Æviágrip
Jóna Valborg er fædd 1973 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands og B.A. gráðu í íslensku, M.Paed. gráðu í íslensku og kennslufræði og MS gráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands. Hún er með kennsluréttindi og diplóma í verkefnastjórnun. Á unglingsárum lék Jóna Valborg með hinum ýmsu áhugaleikfélögum. Hún dvaldi um hálfs árs skeið sem Erasmus-skiptinemi við dramatúrgíu-deild háskólans í Árósum.
Jóna Valborg hefur starfað við markaðs- og kynningarmál, verkefna- og viðburðastjórnun, ritstjórn, almannatengsl, mannauðsmál og sýningarstjórnun. Um tíma kenndi hún framhaldsskólanemendum íslensku, lífsleikni og leiklist. Á árunum 2004 til 2006 sat hún í ritnefnd tímaritsins Börn og menning.
Ritstörf hafa fylgt Jónu Valborgu svo lengi sem hún man eftir sér en árið 2013 kom hennar fyrsta bók út. Brosbókin hlaut Vorvindaviðurkenningu IBBY og tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Bækurnar vinnur hún með Elsu Nielsen, grafískum hönnuði og myndskreyti.
Vorið 2019 dvaldi Jóna Valborg um þriggja vikna skeið við skriftir í Åmål í boði AIR Litteratür Västra Götaland. Hún er félagsmaður í SÍUNG og Rithöfundasambandi Íslands og hefur á þeirra vegum tekið þátt í bókmenntaverkefninu Skáld í skólum.
Frá höfundi
Á ferðalagi með fjölskyldunni kviknaði hugmyndin að fyrstu bókinni. Yngri sonur minn sem þá var fjögurra ára sat í bílstólnum sínum og það leyndi sér ekki að hann var í fýlu. Mig langaði að hressa hann við svo ég sagði: „Hvar er brosið þitt? Datt það á gólfið, er það ofan í sokknum þínum, flaug það kannski út um gluggann?“ Hugmyndin um bros sem hleypur á brott kviknaði. Brosbókin kom út árið 2013. Hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut Vorvindaviðurkenningu IBBY. Það var draumi líkast fyrir mig að fá slíka viðurkenningu. Ég hélt áfram að skrifa. Það komu fleiri bækur. Allar myndskreyttar. Hugmyndin kemur fyrst, síðan textinn og með honum myndir í huganum. Myndirna vísa jafnvel út fyrir textann. Ýta undir ímyndunaraflið. Nornir verða hjálpsamar, prinsessur geðvondar, bros fær hendur og fætur, mömmur fara í krummafót. Það er allt hægt. Það verður til samtal. Hvað gerir þú þegar þú týnir brosinu þínu? Hefur þú talið spagettí? Hvað eru hárin á höfðinu mörg? Hvað gerir þú þegar þig vantar knús? Það er gott að spjalla yfir góðri bók. Tjá sig. Hlæja og velta vöngum. Ferðast saman í huganum. Saman umframallt saman. Það besta er svo að heyra sagt hátt og snjallt þegar bóklestrinum lýkur: „Aftur!“
Það er nefnilega ekki hægt að fá nóg af góðum bókum.
Greinar
Um einstök verk
Knúsbókin
María Bjarkadóttir: "Dans, knús og gæludýr. Þrjár myndabækur fyrir yngstu börnin"
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
Tilnefningar
2013 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Brosbókin
2013 - Vorvindaviðurkenning IBBY
Systkinabókin
Lesa meiraKormákur leikur sér
Lesa meiraKormákur dýravinur
Lesa meiraKormákur krummafótur
Lesa meiraEinn, tveir og Kormákur
Lesa meiraHetjubókin
Lesa meiraVinabókin
Lesa meiraKnúsbókin
Lesa meira