Æviágrip
Guðrún Hannesdóttir fæddist þann 18. júní árið 1944. Hún lauk stúdentsprófi frá MR árið 1964, nam listasögu við háskólann í Lundi frá 1968-70 og lauk BA-prófi í bókasafnsfræði frá Háskóla Íslands árið 1979. Sem bókasafnsfræðingur hefur Guðrún meðal annars haft umsjón með bókasafni Myndlistarskólans í Reykjavík.
Guðrún sendi frá sér bókina Gamlar vísur handa nýjum börnum árið 1994, en þar safnaði hún saman vísum fyrir börn og myndskreytti. Upp frá því hefur hún unnið við ritstörf og myndskreytingar eigin bóka fyrir börn meðfram bókasafnsstarfinu. Hún hefur einnig safnað alþýðukveðskap úr skriflegri og munnlegri geymd og birt í þremur bókum, ritað ljóð og greinar í tímarit og sent frá sér ljóðabækur. Guðrún hefur auk þess sýnt myndir sínar á sam- og einkasýningum hér á landi og víða erlendis.
Guðrún sat lengi vel í stjórn samtakanna Barna og bóka, Íslandsdeildar IBBY-samtakanna, sem og í ritstjórn tímaritsins Börn og menning, sem samtökin gefa út. Hún hefur hlotið verðlaun fyrir bæði skrif sín og myndskreytingar, þá helst Íslensku barnabókaverðlaunin ásamt Sigrúnu Helgadóttur árið 1996 fyrir Risann þjófótta og skyrfjallið, sem Guðrún myndskreytti; og Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2007 fyrir ljóðið „Offors.“ Árið 2021 hlaut Guðrún Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu sína á bókinni Dyrnar eftir ungversku skáldkonuna Mögdu Szabó.
Um höfundinn
Lesið í þögnina: Um skáldskap Guðrúnar Hannesdóttur
Guðrún Hannesdóttir hóf feril sinn sem barnabókahöfundur undir lok síðustu aldar en á undanförnum tveimur áratugum hefur hún skapað sér nafn sem ljóðskáld og gefið út tíu ljóðabækur sem margar hverjar hafa hlotið góðar viðtökur, en hún hlaut meðal annars Ljóðstaf Jóns úr Vör 2007 og tilnefningu til Fjöruverðlaunanna 2016. Hér verður skáldskapur Guðrúnar Hannesdóttur til umfjöllunar með hliðsjón af hennar helstu verkum.
Náttúra og dýralíf
Fyrsta ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur, fléttur, kom út hjá Sölku árið 2007 í kjölfar þess að hún hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið „Offors“, sem finna má á síðum þeirrar bókar. Guðrún var 63 ára þegar fléttur kom út og skipar sér þannig í röð með skáldum sem hafa debúterað eftir miðjan aldur á borð við Kristján Karlsson, Þórdísi Gísladóttur og Ragnheiði Lárusdóttur. Það er líka enginn byrjendabragur á bókinni heldur ljóst að þar steig fram nánast fullmótað skáld. Fléttur er lágstemmt og yfirvegað verk og í því fann skáldið strax þá rödd og þann stíl sem hefur einkennt ljóð þess allar götur síðan. Ef nefna má nokkur af helstu höfundaeinkennum Guðrúnar Hannesdóttur þá eru það fyrsta sem kemur upp í huga næmt auga fyrir samlífi manns og náttúru, sögulegt sjónarhorn sem birtist í margræðum tilvísunum, og pólitísk meðvitund sem birtist fremur sem sterk afstaða heldur en háværar yfirlýsingar. Guðrún er mjög næmt og myndrænt skáld, sjónarhorn hennar er nákvæmt og greinandi svo minnir jafnvel á smásjá vísindamanns, eins og sést strax í fyrsta ljóði flétta, hvaðan titill bókarinnar er fenginn:
Þær vaxa ómunahægt
svo marglitar
í myrkrinufléttur á steini
aðsópsminnstar og öllum eldri
stíga þær kyrrðardansinn
við hjartslátt himindjúpannaöll vitni
víðs fjarri.
Ljóðin í fléttum eru áferðarfögur og haganlega ort en sem heild er bókin þó heldur látlaus og skilur ekki mikið eftir sig. Þar má þó finna ýmis góð ljóð, eins og til dæmis sigurljóðið úr Ljóðstaf Jóns úr Vor, hið áðurnefnda „Offors“ og „Handrit í fjörðum vestur“ þar sem handritinu Physiologus sem Árni Magnússon fann í Dýrafirði árið 1705 og hafði verið notað sem sigti fyrir mjöl er lýst, en slíkar sögulegar tilvísanir eru mjög algengar í verkum Guðrúnar eins og við eigum eftir að sjá:
seinna kom til skjalanna
annað fólk
sem gataði þetta sómaskinn
og sigtaði þannin
mjöl í glóðarsteikt brauð
og langþráða grauta.
Í ljóðinu „Í minningu vinkonu“ örlar einnig á þeim lúmska húmor sem stundum birtist hjá höfundi en þar er afdrifum ruslafötu sem gleypir við matarafgöngum sem síðan eru gefnir hænum lýst: „Hún stóð undir eldhúsvasknum / dælduð, daunill / og beið eftir næsta skammti“.
Samkennd og kaldhæðni
Næsta bók Guðrúnar Hannesdóttur, staðir, kom út þremur árum seinna, einnig á vegum Sölku. Guðrún hefur verið nokkuð regluföst í útgáfu og frá og með 2010 hefur hún oftast sent frá sér bók annað hvert ár, stundum á hverju ári. Staðir er að mörgu leyti lík fléttum þótt skáldskapurinn sé heldur beinskeyttari en í þeirri fyrri. Líkt og í fyrri bók höfundar er náttúra og dýralíf fyrirferðarmikið en í bókinni má einnig finna borgarmyndir eins og í ljóðinu „fyrir utan ríkið“ þar sem ljóðmælandi lýsir fundum sínum við róna einn sem krefur hana um klink þegar hún á aðeins kuðung að bjóða:
kuðung? KUÐUNG?
hljómar á eftir mér langt út á torgeins og hann hefði átt á dauðanum von
en fengið kuðung í staðinn
Hér yrkir höfundur einnig um búfénað af mikilli samkennd og þá einna helst lömbin sem „hoppa hæð sína stundum / þegar þau fara í gegnum opið hlið“ og hversdagslegar raunir þeirra þegar þau eru mörkuð, „eitt hnífsbragð“ sem er þó ekkert á við það sem þeirra bíður handan við haustið „merkt lífinu / skamma stund“.
Annað sem vekur athygli við staði er að hér deilir skáldið á samtíma sinn, en bókin kom út 2010, tveimur árum á eftir hrunið og inniheldur nokkrar vísanir í það, sumar sem eru þó svo lúmskar að ekki er víst að allir lesendur nái þeim nú þegar svo langt er liðið. Í ljóðinu „blessun“ leggur höfundur út frá nokkrum þekktum bænum og sálmum í kaldhæðinni ádeilu á góðærið og hrunið: „þegar skuldunautunum / hefur verið fyrirgefið / og þau bundin á básana” getum við aftur tekið gleði okkar á ný, kveikjum ljós „hjá vesalings meinvillingunum” og skríðum í heimsumbólið þar sem „jésus breiðir blessun sína / á barnaskóna mína.” Þetta er margrætt og skemmtilegt ljóð, tónninn gáskafullur og allt að því meinhæðinn og ber skáldagáfu höfundar sterkt vitni.
Feminískt sjónarhorn
Guðrún Hannesdóttir er einkar lunkin við að yrkja um kvennasögur og hlutskipti kvenna. Kveðskap hennar mætti hæglega kalla feminískan en í fyrstu bókum hennar er þessi feminísmi þó mun lúmskari og að sumu leyti beittari heldur en sá femínísmi sem hefur einkennt nútímakveðskap eftir Metoo-byltinguna. Þetta höfundaeinkenni birtist strax í fyrstu bókum Guðrúnar og hefur orðið meira áberandi eftir því sem liðið hefur á skáldaferil hennar. Í stöðum má til að mynda finna ljóðið „hver“ þar sem sögð er þjóðsaga af hver í dal einum sem hafi fært sig um set „því í honum voru þvegin / blóðföt saklauss manns“:
þessu fær mig enginn til að trúa
ekki er til sú heilvita manneskja
(allrasíst konukind)
sem dytti í hug að skola burt blóð
í öðru en hreinu köldu vatni
Hér birtist kvenleiki sem sést sjaldan í skáldskap karlkyns höfunda, flugbeitt hending sem varpar ljósi á karllægt sjónarhorn íslensks menningararfs og það hvernig kvennaráð sem varðveist hafa í gegnum kynslóðirnar eru stundum virt að vettugi þegar sagan er skrifuð. Í bókinni humátt, gefin út hjá Sölku 2015, má svo finna ljóðið „jafnrétti (af fjöllum)“ þar sem skáldið gerist töluvert afdráttarlausara í baráttuljóði þar sem jafnréttinu er líkt við jarðsögulegan hraða flekahreyfinganna, enda hlaut sú bók tilnefningu til Fjöruverðlaunanna 2016.
spyrnum í fjöllin, systur!
nístum steinana! myljum fjötrana!
svo aldirnar líði ekki áfram svona
óáreittar
Tungumál fuglanna
Fjórða ljóðabók Guðrúnar, Slitur úr orðabók fugla, gefin út hjá Sölku 2014, er eins konar konseptverk þar sem höfundur beinir sjónum að hlutskiptum fugla, samlífi þeirra og manna, og birtingarmyndum þeirra í menningarsögunni. Um er að ræða eina best heppnuðu bók höfundar, ljóðabók sem er skrifuð sem heildstætt verk og hefur að geyma mörg firnasterk ljóð. Hér er sagnaritarinn Guðrún í essinu sínu því bókin hefur að geyma fjölda tilvísana í íslenska og erlenda bókmenntasögu, goðsagnir og sagnfræði en líkt og flestar bækur Guðrúnar er opna með athugasemdum aftast í bókinni þar sem helstu vísanir eru útlistaðar. Hér er til að mynda ort um ýmis frægðarmenni á borð við Egil Skallagrímsson frá sjónarhorni Gunnhildar drottningar er situr um hann í svölulíki, og Genghis Khan sem notaði svölur í hernaði, en líka um fugla sem verið hafa þátttakendur í merkilegum heimsatburðum á borð við dúfurnar sem þjónuðu í seinni-heimsstyrjöldinni.
Sterkustu ljóð bókarinnar eru þó þau þar sem ort er frá sjónarhorni fugla eða um tilveru þeirra eins og í ljóðinu „geirfugl“ þar sem raunum síðasta geirfuglsins sem drepinn var í Eldey 1844 er lýst í kröftugu ljóðmáli:
eggið mitt kólnar
á skötuskeri
tjóðraður við
minn titrandi skugga
bíð ég komu mannannameð bareflin
brugðnu
Eða ljóðið „fjöður“ þaðan sem titill bókarinnar er fenginn, hvar höfundur veltir fyrir sér tungumáli fuglanna, sem eru jú ein af örfáum dýrategundum að fráskyldum okkur sem tjá sig með söng eða einhvers konar tungumáli: „í orðabók fuglanna / vantar eitt orð // eins og fjöður hafi / verið yfir það dregin“. Guðrún stillir gjarnan saman ljóðum á opnu sem tengjast þematískt en vinstra megin við ljóðið „fjöður“ má einmitt finna ljóðið „orð“ þar sem velt er uppi tengslum fugla og orða, frumleg pörun sem getur af sér óvæntar ljóðmyndir: „skyldleiki fugla og orða liggur í augum uppi / þegar lesið er í snjó eða sand svo fremi sem maður / leiði hjá sér sporin eftir silfurfætta þögnina“.
Þjóðsögur og ævintýri
Í fimmtu bók Guðrúnar, humátt frá 2015, eru þjóðsögur alltumlykjandi. Hér má finna vísanir í djáknann frá Myrká, galdra, nábrækur og nykra. Í einu áhugaverðasta ljóði bókarinnar, prósaljóðinu „fréttatilkynning“, er sagt frá nykri sem dvelst í Hafravatni en „flytur sig um set annað hvert ár, dvelur þá í Tjörninni í Reykjavík og ferðast á milli eftir undirgöngum“. Þá er greint frá undarlegum verum „sem fara um laumulega, álút og silfurgrá að lit“ og almenningur beðinn um að hafa varann á gagnvart þessum kynjaskepnum „einkum í grennd við stundstaði“.
Guðrún notar þannig þekkt þjóðsagnaminni og íslenskan menningararf til að rannsaka nútímann og sýna hversdagslífið í nýju ljósi eins og í áðurnefndu ljóði. Í ljóðinu „þjófalykill“ leggur Guðrún út frá aldagamalli refsingu þar sem lykill var hitaður og notaður til að brennimerkja enni eða kinn sakamanna sem dæmdir höfðu verið fyrir þjófnað, þegar hún lýsir því þegar hún fær sendan til sín svikapóst í tölvunni. Þar sem engan þjófalykil er að finna á lyklaborðinu verður hún að láta sér nægja „lykilinn kalda sem sendir viðkomandi umsvifalaust út í ystu myrkur þaðan sem hann kom“.
Andlit þagnarinnar
Í sinni sjöundu ljóðabók, þessa heims sem kom út í sjálfsútgáfu 2018, yrkir Guðrún til nokkurra þekktra skálda sem hafa greinilega haft áhrif á hana; Höllu Eyjólfsdóttur, Málfríðar Einarsdóttur og Snorra Hjartasonar. Ljóst er að Guðrún Hannesdóttir er undir miklum áhrifum frá Snorra Hjartarsyni í verkum sínum, sérstaklega í þeim ljóðum sem fjalla um náttúruna, enda er þar gjarnan að finna sömu tregafullu ljóðrænuna í sterkum og meitluðum náttúrulýsingum er einkennir þekktustu verk Snorra. „fátt er hljóðara / hrímföllnu laufi / á heiði“, yrkir hún í ljóðinu „lauf“ sem minnir um margt á verk listaskáldsins.
Sterkasta ljóðið af þessum þremur er þó án efa ljóðið „Veturseta“ sem er ort til Málfríðar Einarsdóttur. Þar er ort frá sjónarhorni ljóðmælanda sem hefur rutt sér leið í gegnum frosna vetrarauðn „bylt klettum, borið grjót“ og heitir því að lifi hún af nóttina „munu berin ganga aftur / frosinn mosinn lifna á ný / og tylla sér á tær“. Undirritaður þekkir ekki verk Málfríðar Einarsdóttur nógu vel til að geta borið þau saman við ljóð Guðrúnar en ljóðið „Veturseta“ er þó kraftmikill virðingarvottur til þessa frumkvöðuls í kvennabókmenntum sem fann sinn eigin samastað í tilverunni og skrifaði um napurleg hlutskipti kvenna hér á landi.
Þögnin er leiðarstef í ljóðabókinni þessa heims en fjölmörg ljóðanna fjalla á einn eða annan hátt um þögn á tilvistarlegum nótum. Þögnin birtist þar bæði sem líkamlegt ástand, eins og í hinu áðurnefnda ljóði „Veturseta“ þar sem hún er sögð vera „samfrosin hella / fyrir hlustunum“, en einnig sem sálrænt ástand eins og í ljóðinu „ég“ sem ort er frá sjónarhorni ljóðmælanda sem hefur fundið sér afdrep í þögninni, segist eitt sinn hafa talað í hálfum setningum en er nú „orðin miklu betri í að þegja“:
ég næ dýpri og lengri þögn
með hverju ári sem líðurég hugsa þetta þannig, að þegar
ég steinþagna alveg að lokumverður heldur enginn eftir
til að hlusta
Ljóðið minnir um margt á ljóð Sigfúsar Daðasonar úr bók hans Hendur og orð frá 1959 sem inniheldur hina frægu upphafslínu: „Orð / Ég segi alltaf færri og færri orð / enda hafði ég lengi á þeim illan bifur“.
Guðrún persónugerir líka þögnina, hún er „aldrei einhlít / né ein á ferð“ og „felur sig víða / í vetrarkvíða / eða lifandi ljósi / lengst inni í / orðum“. Ljóst er að þögnin er höfundi hugleikin og kannski er eins gott að gefa gaum að orðum Atómskáldsins sem bað menn „að fara varlega með orð / þau geta sprungið“.
Sjón og sýnir
Áttunda ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur ber heitið Spegilsjónir og kom út hjá forlaginu Partusi árið 2020. Í þeirri bók tekst höfundur meðal annars á við loftslagsvá og skynjun en vatnið, ljósið og sjónin eru meðal umfjöllunarefna Spegilsjóna. Ljóðið „ósamin ljóð um jökla“ er eitt sterkasta ljóð bókarinnar en þar er velt vöngum yfir því hvað verði eftir þegar jöklarnir hopa endanlega:
innan tíðar verður
ekkert eftir
nema fagurhvít tíbrá
í augum þínumhvikul eftirmynd á himni
fegurri nokkru ljóði
Þetta kallast á lúmskan hátt á við ljóðið „er nokkur með rakvélarblað á sér ... ?“ sem birtist seinna í bókinni og fjallar um heimsókn ljóðmælanda til augnlæknis sem framkvæmir skoðun á augum hennar og kemur með afdráttarlausa niðurstöðu:
þetta svarta
hér neðst
eru skuggarþetta svæði
skynjar ekki lengur
það sem fyrir augað ber
Titill ljóðsins er væntanlega vísun í Andalúsíuhundinn eftir Salvador Dalí og Luis Buñuel, eina þekktustu stuttmynd kvikmyndasögunnar, sem inniheldur ógleymanlegt atriði þar sem auga kemst í snertingu við rakvélarblað. Augað í Spegilsjónum er sumsé bæði dvalarstaður ljóss og skugga en eins og kemur fram síðar í ljóðinu „sólsteinn“ er allt ljós auðvitað „fengið að láni“ því á endanum er það myrkrið sem bíður okkar allra.
Höfundur er á svipuðum slóðum í níundu bók sinni, sem ber heitið Fingramál og kom einnig út hjá Partusi 2022. Hér er aftur ort um augu, sjón og ís, eins og sést til að mynda í ljóðinu „brot“ sem hefst á eftirfarandi línum: „ég held að flís úr margbrotna speglinum / sé föst í auga mínu“. Þetta er vísun í ævintýri H.C. Andersens, Snædrottningin, sem lýsir brotnum galdraspegli, en flísar hans afskræma allt sem þær komast í snertingu við og spilla hjörtum saklausra. Ljóðmælandi segir sér það þó vera „til efs að snædrottningin komi við sögu“ en lýsir því síðar hvernig flís úr speglinum hafi stungist í hjarta hennar sem henni hafi reynst ómögulegt að losa þar til að einhver ónefndur aðili „grét það í burtu“ löngu síðar. Þetta ljóð er mjög lýsandi fyrir þann stíl sem einkennir höfundaverk Guðrúnar Hannesdóttur þar sem hún blandar saman bókmenntalegum og sögulegum tilvísunum við persónulegan undirtón sem þó verður seint lesinn sem sjálfsævisögulegur, enda er baksaga ljóðanna yfirleitt hulin á bak við náttúrulýsingar og tilvísanir. Guðrún er þannig miklu fremur fagurfræðilegt og hugmyndafræðilegt skáld heldur en persónulegt, og þótt sums staðar megi glitta í persónulegar upplifanir eða skoðanir innan ljóða hennar þá er það aldrei í forgrunni þeirra.
Eins og fram hefur komið hikar Guðrún ekki við að vera pólitísk í skrifum sínum, eins og sjá má af ljóðum um femínisma og loftslagsmál, en hún hikar heldur ekki við að gagnrýna hvers kyns hugmyndafræði eins og sjá má af ljóðinu „rétttrúnaður“ þar sem sögð er saga af tveimur mönnum, presti og lækni, sem „voru hatursmenn / út yfir gröf og dauða“. Þegar dóttir læknisins, guðleysingjans, dó reri hann með hana út á sjó og „sökkti henni í djúpið / fremur en að láta prestinn / slá í hana klónum“. Ljóðið er eins konar dæmisaga um afleiðingar hvers konar öfgahyggju og sem slík bæði beitt og viðeigandi fyrir okkar tíma.
Ofraunir regndropa
Nýjasta bók Guðrúnar ber titilinn kallfæri og kom út haustið 2024 hjá Dimmu útgáfu. Í þessari bók heldur Guðrún áfram að yrkja um svipuð þemu og í fyrri tveimur bókum sínum nema hvað að nú bætist trúin inn en í bókinni má finna fjölmargar vísanir í trúarbrögð, þá einna helst kristna trú, sem sést meðal annars á titlum ljóða á borð við „Jeríkó“, „hebreska í Arnarfirði“, „himnabréf“, og ítrekuðum vísunum í frelsarann og krossfestingar. Hér er þó ekki um neina helgislepju að ræða enda eru ljóðmyndirnar óvæntar og frumlegar eins og búast má við frá höfundi. Í einu eftirminnilegu ljóð sem ber heitið „brestur“ verður til dæmis slys barns á byggingarsvæði að óvæntri myndlíkingu fyrir píningu Krists:
einhver stígur beint á naglaspýtu
naglinn stingt upp í ilina
út gegnum ristina og hrópar Jesús
eins og á krossfestingarmyndinni
í sunnudagaskólanum
Bókin er þó fremur látlaus og hvorki jafn grípandi né heilsteypt á við Spegilsjónir eða Fingramál. Á stundum jaðrar jafnvel við að Guðrún gangi of langt í smásærri ljóðrænu sinni, eins og til dæmis í ljóðinu „ofraun“ sem lýsir ofraunum regndropa sem hangir á strái hvar hann skelfur „eins og harmþrungið hjarta“, bisar „við að telja himinhvolfin“, og endar tilvist sína „þrútinn örvæntingarþungri uppgjöf“ lætur sig falla og breytist að lokum í „silfurtæran söng“. Hér er allavega dýrt kveðið um stakan regndropa.
Þó má finna mörg sterk ljóð á síðum kallfæris, til að mynda síðasta ljóð bókarinnar, hið áðurnefnda „himnabréf“. Ljóðið er einkar vel smíðað en þar leggur höfundur út frá kristnu goðsögunni um himnabréf; bréf sem sögð voru skrifuð á himnum og talin hafa borist til manna fyrir tilstilli engla. Í ljóðinu líkir höfundur ýmsum náttúrufyrirbrigðum við slík himnabréf og segja má að hér sé Guðrún í essinu sínu sem listaskáldið sem les í náttúruna með vísan í sögulegan arf kynslóðanna:
lesum í ilmandi smára og bjöllulyng
og aðrar trúnaðarverur drottinsvantrúin sem leið yfir andlit okkar
eins og lófastórt ský
hverfur á andartakiokkur er óhætt að leggja bréfið aftur
það sem þar var eitt sinn lesið
líður okkur aldrei úr minni
Ljóst er að Guðrún Hannesdóttir hefur á undanförnum sautján árum skapað sér sérstöðu innan íslensku ljóðasenunnar með rödd og ritstíl sem eru algjörlega hennar eigin. Ljóð höfundar eru langflest listilega vel ort og viðfangsefnin fjölbreytt; allt frá abrahamískum trúarbrögðum, til íslenskra þjóðsagna og kynjabaráttu nútímans. Þannig mætti segja að ljóðlist Guðrúnar sé klassískur kveðskapur sem er ekki bundinn við samtíma sinn heldur vísar út fyrir sig í bæði tíma og rúmi.
Þorvaldur S. Helgason, 2024.
Verðlaun
2021 – Íslensku þýðingaverðlaunin: Dyrnar eftir Mögdu Szabó
2007 – Ljóðstafur Jóns úr Vör: „Offors“
2004 – Ljóðstafur Jóns úr Vör, sérstök viðurkenning: „Þar“
1998 – Heiðurslisti IBBY-samtakanna á alþjóðaráðstefnu í Dehli: Risinn þjófótti og skyrfjallið
1996 – Íslensku barnabókaverðlaunin: Risinn þjófótti og skyrfjallið
1994 – Viðurkenning Íslandsdeildar IBBY-samtakanna: Gamlar vísur handa nýjum börnum
Greinar
Um einstök verk
Eina kann ég vísu
María Hrönn Gunnarsdóttir: „Skrýtnar vísur á myndarlegum stalli“ (ritdómur)
Morgunblaðið, 24. desember 1999. Sjá hér, á tímarit.is
Einhyrningurinn
Helga Einarsdóttir: „Þroskasaga einhyrndrar gimbrar“ (ritdómur)
Morgunblaðið, 19. júlí 2001. Sjá hér, á tímarit.is
Katrín Jakobsdóttir: „Heima er best“ (ritdómur)
Dagblaðið Vísir – DV, 1. júní 2001. Sjá hér, á tímarit.is
Fleiri gamlar vísur handa nýjum börnum
Sig. Haukur: „Skrautfjaðrir“ (ritdómur)
Morgunblaðið, 28. nóvember 1995. Sjá hér, á tímarit.is
Fléttur
Björn Þór Vilhjálmsson: „Að vefa og flétta í víðáttum ljóðsins“ (ritdómur)
Morgunblaðið, 29. nóvember 2007. Sjá hér, á tímarit.is
Úlfhildur Dagsdóttir: „Kyrrð og offors“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Gamlar vísur handa nýjum börnum
Kristán Ari Arason: „Pipraðir páfuglar bornir fyrir börn“ (ritdómur)
Dagblaðið Vísir – DV, 18. nóvember 1994. Sjá hér, á tímarit.is
Sonja B. Jónsdóttir: „Fleiri gamlar vísur handa nýjum börnum“
Vera, 14. árg., 6. tbl. 1995, s. 41
Humátt
Úlfhildur Dagsdóttir: „Sögur handa þjóð“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Hvar?
Kristín Ragna Gunnarsdóttir: „Samspil mynda og texta“
Börn og menning, 19. árg., 1. tbl. 2004.
Sigrún Klara Hannesdóttir: „Barnið spyr“ (ritdómur)
Morgunblaðið, 23. desember 2003. Sjá hér, á tímarit.is
Kerling vill hafa nokkuð fyrir snúð sinn
Sigrún Klara Hannesdóttir: „Gömul þjóðsaga í sparifötum“ (ritdómur)
Morgunblaðið, 10. desember 1998. Sjá hér, á tímarit.is
Risinn þjófótti og skyrfjallið
Sigrún Klara Hannesdóttir: „Íslensku barnabókaverðlaunin 1996. Falleg þjóðsagnaperla“ (ritdómur)
Morgunblaðið, 28. nóvember 1996. Sjá hér, á tímarit.is
Sagan af Pomperipossu með langa nefið
Kristín Ragna Gunnarsdóttir: „Innihaldsríkt útlit“
Börn og menning, 17. árg., 1. tbl. 2002.
Soffía Auður Birgisdóttir: „Nefið langa og öskrið hræðilega“ (ritdómur)
Morgunblaðið, 18. desember 2001. Sjá hér, á tímarit.is
Sagan af skessunni sem leiddist
Sigrún Klara Hannesdóttir: „Skessum getur líka leiðst“ (ritdómur)
Morgunblaðið, 9. desember 1997. Sjá hér, á tímarit.is
Staðir
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall: Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómur)
Stína 2011, 6. árg., 2. tbl. bls. 201-10.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Góðir staðir til að vera á“ (ritdómur)
Bókmenntavefurinn, nóvember 2010, sjá hér.
Teikn
Úlfhildur Dagsdóttir: „Malurt, mold og marbendlar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
kallfæri
Lesa meiraaugnablikin eru ekki lengur / læst í ísnum // þau streyma fram eins og skærblár logi / lifandi blóðSagan um Pomperípossu með langa nefið
Lesa meiraSpegilsjónir
Lesa meiraÞessa heims
Lesa meiraHumátt
Lesa meiraTeikn
Lesa meira[Tvö ljóð]
Lesa meiraAðföng
Lesa meiraEfnafræði fyrir byrjendur
Lesa meira
Dinna í blíðu og stríðu
Lesa meiraAsmódeus litli
Lesa meiraSagan um Pomperípossu með langa nefið
Lesa meiraDyrnar
Lesa meiraNíunda harmljóð um eggið
Lesa meiraÞrjú þýdd ljóð eftir Vasco Popa
Lesa meiraTvö þýdd ljóð
Lesa meiraLandflótta
Lesa meiraSagan um Pomperipossu með langa nefið
Lesa meira