Beint í efni

LÆK

LÆK
Höfundar
Bergrún Íris Sævarsdóttir,
 Gunnar Helgason
Útgefandi
Drápa
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Barnabækur,
 Unglingabækur,
 Ungmennabækur

Um bókina

Sæskrímsli, uppvakningar, tröll, kolkrabbahamstur, fangamyndavél, ofurhetja og allskyns aðrar fígúrur búa innan um mannfólkið í Hafnarfirði – og lifna við í smásögum. Nemendur á mið- og unglingastigi í Hafnarfirði skrifuðu niður hugmyndir að söguþráðum, sögusviðum og nöfnum sögupersóna. Verðlaunahöfundarnir Gunnar Helgason og Bergrún Íris drógu svo úr hugmyndunum og það var alveg sama hversu klikkaðar, skrítnar eða ótrúlegar hugmyndirnar voru, þau URÐU að nota þær. Þannig að sögurnar eru skrifaðar af Gunna, Bergrúnu og krökkunum í Hafnarfirði.

Úr bókinni

  „Þið náðuð mér í miðjum útreiðartúr,“ segir amma, vippar sér af baki og réttir Katrínu tauminn.

  Amma er komin til ára sinna en er ennþá í fantaformi og fer létt með að beygja sig til að sjá hvað leynist bak við grindina.

  „Andskotans djöfull,“ heyrist allt í einu í ömmu. „Þarna er hann, helvítið á honum!“

  Katrín og Kiddi hrökkva við. Þau hafa aldrei heyrt ömmu sína blóta áður en nú vella blótsyrðin upp úr gömlu konunni. Hún rífur sig úr skónum, togar buxurnar upp fyrir hné og stekkur út í lækinn. Katrín fylgist með ömmu rykkja í járngrindina þar til henni tekst loks að losa hana með snörum handtökum. Um leið ryðst skrímslið fram, með opinn kjaft sem minnir helst á ógnarstórt hvalsgin. Amma notar hluta járngrindarinnar til að halda skrímslinu til baka.

  „Komdu bara, ef þú þorir,“ hvæsir amma og hvessir augun á skrímslið.

  Katrín tekur andköf og kippir í Kidda sem hafði snúið sér aftur að símanum. Hesturinn er farinn að ókyrrast og fnæsir fyrir aftan Katrínu. Sjálf er hún sem frosin á meðan amma egnir skrímslið í slag.

  „Komdu þá, helvítis aumingi! Reyndu bara að éta mig, eins og þú slafraðir í þig hann Garðar minn! Þú rændir mig stóru ástinni í lífi mínu!“ æpir amma og Katrín hugsar með samúð til afa síns sem dó í fyrra.

  Þar til nú hefur skrímslið marað í hálfu kafi, með kjaftinn opinn, en skyndilega rís það upp úr læknum, svo stórt að það gnæfir yfir húsin í kring. Það slær sporðinum til og frá svo jörðin nötrar undir fótum Katrínar og Kidda. Hann rankar við sér og æpir skrækum rómi þegar hann áttar sig á því sem er að gerast, beint fyrir framan nefið á honum. Amma virðist ekkert hrædd heldur öskrar hátt stríðsöskur að skrímslinu. Um leið missir Katrín tauminn. Hesturinn stekkur af stað og lætur sig hverfa, sem er líklega það skynsamlegasta í stöðunni. Katrín getur sig hins vegar hvergi hreyft. Hún trúir varla því sem hún sér og vonar að þetta sé ekkert annað en mjög raunveruleg martröð.

 „Hva, ertu hræddur við gamla konu?“ segir amma og steytir hnefann.

  Skrímslið gefur frá sér undarleg hljóð, hristir sporðinn og opnar risastóran kjaftinn. Svo slengir það sér niður á ömmu og gleypir hana í einum munnbita. Kiddi veinar og Katrín heldur fyrir augun. Þetta er bara martröð, hugsar hún en finnur vel fyrir köldum höndum sínum á skelkuðu andlitinu. Kiddi kjökrar á meðan hann stimplar inn 112 á símann. 

(Skrímslið í læknum s.47-48)

Fleira eftir sama höfund

Amma óþekka: Klandur á Klambratúni

Lesa meira

Amma óþekka og huldufólkið í Hamrinum

Lesa meira

Amma óþekka og tröllin í fjöllunum

Lesa meira

Bræðurnir breyta jólunum

Lesa meira

Viltu vera vinur minn?

Lesa meira

Varúð: hér býr norn

Lesa meira

Töfralandið

Lesa meira

Hauslausi húsvörðurinn

Lesa meira

Varúð: hér býr vampíra

Lesa meira