Af bókarkápu:
Ung kona snýr aftur heim til Íslands eftir nokkurra ára fjarveru og reynir að raða saman brotunum í lífi sínu. Lánið virðist leika við hana þegar bankamaður, einn íslensku útrásarvíkinganna, býður henni að dvelja endurgjaldslaust í háhýsi við Sæbraut.
Í framhaldi sér konan breytingarnar sem orðið hafa á íslensku þjóðfélagi og hvernig allt snýst um peninga, banka og auðmenn. Smám saman fær hún á tilfinninguna að verið sé að leiða hana í gildru, en þegar hið myrka leyndarmál opnast fyrir henni kann allt að vera um seinan.
Úr Konum:
Hún fór inn á google-leitarvélina og áður en hún vissi hafði hún slegið in nafninu ,,Marie; sá í hendi sér að hún kæmist ekki langt á fornafninu einu saman en vissi ekki meira, hafði gleymt að spyrja um eftirnafnið. Henni datt í hug að hringja í kerlinguna en hætti við það, hún héldi að Eva væri að hnýsast í kringum sjálfsmorðið, sem var svo einmitt það sem hún ætlaði sér.
Hún bætti við leitarorðum sem tengdu hana Íslandi og fékk 250.000 færslur, flestar um Ísland - frystivörukeðjuna eða þjóðina. Eftir að hafa farið inn á síður sem höfðu að gera með nokkrar mismunandi Marie kom hún loksins auga á eina færslu sem vakti athygli hennar, frétt í Morgunblaðinu, hinu rammíslenska Morgunblaði, þar sem nafnið Marie kom fyrir undir fyrirsögninni: ,,Minningarathöfn um franskan ferðamann.
Hún renndi í gegnum fréttina. Marie þessi, sem var Ensamble að eftirnafni, hafði horfið sporlaust á ferðalagi um hálendi Íslands - alein, í apríl tæpu hálfu ári áður. Hún var vanur göngumaður, ísklifrari og skíðamaður. Fréttin sagði frá því þegar foreldrar, vinir og systkini komu til Íslands til að minnast hennar skammt frá staðnum þar sem hún sást síðast, í skála Ferðafélagsins í Þórsmörk, þar sem hún hafði skrifað nafnið sitt í gestabókina.
Marie. Frönsk. Dáin á Íslandi, í vor. Alein, hugsaði Eva, fór aftur á leitarvefinn, sló inn Marie Ensamble og sá minnst á hana í bandarísku nettímariti um læknisfræði. Fyrir þremur árum var Marie stödd í Arizona sem skiptinemi frá læknaháskólanum í Aix-en-Provence, þar sem hún lærði til kvensjúkdómalæknis, og var ásamt John Edwards, félagsfræðingi við háskólann í Minnesota, í viðtali um rannsókn sína á útbreiðslu klamydíu og notkun smokka í Miðríkjum Bandaríkjanna.
Og hvað? Hversu margar Marie voru í heiminum? Hversu margar höfðu dáið á Íslandi? Eða horfið? Eva vissi ekki lengur hvert hún var að fara, eða hvert hugsanir hennar vildu leiða hana. Hún skimaði hratt yfir greinina um klamydíuna, og staldraði við myndina af Marie og samstarfsmanni hennar. Marie var lágvaxin, með sítt dökkt hár og fínlegt andlit; lítt eftirminnileg, fremur sviplaus jafnvel, en viðkunnanleg.
Hún lokaði glugganum, opnaði annan og sló inn Grace, nafninu sem Rannveig hafði misst út úr sér - eða sagt af ásetningi, til að gefa henni vísbendingu? hjálpa henni? - bætti við sams konar leitarorðum og með Marie og fékk upp þúsundir síðna, datt skyndilega í hug að bæta inn orðinu ,,blog og þá vísaði fyrsta færslan á bloggið embracegrace.blogspot.com.
Hún fór inn á bloggið, skimaði hratt niður textann í leit að staðnum þar sem ,,Iceland kæmi fyrir. Bloggið rissaði upp mynd af hversdagslífi svolítið væminnar, áttavilltrar og að því er virtist þunglyndrar Grace Edwards, konu sem My-Prófíllinn sagði 30 ára gamla, búsetta í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna, starfaði sem portfólíó-ráðgjafi hjá ónefndum bandarískum banka, og hélt kvöldnámskeið um stofnun smárra til meðalstórra fyrirtækja fyrir kvenkyns ,,frumkvöðla, líka á vegum bankans.
Eva dæsti. Aumingja konan.
(68-9)