Um bókina
Ung kona hefur það að atvinnu að deyja. Með dauða sínum bjargar hún ríkasta fólki heims frá slysum eða árásum og lengir þannig ævi þess. Sjálf ólst hún upp á fósturheimilum en var tekin þaðan og send í skóla á vegum valdamikils fyrirtækis þar sem hún var búin undir þetta hrottalega ævistarf. Dag einn er tilvist fyrirtækisins ógnað – með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir hana og fólkið sem hún elskar.
Úr bókinni
Ég dreg hann á fætur og fullvissa mig um að hann haldi jafnvægi. Þá leiði ég hann í burtu. Allt í kringum okkur eru logandi rústir, lestarvagnar á hliðinni og einn af þeim allt að því lóðréttur, klemmdur milli tveggja annarra. Kona reynir að skríða út um glugga en eldurinn nær henni á leiðinni. Hárið lyftist upp af höfðinu þegar það brennur og hún hættir að berjast um.
"Bíddu hérna." Ég hjálpa viðfanginu að setjast, hleyp til manns sem liggur á jörðinni með vír út úr síðunni og reynir að skríða í burtu frá einum af vögnunum. Ég þreifa um sárið, kippi vírnum eins snöggt og ég get út úr kjötinu og dreg manninn fjær eldinum sem enn er að magnast. Blóð spýtist úr sárinu en ég ríf skyrtuna hans og vef um sárið til að loka því. Það stendur ekkert í starfslýsingunni um að ég eigi að hjálpa öðrum en viðfanginu, en ég geri mitt besta.
Ég teygi úr mér og vona að ég heyri bráðum í sírenum. Við virðumst vera svolítinn spöl frá byggð, tunglið er hálft á himninum og í skímunni frá því greini ég ekkert nema akra allt í kringum okkur og fáeina sveitabæi.
Viðfangið er enn með áfallastöruna og skilur ekki hvar hann er. Ég tek upp símann minn og slæ inn eina númerið sem er vistað þar: yfirleitt öryggisstarfsfólk í heimastöð viðfangsins frekar en almenn neyðarlína. Maður svarar og ég útskýri hvað hefur gerst og hann segir að sjúkraþyrla sé á leiðinni. Ég tek loforð af honum að panta fleiri en eina og sendi staðsetningarpinna áður en ég slít símtalinu.
"Hvað gerðist?" spyr viðfangið, eins og þau gera alltaf. Hann reynir að standa á fætur en ég skipa honum að slaka á.
"Hlustaðu á mig." Við horfumst í augu og ég bið hann að hugsa til baka. "Fyrir mörgum árum keyptirðu þér líftryggingu. Nú hefur okkar hlið samningsins verið uppfyllt ..." Ég sé að hann er enn ringlaður, reynir að tala en getur það ekki.
Þreytan hellist svo snöggt yfir mig að ég á bágt með að halda mér uppréttri. Nokkrum mínútum síðar heyri ég í þyrlu. Ég rétti viðfanginu símann minn og segi að bráðaliðar muni rata á merkið. Að því loknu geng ég í burtu.
Skammt frá teinunum finn ég mjóan moldarveg sem ég giska á að liggi að einum af sveitabæjunum. Það eru ekki nákvæm vísindi hvar best er að yfirgefa skuggann sinn, en ég reyni að hafa aðstæðurnar kyrrlátar, fjarri hörmungunum sem við erum að koma úr, svo Kasja hafi næði til að vakna og átta sig. Hún finnur svo sína leið til baka eða fær hjálp til þess. Ég hef aldrei vitað hvað Klaustrið gerir fyrir skuggana sem við skiljum eftir, enda er það seinni tíma vandamál.
Ég lít yfir öxlina og sé að eldurinn hefur magnast. Rauð hvelfing lyftist upp í næturhimininn og í jaðri hennar glampar á þyrlu sem er í þann mund að lenda. Ég sest undir nálægt tré, halla bakinu að stofninum og byrja ferlið sem skilar mér aftur til baka.
Líkaminn kólnar og kaldir þræðir teygja sig niður í fætur, út í handleggi. Blóðið storknar í hjartanu og verður að grjóti, þessu kalda, stirða sem er líf mitt og það sem ég á skilið. Heimurinn hægir á sér og í næstu andrá spýtist ég aftur á bak í gegnum lestina, borgina, dýragarðinn og Millibilið. Ég finn óreiðuna steypast yfir mig og geðið sundrast, hugmyndir mínar um heiminn og sjálfa mig eins og landakort af himninum. Ég depla augunum, sendi merkið.
(s. 35-37)