Um þýðinguna
Skáldsaga Dostojevskíjs , Igrok (1866), í íslenskri þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur.
Úr Fjárhættuspilaranum
Ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta óþægilegt; þótt ég hefði ákveðið að stunda fjárhættuspil hafði ég alls ekki gert ráð fyrir að byrja á því að spila fyrir aðra. Þetta kom mér meira að segja svolítið úr jafnvægi og þegar ég gekk inn í spilasalina var ég orðinn sárgramur. Ekkert þar inni féll mér í geð við fyrstu sýn. Ég þoli ekki undirlægjuháttinn í slúðurgreinum um allan heim, einkum í rússnesku blöðunum, þar sem varla líður svo vor að blekbullararnir segi ekki frá tveim hlutum: í fyrsta lagi ótrúlegum glæsileik og munaði spilasalanna í borgunum við Rín, og í öðru lagi gullhrúgunum sem eiga að vera þar á hverju borði. Og ekki er þeim borgað fyrir þetta; þeir segja frá því af ósíngjörnum fleðuskap. Engan glæsileik er að finna í þessum óhrjálegu salarkynnum og gullið er vissulega ekki í hrúgum á hverju borði, þvert á móti sést varla ögn af því. Að sjálfsögðu ber það við stöku sinnum að einhver furðufugl birtist allt í einu, Englendingur kannski eða einhver Asíubúi, kannski Tyrki eins og nú í sumar, og tapar eða vinnur himinháa upphæð; en allir hinir spila um smápeninga, og þegar á heildina er litið er afskaplega lítið af peningum á borðunum. Þegar ég var kominn inní spilasalinn (í fyrsta sinn á ævinni) leið nokkur tími þar til ég ákvað að hefja spilamennskuna. Auk þess þrengdi manngrúinn að mér. En jafnvel þótt ég hefði verið einn í salnum býst ég frekar við að ég hefði farið út án þess að spila. Ég viðurkenni að hjarta minn sló ört og ég var ekki kaldur og yfirvegaður, enda var ég þess fullviss og hafði verið lengi, að ég mundi ekki yfirgefa Roulettenburg samur maður; eitthvað mundi örugglega gerast hér sem hefði róttæk og varanleg áhrif á örlög mín. Það verður að gerast og mun gerast. Hversu skoplegt sem það er að ég skuli vænta mér svo mikils af rúllettunni, þá finnst mér hin skoðunin ennþá skoplegri, þessi viðtekna sem allir hafa, að það sé heimskulegt og fáránlegt að búast við einhverjum ávinningi af spilamennsku. Og hví skyldi fjárhættuspil vera verri aðferð til að útvega sér peninga en hver önnur, segjum til dæmis kaupmennska? Það er að vísu satt að af hundað spilamönnum vinnur aðeins einn. En hvað kemur mér það við?
Í öllu falli ákvað ég að byrja á því að fylgjast með og aðhafast ekkert alvarlegt þetta kvöld. Ef eitthvað gerðist í kvöld yrði það óvart og lítilsháttar – og við því var ég búinn. Auk þess þurfti ég að læra sjálft spilið; þrátt fyrir þær þúsundir lýsinga á fjárhættuspili sem ég hafði lesið af svo mikilli áfergju skildi ég hvorki upp né niður í tilhögun þess fyrr en ég sá það með eigin augum.
(s. 18-19)