Af bókarkápu:
Sterkur þráður bindur saman ljóðin í Blindhæðum. Við fylgjum skáldinu um slóðir bernskunnar í borg og sveit. Ótal atvik á leið barns til þroska varða veginn uns dyr opnast að unglingshausti – og þá er ekkert lengur eins og það var. Í gegnum skýrar og meitlaðar ljóðmyndir byggist upp saga, úr borg bernskunnar rís ný borg sem verður stöðugt á vegi okkar, uppspretta minninga og innblástur þessara ljóða.
Úr bókinni:
Um síðir
Í hægferð margra vordaga leggur salt fjöruloft
inn um gáttina
jafnan með þægilegri þaralykt
höfugur bjarkarilmur ræður votviðrum
minnir á hamingju dýra og manna
á stundum nálgast taktfast fótatak
og hverfur
raddir án orðaskila einn daginn
þytur reiðhjóla annan
urr bíla kvölds og morgna
fuglatíst færist smám saman í aukana
fær þig til að blístra
jafnvel syngja
sumarlangt verða útihljóðin að hljómkviðu
án stjórnanda
um síðir megnar tónlistin
að opna dyr að unglingshausti
úti verður þú varfærinn gestur