Wislawa Szymborska: Útópía
Úr Útópíu:
Draugadýr (Tarsius)
Ég, draugadýrið, sonur draugadýrs,
sonarsonur draugadýrs og sonarsonarsonur,
er smá, smá skepna aðallega tveir augasteinar
og svo bara það nauðsynlegasta,
forðað frá frekari þróun líkt og fyrir kraftaverk,
því ekki er ég neitt sælgæti,
í loðkraga eru þau til stærri,
kirtlar mínir færa engum hamingju,
tónleika halda menn án minna þarma,
ég, draugadýr,
sit lifandi á fingri manns.
Góðan daginn, minn herra,
hvað fæ ég fyrir það
að þú þarfnast einskis frá mér?
Hvað fæ ég í laun fyrir veglyndi þitt?
Hvað fæ ég, hinn ómetanlegi, borgað
fyrir að sitja uppstilltur fyrir brosi þínu?
Minn herra er góður -
minn herra er náðugur -
Hver gæti vottað það ef þau dæju út
dýrin sem ekki eru drápsins verð?
Þér sjálfur kannski?
En það sem þér þegar vitið um sjálfan yður
nægir í andvökunótt stjarnfirðarlanga.
Aðeins við þeir fáu sem ekki voru fláðir,
sem ekki voru úrbeinaðir og ekki plokkaðir,
sem höfum mátt halda broddum, tönnum, hreistri og hornum
eða hvað fleira sem hægt er að hafa
af hugvitssömum eggjahvítuefnum,
við erum, voldugi herra, þinn draumur,
sem sýknar þig dálitla stund.
Ég, draugadýr, faðir og afi draugadýrs,
smá, smá skepna, næstum helmingur,
en samt ein heild, ekki síður en aðrir,
svo léttur að allar greinar rísa á ný undir mér
og hefðu getað sent mig til himnaríkis fyrir löngu,
hefði ég ekki margsinnis hlotið
að falla eins og steinn frá
mjög svo snortnum hjörtum,
Ég draugadýr,
veit hversu þarflegt það er að vera draugadýr.