett upp leikrit byggt á Drottningin sem kunni allt nema ...  árið 2023. Þjóðleikhúsið sýndi svo leikrit byggt á Draumaþjófurinn sama ár.