Beint í efni

Hilmar Örn Óskarsson

Æviágrip

Hilmar Örn Óskarsson er fæddur 14. júní 1975 í Reykjavík. Hann ólst upp í Breiðholti, fyrst í Bökkunum en síðan Seljahverfi. Grunnskólanámi lauk hann í Breiðholtsskóla og stúdentsprófi í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. B.A. gráðu í almennri bókmenntafræði lauk hann við HÍ árið 2008 - námi sem hann hóf 1997 og er hann því holdi klædd sönnun þess að sumir eiga ekki að taka „smá frí“ að lokinni allri námskeiðavinnu og fyrir skil á lokaverkefni.

Hilmar hefur starfað ýmislegt um ævina og má þar nefna færibandavinnu í gosverksmiðju, eldsneytisafgreiðslu, leikskólastörf, öryggisvörslu, ýmis störf á pósthúsi og Taekwondo þjálfun.

Auk barna- og unglingabóka hefur Hilmar gefið út smásögur og lent í öðru og þriðja sæti í Gaddakylfunni - glæpasagnasamkeppni. Hann hefur fengist við þýðingar og stýrt ritsmiðjum og er á heiðurslista hinna alþjóðlegu IBBY samtaka vegna þýðingar á The Tapper Twins Go to War / Tvíburar takast á (stríðið er hafið!).

Um þessar mundir starfar hann við bókhald og annað tilfallandi hjá MS Ármann skipamiðlun ásamt ritstörfunum auk þess sem hann sinnir Taekwondo þjálfuninni eftir megni.