Beint í efni

Hálendið

Hálendið
Höfundur
Steinar Bragi
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Tvö pör úr Reykjavík fara í hálendisferð að hausti. Á söndunum norðan við Vatnajökul gerir svartaþoku og fyrir slysni keyra þau á hús í auðninni. Jeppinn þeirra er ónýtur og þrátt fyrir dræmar móttökur íbúanna fá þau að gista. Ekkert samband er við byggð ból, húsið er varið eins og virki og á kvöldin læsa íbúarnir tryggilega að sér. Úti heyrast dularfull hljóð og eldar kvikna, atburðir úr fortíðinni leita á gestina og smám saman verður erfiðara að átta sig á því hvar óvinurinn leynist.

Úr bókinni:

Þau keyrðu hægt yfir sandinn, eftir slóð sem var stundum sjáanleg og stundum ekki. Hrafn horfði beint fram fyrir bílinn en skaut augunum til hliðanna, út um opna gluggana, og hélt sig að mestu við annan gír, hvernig sem hökti eða hvein í vélinni. Tryggur lá ýlfrandi í fangi Önnu eins og hann vildi ekki vera í skrjóðnum.

„Fáránlegt ... allt saman. Og þetta hús,“ sagði Anna. „Eða að það skuli vera hérna yfirhöfuð. Nema þetta sé gamall sumarbúsatður. ÉG gisti einu sinni í steinhúsi, ekki ósvipuðu þessu, á hól úti í miðri mýri í borgarfirðinum. Langafi stráks sem ég var með var sýslumaður og lét byggja það sem sumarhús. Gömlu sumarhúsin voru ætluð yfirstéttinni en ekki skrílnum.“

„Þetta var að minnsta kosti alvöru hús. Byggt úr grjótinu úr hverjum hömrum hérna nálægt,“ sagði Hrafn og horfði afturí til þeirra með hjálp baksýnisspegilsins.

„Kannski hafði það hlutverk, einhvern tímann,“ sagði Anna. „Áður en það varð sumarbústaður.“

„Ertu að tala um holdsveikrahæli?“ sagði Egill hæðnislega úr framsætinu en þau leiddu hann hjá sér.

„Eins og Möðrudalur,“ skaut Vigdís inn í. „Voru það ekki einhvers konar vegamót?“

„Í Möðrudal er að minnsta kosti búskapur,“ sagði Hrafn. „Enda öðruvísi landslag þar, móar og tún, ekki eyðimörk.“

Eyðimörk?“ sagði Anna og setti upp svip eins og hún byggi sig undir að gerast litla hrædda konan. „Af hverju segirðu eyðimörk?“

„Auðvitað er þetta eyðimörk. Hvað ætti þetta að vera annað? Hálendið er gróðurlaus — eða svo gott sem — vindblásinn sandur. Það gæti enginn búskapur þrifist hérna, nema með aðkeyptu fóðri. Sem þýðir að þau eiga peninga.“

„Yfirstéttin í sumarbústað, var það ekki?“ sagði Egill. „Þetta er allt að smella saman. Þau gömlu fóru í sumarbústaðinn og ílengdust — í svona fimmtíu ár.“

„Mér finnst samt eins og annað orð myndi ná því betur,“ sagði Anna.

Auðn? Þætti þér það skemmtilegra?“ spurði Egill.

„Þriðjungur Íslands er skilgreindur sem eyðimörk,“ sagði Vigdís. „Maður þarf að venjast tilhugsuninni, en hvað ætti þetta að vera annað?“

„Af hverju finnst þessari þjóð alltaf eins og hún sé svona sérstök?“ sagði Egill ergilega, kannski af því hann þorði ekki ennþá að opna einn af bjórunum sem hann hafði fyllt bakpokann sinn með. „Allt er soldið meira öðruvísi en annars staðar. Líka eyðimerkurnar.“

„Ég var ekki að segja það,“ sagði Vigdís. „Þetta er eyðimörk, auðvitað. En það er margt sérstakt við þetta svæði. Sandarnir eru til dæmis flestir komnir innan úr jörðinni í eldgosum. Geimfararnir komu hingað til að æfa sig fyrir ferðina til tunglsins, en það voru líka gerðar rannsóknir á söndunum sem sýndu að enginn jarðvegur í veröldinni er jafn fínlegur og fýkur jafn auðveldlega — nema rykið á tunglinu.“

„Við erum sem sagt með eyðimerkur úr ryki,“ sagði Egill. „Og munurinn á eyðimörkunum úti og hér er sá að okkar eru fínni!“

(31-2)

Fleira eftir sama höfund

Áhyggjudúkkur

Lesa meira

Turninn

Lesa meira

Ljúgðu Gosi, ljúgðu

Lesa meira

Ljóð í Ljóð ungra skálda

Lesa meira

Kobiety

Lesa meira

Ljóð í Ny islandsk poesi

Lesa meira