Um bókina
Nýr afleysingakennari tekur við BÖ-bekknum eftir ógurlegar hremmingar síðustu mánaða. Þegar krakkarnir eru sendir í dularfullan ratleik í mannlausum skólanum læðist að þeim óþægilegur grunur og ýmsar spurningar vakna.
Hvar er afleysingakennarinn?
Hver er þrautakóngurinn?
Hvern á að steikja á teini?
Úr bókinni
„Mig langar til að biðja ykkur að velta mannkynssögunni aðeins fyrir ykkur. Hver haldið þið að sé mikilvægasta uppgötvun mannsins?“
Engilbert mundar töflutússinn og bíður eftir svari.
„Snjallsíminn,“ segir Óli Steinn, ánægður með sig.
„Nei, tölvuleikir,“ gjammar Axel fram í fyrir honum.
Bæði atriðin rata á töfluna en ég get séð að Engilbert þykir ekki mikið til þeirra koma.
„Ókeeeei. Snjallsími er reyndar uppfinning, frekar en uppgötvun.“
„Rafmagnið!“ segir Stefanía í hálfum hljóðum og Engilbert skrifar það á töfluna.
Sjálfur er ég ekki í neinu stuði til að tjá mig. Atburðir gærdagsins liggja of þungt á mér. Ég hef engan tíma til að koma bekkjarfélögum mínum til bjargar með hið augljósa svar.
Við hliðina á mér iðar Hekla Þöll í sætinu með höndina á lofti. „Hjólið,“ segir hún ánægð með sig.
Ekki rétt, hugsa ég og hristi höfuðið svo lítið ber á. Engilbert hefur varla undan að skrifa á töfluna. Krakkarnir hafa nefnt hjólastóla, bíla, ljósaperur, rennilása, þróunarkenninguna og bíópopp.
Án þess að ætla mér það ranghvolfi ég augunum og dæsi hátt.
Úps.
Það tóku allir eftir þessu og bíða nú þegjandi eftir því að ég segi eitthvað.
„Já, Fannar, ert þú með svarið? Mikilvægasta uppgötvun mannsins frá upphafi?“
Ég ræsk mig og vona að röddin bregðist mér ekki.
„Það er erfitt að gera upp á milli afreka læknisfræðinnar,“ byrja ég. „Bóluefni, DNA, sýklalyf, líffæraígræðslur... Listinn er mjög langur, en ef ég ætti að velja mynd ég segja...“
„Ég ætla að stoppa þig hér Fannar,“ segir Engilbert allt í einu.
Orðin hanga enn í hálsinum á mér, eins og vatn í garðslöngu sem hefur verið skrúfað fyrir í skyndi. Keppendur í Gettu betur eru oft stoppaðir af þegar þau hafa svarað réttu fyrir löngu. Hvað ætli rétta svarið hafi verið? Bóluefni? Sýklalyf? Af hverju ætli Englbert skrifi svörin mín ekki á töfluna, eins og ruglið sem vall upp úr hinum krökkunum?
„Þetta eru allt áhugaverðar uppástungur, en mig langar að bakka enn lengra til baka.“