Úr Júlíu:
Sagan sem skiptir öllu máli:
Engisprettan sem vitkaðist
Nótt eina þegar tungl var nýtt fékk engispretta nokkur þá firru í sig að sólin væri endanlega horfin. Varð hún þá yfir sig hrædd (þótt hún væri skelfir akursins). Myrkrið þyrmdi yfir hana og aðeins hana af fullum þunga, (sem getur vissulega gerst, því að í svartasta tungllausasta næturmyrkri sýnist allt stærra). Stóri næturskugginn sem lagðist yfir allt hæddist að lítilmótlegu stökki hennar. Fyrst varð hún bara hrædd, svo hrædd og reið.
Svo gekk til í dimmunni þar til hjarta hennar var við að bresta. Fyrir staka mildi stökk hún þá fram á þef, mildan og þykkan þef af blómi sem hún samstundis og umhugsunarlaust át sér til hugarhægðar. Hún sefaði sig af ó-viti sjálfrar náttúrunnar með því að éta urt sem er skráð í bækur grasasafnara.
Og viti engisprettur, hún varð himinstór, hún stökk hátt, stökk svo hátt, hvissss, stökk himinhátt, settist á ósýnilegan hnakka tunglsins og –sá þá glöð að dimman er bara mjóar rákir aftur úr litlum hnöttum.
Þá hló hún svo hátt á tíðni sem aðeins skordýr heyra að jafnvel þau sem sváfu vöknuðu, í freðmýrum og frumskógum, litu upp og sáu ekki neitt.
(s. 7)