Æviágrip
Helgi Ingólfsson er fæddur 18. júlí 1957 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina 1977, prófi í uppeldis- og kennslufræði 1988 og B.A.-prófi í sagnfræði og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1994. Hann hefur kennt sögu, einkum fornaldarsögu og listasögu, við Menntaskólann í Reykjavík frá 1984. Þá veitti hann sérfræðiaðstoð í sagnfræði við Íslensku alfræðiorðabókina 1988-1990.
Fyrsta bók Helga, Letrað í vindinn: samsærið, kom út árið 1994. Sögusviðið er Rómarborg á tímum keisaraveldisins. Fyrir söguna hlaut Helgi Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar sama ár. Ári síðar kom út sjálfstætt framhald fyrri bókarinnar; Letrað í vindinn: þúsund kossar. Þar með sagði Helgi skilið við Rómarveldi sem sögusvið og færði sig yfir í gamansamar og farsakenndar frásagnir úr íslenskum samtíma. Hann hefur nú sent frá sér nokkrar slíkar sagnir, m.a. Lúin bein, sem kom út sumarið 2002. Helgi hefur einnig sent frá sér glæpasögur, bæði smásögur og skáldsögur og hlaut hann Blóðdropann, hin íslensku glæpasagnaverðlaun fyrir bókina Þegar kóngur kom árið 2010. Eftir Helga liggja einnig smásögur og ljóð og greinar í fagtímaritum. Hann hefur að auki fengist við gerð námsefnis.
Um höfund
Klofið höfundarverk
Höfundarverk Helga Ingólfssonar er viðamikið, einar 1.700 síður, og skiptist -jafnt á milli hins miðevrópska sjónarspils í Róm á síðustu öldinni fyrir burð Krists og Reykjavíkur dagsins í dag með skýrum tilvísunum til atburða sem fóru hátt á ritunar- og útgáfutíma. Hóglífi rómversku gjálífisseggjanna er teflt gegn venjulegu eymdarlífi vanmetins myndmenntakennara, misskilins rithöfundar og seinheppins fornleifafræðings.
Svo mikið ber á milli sviðsetninga og allra kringumstæðna að lesendur hljóta næstum að halda að um tvo höfunda sé að ræða. En eitt frásagnareinkenni höfundarins afsannar þá bábilju, hin afdráttarlausa löngun og knýjandi þörf til að fræða, miðla og auka þekkingu lesenda.
Stundum tekst höfundi að kenna lesendum eitthvað nýtt, kveikja áhuga, leiða þá af hinni breiðu braut áreynsluleysis og inn á gæfu-legar brautir nýrra áhugamála í myndlist eða tónlist en í fullri hreinskilni verð ég að segja að höfundi tekst trúlega í flestum tilfellum betur að sýna hvað hann er fróður en að lesendur fræðist. Það er helsti galli bókanna að mínu mati. Fróðlegheitin missa marks vegna skorts á tengingum, jafnt innan sagnanna sem og vafalaust í mörgum tilfellum við veruleika lesenda. Bækurnar spillast þó ekki við annan lestur því að skrifin eru vissulega metnaðarfull og höfundur hefur sjálfur augljóslega mikinn áhuga á efni þeirra.
Kostur er lipurleiki í stílnum, hægð og hraði á víxl eftir þörfum, og auðugt hugmyndaflug. Málfar er vandað og frágangur sömuleiðis víðast hvar en stundum örlar líka á ofvöndun í málinu. Höfundur leggur ofurkapp á nýyrði og hugmyndaflug í tungumálinu. Allar aðalpersónur Reykjavíkursagnanna eru miklir spekúlantar og þær um-gangast fólk sem klæmist á málvenjum og málsháttum.
En snúum okkur nú að hvoru sviði um sig.
Hin syndum spillta gyðja – Róm
Róm felur í sér andstæður dyggða og lasta þótt löstunum sé óneitanlega gert hærra undir höfði, lastabælinu á kostnað hins venjulega heiðvirða manns. Róm er uppfull af þessum andstæðum, s.s. höllum og vændissveinahúsum, höfðingjum, öreigum og þrælum, fátækt og ríkidæmi, ilmi og óþef, „ástaryndi og hernaðarþrá, mýkt og hörku, kvenleika og karlmennsku“ (Samsærið, bls. 10). Kaupmenn standa á orginu til að góma kaupendur, og letimennin sitja við afþreyingarspilerí og liggja við að troða í tranta sína. Höfðingjarnir fara ránshendi um nálæg og þó einkum fjarlæg héruð til að fjármagna áframhaldandi glyslifnað. Flestir virðast hneigjast til hóglífis og allt er falt ef vel er greitt. Róm er heimsveldi, alþekkt vagga menn-ingar en líka siðleysis. Enn eitt andstæðuparið. Cæsar segir að Rómverjar stjórni heiminum. Það kann að vera rétt, eða hafa verið rétt, en þeir hafa litla stjórn á hvötum sínum, a.m.k. þeir sem halda um stjórna-rtaumana. Órökrétt, en þannig er stundum lífið sjálft. Og einmitt í Róm er að finna allan fjölbreytileika lífsins.
Mig langar að skjóta hér inn að ritháttur rómversku mannanafnanna er misjafn eftir bókum ólíkra höfunda, sagnfræðinga eða rithöfunda, en ég hef ákveðið að halda mig hér við rithátt og beygingar þessa höfundar.
Róm er sögusvið Helvíusar Cinna lýðforingja sem nýtur sællífisins og les á sama tíma þrælum sínum fyrir frásögn af öfgum, uppreisn, gírugheitum, svikum, árásargirni, höfnunarkennd, ofsóknaræði, loddurum og betlurum. Hann er alvitur söguhöfundur þegar svo ber undir en samt er sjónarhornið nokkuð reikult, flyst reglulega á milli 1. og 3. persónu. Í upphafi hvers bókfells leggur hann út af ýmsum atburðum sem hann segir beinna frá í meginefni kaflanna. Sjálfur kemur hann úr umhverfi stjórnmálanna þannig að honum er þetta allt kunnugt.
Stjórnmál eru hreyfiafl atburðanna.
Í Samsærinu ætlar stjórnmálamaðurinn Catilína að sölsa undir sig völd með aðstoð annarra óánægðra Rómverja, klíku sinni. Cinna lýsir honum sem stefnulausri flugu sem villist af slysni í límborið net kóngulóarinnar, flækir sig þar, brýst um en verður um síðir étinn. Engu að síður siglir hann fagmannlega undir fölsku flaggi og gengst ekki við því að fyrir honum vaki að fella valdhafana. Þeir fá pata af leyndarsamsærinu og Cíceró sem þá var ræðismaður leggur sig allan fram við að koma upp um það, lengi án nokkurs árangurs því að Catilína var útundir sig og þrátt fyrir allt nokkuð slægur. Þetta er allt þekkt úr sögunni því að höfundurinn byggir á raunverulegum meginatburðum þótt hann skáldi vitanlega í eyðurnar og láti persónur mikið til lýsa sér í gegnum tilbúin samtöl sem eru einmitt fyrirferðarmikil í bókunum.
Meðfram þessu stjórnmálavafstri er skyggnst inn í daglegt líf Rómverja, þ.e. hið daglega líf spilltustu Rómverjanna sem lifa mesta hóglífinu og umgangast aðra af mestu lítilsvirðingunni. Við kynnumst Catúllusi sem er sendur í höfuðborgina til náms en getur ekki fest sig við neitt nema skáldskap, síst af öllu fánýti stjórnmálanna. Að auki eru aukapersónur margar enda bókin þykk. Cæsar er hér nokkurt límefni, tengir saman stjórnmál og kveðskap, sameinar tvenndina, og hefur yndi af refskákinni.
Samsærinu lauk með fullkomnum ósigri uppreisnarmannsins, og þar með fyrri Rómverjabókinni sem kom út 1994. Ári síðar kom seinni bókin út, bók sem höfundurinn boðaði með útgáfu þeirrar fyrri. Í viðtölum á þessum tíma segist hann hafa mikinn áhuga á efninu, hafi sökkt sér ofan í það og skrifað mörg hundruð blaðsíður sem hann hafi þurft að skera niður, slípa til og meitla. Sögurnar eru vissulega langar, á fjórða og fimmta hundrað blaðsíður, en bera engu að síður með sér verulega fágun. Höfundur hefur nostrað við söguna af Róm og haft mikið fyrir því að skapa sannfærandi umhverfi með tilbúnum lýsingum af athöfnum manna, samtölum og öðrum sviðsetningum.
Stjórnmál og ást
Í Þúsund kossum, bókinni sem kom út 1995, er hreyfiaflið ást, losti og ómæld hrifning. Allt það kom líka fyrir í Samsærinu en er nú mun fyrirferðarmeira á kostnað stjórnmálasögunnar. Persónurnar lýsa sér áfram í gegnum fyrirferðarmikil samtölin sem eru báðum bókunum sameiginleg. Í upphafi er nýbúið að drepa Cæsar og óöld ríkir, mikið stríðsástand og upplausn. Við slíkar kringumstæður getur ástin líka blossað upp og mönnum finnast e.t.v. síðustu forvöð að tjá sinni heittelskuðu hug sinn allan. Hvort sem það er öðru fremur það sem knýr Catúllus áfram eður ei festir hann mikla ást á Klódíu. Catúllus er einbeitt skáld og Klódía mjög einbeitt glyðra. Catúllus eirir sér við ekkert annað en að mæra, með misgæfulegum kvæðum, Klódíu sem er firnafögur og vefur hverjum manni um fingur sér.
Kveðskapur er miklu meira áberandi í þessari bók en hinni fyrri, að vonum þar sem ást og girnd er gjarnan túlkuð á slíkan hátt. Catúllus talar meira og minna í bundnu máli og honum tekst að heilla Kládíu tímabundið eins og vonir hans standa til. Þó eru áhöld um hversu óskaplega nútímalesendum hugnast ljóðmál Catúllusar sem eru oftar en ekki heldur óbeysin. Ekki er víst að þau nái í íslenskunni sama máli og á latínu. Rétt er að sýna lesendum dæmi:
Ó, Lesbía mín, lifum sæl og elskumst
og leyfum öllum siðavöndum fauskum
að friða sig með slefburði og slúðri.
Þótt hnígi sól, hún skjótt upp skýst að morgni,
en skammtur logi okkar kann að fölna
og þá mun eilíf nóttin okkur gleypa.
Mig kysstu þúsund kossa, síðan hundrað
og kysstu þúsund enn og enn eitt hundrað
og aftur þúsund og að auki hundrað,
uns við um síðir týnum allri tölu
á tugþúsundum kossa sem við njótum,
og enginn illur maður getur giskað
á grúa þann, sem öfund honum vekur.
(Þúsund kossar, bls. 110)
Klódíu finnst gaman að láta dekstra sig og lætur ekki á sig fá þótt hún eigi að heita gift kona. Eiginmaðurinn er í fyrsta lagi oft fjarri, bæði efnislega og líka fjarhuga, og svo voru siðferðisgildin nokkuð önnur þá en teljast vera núna. Klódía hefur frítt spil og henni leiðist ekki öll sú aðdáun sem hún nýtur. Erindið hér að ofan dugði þó ekki til að laða fram kossa handa Catúllusi.
Meðfram sögunni af leik Klódíu að Catúllusi, kattarins að músinni, segir Cinna lesendum sögur af stjórnmálaástandinu sem er ekki allt alveg með kyrrum kjörum. Hann lýsir því svo að skríllinn sé orðinn vitskertur, allir snælduvitlausir og heimurinn standi á haus. Þegar grannt er skoðað kemur líka á daginn að hann er að lýsa síðustu dögunum í valdatíð Cæsars.
Og sá sat ekki alltaf á sátts höfði.
Cæsar hafði mjög ögrandi stjórnunarstíl, vílaði ekki fyrir sér að gera svo mönnum mislíkaði – og glotti breitt á meðan. Hann sá þó vitanlega til þess að hann ætti sér viðhlæjendur og dygga vini og stuðningsmenn ásamt því að tryggja sér þjóðar-hylli meðal hinna lágt settu þegar hann setti jarðalögin á ræðismannsári sínu. Í þeim fólst að jörðum sem hinir valdamiklu höfðu tekið sér skyldi aftur úthlutað til smælingjanna.
Maður með þúsund vini þarf samt ekki nema einn óvin til að sól hans hnígi til viðar. Flögð undir fögru skinni eru líka miklu verri en sannir og heilir óvinir. Cæsar lifði ekki af eigin valdatíð og þar með lýkur tímabili sögunnar.
Má sjá þetta enn í dag?
Samsvaranir má sjá við nútímann. Þessar sögur eru sagnfræðilegs eðlis þótt höfundur barni þær með samtölum, ýkjum og sviðsetningum. Enn í dag deila menn um keisarans skegg og beita ýmsum brögðum við að koma sínu á framfæri og ná stjórnmálalegum árangri. Enn í dag vefja hinir fögru hinum ástleitnu um fingur sér en umfram allt er eðli mannsins hið sama árið 63 fyrir Krist og 2004 eftir Krist, hið sama í Róm, Reginsborg og Reykjavík.
Hinn syndum spillti bastarður – Reykjavík
Þótt mannskepnan sé ævinlega söm við sig, hégómleg og lifi í nútímanum hverju sinni, óvitandi um fortíð og framtíð, kveður við talsvert annan tón í sögunum fjórum sem er eðlilegt að kalla Reykjavíkursögurnar. Þær eru Andsælis á auðnuhjólinu (1996), Blá nótt fram í rauða bítið (1997), Þægir strákar (1998) og Lúin bein (2002). Eins og sögutími Rómarbókanna er skýr fyrir þúsundum ára gerast þessar Reykjavíkursögur í samtíma hverrar þeirra og vísa mjög skorinort í samtímaatburði, s.s. sjónvarpsefni, hneykslismál, dómsmál og forsetaframboð. Þannig fer ekki á milli mála hver sögutíminn er. Sögurnar nálgast það mjög að vera lykilsögur, þ.e. fjalla um raunverulega atburði og persónur líðandi stundar.
Allar einkennast sögurnar af miklum hraða, fjörugri atburðarás og spennu, litskrúðugum persónum sem flestar hafa afgerandi sérkenni, þylja málshætti í tíma og ótíma, klæmast á tungumálinu, sletta dönsku eða tala út í eitt um myndlist. Þetta hljómar ekki endilega illa, og er heldur ekki alvont, en verður oft yfirhlaðið. Höfundur er mjög fróður og áhugasamur um margt, einkum þó tónlist, bókmenntir, sögu og tungutak, og deilir því ákaflega með lesendum en það verður að segjast að stundum ber fróðleikurinn söguna sjálfa ofurliði.
Víkjum nú að sögunum sjálfum.
Auðnuhjólið
Andsælis á auðnuhjólinu kemur út 1996 og gerist 1996. Til marks um það eru m.a. framboð Ástþórs Magnússonar til forseta og ávirðingar biskups. Myndmenntakennarinn Jóhannes er kynntur til sögunnar sem auðnulaus, langþreyttur, kúgaður maður með sáralítinn vilja. Konan hans ræður yfir honum og mamma hennar yfir henni þannig að hann kemur illa út neðarlega í goggunarröðinni. Nemendur hans hafa líka meiri tögl og hagldir en hann sjálfur og eiginlega heldur maður að hann geti ekki sokkið öllu dýpra.
En þá spinnst örlagahjól hans enn frekar.
Hver ólíkindaatburðurinn rekur annan sem færi illa í endursögn hér og gæti eyðilagt lesturinn fyrir lesendum. Staðalmyndir eru áberandi, lögreglumaðurinn sem alltaf mætir árvakur á vettvang, heimska, afbrýðisama vaxtarræktartröllið, bimbóið, tannhvassa tengdamamman og yfirgangssama eiginkonan. En þótt ég hafi sagt að sagan væri hlaðin, stundum ofhlaðin, og persónurnar svolítið fyrirsjáanlegar er hún fjarri því að vera leiðinleg aflestrar. Ég tek undir það sem segir á kápu, að sagan sé vel skrifuð og skemmtileg og geti komið mönnum á óvart. Höfundur sýnir auðugt hugmyndaflug í fjarstæðukenndri frásögninni á stundum og honum er greinilega mjög annt um tungumálið, styðst við málshætti, latínu og þéranir og vandar sig þess á milli við að nota kjarnyrt og skrúðmikið mál. Leiðarhnoðað er þó myndlist enda kennir Jóhannes hana. Bæði er rætt um einstök málverk og svo má eiginlega segja að bókin sé teiknuð myndrænt, umhverfið lifnar og lifir, og ég verð að segja að ég kann að meta sögur sem nýta sér íslenskt umhverfi, Keflavíkurveginn, svalir á Breiðholtsblokkunum, sveitavegi í Borgarfirði og annað sem staðsetur söguna skemmtilega.
Smáglæpamenn gera vart við sig þegar í þessari bók, mannskapur sem mér finnst að höfundur sé svo lánsamur að þekkja ekki. Ég þekki þá svo sem ekki heldur en fíkniefnasalar og innbrotsþjófar bókanna eru máttlausir klaufar. Eru þeir það í verunni?
Í lok bókar er hún skilin eftir opin fyrir framhaldi sem höfundur kýlir líka á síðar.
Bláa nóttin
Áður en framhaldið um Jóhannes lítur dagsins ljós í Þægum strákum 1998 skrifar Helgi um vanmetna og vonsvikna rithöfundinn Gissur Þorvaldsson. Hún er jafn mikil samtímasaga og Andsælis á auðnuhjólinu, hér þekkist árið á Jóni Arnari tugþrautarkappa og gengi hans í íþróttum, klónunarumræðunni og X-files (Ráðgátum) og Rattigan sem voru þættir í sjónvarpinu.
Gissur er mikill skriffinnur sem finnst ekki nógu metnaðarfullt eða gefandi að vera blaðamaður á Aðalblaðinu og söðlar um til að verða rithöfundur en grípur þar í tómt virðingar- og skeytingarleysi. Áhugaleysinu fylgir peningaleysi sem er frekari ávísun á andúð og ergelsi tengdaföðurins þannig að í byrjun sögunnar sér Gissur sína sæng útbreidda og bara 2.500 krónur í reiðufé.
Vonleysi hans hrindir af stað atburðarás innan um smákrimma Reykjavíkurborgar og aftur er sagan þess eðlis að maður má ekki ljóstra of miklu upp til að spilla ekki fyrir væntanlegum lesendum. Þó skal þess getið að Gissur heldur á tímabili að hann sé kominn í félagsskap með persónunum í Eymd eftir Stephen King og þar heldur hann aldeilis ekki um taumana.
Sagan er ekki með öllu laus við ádeilu þar sem Gissur (alnafni jarlsins frá miðöldum auðvitað) deilir, hljóðlega þó, á prestinn tengdaföður sinn. Eiginlega má líka segja að í höfundarverki Helga sé víða að finna gagnrýni á ríkjandi stjórnvöld, ráðamenn þjóðarinnar, pólitíkusa og hina geistlegu þjóna. Varast skyldi maður að álykta að um sé að ræða skoðanir höfundar en heldur fær yfirvaldið háðulega útreið.
Í sögunni er líka kynntur til leiks hinn afar hrokafulli og sjálfumglaði Hreggviður sem er ekki yfir það hafinn að vinna um hríð á Aðalblaðinu – þótt ómerkilegt sé – enda er hann að sanka að sér reynslu fyrir framtíðarstarfið sem skal helst unnið inni á stjórnarheimili landsins. Hann kemur sér upp skoðunum og lendir m.a. í heiftúðugum rökræðum við kennarann sinn um eignarhald á fjölmiðlum. Ég minnist þess ekki að um það hafi verið hávær umræða árið 1997 þannig að hér slær höfundur e.t.v. tón sem endurómar mörgum árum síðar.
Til hliðar við aðalsöguna er tæpt á samkynhneigð og fordómum gegn henni á talsverðum hlaupum og ég verð að segja að mér finnst það helsti galli sögunnar hvað höfundur leyfir sér ekki að dvelja við viðfangsefnin, heldur skautar ofan á þeim og snýr sér svo snarlega að nýju og nýju máli. Öðrum kann að þykja það kostur og svo sannarlega er engin lognmolla eða deyfð yfir sögunni.
Þægir strákar
Jóhannes úr Auðnuhjólinu og Gissur úr Bláu nóttinni eru báðir vissulega þægir strákar þótt titillinn vísi kannski ekki sérstaklega til þeirra og þeir eru líka hinir sönnu meðaljónar eins og sagt er á bókarkápu.
Aðalpersónur fyrstu tveggja Reykjavíkurbókanna eru nefnilega leiddar saman í Þægum strákum, venjuleg meðalmenni sem láta glepjast út í atburðarás sem hrífur þá út fyrir hinn venjubundna meðalstíg sem þeir feta frá degi til dags. Þeirri hugmynd var e.t.v. gefið undir fótinn í lok fyrstu bókarinnar þótt lesanda óraði þá ekki fyrir að í þriðju bókinni yrði fram haldið með þá fyrstu og aðra.
Jóhannes og Gissur eru sem sagt báðir lítt virkir í samfélaginu – eins og auðvitað margir – en Gissur reynir þó aðeins meira að streitast á móti því að vera mjög leiðitamur. Hann hefur hætt í öruggu blaðamannsstarfi til að takast á við óöryggi rithöfundarins og uppsker litla gleði á heimili tengdaforeldranna ásamt eilífri vanmáttarkennd sjálfs sín sem ekki borgar reikningana með laununum sínum. Hinn sanni Íslendingur skilgreinir sig út frá því sem hann „gerir“, þ.e. starfar, og því sem hann þénar. Þess vegna er Gissur heldur rislítill og vanmetinn.
Í ýmsum skilningi eru þá einmitt Jóhannes Sveinsson myndmenntakennari og Gissur Þorvaldsson rithöfundur þægir og meðfærilegir strákar á fimmtugsaldri sem láta rekast undan veðri og vindum, röfla svolítið inn í sig og setja upp skeifu af og til en láta svo þar við sitja. Titill bókarinnar kallast þó meira á við titil sem kemur við sögu í bókinni, Þægar stelpur eftir umræddan Gissur, en hún fjallar um unglingsstelpur sem þjást vegna útlits síns. Og Gissur hugumlausi hangir í þjáningunni sem bók hans veldur og skilur ekki hvernig hægt var að túlka hana svona öðruvísi en hann hafði í huga. Það er nú svo dásamlegt við skáldsögur að eftir að höfundar hafa látið þær frá sér fá þær sjálfstætt líf og þeir ráða ekki lengur hvernig beri að skilja þær. Gissur fær að finna fyrir því á óvæginn hátt.
Þetta fer e.t.v. að verða leiðigjörn endurtekning en söguþráður þessarar bókar eins og hinna fyrri Reykjavíkursagna er svo mikið grundvallaratriði að ég tel mér ekki stætt á að rekja hann eða útúrdúra frá honum. Það myndi eyðileggja þá skemmtun sem lesendur geta haft af lestrinum. Að vanda er atburðarásin hröð, eitt leiðir af öðru, sumt kemur vissulega á óvart og margt getur skemmt manni þótt sitthvað sé líka fullólíkindalegt til að maður hafi raunverulega gaman af því. Það er þó eilíft smekksatriði.
Almennt má þó segja að höfundur leggur sig fram um að brydda upp á skemmtilegum tengingum, leiða lesendur inn í hina ýmsustu kima borgarinnar og þegar best lætur kveikir það á skemmtilegum hugrenningum og vangaveltum lesenda. Sá alvarlegi undirtónn sem sjálfsvíg unglinga eiga að skerpa á fer þó fullkomlega fyrir ofan garð og neðan, sem og ný sýn á hlutskipti samkynhneigðra. Ádeila sem er svona mikið vafin í ullarlagða verður hvorki fugl né fiskur og hér nær hún því ekki að vera forvitnileg. Hún bara missir marks og lesandi er fljótur að gleyma henni.
Orðfæri er mjög skrúðugt og mönnum lögð til ýmis auðkenni í því að vanda. Orð eins og gargantól sem ég hef ekki séð áður skilst vel af samhenginu og slíkt hið sama hefur líka átt við í hinum bókunum. Til viðbótar hef ég gaman af sögulegum tilvísunum í Snorra Sturluson og Gissur jarl, gríska goðafræði, sjálfan Cató (sem hafði sig talsvert í frammi í Rómarbókunum) og Ara Jósefsson sem hér er dubbaður upp í hlutverk erlends barþjóns – þegar þær falla að efninu. Höfundur er óumdeilanlega vel að sér um ýmis mál en stundum klórar lesandinn sér í höfðinu og skilur engan veginn hvað einstakir titlar bóka eða nöfn málverka eru að vilja upp á dekk.
Lúin bein
Hinn reykvíski fornleifafræðingur Jafet Jasonarson er kynntur til sögunnar á fertugsafmælisdaginn sinn. Ýmsir kjósa að gera sér eitthvað til hátíðabrigða á slíkum degi en hjá Jafeti fer hann verr en ýmsir aðrir dagar og er þó langt til jafnað þar sem hann virðist vera æviráðinn hrakfallabálkur.
Sögurammi Lúinna beina er fólginn í stórmerkum fundi eins forns lúins beins Þorláks helga dýrlings. Eins og gildir í hinum Reykjavíkursögunum höfum við í byrjun hnykil sem vinst ofan af smátt og smátt eftir því sem líður á söguna og í hverjum hnökra er nýtt sjónarhorn tengt söguþræðinum. Jafet er aðalpersónan og hefur þræðina í sínum ógæfusömu höndum. Hann vinnur á Landsminjasafninu og er einlæglega gagntekinn af því sem hann hefur menntað sig til. Það hrekkur þó skammt því að ólánið hefur slegist í för með honum sem sjá má í byrjun á því að afmæliskertin kveikja í gluggatjöldunum og nemandi í skoðunarferð um Landsminjasafnið ásakar hann um kynferðislega áreitni. Það er allt bara upphafið að miklu verra framhaldi.
Sköflungur Þorláks helga fer á mjög slysalegan vergang, Jafet líka sem tekur margar rangar ákvarðanir og lendir í klóm smáglæpamanna undirheima Reykjavíkurborgar.
Sögusviðið er spennandi og getur auðveldlega höfðað til margra áhugasamra um fornminjar okkar. Við lesturinn rifjast upp frásögnin af því þegar móbergslíkkista Páls Jónssonar sem dó 1211 var grafin upp við Skálholt 1954 og þegar lokinu var lyft byrjaði fyrirvaralítið að rigna, nánast eldi og brennisteini. Mér finnst ekki fráleitt að sá atburður, hæfilega fjarlægur, hafi orðið höfundi hvati að þessari frásögn þar sem þar var líka um merkan fornleifafund að ræða sem menn hafa áhuga á þótt aðeins fáir hafi þá þekkingu sem þarf.
Jafet skortir ekki þekkinguna en hún dugir ekki ein saman. Því fer sem fer í framhaldinu.
Til hliðar við aðalsöguna er Hreggviður úr næstsíðustu bók, afleysingablaðamaðurinn og námsmaðurinn, rifjaður upp og hinn skjóti frami hans innan stjórnmálanna. Merkja má jafnvel nokkra andúð í garð hans og geta lesendur skemmt sér við að finna út hvaða stjórnmálaafl liggur þar undir ámæli.
Enn fremur skautar höfundur í kringum nútímafjölskyldumynstur fólks, eða eins og segir í bókinni: „Nú á dögum ólu fæstir feður á Íslandi upp eigin börn. Börnin fylgdu mæðrum á milli hjónabanda eins og mundur á miðöldum. Feðurnir urðu bara að taka hverju því sem fylgdi nýju konunni“ (bls. 15). Það er einmitt hlutskipti Jafets að sjá á eftir eigin börnum úr fyrra hjónabandi yfir til annars manns og taka sjálfur við börnum með nýrri eiginkonu sinni. Þegar skilnaðartíðni er orðin um 40% er ljóst að kjarnafjölskyldan er nokkuð önnur en var á tímum Þorláks helga og jafnaldra hans. Jafet líður fyrir það og er trúlega ekki einn um slíkan sársauka.
Jafet er veigaminna og lítilsigldara hjólið í sambandinu, eins og hefur jafnframt átt við um karlhetjur hinna Reykjavíkurskáldsagnanna. Jafet þarf að berjast fyrir tilveru sinni og sjónarmiðum og honum lætur það ekki sérlega vel. Og það er ekki vitsmunum hans eða snarræði fyrir að þakka að allt fer á endanum bærilega.
Íslenskir myrkviðir andspænis rómverskum fallþunga
Víst er gaman að því að höfundur skuli takast á hendur að skrifa sögur sem gerast í nánasta umhverfi okkar. Þær eru kynntar sem farsakenndar skemmtisögur og það er engin lygi. Ef ég ætti að giska á þann lesendahóp sem hefur þó mest gaman af lestri Reykjavíkursagnanna myndi ég segja að hann samanstæði af þeim sem allajafna lesa ekki mikið. Það segi ég ekki bókunum til hnjóðs, heldur lesendum til glöggvunar. Ályktun mín stafar af hinum mikla hraða sem einkennir sögurnar, spennu næstum eins og í bíómyndum, kunnuglegum slóðum og þá e.t.v. kunnuglegum kringumstæðum úr sennilegu kvikmyndaumhverfi.
Rómverjabækurnar eru hin algjöra andstæða vegna þess að þær gera ómældar kröfur til áhuga lesenda á lestri, sem og þungum sögulegum fróðleik og best væri ef þeir lesendur væru kunnugir söguefninu og söguslóðunum. Ákveðinn kunnugleiki er hjálplegur.
Margrét E. Laxness á heiðurinn af öllum kápunum og mér þykja forsíður þeirra falla óskaplega vel að efni bókanna, bæði gömlu rómversku mósaíkmyndirnar og ítölsku veggmyndirnar á Rómverjabókunum sem og hinar sem minna sumar hverjar á klippimyndir. Mikilvægi forsíðna finnst mér stundum ekki gert nægilega hátt undir höfði en þær geta á stundum ráðið úrslitum um hvort bók er tekin í hönd eður ei. Hjá Margréti skortir ekkert á í því efni.
© Berglind Steinsdóttir, 2004
Greinar
Um einstök verk
Letrað í vindinn: Samsærið
Haukur Hannesson: „Rómverjasaga“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 1. tbl. 1995, s. 112-15.
Runukrossar
Hermann Stefánsson: „Framtíðin“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2011, 72. árg., 2. tbl. bls. 136-9
Þegar kóngur kom
Páll Valsson: „Kóngur kemur í heimsókn“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2010, 71. árg., 2. tbl. bls. 136-9.
Verðlaun
2010 - Blóðdropinn, íslensku glæpasagnaverðlaunin: Þegar kóngur kom
2009 - Smásaga valin í safnið Gaddakylfan: 13 krimmar. Verðlaunasögur Mannlífs og Hins íslenska glæpafélags: „Eigi mun ég griða biðja“
2008 - Ljóðstafur Jóns úr Vör, sérstök viðurkenning: „Menn hlæja bara að þeim“
2000 - Stefnumót; smásagnaúrval Listahátíðar: „Staðlausir stafir“
1994 - Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar: Letrað í vindinn
Tilnefningar
2011 - Blóðdropinn, íslensku glæpasagnaverðlaunin: Runukrossar
Enn af kerskni og heimsósóma : ásamt barnasögum fyrir fullorðna
Lesa meiraKver um kerskni og heimsósóma
Lesa meiraÞegar gestur fór
Lesa meiraRambað á Reginfjall: fyrstu ævintýri Hlemmanna Bjarts og Þórgnýs
Lesa meiraGuðatal
Lesa meiraSandkorn úr stundaglasi eilífðarinnar
Lesa meiraFrjálsar hendur: kennarahandbók
Lesa meiraRunukrossar
Lesa meiraÞegar kóngur kom
Lesa meira
Sumarhrollur
Lesa meiraÍ sumarlok verður meinleysislegur smiður, sem stundum tekur að sér verkefni á mörkum gráa hagkerfisins, aðgangshörðum handrukkara að bana í nauðvörn og felur líkið. Sumarhrollur er fimmta bókin um lögregluforingjann Gunnhildi sem kemur út á íslensku.Bókafárið mikla
Lesa meiraRithöfundurinn Peter Piper er sannfærður um eigin snilli en gengur illa að fá gefna út sína fyrstu bók.Þýsk sálumessa
Lesa meiraÞriðja bókin í seríunni um einkaspæjarann Bernie Gunther. . Helgi Ingólfsson íslenskaði