Um bókina
Þetta er sviðið: Austfirsk fjöll og Keflavík sem kölluð hefur verið svartasti staður landsins.
Hér er sögð saga ættar allt frá byrjun tuttugustu aldar og fram til okkar daga. Sagan teygir sig frá Norðfirði til Keflavíkur, hún nær yfir allt landið, yfir fjöllin sem eru fornar rósir og færðar guðum og hraunið sem lítur stundum út eins og blótsyrði djöfulsins.
Þetta er saga fólks sem elskar og þjáist, sem leitar og flýt, saga um sársauka og söknuð, ofbeldi og kvótalaust haf. Saga um Kanaskip, Bítlana og Pink Floyd, um bjarta og dimma daga á Norðfirði þar sem kona breytist í lifandi múmíu.
Úr bókinni
Faðmlag hlýtur að vera fallegasta orð tungumálsins. Að nota báða handleggi til að snertast, mynda hring utan um aðra manneskju, sameinast henni, um stund, tvær manneskjur sem verða eitt í straumröstum lífsins, undir opnum og kannski guðlausum himni. Við þurfum öll, einhverntíma í lífinu, á faðmlagi að halda, stundum sárlega, faðmlagi sem getur verið huggun, leysandi grátur, eða skjól þegar eitthvað hefur slitnað í sundur. Við þráum faðmlag einfaldlega vegna þess að við erum manneskjur og hjartað er viðkvæmur vöðvi.
Auðvitað langaði mig til að taka á móti Ara, faðma hann, breyta mér í fallegasta orð tunguálsins og faðma þennan sálufélaga minn, tvíburasál, faðma depurð hans og söknuð en eitthvað hamlaði. Ég stend ennþá yfir tómlegri höfninni, minnisvarða um betri tíma, opið sár í síðu bæjarins. Tvær tíu hæða blokkir rísa austanmegin við höfnina, uppi á háum bakkanum, gnæfa yfirumhverfi sínu, rísa upp í þrálátan vindinn, reistar fyrir eldri sjómenn, tila ð milda ævikvöldið, að þeir, og konur þeirra, geti setið í munaði stofunnar, horft yfir úthafið og iðandi höfnina og þannig á sama andartakinu drukkið í sig líf og minningar. Falleg hugsun, næstum skáldleg, en húsin tvö, turnarnir tveir, ekki fyrr tilbúnir, gömlu sjómennirnir búnir að koma sér fyrir við stofugluggann, með Thermos-kaffibrúsann fullan af rjúkandi kaffi, kar hraukað sykurmolum við hlið bollans, húðin sprungin af salti og minningum, er kvótinn var endanlega seldur út byggðarlaginu, skipin fóru annað og höfnin tæmdist. Ég lít á klukkuna í símanum, við Ari eigum það sameiginlegt, eins og margt annað, að nota aldrei úr, óþægilegt að hafa það á úlnliðnum; eins og að vera handjárnaður af tímanum. Hún er rétt um þrjú, styttist í lendingu, og þegar hönd lágvöxnu konunnar strýkur með svolítið fitugum fingrum yfir handarbak Ara, og hún segir þetta með tárin, að hann eigi að þakka fyrir þau, sem er áreiðanlega rétt, án þeirra værum við glötuð, yrðum steingerð að innan, hjartað að grýlukerti, kossar að ísmolum, þá slær lyktinni frá hamborgaravagni Jonna fyrir vit mér, og ég finn fyrir því að ég hef ekkert borðað síðan í morgun.
Ég geng að vagninum og afgreiðslumaðurinn hallar sér fram til að heyra betur í mér, bandar með hendinni í átt að útvarpi sínu, enis og til að þagga niður í því rétt á meðan ég ber upp pöntunina. Ég finn fyrir svengdinni og bið um hamborgara, hafðu bara nógu mikið af öllu með, segi ég , og sparaðu ekki sósuna. Þá færðu Kvótasvindlið, gæskur, segir maðurinn glaðlega um leið og hann slær flötum lófa á matseðilinn, sem ég hafði ekki tekið eftir, þrykktan á álplötu neðan við lúguna. Sjálfur matseðillinn er að vísu það neðarlega að maður þarf að beygja sig til að lesa; ofan við hann er alllangur texti um kvótakerfið í sjávarútvegi, bæði á íslensku og ensku, afdráttarlausar línur sem draga upp sterka mynd af því hvernig kvótakerfið var „keyrt í gegnum þingið á fáeinum haustdögum árið 1983“.
(55-6)