Æviágrip
Hannes Pétursson fæddist á Sauðárkróki 14. desember 1931. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1952 og kandídatsprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1959. Hann stundaði einnig nám í germönskum fræðum við háskólana í Köln og Heidelberg 1952 til 1954. Hannes vann að útgáfustörfum hjá Bókaútgáfu Menningarsjóðs á árunum 1964-1976, var útgáfustjóri Smábóka Menningarsjóðs (1-25) á tímabilinu 1959-1969 og Alfræði Menningarsjóðs 1972-1976. Hann átti jafnframt sæti í ritstjórn Skagfirðingabókar, ársriti Sögufélags Skagfirðinga, á árunum 1966-1973.
Fyrsta bók Hannesar, Kvæðabók, birtist fyrst á prenti 1955. Hann hefur sent frá sér fjölda kvæða- og ljóðabóka síðan sem og smásagnasafn, fræðirit, greinar og ævisögur. Hann hefur einnig fengist við þýðingar, meðal annars þýddi hann Hamskiptin eftir Franz Kafka úr þýsku 1960. Hannes hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín á löngum ritferli. Hann var kjörinn heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands 1991 og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 1993 fyrir ljóðabókina Eldhylur. Árið 2018 var Hannes tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir ljóðabókina Haustaugu.
Hannes var gerður að heiðursdoktor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, 23. maí 2022.
Frá höfundi
Frá Hannesi Péturssyni
Ég hef aldrei lagt fyrir mig þá spurningu hvers vegna ég yrki og skrifi, ekki frekar en ég hef spurt af hverju hestar hneggi og hundar gelti, en ekki öfugt. Ég er bandingi raddar sem tók öll völd innra með mér áður en ég náði fermingaraldri.
Sú rödd var í senn hlý og ströng og fyllti mig ólýsanlegri þrá. En hún einskorðaði um leið viljakraft minn og metnað, eða ef til vill ætti ég að segja: einfaldaði hvort tveggja, því ritvöllur varð eftir þetta sá eini völlur sem stóð mér til boða, ef ég kaus á annað borð að verða einhvers nýtur, jafnvel maður með mönnum.
Þannig var ég sviptur öllu vali um meginstefnu í þessu lífi. Og ég harma síður en svo það hlutskipti.
Ég viðurkenni að ég hef aldrei áttað mig til fulls á ritvellinum, þótt ég hafi um áratugi hvergi getað annars staðar verið. Samt finnst mér endilega að þar séu einhvers staðar vítateigar, mörk og fleira slíkt.
Eitt veit ég þó með vissu: að eina tungan sem skiptir mig máli á þessum velli er íslenzka, þótt við og við heyrist önnur mál í gjallarhornum.
Verst þykir mér að ég verð því fáfróðari í íslenzku þeim mun meira sem ég legg mig fram um að læra hana og nota af boðlegu viti. Hún stækkar sífellt og stækkar inn á við í allar áttir.
Ýmsir virðast trúa því að íslenzka liggi hér aðeins í lofti yfir ritvellinum, eins og hver annar blástur yfir knattspyrnuvöllum landsins. En fyrir löngu tók mig að gruna allt annað, nefnilega að hún kynni að vera sjálfur ritvöllurinn.
En þetta þarf að rannsaka betur.
Hannes Pétursson, 2001.
Um höfund
Til landnáms hið innra — Um skáldskap Hannesar Péturssonar
nefnast þættir frá 1982. Á þessu síðastnefnda formi hefur Hannes einmitt mjög sterk tök, á sagnaþættinum. Ef til vill eru sagnaþættir íslenskasta grein prósatexta, ekki aðeins í umfjöllunarefni heldur einnig í formi, stíl og efnistökum. Sagnaþátturinn (eða heimildaþátturinn) hefur aldrei verið virt hámenningargrein heldur alþýðleg, í versta falli smáð og lítilsvirt, jafnt þótt margir merkilegir íslenskir höfundar hafi fengist við hana.
Rauðamyrkur kom fyrst út árið 1973 og má kallast erkitýpýsk fyrir bæði höfund og grein. Hún var nýlega endurútgefin. Rauðamyrkur er söguþáttur einsog þeir gerast bestir. Þátturinn skartar sögumanni sem heldur sig alla jafna til hlés og vinnur úr rituðum og munnlegum heimildum. Þetta er sögumaður sem marar undir niðri og rofar stundum í: „Drengur þessi var svo minnisgóður að nú, fjórum mánuðum síðar, sagðist hann hafa „vaknað tvisvar eða þrisvar um nóttina og þá hefði sér heyrzt Sveinn hrjóta í rúmi sínu“. Þess sér ekki stað, að sýslumaður spyrði vinnupilt, hví hann myndi svo glöggt þessa tilteknu nótt á umliðnu hausti, að hann gæti sagt til um hversu oft hann opnaði þá augun í svefnhúsinu.“ (48-9). Verkið fjallar um ránsmál, rannsókn þess og eftirmála. Árið 1871 var allmiklu lausagóssi rænt úr útiskemmu Hafliða nokkurs Jónssonar, vinnumanns á Reykjum í Hjaltadal í Skagafirði. Fljótlega féll grunur á Otta Sveinsson, vinnumann á næsta bæ. Komið er yfir hann höndum og hann yfirheyrður án þess að sönnur séu þó færðar á sekt hans. Síðan sleppur hann úr haldi og hverfur sporlaust. Rauðamyrkur fjallar um illverk, sem er „sú hreyfing handarinnar sem aldrei sér botn í“ einsog segir í eftirmála upprunalegu útgáfunnar.
Það er ekki beinlínis gátan sjálf sem gerir Rauðamyrkur að ánægjulegum lestri. Hún virkar öllu heldur líkt og frásagnarleg gulrót. Aldarháttur og mannlýsingar, tungutak og hárfín írónía eru raunverulegur styrkur verksins. Við sögu koma persónur á borð við maddömu Þóru Gunnarsdóttur sem Jónas orti um í Ferðalokum; hér er hún á öðru æviskeiði og yfir henni ólíkur andblær: „Í kvæðinu ljómar skraut í kringum hana, blóm og geislar, líkt og vafið í sveiga, en nú var allt skrautlaust [...]“ (86). Lýsing hennar er látin kallast á við kvæðið og „Harla frábrugðin var hún fjallaferðinni eilífgullnu.“ Fall Hóla í Hjaltadal er önnur sterk svipmynd þar sem írónían fína nær einna hæst. Kaflinn „Á túni fornra virkja“ er í raun fjölskyldusaga sem hefur eigið ris og hnig innan verksins. Þótt kaflinn tengist meginefni Rauðamyrkurs og gefi því dýpri botn gæti hann fullt eins staðið stakur. En semsagt, það má tvímælalaust mæla með Rauðamyrkri fyrir alla aðdáendur sagnaþátta. Og fyrir þá sem ekki hafa enn fallið fyrir þjóðlegum fróðleik er bókin tilvalin að byrja á.
Hannes er í ljóðum sínum aldrei langt frá þjóðlegri hefð. Hann leitar sátta milli þjóðlegrar hefðar og módernískra nýjunga, bæði í bragarháttum, yrkisefnum og efnistökum; hann notast gjarnan við ljóðstafi, vinnur úr hefðinni án þess að sleppa takinu á módernismanum, eða öfugt. Í ljóðunum má finna mikið af vísunum í íslenska þjóðtrú, þjóðkvæði, þjóðsögur og norræna goðafræði en einnig sterkan evrópskan undirtón. Hannes hefur annan fótinn í íslenskri hefð og hinn í nútíma þar sem menn setja „ framtíð , þetta orð/ í ósýnilegar gæsalappir“, einsog hann hefur ort.
Fyrsta ljóðabók Hannesar kom út 1955. Á þessum tímapunkti er formbylting fyrstu módernista í íslenskri ljóðagerð, atómskáldanna, svo að segja um garð gengin. Ákveðin biðstaða hefur myndast. Ekki verður snúið aftur til fyrri hátta en á hinn bóginn hefur skapast bil milli ljóðskálda og lesenda; óvissa ríkir, söknuður eftir tíma órofa hefðar þar sem ljóð áttu samleið með alþýðu manna. Hefðin er í uppnámi, nýjungarnar ná ekki að brjótast í gegnum múrinn.
Einsog Njörður P. Njarðvík greinir frá í „Ferðinni heim“, inngangi sínum að Ljóðasafni Hannesar sem út kom fyrir nokkrum árum, voru miklar vonir bundnar við fyrstu ljóðabók Hannesar. Stafaði það ekki síst af sjö ljóðum sem höfðu birst í safnritinu Ljóð ungra skálda 1944-54 . Í formála þeirrar bókar segir Magnús Ásgeirsson að framtíð þjóðlegrar ljóðlistar sé undir því komin að „takist að sætta hina nýju stefnu við íslenzka hefð.“ Snorri Hjartarson hafði þegar markað spor í þessa átt. Hannes Pétursson er, sagði Magnús, „þegar framarlega í röð fullveðja skálda“. Kvæðabók hlaut mjög góðar viðtökur og sölu, sem var (og er) fátítt um fyrstu bækur svo ungra skálda, og benti raunar fátt til þess að um frumraun væri að ræða. Hér er ekki verið að leita tóns, hann er þegar fundinn og mótaður. Þekktasta ljóðið úr þessari bók, „Bláir eru dalir þínir“, gefur allskýra mynd af verkinu.
Bláir eru dalir þínir
byggð mín í norðrinu
heiður er þinn vorhiminn
hljóðar eru nætur þínar
létt falla öldurnar
að innskerjum
— hvít eru tröf þeirra.Þöglar eru heiðar þínar
byggð mín í norðrinu.
Huldur býr í fossgljúfri
saumar sólargull
í silfurfestar vatnsdropanna.Sæl verður gleymskan
undir grasi þínu
byggð mín í norðrinu
því sælt er að gleyma
í fangi þess
maður elskar.Ó bláir eru dalir þínir
byggð mín í norðrinu.
Önnur bók, Í sumardölum frá 1959, olli nokkrum vonbrigðum á sínum tíma, ef til vill vegna ljóða sem þóttu full pólitísk; þó hefur Hannes aldrei verið pólitískt skáld nema í þeim skilningi að taka alltaf gagnrýna afstöðu. Tveimur samfélagslegum ljóðum var hér stillt upp hlið við hlið, „Kreml, 1956“ og „Líkbrennsluofninn í Dachau, 1956“. Hannes endurtók þann leik síðar í Innlöndum þar sem tvö gagnrýnin ljóð standa hlið við hlið: annað um Bandaríkin, hitt um vinstri sannleika. Þrátt fyrir birtuna í bókarheitinu Í sumardölum sem og í mörgum ljóðanna eru uggvænleg teikn á lofti, einsog sést á ljóðinu „Geimflaugar“: við sjáum þunga ádrepunnar í fyrri hluta fyrsta erindis en jafnframt ljóðræna birtuna í seinni hlutanum. Næstu tvö erindin eru einsog endurtekning og ígrundun á tvöfaldri sýn þess fyrsta.
Þær eru geltandi hundar
sem geysast í veg fyrir tunglið:
fölgyllta sylgju næturinnar
fornvin þeirra sem elska.
Þær eru krepptur hnefi
kynslóðar minnar
sem hún slöngvar út í tómið
í togstreitu sinni við guð.Þær eru floti Kólumbusar
á fagurbúinni siglingu
burt frá jörð
út til blikandi stjarnanna.
Það sem tíðindum sætti í annarri bók Hannesar var ekki síst „Söngvar til jarðarinnar“, magnaður ljóðabálkur í bókarlok. Yrkisefnið er dauðinn, nútími, mannkyn; upphafslínur nokkurra ljóða lýsa stemmningu bálksins: „Maðurinn kjúkuberi sem eltir mig orðalaust“ (VII) „Undarleg ó-sköp að deyja“ (VII), „Handan við lífið bíður ekkert, ekkert“ (X). Skáldskapur Hannesar var farinn að stefna í nýjar áttir.
Stund og staðir, þriðja ljóðabók Hannesar, sem kom út 1962, hefst með þekktum ljóðabálki sem nefnist „Raddir á daghvörfum“, undirtitill „Tilbrigði við tíu þjóðsögur“. Stund og staðir markar stefnubreytingu. Yrkisefnin eru önnur. Evrópskar stemmningar eru sterkari en áður, einsog sést vel af kaflanum „Staðir“ sem í eru ljóð sem eru ort á ferðalögum. „Við gröf Rilkes“ nefnist eitt ljóð og felur í sér vísbendingu um áhrif þýska skáldsins Reiner Marie Rilke á skáldskap Hannesar: „Þú/ sem gerðir mér steinana/ byggilega.“ Yrkisefni fyrsta hluta ljóðabálksins „Stund einskis, stund alls“ er algengt: ljóðið sjálft, lágmælt andspænis hávaðasömum heimi, vanmáttur orðanna, söknuður
Hvers mega sín orð ljóðsins?
Stálið hefur vængjazt
og flýgur
langt út fyrir heimkynni arnarins.
Hvers mega sín orð þess?Brostið net ljóðsins?
Gert af kattarins dyn
bjargs rótum.Ó dagar
þegar heimurinn var fiskur
í vörpu ljóðsins.
Síðan koma Innlönd . Margir töldu þar komna bestu bók Hannesar, heilsteypta og markvissa ; Innlönd er ein af þeim bókum Hannesar sem nær hvað sterkustum tökum á lesendum sínum og er orðin viðmið, bókmenntalegt kennileiti. Ljóðin sameina margt af því besta úr fyrri bókum; þó er viss áherslubreyting á ferðinni: titillinn vísar ekki eingöngu til íslenskra innsveita sem mynda heim verksins heldur og til innlanda í yfirfærðri merkingu. Innlönd er innhverf bók, myndar eigin heim; „sjá, það er hér!“ er ort; þetta er nálægari bók en þær fyrri; þemun eru ekki ókunnug en leitin knýjandi sem aldrei fyrr; hér er hugað að „þeim dyrum augans sem inn á við snúa“. „Farvegir“ er gott dæmi um samruna manns, náttúru og minnis sem setur svip sinn á verkið.
Utan þessa dags
bak við árin og fjallvegina
streyma fram lindir mínar.Ef ég legg aftur augun
ef ég hlusta, ef ég bíð
heyri ég þær koma
eftir leyningunum grænu
langt innan úr tímanumhingað, hingað úr fjarska.
Þær hljóma við eyru mér
þær renna gegnum lófa mína
ef ég legg aftur augun.
Rímblöð heitir næsta verk og stendur við nafnið, þótt vart hefði mátt búast við því eftir Innlönd. Ferhend smákvæði er undirtitillinn. Hér eru svipmyndir og smámyndir, vangaveltur og íhuganir, snjallar og frumlegar myndir í fastbundnu formi, svo sem í ljóðinu „áramót“, þar sem flugeldunum er líkt við skartgripabúðir sem skotið er upp í loft. Skáldið leyfir sér ýmislegt sem ekki hafði sést áður í skáldskap þess, sumar vísurnar eru hrein og klár gamanmál, einsog til dæmis „Draugur“:
Með höfuð sitt í handarkrikanum öðrum
og hægra eyrað í brjóstvasanum (sem klút)
í jakkahorninu annað augað (sem merki)
opnar hann forstofudyrnar og gengur út.Heldur svo að heiman frá sér í bankann.
Þar heilsar hann vissum mönnum og fær sér smók
leggur því næst inn hausinn á hlaupareikning
hælbeinin, aftur á móti, á sparisjóðsbók.
Rímblöð er góð opnun: það er hægt að hefja lestur ljóða Hannesar á þeirri bók. „Óður um Ísland“, ljóðabálkur frá afmælisári Íslandsbyggðar, 1974, sýnir í hnotskurn eitt helsta höfundareinkenni Hannesar: tveggja átta sýn. Hér birtist annarsvegar hrafn Flóka á flugi „yfir sögulausan stað“ og ljóðmælandi (vér) í flugvél hinsvegar. Stefnt er „til landnáms hið innra“.
Hvert horfir fjallaskáldið á einhverri þekktustu ljósmynd Íslandssögunnar? Þannig er spurt í upphafsljóði Ýmissa kvæða, syrpu stakra ljóða sem áður hefur verið prentuð í kvæðasafni. Nokkur ljóð í þessu safni fela í sér vísi að næstu bók, Heimkynnum við sjó . Heimkynni við sjó er eitt af helstu verkum Hannesar og kallast að sumu leyti á við Innlönd , þótt bækurnar tvær séu ólíkar. Ljóðin eru númeruð, frá 1 til 60 og þau mynda sterka heild; fjaran er vettvangur verksins, myndar umgjörð þess og táknheim. Gönguferðir um fjöruna, heilsað uppá seli, horfst í augu við tjaldinn. Númer 40 gefur vísbendingu um andblæinn:
Kjalrák í grjóti.
Kvika. Már yfir djúpi.
Þönglar og söl.
Svalvindur utan af Flóa.Í mýrum fyrir ofan
sjást moldargarðar við skurði.
Á túnum fyrir ofan
er taðan sólþurr í flekkjum.Sjávarströnd!
Stundirnar líða
bláar eins og hafið
brúnar og grænar eins og sveitin.Þessar fjörur sem ég geng
eru Furðustrandirnar mínar.
Fjöruþemað er þó víða brotið upp, tvö ljóð af samfélagslegum toga, andstæður og hliðstæður við aðra staði, borgir, „Dag og Veg“, orð ljóðsins troðast undir „í stórkarlalegu þusi“. Og í 41 hefur ljóðmælandi búið sér dvöl „úrleiðis/ í Eintalsins vopnlausa turni“ sem er fyrirlitinn „af talsmönnum Athafna“. „Eitt skáld“ í ljóði 55 er „vaxið frá því að tala./ Það stuðlar lit við lit/og ljós við myrkur“. „Myndir þess kurla/ móskaðan glerhimin vanans“. Yfir þeim himni er, trúi ég, annar og skírari. Heimkynni við sjó markar nýja stefnu, nýja leit; formið er frjálslegra en áður, tónninn nýr, yrkisefnin, eða öllu heldur efnistökin, önnur.
Næst komu 36 ljóð sem eru mjög eðlilegt framhald Heimkynna við sjó. Minningamyndir kallar Njörður P. Njarðvík þessi ljóð, „þátíðarlausar stundir/og þó liðnar hjá“ segir í einkunnarorðum bókarinnar. „Þegar ungur ég var“ er dæmigert ljóð fyrir hana:
Vegarslóði forn
út vallþurran bakka.Við ríðum í hnapp.
Hófatakið glumrar.Sunnanblær, júlí
og syngjandi menn!Faxið á hesti mínum
er fagurhvítt og þykkt.
Höfuð mitt sem liggur þar
er lítið egg!
lítið egg í hreiðri
hlýju og mikluí föðurlegu hreiðri
sem færist úr stað, er þó kyrrt.
Eldhylur kom út 1993 og fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin. Þar kveður enn við nýjan tón; sá tónn er á köflum mystískur, trúarlegur. Þrjú lengstu ljóðin hafa einskonar inngang, prósatexta sem opnar ljóðin eða kynnir til sögunnar ljóðmælanda sem svo mælir ljóðin fram. „Klukkukvæði“ er rammað inn af þannig textum en ljóðmælandi í kvæðinu er klukka sem eldklerkurinn Jón Steingrímsson greinir frá í sjálfsævisögu sinni.
Einnig er hér að finna ádrepur til samtímans af áður óþekktum þunga og krafti: síðustu hrafnar landsins sitja „heyrnarlausir á öxlum/ herklæddra manna/fituþungir/— fóðraðir á þrastareggjum“; þannig mælist „náttúruskoðaranum“ sem stígur útúr styttu af sjálfum sér í ljóðinu „Vorgestur“. Náttúruskoðarinn er Jónas, spáfuglarnir fituþungu hvísla engum tíðindum í eyru þeirra herklæddu. Hræringar samtímans eru dregnar örfáum og sterkum dráttum í „Á hafströndu“, þar sem „hlymja ísabrot Sögunnar“; mannkynssagan er að leysast úr læðingi. Næsta ljóð nefnist „Stígur í snjó“ og er ef til vill hægt að lesa í samhengi við hið fyrra. Fjallshlíðin sem ljóðmælandi biður um að fetuð sé af gát er kannski önnur en virðist við fyrstu sýn:
Enn að nýju
er allt stórfennið varasamt.Við fjallseggjar bíða
bláhvítar hengjur átekta
— brimfaldar af snjó
bundnir torskildum fyrirmælum.Í hlíðarfæti standa
hús góðra vina.Öskrum ekki!
Enginn sér fyrir hvað gerðist
við högg hljóðbylgjunnar.Fetum af gát
þessa fjallshlíð sem er okkur kær.Öskrum ekki!
Þróun skáldskapar Hannesar Péturssonar einkennist ekki síst, einsog hér hefur komið fram, af rofum, sífelldri endurnýjun og leit. Við næstum hverja bók er hafin ný leit „til landnáms hið innra“. Lokaljóð Eldhyls er dulmagnað kvæði, „Talað við Einhyrning“ en einhyrningur er alþekkt Kriststákn. „Þig missti ég“ eru síðustu orð skáldsins sem einhyrningurinn hefur birst, „og þín er ég að leita, sífellt...“
© Hermann Stefánsson, 2002
Greinar
Almenn umfjöllun
Baldur Ragnarsson: „Að dvelja úti: nokkrir punktar um skáldskap Hannesar Péturssonar.“
Tímarit Máls og menningar, 24. árg. 2. tbl., 1963, s. 188 – 191.
Eiríkur Hreinn Finnbogason: „Rætt við Hannes Pétursson.“
Almenna bókafélagið, félagsbréf 1960 (16), s. 12 – 17.
Eiríkur Guðmundsson: „Hrynjandi stundar og staðar: hugað að söguljóðum og skáldskap Hannesar Péturssonar.“
Mímir, 32.-33. árg. 1993-94, s. 78 – 89.
Jóhann Hjálmarsson: „Inn í hjörtu mannanna: Hannes Pétursson.“
Íslensk nútímaljóðlist. Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1971, s. 191 – 209.
Pétur Blöndal: „Þakskeggi steinþagði á stól sínum“
Sköpunarsögur. Mál og menning, 2007, s. 220-243
Vésteinn Lúðvíksson: „Hamar með nýjum munni.“
Tímarit Máls og menningar, 42. árg., 1. tbl. 1981, s. 41 – 58.
Þórður Helgason: „Þegar rímið rætist ekki“
Són, 13. árg., 2015, s. 143-149
Um einstök verk
Eldhylur
Guðbjörn Sigurmundsson: „Listaskáld, logandi vatn og einhyrningur.“
Tímarit Máls og menningar, 55. árg. 3. tbl., 1994, s. 112 – 115.
Eyjarnar átján
Björn Þorsteinsson: „Eyjarnar átján, dagbók úr Færeyjarferð 1965.“
Saga, 6. árg. 1968, s. 149 – 150.
Fyrir kvölddyrum
Böðvar Guðmundsson: „Aldasöngur.“
Tímarit Máls og menningar, 68. árg., 2.tbl. 2007, s. 120 – 122.
Ingi Björn Guðnaon: „Fyrir kvölddyrum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Heimkynni við sjó
Inge Knutsson: „Recensioner och anmälningar.“
Gardar, årsbok 12, 1981, s. 87 – 88.
Páll Valsson: „Myglu sjónarinnar feykt burt“.
Tímarit Máls og menningar, 46. árg., 1. tbl. 1985, s. 124 – 129
Vésteinn Ólason: „Fjarlægð nálægðar.“
Tímarit Máls og menningar, 42. árg., 1.tbl. 1981, s. 109 – 111.
Innlönd
Hjörtur Pálsson: „Innlönd“
Tímarit Máls og menningar 30. árg., 1. tbl. 1969, s. 82 – 86.
Ólafur Jónsson: „Engu þarf að kvíða: 1: Innlönd“
Líka líf: greinar um samtímabókmenntir. Reykjavík: Iðunn, 1979, s. 124 – 129.
Sverrir Hólmarsson: „Innlönd.“
Skírnir, 143. árg. 1969, s. 255 – 258.
Í sumardölum
Gunnar Sveinsson: „Í sumardölum.“
Skírnir, 134. árg. 1960, s. 232 – 233.
Njörður P. Njarðvík: „Í sumardölum.“
Almenna bókafélagið: Félagsbréf 1960 (15), s. 73 – 77.
Þórarinn Guðnason: „Í sumardölum.“
Tímarit Máls og menningar, 21. árg., 1. tbl. 1960, s. 63 – 65.
Krystallar
Þóroddur Guðmundsson: „Tvær ljóðabækur á norsku.“
Tímarit Máls og menningar, 27. árg., 2. tbl. 1966, s. 223 – 224.
Kvæðabók
Bjarni Benediktsson: „Kvæðabók.“
Bókmenntagreinar. Heimskringla, Reykjavík,1971, s. 268 – 271.
Helgi Sæmundsson: „Kvæðabók.“
Eimreiðin 62. árg. 1956, s. 75 – 76.
Kristján Karlsson: „Kvæðabók.“
Nýtt Helgafell 4. árg., 3.-4. tbl. 1959, s. 216 – 221.
Stefán Hörður Grímsson: „Kvæðabók.“
Birtingur 1. árg., 4. tbl. 1955, s. 42 – 43.
Þórarinn Guðnason: „Kvæðabók.“
Tímarit Máls og menningar, 17. árg., 1. tbl. 1956, s. 86 – 88.
Þóroddur Guðmundsson: „Kvæðabók.“
Skírnir, 130. árg. 1956, s. 274 – 276.
Kvæðafylgsni: Um skáldskap eftir Jónas Hallgrímsson
Ástráður Eysteinsson: „Hannes Pétursson: Um skáldskap eftir Jónas Hallgrímsson.“
Skírnir, 155. árg. 1981, s. 217 – 222.
Shaun Francis Douglas Hughes: „Pétursson, Hannes. Kvæðafylgsni.“
Scandinavian studies, 52. árg., 3. tbl. 1980, s. 320 – 321.
Vésteinn Ólason: „Í fótspor Jónasar.“
Tímarit Máls og menningar, 41. árg., 3.-4. tbl. 1980, s. 417 – 421.
Óður um Ísland
Þorvaldur Kristinsson: „Þrjú kvæði á þjóðhátíðarári: óður um Ísland eftir Hannes Pétursson.“
Mímir, 15. árg., 1. tbl. 1976, s. 5 – 15.
Rímblöð
Helga Kress: „Rímblöð: ferhend smákvæði.“
Skírnir 146. árg. 1972, s. 228 – 233.
Ólafur Jónsson: „Engu þarf að kvíða: 2: Rímblöð.“
Líka líf: greinar um samtímabókmenntir. Iðunn, Reykjavík, 1979, s. 129 – 133.
Steingrímur Thorsteinsson: líf hans og list
Einar Olgeirsson: „Hannes Pétursson: Steingrímur Thorsteinsson: líf hans og list.“
Réttur, 48. árg., 1. tbl. 1965, s. 57 – 59.
ThorsteinssonSteingrímur J. Þorsteinsson: „Hannes Pétursson: Steingrímur Thorsteinsson: líf hans og list.“
Scandinavica, vol 5, n. 1, maí 1966, s. 68 – 69.
Þórarinn Guðnason: „Steingrímur Thorsteinsson.“
Tímarit Máls og menningar, 26. árg., 1. tbl. 1965, s. 89 – 90.
Stund og staðir
Bjarni Benediktsson: „Stund og staðir.“
Bókmenntagreinar. Heimskringla, Reykjavík, 1971, s. 271 – 273.
Gunnar Stefánsson: „Hrynjandi stundar og staða.“
Mímir 6. árg., 1. tbl. 1967, s. 29 – 35.
Ólafur Jónsson: „Stund og staðir.“
Almenna bókafélagið: Félagsbréf 1963 (31), s. 13 – 20.
Ragnar Jóhannesson: „Stund og staðir.“
Eimreiðin 69. árg. 1963, s. 180 – 183.
Þóroddur Guðmundsson: „Stund og staðir.“
Skírnir 137. árg. 1963, s. 216 217.
Sögur að norðan
Elías Mar: „Sögur að norðan.“
Tímarit Máls og menningar, 23. árg., 3. tbl. 1962, s. 271 – 272.
36 ljóð
Páll Valsson: „Myglu sjónarinnar feykt burt.“
Tímarit Máls og menningar, 46. árg., 1. tbl. 1985, s. 124 – 129.
Verðlaun
2012 - Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
1993 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Eldhylur
1991 - Heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands
1990 - Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu
1983 - Heiðurslaun listamanna
1975 - Henrik-Steffens verðlaunin
1973 - Silfurhesturinn
1964 - Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1961 - Bókmenntaverðlaun Gunnars Gunnarssonar
1959 - Bókmenntaverðlaun Almenna bókafélagsins
Tilnefningar
2018 - Íslensku bókmenntaverðlauninn: Haustaugu
2006 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Fyrir kvölddyrum
1985 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: 36 ljóð
1982 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Heimkynni við sjó
1970 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Innland
1964 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Stund og staðir
Um skáldskap eftir Jónas Hallgrímsson
Lesa meiraGreinar, nýjar og eldri, um Jónas og athyglisverða staði í kvæðum hans.Byggð mín í norðrinu
Lesa meiraÍ þessari bók er að finna mörg af ástsælustu ljóðum Hannesar Péturssonar sem sjálfur hefur sett saman þetta úrval. Ljóðin eru ættuð úr Skagafirði, æskuslóðum hans, „ýmist rótföst eða teygja þangað sprota eða rótaranga“, segir umsjónarmaður útgáfunnar, Sölvi Sveinsson, í eftirmála en hann ritar jafnframt um einstök ljóð og kveikjur þeirra.Haustaugu
Lesa meiraJarðlag í tímanum
Lesa meiraPoesia 223 : 20 anni 500 poesie sulla poesia
Lesa meiraSkemmtiskokk: úr Og dagar líða
Lesa meiraFyrir kvölddyrum
Lesa meiraLjóð í ICE-FLOE, International Poetry of the Far North
Lesa meiraLjóð í 25 poètes islandais d'aujourd'hui
Lesa meira
Lauf súlnanna : fáein ljóð
Lesa meiraBréf til birtunnar
Lesa meiraMánaturninn : ljóð
Lesa meiraKlakahöllin
Lesa meiraHamskiptin
Lesa meiraSögur af himnaföður
Lesa meira