Um bókinA
Sumarliði og Sóldís eru flutt með pabba sínum og mömmu í kjallarann til flóttastelpunnar Karítasar. Þar er fullt af bókum sem þau gleypa í sig til að finna út hvernig lífið var í gamla daga þegar fólk átti síma og tölvur og reiðhjól. Inni á milli bókanna leynast líka hátæknileg skilaboð frá fortíðinni! En rustarnir í Heiðardalnum hafa engu gleymt og senda njósnara til að grennslast fyrir um hvað þau eru að bardúsa þarna í kjallaranum.
Kopareggið er framhald Silfurlykilsins eftir Sigrúnu Eldjárn sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barnabóka, og var tilnefnd til bæði Barnabókaverðlauna Reykjavíkur og Barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs.
Úr Koparegginu
"Látum okkur nú sjá!" Mamma lítur á þau eitt af öðru ábúðarmikil á svip. Það hefur verið boðað til fjölskyldufundar í leynikjallaranum. Karítas ásamt Sóldísi og Sumarliða sitja með foreldrum þeirra innan um alla bókabunkana.
"Nú erum við öll búin að lesa svo mikið að það er kominn tími til að við stöldrum aðeins við og berum saman bækur okkar," segir mamma. "Til þess að við getum áttað okkur á hvað við höfum lært. Hvað vitum við núna sem við vissum ekki áður?"
Sumarliði horfir á foreldra sína. Hann er varla búinn að venjast því enn að mamma skuli vera komin aftur til þeirra. Það er æðislegt! En vægast sagt mjög skrítið til þess að hugsa að fyrir örfáum mánuðum var hún algjörlega ringluð og mundi ekki neitt í sinn haus. Hún mundi ekki að hún ætti mann og börn. Hún mundi ekki einu sinni nafnið sitt! En núna man hún bókstaflega allt"
Pabbi réttir úr sér og Sumarliði tekur eftir að hann er orðinn mun snyrtilegri eftir að mamma kom í leitirnar. Með hárið í hnút og litlar fléttur í skegginu.
"Við skulum þá byrja á byrjuninni," segir pabbi. "Þið leiðréttið mig ef ég fer með einhverja vitleysu. En sumsé, núna á þessum ágæta degi og eftir að hafa lesið heilmargar fróðlegar bækur vitum við til dæmis að jörðin sem við búum á er eins og kúla í laginu."
"Kúla?" endurtekur Sóldís alveg forviða. "Nei, ertu nú alveg viss um það?"
"Já, jörðin er risastór hnöttur sem svífur um himingeiminn, snýst um sjálfa sig og fer hring eftir hring kringum sólina. Svo eru margir aðrir hnettir í sólkerfinu ... en það er ekki líf á neinum þeirra svo vitað sé."
"Jú, pabbi, jú víst!" grípur Sóldís fram í því nú hefur áhugi hennar vaknað. "Það er auðvitað líf á Bláberi, manstu, stjörnunni sem Bétveir á heima á! Og svo er það litli prinsinn! Hann býr líka á annarri plánetu."
Karítas skellir upp úr. Það er augljóst hvers konar bækur Sóldís hefur verið að lesa. Ekkert nema sögur og ævintýri! Pabbi brosir út í annað munnvikið og horfir kankvís á hana en mamma tekur upp þráðinn.
"Við vitum líka að jörðin okkar er ævagömul," segir hún. "Þar hafa búið risaeðlur og allskonar dýr í milljónir ára. Sum hafa dáið út en önnur lifað áfram og þróast."
"En það er ekkert hrikalega langt síðan við mennirnir komum til sögunnar, þannig séð!" segir Sumarliði. "Allavega ekki miðað við risaeðlurnar."
"En hvað með múmínálfana?" spyr Sóldís. "Urðu þeir til á undan fólkinu eða eftir?"
Nú skellihlæja bæði Sumarliði og Karítas og pabbi og mamma eiga bágt með að stilla sig. En þá verður Sóldís móðguð. Það er aldrei tekið neitt mark á mér, hugsar hún afundin. Ég nenni sko ekki að vera lengur á þessum asnalega fundi.
Á meðan hitt fólkið heldur áfram að rekja þróun lífsins á jörðinni og reynir að átta sig á stöðunni, mjakar hún sér burt frá þeim svo lítið ber á. Hún ákveður að finna Múmínbók í einhverri bókahillunni, fara með hana á afvikinn stað og reyna að komast að hinu sanna um þetta mál. Þau hin mega þusa eins og þau vilja á meðan!
(37-40)